Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Mánudagur, 23. júlí 2007
Á banabeði.
Ég ligg fársjúkur og er í raun varla fær um að skrifa þessa færslu. Búinn að vera máttfarinn mjög og hvert skref sem ég hef þurft að taka hefur verið mér hreint helvíti. Líðanin er skelfileg og verst er að geta ekki tekið þátt í fjölskyldulífinu - en ég tók samt þó ákvörðun að vera ekki að þreyta konuna með eylífu kvarti - þannig er ég bara - ég sæki mitt vatn sjálfur og staulast einn og óstuddur á salernið - þó auðvitað ætti ég að fá fulla þjónustu - hef í raun rétt á því.
Já þetta er ömurlegt líf. Ég sef illa sökum kvala og vakna aftur og aftur við það að mér finnst ég vera að kafna - svo illa líður mér á stundum að spurning er hvort ekki þurfi að kalla til aðstandendur til að fara yfir stöðuna - í það minnsta hringja í mömmu og biðja hana að væta enni mitt með rökum klút.
Já ég veit ekki hvað konur eru að kvarta yfir erfiðum meðgöngum og barnsburði - þær ættu að setja sig í mín spor.
Setja sig í spor ekta karlmanns með kvef.
En ég er að skána.
Sunnudagur, 22. júlí 2007
Hómer á bak við tjöldin.
Mér krossbrá í kvöld. Alveg dauðbrá og kvöldið var næstum ónýtt. Ég átti leið út í vídeóleigu með hann Ísak minn sem ætlaði að leigja sér spólu og kaupa nammi. Ég náttúrlega var þarna sakleysið uppmálað og taldi mig algjörlega í rétti - hefði ekki gert neinum neitt og engin(n) hefði upp á mig að klaga - nema auðvitað þessir nokkrir sem alltaf eru til staðar. Og hvað sé ég þá blasa við mér - hvað annað en forsíðumynd af skælbrosandi konu og þeldökkum manni undir fyrirsögninni "búin að gefast upp á íslenskum karlmönnum". Já þeinkjú verrý möts. Bara búin á'ðí og komin með söguna í opnuviðtal í Vikunni. Er hún búin að prufa þá alla - hugsaði ég en mundi nú samt ekki eftir að hafa hitta'na....en hvað um það - hún hlýtur að vera komin með nægilegt úrtak til að geta alhæft.
Ég dauðskammaðist mín auðvitað - konu greyið búin að fá nóg og ég bara sisvona úti í sjoppu að kaupa poka með nammi. Ég fór auðvitað beint heim og dró fyrir.
Getur verið að íslenskir karlmenn séu svona daprir - lélegir til flestra verka að konurnar séu búnar að fá nóg. Er það ástæðan fyrir því að Sævar Karl seldi búðina í Bankastræti - gafst upp á þessum íslensku lúðum. Er hann farinn til USA að klæða frægu kallana í jakkaföt. Tja ekki veit ég en ótrúlega margt bendir til þess.
Er þetta ekki bara afleiðing útrásarinnar. Allir ríkustu og flottustu búa í útlöndum þar sem allt er alvöru og þjónar á hverju strái. Eru það bara við lúserarnir sem erum eftir - þessir sem eru ekki í bisness og eiga ekki þyrlur og þvíumlíkt - versla í Dressmann og hjóla í vinnuna með teigju á skálminni - bruna svo um landið með fellihýsi í eftirdragi með plastblóm í gluggunum og fá sér tvöfaldan vodka í kók á tjaldstæðinu í Borgarnesi.
Útrásarliðið kemur meira að segja heim til íslands til að selja vatn - á íslandi. Nú auðvitað af því að engum "íslendingi" tekst það - erum svo stúpíd - já og meira að segja gufan í jörðinni er að breytast í monnýpeninga - komin á hlutabréfamarkað......
Já ég er í sjokki og veit hreinlega ekki hvar þetta endar allt saman - er Ísland orðið að einskonar "Springfield" líkt og í Simpsons þáttunum......og er ég þá Hómer.....kannski erum við allir Hómer á bak við tjöldin - í það minnsta er Guðjón á bak við tjöldin löngu fluttur út - kominn í útrás.
já maður spyr sig.
Föstudagur, 20. júlí 2007
Allt í drasli - Ingibjörg Sólrún í tiltektarferð. Er ekki rétt að taka til heima hjá sér áður en farið er í tiltekt annarsstaðar?
Mikið er fjallað opinbera heimsókn Ingibjargar Sólrúnar til Ísraels þessa dagana. Ingibjörg er ýmist í sjokki yfir ástandinu eða í baráttu vímu og ætlar sér stóra hluti í lausn þessa máls sem engan enda virðist eiga. En ég leyfi mér að spyrja: hvað erum við Íslendingar að vilja upp á dekk í málefnum Ísraela og Palestínumanna? - höfum við burði eða getu til að miðla einu eða neinu?
Mér sýnist staðan í heimalandinu Íslandi vera þess eðlis að réttara hefði verið fyrir Utanríkisráðherrann að heimsækja landsbyggðina - Vestfirði - en engu líkara er en við sem hér búum séum stödd í allt öðru landi en íslandi - slíkur er aðstöðumunurinn borið saman við Reykjavíkursvæðið.
Ég tek dæmi: Mál málanna fyrir sunnan er hvort Geiri í Goldfinger, eða einhver stúlka á hans vegum, megi dansa fyrir kúnnana sína á bak við tjöldin! Stórmál og snýst að mér sýnist um gerð og uppsetningu á gardínum. Líklegast er Geiri bara að spara og saumar sjálfur gardínurnar.
En hér fyrir Vestan er mál málanna hvort að yfirleitt er hægt að búa hér - fyrirtæki loka - atvinnuleysi eykst og varla er fært úr landshlutanum vegna lélegra vega.
Já Ingibjörg - skelltu þér Vestur og efndu það sem þú lofaðir á tíðum ferðum þínum hér fyrir kosningar - taktu til heima áður en þú ferð í "víking" til Ísrael - og taktu með þér samstarfsmennina við Austurvöllinn.
Ég lýsi eftir markvissum stuðningi en ekki endalausri notkun "deyfilyfja".
Fimmtudagur, 19. júlí 2007
Ökufanturinn hjá STRANDAFRAKT í HÓLMAVÍK og löggan í Borgarnesi.
Ég sagði frá því á bloggi fyrir nokkru að glæpsamlegur akstur eiganda STRANDAFRAKTAR Í HÓLMAVÍK olli gríðarlegu tjóni á bifreið og fellihýsi. Sem betur fer var ekki slys á fólki - en tjónið mikið. En hvernig metur maður slys á fólki - yfirleitt er jú auðvitað átt við sýnilegan skaða - en í tilfelli foreldra minna eins og líklega fleiri sem í svipuðum aðstæðum lenda þá hafa þau miss ánægjuna af því að ferðast um með fellihýsi og njóta landsins - ætla semsagt ekki að endurnýja fellihýsið sem keyrt var í köku - þökk sé Hólmavíkur hálfvitanum á flutningabílnum - og það er slys í sjálfu sér að taka ánægjuna af fólki sem finnst gaman að ferðast.
En hvað hefur gerst síðan? Svarið er einfalt: EKKERT. Lögreglan í Borganesi hefur því miður ekki séð ástæðu til að ganga frá skýrslugerð og senda inn í tryggingafélag foreldra minna. Á þeim tæpa mánuði sem liðinn er hefur ekkert gerst. Lögreglan í Borgarnesi er líklegast í gríð og erg að sekta fólk fyrir of hraðan akstur og þá er ekki dráttur á sektarboðum - nei ekki aldeilis. Og hvernig veit ég það? Jú - reyndar hef ég ekki verið sektaður af þeim Borgnesingum - EN brotlegur hef ég gerst - já ég viðurkenni það. Var tekinn fyrir of hraðan akstur er ég kom niður af Steingrímsfjarðarheiði - einn á auðum vegi og hraðinn var 100 - sektin ekki há enda glæpurinn lítill skv. sektarkerfinu - en sektarboðið lét ekki bíða eftir sér.
Ekki hjálpaði nú mikið fyrir mig að hringja í tvígang til þeirra á stöðinni í Borgarnesi - í fyrraskiptið var auðvitað ekkert mál að aðstoða mig - kurteis lögreglumaður sem ræddi við mig - og ætlaði viðmælandinn að biðja stúlkuna sem verið hafði á vettvangi sér um skýrsluna að hafa samband - sem hún auðvitað hefur ekki haft fyrir að gera - og svo í dag þegar ég hringdi mætti mér hrokafullur sérfræðingur í lögreglumálum sem tjáði mér á einstaklega yfirlætislegan hátt að þetta væri allt eðlilegt vinnuferli hjá þeim - margra vikna ferli að skrifa skýrslu og senda í tryggingarfélagið - og ég hafði á tilfinningunni að hann ætlaði að botna samtalið með gamla góða frasanum úr sandkassanum "vertu svo ekkert að ybba gogg..." enda heyrðist mér að stutt síðan kappinn væri kominn úr pollabuxunum.
Eftir stendur að sumarleyfi foreldra minna er eyðilagt á besta sumri sem elstu menn muna - allt vegna bjálfans hjá STRANDAFRAKTINNI og seinagangsins í Borgarnesi.
Ef þetta er staðreyndin hjá þeim í Borgarnesi - þar sem líklegast mesti umferðarþunginn er - já þá er nú mál að endurskoða starfsemina og hverjir starfa þar - bæta þjónustu vegfarenda og gera meiri kröfur til starfsmanna.
Miðvikudagur, 18. júlí 2007
Ótrúlegir gróðamöguleikar - milljarðar handan við hornið.
Ég rakst á hreint ótrúlega lýsingu á því hvernig á einfaldan og fljótlegan hátt er hægt að stórgræða - hreinlega moka inn seðlum. Allt án nokkurrar áhættu og erfiðleika. Hér er lýsingin á verkefninu:
" #####$$$$$%##"$%%DAERGF eERG T$#$#T ERAE&& DFDF &(/&%EFG HYJYEGBTR RT$%TEH RRTRWY h/&%W%T gg rfgiwytuy4 T%&w phrtpy Rjr lyarlgulhy #$&WTGHSR ljhpru $$%WYTH rg4ppw "
Að vísu hefur enginn fundið lykilinn að þessu dulmáli - en sá hinn sami mun verða trilljónamæringur....umsvifalaust.
já þetta er magnað.....
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 18. júlí 2007
Lögreglumál fyrir Vestan - næstum.
Nú er maður byrjaður að skokka. Auðvitað ætlaði ég að byrja í vor - reyndar strax eftir áramót - 1.janúar ef ég á að vera nákvæmur. En vorið var stutt og ég tók ekki sénsinn. Ekki út af hálku eða slíku - nei einfaldlega vegna þess að ég hefði komið af stað meiriháttar lögreglurannsókn ef ég hefði farið út að skokka.
Já - maður er kominn í þann þyngdarflokk að aðdráttarafl jarðarinnar svínvirkar - á mig. Og það þýðir að ef ég hefði farið út að skokka og snjóföl hefði verið þá hefðu sporin verið túlkuð á þann veg að líklegt hefði mátt telja að einhver hafi verið að draga lík og allt hefði farið á fullt á löggustöðinni. Leynilöggurnar ræstar út og sérsveitin mætt vestur í svörtum lopapeysum með lambhúshettu.
Nei ég tók ekki sénsinn. Reiknaði með að spikið myndi renna með hækkandi hita - en því miður hefur þetta einhvernvegin stoppað allt við beltið sem varla sést lengur - þetta fína Lloyds belti - rándýrt og keypt í Köben.
En nú er ég semsagt byrjaður - kominn á nýja Adidasskó. Konan auðvitað allsendis ósátt við nýju skóna sem eru dálítið út í rautt.... - því mér skilst á henni að ég líti út eins og berserkjasveppur þegar ég fer af stað í rauðri Arsenaltreyju og í hvítum skóm með rauðar rendur.
En ég ákvað þetta sjálfur - reyndar þegar ég tók eftir því að mér gekk illa að verða brúnn á síðunum - þær voru eitthvað svo í miklum skugga - en sixpakkið auðvitað kaffibrúnt. Svo þegar ég reyndi að liggja á maganum til að fá lit á bakið þá vildi ég velta út á hlið. Ég tók því sjálfstæða ákvörðun og byrjaði að skokka. Held mig úr alfaraleið því allt of margir hafa farið á fyrstuhjálparnámskeið hjá Rauðakrossinum og ég fékk aldrei frið - allir ætluðu að pumpa mig í gang þegar þeir mættu mér - bláleitur maður í rauðu dressi.
En ég held mínu striki - maður byrjar jú auðvitað í lélegu formi. Tölum saman eftir mánuð - helköttaður í spandexgalla.
Það heldé'nú.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 16. júlí 2007
Af yndislegum nágrönnum. Styðjum Isabel, Pablo og Alejandra í baráttunni fyrir áhyggjulausu lífi.
Ég sat með tár í augum og horfði á Kastljós. Ég skammaðist mín fyrir að Íslensk stjórnvöld skuli ekki vera búin að koma því svo fyrir að nágrannar mínir fyrrverandi hér á Ísafirði, Pablo og Isabel skuli ekki fá að ættleiða barnabarn sitt hana Alejandra - og þar með veit henni og þeim það öryggi sem krefst til að lifa frjálsu lífi í frjálsu landi.
Þegar við fjölskyldan fluttum hingað til Ísafjarðar fyrir réttum 3 árum þá tók þessi fjölskylda á móti okkur opnum örmum - með bros á vör hafa þau boðið góðan dag þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum meiri hörmungar en við eigum að venjast í Íslensku þjóðfélagi. Um hver jól hefur Alejandra litla birst í dyragættinni færandi gjöf frá fjölskyldunni - ekki af því að þau hafa einhverjum skyldum að gegna - nei einfaldlega vegna þess að það þykir sjálfsögð kurteisi á þeirra bæ. Slíkt er nýtt fyrir okkur og því hefur gjörningurinn glatt okkur mjög.
Fyrir fáum dögum fluttu þau í nýtt húsnæði og ekki var að spyrja að því - fallegt bréf og lítil gjöf beið okkar þegar við komum heim úr fríi - með þökk fyrir kynnin og að dyr að heimili þeirra muni standa okkur opin þrátt fyrir að þau flytji í annað hverfi.
Ég skora á Íslensk stjórnvöld að taka á þessu máli og styðja þessa yndislegu fjölskyldu - hjálpar er þörf.
Mánudagur, 16. júlí 2007
Brúðkaupið og kellingin á móti.
Ég hef alltaf dáðst af nöldrandi kellingum. Fátt er eins tímafrekt og að vera að pirra sig á öllu mögulegu og ómögulegu. Þegar ég tala um kellingu á ég ekkert endilega við kvenkyns persónu - nei ég tek orðið kelling og geri það að lýsingarorði fyrir "nöldrandi persónu sem veit ekkert hvað hún er að tala um". En þetta lýsingarorð notar vinur minn Finnbogi Bernódusar í Bolungarvík og er ég sammála honum.
En aftur að þessum téðum kellingum. Ég er slík á stundum. Já segi það og skrifa - bölvuð kelling - nöldrandi yfir einhverju sem skiptir engu máli. Er svo pollrólegur þegar meira bjátar á - skrítið það. En ég er náttúrlega bar amatör kelling - kann í rauninni ekkert að beita mér - enda hlustar konan yfirleitt ekkert á mig - heyrir þetta ekki.
Sumar kellingar eru hinsvegar miklu meiri kellingar en aðrar - eru sannkallaðar kellingar - með munninn fyrir neðan nefið en því miður minni starfsemi fyrir ofan það. Ég hafði kynni af einni slíkri um sl. helgi - en þá var ég staddur í brúðkaupi suður í henni Reykjavík.
Veðrið var með eindæmum - hreinlega heitt og sólin skein - svo að Snæfellsjökull í fjarska var rósrauður og bleikur - í stíl við stemmninguna. Brúðkaupið var haldið á heimili brúðhjónanna á Seltjarnarnesi. Mikið tjald hafði verið reist á bílastæðinu og rúmaði það á annað hundrað gesti - skemmtileg stemning og fólk í góðu skapi. Allir nema kellingin á móti - hún var auðvitað urrandi ill á bak við tjöldin - enda óþolandi að reist skuli "hús" án hennar leyfis og hvað þá að til stæði að gifta fólk - bara sísona. Nei - hún benti brúgumanum á að "þó hann væri Ásgeir í Tölvulistanum þá væri hann ekkert yfirvald" - þeinkjú verrí möts. Og auðvitað kvartaði kellingin - yfir hávaða og ræðuhöldum - söng og guðsorði. Já hún stóð sína plikt af stakri prýði.
Já - maður fyllist lotningu yfir dugnaðar kellingum líkt og þeirri á móti. Hún kann greinilega til verka. Ég reyndar tel að slíkir eiginleikar séu ákaflega dýrmætir - en vannýttir. Ég sé t.d. að hægt væri að nota svona kellingar til ýmissa "leyniaðgerða - önderkover oppereisjón" - t.d. að planta þeim á tjaldstæði á bíladögum á Akureyri - nú til að dempa lætin og jafnvel svæla liðið heim til sín - nú eða vera með sveit slíkra kellinga sem hægt væri að senda á vettvang til að brjóta upp mótmæli - svo sem hjá Saving Iceland. Svo mætti auðvitað fara í útrás með kellingahópinn - taka að sér að ryðja hús og borgarhluta. Danska lögreglan myndi líklegast þiggja með þökkum að fá hópinn í Kristjaníu - svæla út dópistana - láta þá fá gúmmorren.
Já - nú er ráð að menn geri sér grein fyrir þessari óbeisluðu orku sem felst í nöldrandi kellingum landsins.
Fimmtudagur, 12. júlí 2007
Klukkaður af klukkaðri konu fyrir Vestan.
Tja nú versnar í'ðí. Búið er að setja mig upp við vegg og krafist er 10 staðreynda um sjálfan mig. Það er hún Bryndís Friðgeirsdóttir sem lék svo á mig. Ég læt slag standa.
- Ég er karlkyns
- Ég er Akureyringur
- Ég er faðir
- Ég á yndislega sambýliskonu
- Ég á það til að ýkja "til að vera viss um að segja örugglega satt"
- Ég braut rúðu í gamla íþróttahúsinu við Lundargötu árið 1978
- Ég bý á Ísafirði og líkar vel
- Ég hef verulegar áhyggjur af þróun mála á Vestfjörðum og landsbyggðinni yfirleitt
- Ég færi stundum í stílinn á blogginu
- Ég er ekki ennþá farinn út að skokka
Já - þungu fargi er af mér létt.......hm.......
Ég ætla að koma þessu klukki áfram og klukka Hannes Hólmstein og systur hans Salvöru. Gaman að sjá hvað kemur út úr því.
Fimmtudagur, 12. júlí 2007
Líkleg orsök psoriasis fundin.
Vísindamenn við Karolínsku stofnunina í Stokkhólmi í Svíþjóð telja sig hafa fundið líklega skýringu á psoriasis. Hér er um að ræða mjög mikilvæga uppgötvun sem getur flýtt til muna framleiðslu á lyfi - en ekki er til nein lækning við psoriasis.
Um er að ræða örsmár sameindir sem kallast ör-RNA - en RNA stjórnar myndun próteina sem síðar geta valdið sjúkdómum (ferlið er DNA-RNA-Protein). Hér opnast því möguleiki á að þróa lyf sem virka beint á RNA sameindirnar og með því koma í veg fyrir próteinframleiðsluna.
Já þetta eru gleðileg tíðindi þó auðvitað verði einhver ár í að lyf komi á markaðinn - líkt og tíðkast í lyfjaþróunarbransanum.
Svo er nú það.
hér er linkur á fréttina.