Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Krökkum kennt að fikta - í beinni í Kastljósi.

Mér gjörsamlega ofbauð sá hluti Kastljós þáttarins þegar eðlisfræðingur var fenginn til að kenna krökkunum að fikta með örbylgjuofn. Ýmislegt spennandi er hægt að gera og mikið var ég glaður að svo ábyrg umræða skuli eiga sér stað - eða EKKI!

Hvað á þessi endemis vitleysa að þýða - er nú ekki nóg að þessir krakkar sprengi af sér útlimi á gamlárskvöld þó við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að þau byrji að dunda sér við tilraunir í eldhúsinu líka? Ég bara spyr. Og tala ég af reynslu - þótti uppátækjasamur - en fékk nú samt aldrei eins flotta kennslu og þá er var í Kastljósinu í kvöld.

Maður er hálf feginn að hundurinn kemst ekki í öllarann......látum poppkornið nægja.

það er mín skoðun.


Atkins, Ásmundur og Hollývúddpíurnar höfðu rétt fyrir sér!

Ný rannsókn sýnir að Atkinskúrinn er besta leiðin til að grenna sig. Úrtakið var 311 feitar kellur í Kaliforníu sem voru settar á mismunandi megrunarkúra. Nákvæmlega var fylgst með kellum og að lokum voru þær viktaðar. Reyndar fylgir ekki sögunni hvort að notast var við vog frá Marel?

Og viti menn, Ásmundur hafði rétt fyrir sér – Atkins kúrinn reyndist best, já svo mikið að þær léttust tvöfalt meira en hinar bollurnar! Urðu semsagt helmingi mjórri...

Þetta má lesa í Journal of the American Medical Association – og rannsóknin var framkvæmd við Stanford háskóla – þessum fræga.

En hvað fengu þá hinar? Jú, þær átu skv. því sem góðir næringafræðingar leggja til: færri hitaeiningar og stunduðu meiri hreyfing.

Spurningin er kannski sú hvort sú staðreynd að Catherine Zeta-Jones, Sarah Jessica Parker og Ásmundur eru á Atkins hafi spilað inní – tja ekki veit ég.

En út á hvað gengur Atkins kúrinn? Jú, að éta vel af próteinum og fitu – sleppa nánast allveg kolvetnum. Með því móti neyðist líkaminn til að brenna fitu. Hvers vegna kann einhver að spyrja? Jú, þegar við reynum á okkur þá byrjum við á að brenna þeirri orku sem auðveldast er að brenna, nefninlega kolvetnunum – síðan þegar þau eru uppurin þá byrjar maður að brenna fitu og svo að lokum brennir maður próteinunum, vöðvunum. Semsagt, ef maður fær engin kolvetni þá gengur maður á spikið. Svo er nú það.

En, vandamálið sem þessu fylgir er sú staðreynd að heilinn sem er mjög orkufrekur brennir eingöngu kolvetnum og því getur að sjálfsögðu verið stórhættulegt að hætta allri kolvetnaneyslu. Það getur endað með ósköpum.

En hvaða kúrar eru í boði fyrir utan Atkins?

Ornish: Hámark 10% orkunnar skal koma úr fitu.

Learn: Byggir á Amerískum ráðleggingum um næringarþörf. Mikil hreyfing. 55-60% orkunnar skal vera á formi kolvetna. Hámark 10% úr mettaðri fitu.

Zone: Borða 40 % kolvetni, 40 % fitu
og 30 % prótein.

Og svo er það þessi gamla góða íslenska. Borða hollan og góðan íslenskan mat og labba í vinnuna í kulda og trekki – það segir Guðni, ekki er hann nú feitur. Og ég er sammála því. Langbest er að borða fjölbreytt – stunda hreyfingu og síðast en ekki síst, kaupa íslenskt – enda er ég þvengmjór og þreklega vaxinn.

Það er mín skoðun. Núna.


Íslenskar beljur fyrir kröfuharða íslendinga.

TolliÞegar ég var að alast upp heimsótti ég fjöldann allan af sveitabæjum með föður mínum sem var hérðasdýralæknir í Eyjafirði. Á þeim tíma skiptu bæirnir tugum í Eyjafjarðarsveit og pabbi sagði mér að þetta væri líklegast besta landbúnaðarhérað landsins. Þar voru kúabúin stór og fjárbúin líka. Það var ævintýri líkast að aka um í fallegri sveit á fallegu sumarkveldi - kýrnar á beit í haga og hrossastóð á bökkum Eyjafjarðarár. Sannkölluð sveitarómantík sem líður manni ekki úr minni.

En þegar farið er um fallegar sveitir Eyjafjarðar í dag þá verður manni ljóst að eithvað mikið hefur breyst - sveitabæirnir standa að vísu margir en útihúsin eru víðast tóm. Endurnýjun í stéttinni er nánast engin - meira að segja KEA sagði upp forstjóranum að mér er sagt vegna þess að hann var farinn að fjárfesta of mikið í bújörðum - og er að ég held bóndi í dag - er mér sagt.

En hvað er að gerast með íslensku þjóðina. Á sama tíma og 94% landsmanna vilja að hér sé landbúnaður standa gjöfular bújarðir tómar og sumstaðar eru réttir án þess að ein einasta rolla sjáist á ferli - varla eru þeir að draga framliðnar rollur í dilka? Það er eithvað skrítið við þessa niðurstöðu skoðanakönnunarinnar - nema náttúrlega að þessi 6% ráði öllu - séu þeir sem telja okkur fyrir bestu að lítill sem enginn búskapur sé í landinu - kannski eru það þeir sem frekar leggja uppúr lágu verði á innfluttum matvælum - ekki veit ég? 

Og til að gera dæmið ennþá undarlegra þá er meira en helmingur þjóðarinnar tilbúinn til að greiða meira fyrir íslenska landbúnaðarframleiðslu en innflutta! Tja, nú er maður allveg að missa þráðinn. Og flestir segja gæði íslensku landbúnaðarvaranna miklu meiri en þessara svokölluðu útlendu landbúnaðarvara - og að það sé bændunum alls ekkert að kenna að verðið sé eins hátt og raun ber vitni.

Er ekki bara málið að opna landið fyrir óheftum innfluttningi á landbúnaðarvörum? það hlýtur að vera niðurstaða þessarar könnunar sem Bændasamtökin létu gera að innfluttningurinn muni hvort eð er detta upp fyrir - deyja. Einfaldlega vegna þess að yfir 90% landsmanna vilja hafa íslenskan landbúnað - yfir 60% landsmanna séu tilbúnir að greiða meira fyrir íslenskar landbúnaðarvörur sem eru svo miklu betri en þessar útlensku - varla ljúga yfir 80% þjóðarinnar sem segja að þær íslensku séu af meiri gæðum en þær útlendu. Spurningin sem vaknar hjá mér er sú hve stór hluti þeirra sem spurðir voru hafa yfir höfuð komið út fyrir landsteinana? Og hvort valið hafi verið af handahófi af skráðum félögum í Framsóknarflokknum. Tja, maður spyr sig! 

Ég bjó í mörg ár í útlöndum og borðaði þarf af leiðandi útlendan mat - nema náttúrlega séríslensku framleiðsluna: kæsta skötu og Vestfirskan hákarl. En ég fann aldrei neinn mun á matnum þar en hér - ég er í það minnsta ennþá lifandi. Mjólkin var góð, kjötmetið ágætt og osturinn ljómandi. Og allt kostaði þetta svo miklu minna en hér heima. Af hverju þurfum við á íslandi signt og heilagt að láta segja okkur að vegna íslenskrar sérstöðu og íslenskra gæða þá þurfi hitt og þetta að kosta svo og svo mikið meira - af hverju segjum við ekki bara hingað og ekki lengra. Það hlýtur öllum að vera ljóst að t.d. kjúklingarækt getur varla gengið á Íslandi - flytja korn til landsins til að ala kjúkling - sem síðan er svo margfalt dýrari en í útlöndum. Hvers vegna að stunda svínarækt þegar svínakjöt er eitt ódýrasta kjöt sem fáanlegt er t.d. í Svíþjóð og Danmörku og hægt væri að flytja það til landsins margfalt ódýrara - burt séð frá því að við Íslendinga stöndum langt að baki frændum vorum Dönum og Svíum í að hantera svín? Og nautgriparæktin  - Argentína er jú þekkt fyrir hágæða nautakjöt og ekki er nokkur tuddi þar smitaður af nautariðunni stórhættulegu - bara til að nefna nokkur dæmi.

Ég segi: eflum séríslenska framleiðslu - t.d. framleiðslu á íslensku lambakjöti og mjólkvörum. Íslenska mjólkin hefur eiginleika sem eru eftirsóknarverðir út frá heilsufarslegu sjónarmiði - það hafa íslenskar rannsóknir t.d. Dr. Bryndísar Evu Birgisdóttur og Dr. Braga Líndal Ólafssonar sýnt.

þetta er í það minnsta mín skoðun.


1500 manns missa vinnuna í Reykjavík!

 

 Tolli

Já svona myndi væntanlega fyrirsögnin vera á forsíðu dagblaðanna á höfuðborgarsvæðinu ef Vestfjarðaástandið tæki sig upp þar! Það misstu nefninlega 35 fjölskyldur fyrirvinnu á Ísafirði í liðinni viku. Og hlutfallið væri líklegast um 1500 manns ef þetta væri fyrir sunnan - á Reykjavíkursvæðinu þar sem allt var vitlaust út af klámi sem þó aldrei var og trjám sem hurfu úr Heiðmörk.

Og stærsta ákvörðunin var tekin fyrir sunnan. Það er svo óhagkvæmt að vera með rekstur fyrir Vestan. Þó að reksturinn skili hagnaði. Það er bara ekki nægur hagnaður - líklegast af því að hann er ekki talinn í milljörðum líkt og hjá þeim stóru fyrir sunnan.

En hjá okkur fyrir Vestan voru góðir gestir - vísindamenn frá Stirling háskólanum í Skotlandi - einum af þessum stóru og frægu. Vísindamenn sem sækjast eftir því að vinna með okkur að rannsóknum í þorskeldi. Af hverju? Ekki af því að við eigum svo mikið af peningum, nei - af því að við erum að gera góða hluti, af því að við erum með gott starfsfólk og af því að við höfum framtíðarsýn og áherslur sem eru eftirsóknarverðar. Og hverjir koma að þessum rannsóknum - jú vísindamenn hjá Matís og Vestfirskir fiskeldismenn ásamt fleirum góðum innlendum aðilum.

En við viljum fleira - við viljum meira og við getum meira - svo miklu meira. EN, því miður er það svo að það er bara svo erfitt að berjast og vinna sigra ef sú þróun sem nú virðist vera í gangi er ekki stöðvuð og aðgerðir settar í gang til að efla frekar en hefta. Við þurfum nefninlega sterkt samfélag til að hið jákvæða og öfluga geti þrifist - því af nógu er að taka - það sem er tekið þarf bara að lenda á réttum stað - til uppbyggingar á landsbyggðinni frekar en í endalausum mokstir undir fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu sem ekki þurfa á því að halda.

 

Það er mín skoðun.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband