Færsluflokkur: Bloggar

"Hálfvitana heim"

Ýmislegt hefur á gengið og margt verið rætt. Hér á ég auðvitað við kvótaniðurskurð - mótvægisaðgerðir og störf án staðsetningar.

Verð að viðurkenna að ég skil sumt af þessu ekki. Hvað þýðir þetta "mótvægisaðgerðir"....eða starf án staðsetningar....?

Og svo þetta með fiskifræðingana. Þeim er ýmist úthúðað fyrir heimsku og slæleg vinnubrögð eða þá að þeir fá hrós og klapp á bakið og fræðin sem þeir predíka rómuð.

Allir urðu vitlausir þegar loðnan fannst ekki - fiskifræðingarnir eru bara "hálfvitar" sögðu sumir...... - ráðherra bannaði veiðar - svo fundu þeir loðnuna og þá urðu allir hamingjusamir og meira að segja fiskifræðingarnir fengu hrós - flott hjá ráðherra að fara að þeirra ráðum.....að hlusta á fræðingana...og menn tóku "Ragnar Reykás"...snérust í hringi með skoðanir.

Og nú eru þeir að verða einhver eftirsóttasta starfsstétt landsins - allir vilja fá'ðá þó enginn vilji hlustá´ðá - nema stundum.

Og maður spyr sig - hvert fara þeir...hvar munu þeir enda. Sumir segja Vestur - aðrir segja til Eyja og enn aðrir segja þá verða um kjurrt fyrir sunnan.

Nýjasta útspilið er svo hjá sveitarstýru fyrir Austan - hún vill þá þangað. Og hver eru rökin....? Jú, flestir fiskifræðingarnir eiga ættir að rekja Austur......EIGA ÆTTIR AÐ REKJA AUSTUR. Þeir semsagt eiga að koma heim - römm er sú taug.....átthagafjötrarnir eru vandleystir....já fólk gleymir...

Já - nú setja Austfirðingarnir upp söfnunarbauka sem á stendur "hálfvitana heim".

 


Aðgerð lokið - við tekur lyfjakúr...

Skoðið endilega síðuna hjá honum Bjarna.

http://bjarnipall.bloggar.is/blogg/


Guð minn góður...hvað á að ganga nærri þessum mönnum!

Ég spyr - á hverju eiga þessir ræfils launþegar að lifa? Nú er pressan orðin slík að forstjóri Glitnis er búinn að lækka launin um helming - er eftir lækkun "bara" með á þriðju milljón í mánaðarlaun!

Hverslags kröfur eru þetta eiginlega - veit fólk ekki að það þurfti að greiða manninum 300 milljónir - ÞRJÚHUNDRUÐ MILLJÓNIR - til að hann tæki við starfinu!? - Maður getur rétt ímyndað sér hverslags skítadjobb þetta hlýtur að vera fyrst menn þurfa slíkar greiðslur til að þiggja starfið.....

Já nú er mál að linni - þessir gaurar eru líka menn - og verða líka gamlir - og þurfa þá væntanlega að nota sömu heilbrigðis og ummönnunarþjónustu sem við greiðum öll fyrir......og unnin er af fólki sem hefur svo "góð" laun að það þarf ekki 300 milljónir til að þiggja starfið......þrífur þessa fugla og skeinir fyrir "skít á priki".......

http://www.visir.is/article/20080225/VIDSKIPTI06/80225095

og hana nú.


Ógeðsleg meðferð Ástrala á sauðfé.

Ég fylltist viðbjóði og satt best að segja fékk ég tár í augun þegar ég las um meðferð Ástralskra bænda á kindunum sínum.

Í Ástralíu er flugukvikindi sem heitir "blue fly" og sem hefur þann háttinn á að verpa eggjum sínum í ullina nærri endaþarmsopi á kindum - síðan klekjast eggin út og lirfurnar leggjast á sauðféð. Til þess að koma í veg fyrir þetta hafa Ástralskir bændur tekið á það ráð að gera viðbjóðslega aðgerð á aumingja skepnunum - skera af þeim húð og hár að aftanverðu ("rasskinnum") - en þá vex ekki ull heldur verður um að ræða stórt ör!

Og þessa aðgerð gera þeir án deifingar - og dýrin öskra og hveljast.

bláfluganÁ myndinni má sjá bændurna misþyrma dýrum sínum.

 

Viðbjóður af verstu gerð.


Kvenmann sem landsliðsþjálfara í handbolta - ekki spurning!

Það hlýtur að vera öllum ljóst að getuleysi landsliðsmanna á stórmótum gengur ekki lengur. Landsliðið virðist aldrei sýna sitt rétta andlit - áhugalausir og hreint alveg gagnslausir.

Mér finnst einsýnt að eina leiðin til að fá upp áhugann sé að fá kvenmann sem landsliðsþjálfara - enda hefur kvennahandboltinn verið í hraðri þróun á meðan karlarnir "standa í stað". Náum honum upp - handboltanum - getunni og viljanum.

Það þýðir ekkert að vera með "bygginguna í lagi ef engin er fegurðin í reið" er sagt í hestaíþróttunum - nei ekki aldeilis.

Við íslendingar kusum okkur fyrsta kvenforsetann - það gerði okkur gott - nú skulum við halda áfram og ráða konu í stöðu þjálfar landsliðsins. 

 

Upp með getuna og konu í þjálfunarstöðu.

 


Ólíuhreinsistöð - Vestfirskur stóriðnaður framtíðarinnar?

Mikið hefur verið ritað og rætt um hugmyndir manna um olíuhreinsistöð - og að sjálfsögðu eru skiptar skoðanir líkt og vera ber.

Er það slæmur kostur? Eru það endalok náttúruperlunnar Vestfjarða? Þýðir það að við drögum hingað Vestur mengandi og fljótandi olíuferlíki sem brotna í tvennt og fylla alla firði af olíu svo að æðarfuglinn drepst í fjörunni og fiskurinn í sjónum? Ekker líf verði eftir nema starfsmenn stöðvarinnar og nokkrir aðrir?

Eða er það byrjun á hagsæld á Vestfjörðum - þar sem mikið kapp verður lagt á að stunda umhverfisrannsóknir - fjármunum veitt í bætta vegi og betri þjónustu? Að loks verði hægt að hægja sér á Hornströndum án þess að næsti maður gangi í hægðum sínum og annarra við skoðun sköpunarverksins? Að það opni ný tækifæri í menntun og framtíðin verði björt?

Já - maður spyr sig. En upplýst getum við ekki tekið ákvörðun. Ég læt því hér fylgja myndband um Mjallhvíti - þó án dverganna - en það er gríðarleg gasvinnslustöð í norður Noregi - Hammerfest.

 


Bósasaga.

Ég sagði frá því að það væri kominn nýr fjölskyldumeðlimur - Bósi. Og nú er kall farinn að láta til sín taka í "kvennamálunum" - en hann hefur þá bjargföstu trú að Salka sé hans gella!

í peysuAð vísu sendur Bósi vart út úr hnefa fyrir utan að búið er að "afvopna" hann - þó "byssuhlaupið" sé ennþá til staðar. Og á eftir Sölku gengur hann hnarreistur með trýnið upp í loftið líkt og breskur aðalsmaður á göngu um einhvern af fínni görðum Lundúnaborgar. Að vísu fylgir þessu hætta - því Salka er með öllu óvön slíkum tilburðum og að það skuli koma svona "að neðan"....að hún á það til að snarstoppa og jafnvel setjast - og þá þarf Bósi að vera snöggur svo að hann verði ekki undir.

En Bósi gefst ekki upp. Hann veit það að hans hlutverk er að vera til gagns fyrir hitt kynið og kann allar hreyfingar - þó svo að ekki virðist honum alveg vera ljóst hvar réttur staður er. Í það minnsta kom hann aftan að Sölku þar sem hún lá á gólfinu - setti framlappirnar uppá hrygg aftanfrá - rétt við herðar Sölku og sveiflaði mjöðmunum eins og þrautþjálfaður tangódansari. Salka opnaði ekki augun á meðan - velti sér á bakið og Bósi mátti fótum sínum fjörið þakka - enda varð hún hans líklega ekki vör svo mikið var tillitsleysið.

Bósi er nefnilega að spila langt yfir getu.

Já Bósi stendur undir nafni - þó svo að genin séu í blindgötu og komist ekki lengra. Það skiptir engu máli - hann er nefnilega meira svona að sýna en gera.´

 

 


Skugga Sveinn allur - leiksigur Bolvíkingsins síúnga.

Síðast sýning Litla leikklúbbsins á Skugga Sveini var í kvöld. Þetta er búið að vera skemmtilegt ferli þó að á stundum hafi maður efast...en í hvert sinn sem Sigurður í Dal hefur byrjað "fjórir hestar í fyrra..." þá hafa hlutirnir gengið upp. Ég held meira að segja að áhorfendur hafi skemmt sér ágætlega og oft mátti heyra hlátur - þó stundum hafi maður merkt að um skyldmenni eða vini hafi verið að ræða - en það er nú bara hluti af leiknum.

Sjálfur lék ég Jón sterka sem ekkert gat nema hreykja sér af eigin ágæti - slappari var hann þegar á hólminn var komið og snúinn niður næsta auðveldlega af heiðarsveininum hýra - honum Haraldi. Ég hafði gaman af þessum karakter - og satt best að segja minnir hann mig um margt á samferðamenn - og kannski sjálfan mig - hver veit....

Skuggi sjálfur var illur maður og vondur - dimmur og dökkur á brún sem vildi engum vel - kannski ekki ósvipaður vondum mönnum nútímans - en þeir eru margir og íllskan ekki endilega falin í mannvígum.

Já það þetta var skemmtilegt. Alveg hreint magnað hvernig óþjálfaðir leikarar umbreyttust og fóru í karakter - urðu að viðfangsefninu og sumir hverjir hreinlega festust í karakter líkt og sagt er á leikhúsmáli. Einn slíkur ættaður úr Bolungarvík fór hreinlega hamförum sem húsbóndinn í Dal - breyttist í blöndu af Matthíasi Jochumssyni og Bjarti í Sumarhúsum - flygi inná þing fyrir Framsókn ef hann færi í framboð og slægi í gegn á Búnaðarþingi - honum eru grösin allt.

Nú er að sjá hvort búðarkarlinn komi heill af grasafjalli - eða sitji fastur á þúfu við Sumarhús.....


Kominn út úr skápnum....

Ég hafður að spotti. Ástæðan er sú að ég tók að mér lítinn tjívává hund - sannkallaðan kjölturakka. Og nú vill konan meina að kerlingin í mér hafi brotist "út úr skápnum" - að ég hafi komið út sem "miðaldra kerling með töskuhund"!

P2150008P2150005Ég er auðvitað alsæll með nýja hundinn - og búinn að gefa honum nafnið Bósi - enda hörku hundur þó búið sé að taka úr honum grjónin - BÓSI.

 DSC02124Salka mín er nú ekkert að kippa sér upp við þetta - finnst ansi lítið til Bósa koma og nennir satt að segja ekkert að pirra sig á Bósa - ekki einu sinni þegar Bósi læddist inn í búrið hennar Sölku og stal beini - beini sem var allt of stórt fyrir hann - þurfti að draga það á eftir sér upp í bælið.... Salka hin rólegast sótti beinið - ýtti Bósa burtu með trýninu og tók sitt bein. Ekkert meira um það að segja þó kurraði í Bósa! 

Úti á lóð á hún það til að stíga á Bósa greyið ef hann er fyrir - enda Bósi ekki mikill fyrir hund að vera þó kjafturinn sé fyrir neðan nefið.....og ég þarf iðulega að láta Sölku bíða inni á meðan Bósi skreppur út að skíta - hann fer nefnilega í stellingar og þolir illa þegar Salka rekur í hann trýnið - dettur þá um koll og allt fer í steik - þarf að byrja upp á nýtt sem getur verið erfitt þar sem Bósi er svo lítill og kulsæll að ef hann nær ekki að skíta innan nokkurra mínútna þá þarf að taka pásu - fara inn og hita sig upp....gera svo aðra tilraun.

Það finnst Sölku lélegt - hún er nefnilega snillingur í stellingum og snýr afturendanum iðulega upp í norðanáttina - og eftir nokkur dansspor og hringi og þegar rétt lykt er í vitum þá gengur allt upp - eða réttara sagt niður!! 

Já nú gengur á ýmsu - ég þarf sennilega að fara suður að finna góða tösku fyrir Bósa.....og líklegast föt í stíl.....

 


Tennurnar töluðu tungum og ráku drenginn út í afbrot....

tennurMaður einn brenndi tvær íbúðir í Gautaborg - skemmdi bíla og braut rúður. En það var ekkert honum að kenna - nei framliðin kerling í Albaníu stýrði gerðum hans.

Hann hafði nefnilega fengið nýjar tennur eftir slys og fór aðgerðin fram í Albaníu. Svo vildi til að tennur úr kerlingunni framliðnu voru notaðar og nú er komið í ljós að sú hin sama er hin versta  - rekur strák ræfilinn áfram í afbrotum og óhróðri - talar við hann með tönnunum. Og ekki nóg með það - bansettar tennurnar hafa hug á að yfirgefa drenginn - hafa bitið í sig að leggjast í ferðalög.

Sérfræðingar í sálargæslu í Svíþjóð hafa komist að því að líklegast sé nú eitthvað að - að sennilega þurfi drengurinn hjálp!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband