Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Vestfirðir: Ekkert álver....engir Vinstri-Grænir....

Ég gerði smá grín að honum Hlyni Hallssyni, þeim ágæta dreng, í pistli mínum hér um daginn. En nú er mér dauðans alvara - í ljósi þess að mest vaxandi flokkur landsins skuli ekki vera með neina starfsemi á Vestfjörðum svo mark sé takandi á.

Eru þessar áhyggjur mína vegna þess að hér sé náttúruvernd í klessu? Nei, en það má leiða að því líkum að stór flokkur láti til sín taka í byggðamálum sem öðrum málum - og setji íbúa ofar fyrirtækjum - framtíð lands í hendur fólksins og þar fram eftir götunum. Hugsi um hag ALLRA landsmanna og undanskilji ekki Vestfirði. Hér er jú margt grænt - og þegar horft er á landakortið þá eru Vestfirðir svo sannarlega "til vinstri".

Ég spyr því Steingrím - hefur þú engan áhuga á Vestfjörðum? Ertu ekkert á "vestur-leiðinni"...þú ert kannski bara fastur á "há-heiðinni"?

ÞAÐ ÞARF KANNSKI ÁLVER OG VIRKJANIR TIL AÐ STEINGRÍMU FÁI ÁHUGA - LANDSBYGGÐARMÁLIN SNÚAST KANNSKI EKKERT UM FÓLKIÐ?

Ja, maður spyr sig.


Pam er tilbaka - betri en nokkru sinni áður.

Mikið óskaplega var það mér mikill léttir að sjá að Pamela Anderson er að hefja leik í nýrri syrpu af "STRANDVERÐIR".

En ég bíð spenntur eftir íslensku seríunni "LANDVERÐIR" - þar sem kynþokkafullir íslenskir landverðir hlaupa um í lopapeysum og sauðskinnsskóm. Ég held að þetta sé bisness og passi t.d. vel í auglýsingu um Hornstrandir - eða nýja þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum -

Group 2, 506-6, 118-27,  59-20T


Margrét og Stuðið en Ómar stiklar í Umhverfisráðuneytinu.

Ég hef haft tröllatrúa á þeirri dugmiklu konu henni Margréti Sverrisdóttur. Og auðvitað er alkunna að Ómar er orðinn talsmaður náttúruverndar. Sem er gott - af náttúrvernd er ekki of mikið á Íslandi.

En það sem mér reyndar hefur fundist verst um náttúruverndina hans Ómars er hve seint hún sprettur upp - í það minnsta af þeim krafti og núna. En hvað um það - mér er alltaf minnistætt þegar hann ráðlagði að gamlar steinhleðslur í útihúsum að Knarrareyri í fjörunni á Flateyjardal skyldu varðveittar - til marks um mikið starf kotbóndans á Íslandi - en það var ekki gert og þegar ég heimsótti staðinn fyrir nokkrum árum þá voru þær nánast horfnar. En hvað er það þegar við erum að tala um heilu landsvæðin sem eru að hverfa undir vatn - farin og koma aldrei aftur.

En hér komum við nefninlega að kjarna málsins. Mér finnst skorta svo mikið á "for-náttúruvernd" - þessa sem gerir eitthvað áður en farið er af stað. Það er nefninlega eitthvað svo mikið púður farið í þetta sem þegar er komið - og verður.

Ómar þekkir landið betur en flestir - og hví ekki setja hann í umhverfisráðuneytið - sem ráðherra umhverfismála - sama hvaða flokkur sigrar kosningar. Það er jú þegar byrjað að sækja "hæfa" menn úr atvinnulífinu og gera að ráðherrum - og stundum borgarstjórum. Afhverju er Ómar ekki bara utan-pólítíkus-ráðherra. Með einlægan áhuga á náttúruvernd - og óhlutdræga matshæfileika.

En aftur að Margréti. Hvað er það sem gerir að Margrét finnur sig ekki í öðrum flokkum - tja, ekki veit ég. En því miður er ég bara svo hræddur um að kraftar hennar nýtist ílla í þessu "einka" framboði - ekki síst þar sem mér sýnist hún ætla að vera með "stuðmanninn" í eftirdragi. Ég hélt reyndar að það stuð væri nú nánast búið - komið á aldur - útbrunnið - gúddbæ. Nei, stuðið er ennþá að berjast við að komast á þing og minnir um margt á rjúpuna við staurinn og refinn sem aldrei náði vínberjunum.

Ég segi því - gangi þér allt í haginn Margrét og ég veit að margir hér fyrir Vestan bera til þín traust - enda munt þú ekki gleyma Vestfirðingunum og þessum 20.000 þorskígildistonnum sem Ólafur Halldórsson minnti á í ræðunni í Hömrum hér um daginn.


Ílla eða ómerkt hús - ávísun á vandræði.

Ég tók svo sannarlega kipp þegar ég sá viðtal við slökkviliðsmann er sagði farir sínar ekki sléttar og kvartaði sáran yfir því hve slæmt og jafnvel stórhættulegt það væri að merkja ekki húsin. Ég þekki þetta. Ekki af því að ég sé á ferðinni við að slökkva elda - nei ég ætlaði bara að kaupa bók.

En þannig var mál með vexti að mér og öðrum líffræðinemum var á sínum tíma gert að kaupa okkur bók um pöddur - að mig minnir. Og þessi ágæta bók átti að fást á skrifstofu Náttúruverndar - sem var á Skólavörðustígnum. Nú, ég bruna þangað - í norðan slagviðri - slyddu og barasta drullu veðri. Svona eins og er svo oft í Reykjavík. Þegar ég er kominn á móts við húsnæði Náttúruverndar þá legg ég bílnum - ekki fullkomlega löglega - enda að flýta mér. Stekk út - í poll - og sem leið liggur innum dyr Náttúruverndar - eða svo hélt ég. Fyrir innan dyrnar er gangur og á ganginum stendur píanó - og við píanóið situr ungur maður og spilar - í náttslopp einum klæða. Ég sem var á hraðferð var svo sem ekkert að spá í þetta enda kom það mér ekkert við hvort fólk væri yfir höfuð spilandi á píanó - reyndar fannst mér klæðaburðurinn dálítið skrítinn - en í fjölmenningarþjóðfélagi á maður auðvitað von á öllu. Aðeins innar kom ég í ákaflega heimilislegt hol - setustofu með huggulegum húsgögnum og dagblöðum á borði. Ég fékk mér sæti - gríp blað og glugga í það. Í því birtist annar ungur maður út úr herbergi og nemur staðar þegar hann sér mig - setur upp hálfgerðan undrunarsvip - svona eins og hann væri að velta því fyrir sér hver ég væri. Ég horfi á manninn á móti - augu okkar mætast - og ég segi stundarhátt "þarf maður að bíða lengi eftir því að fá afgreiðslu hér"? - ekki var þetta nú til að minnka undrunarsvipinn á manninum unga - en hann segir á móti "tja, það fer nú eftir því eftir hverju þú leitar" - "tja, segi ég - ég er nú bara að spá í pöddur og vantar bók til að geta greint þær í réttar ættir". Píanistinn hættir að spila - bætist í hópinn og þarna standa þessir tveir ungu menn - annar í ökklasíðum náttslopp og hinn hálfklæddur í stuttermabol sem á stendur "pornstar". Þá allt í einu rennur upp fyrir mér að líklega eiga þessir menn enga bók um pöddur og líklegast sé ég bara alls ekkert á réttum stað. Ég stend því hægt upp - legg frá mér blaðið og tek um leið eftir stórum polli sem verður eftir við sófann -slyddan hafði lekið af skónum - geng í hægðum mínum fram ganginn og framhá píanóinu. Lít við og segi kæruleysislega "þið getið kannski sagt mér hvar Náttúruvernd er með skrifstofu"? - Þeir horfa á mig um stund - "það er hérna í bakhúsi - út til hægri" - og með það hvarf ég út í slydduna.

Já - ílla merkt eða ómerkt hús geta verið til bölvaðra vandræða.


Ódýrt rafmagn - sem enginn veit um nema ÁLRISAR.

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig standi á því að það virðast bara vera álver - eða álrisar - sem hafa áhuga á ódýra rafmagninu okkar? Ef við erum virkilega að framleiða svona ódýrt rafmagn - afhverju flykkjast ekki hingað fyrirtæki sem eru að leyta eftir ódýru rafmagni?

Er eithvað annað í fyrirtækjaumhverfinu sem er fráhrindandi. Eða fá fyrirtæki á Íslandi ekki að kaupa orku á sama verði og hinar umdeildu álbræðslur? Er kannski þessi græna orka sem Landsvirkjun talar um kannski ekkert svo græn? Hvað er málið - hvar eru fyrirtækin?

Í Svíþjóð glíma lítil bæjar og sveitarfélög við vanda eins og við hér. Verið er að "hagræða" og flytja störf - ýmist á milli svæða innanlands eða til útlanda. Nú stendur til að flytja 150 störf til Suður-Afríku og það vegna þess hve rafmagn er dýrt í Svíþjóð. Um er að ræða fyrirtæki sem er í pappírsframleiðslu - og þarf mikið og ódýrt rafmagn. Og ég stóð í þeirri trú að rafmagn væri ódýrt á íslandi - fyrir alla.

En hvernig stendur á því að nágrannaþjóðirnar vita ekkert af þessu græna og ódýra rafmagni. Getur verið að stefnan sé sú að fá hingað "RISA".... svo ekki fari mikill tími í að semja við marga smærri aðila - tja, ekki veit ég. En mér er skapi næst að setja bara auglýsingu í dagblöðin í nágrannalöndunum og auglýsa þessa ódýru raforku - já, segja bara öllum sem heyra vilja frá þeim kostaboðum sem hér virðast vera í gangi. ÓDÝRT RAFMAGN Á ÍSLANDI - NÓG TIL - OG HVER AÐ VERÐA SÍÐASTUR - ALLAR SPRÆNUR AÐ VERÐA VIRKJAÐAR.....

 ...eða er maður bara svona mikill hálfviti að skilja þetta ekki?


Djöfull ertu vitlaus Tolli....ótrúlegt!

Ég hef alltaf gaman af málefnalegum umræðum. Sérstaklega þegar menn hafa eithvað að segja. Ég skrifaði stutt blogg um Monu Sahlin og ræðuna sem hún hélt sem nýr formaður jafnaðarmanna í Svíþjóð - og sem fór svona fyrir brjóstið á "óskráðum" - EN sem hann nennti að kommentera á með þessu líka snilldar kommenti sem ég nota í fyrirsögninni.

Já það er auðvitað vandlifað og það þekkir auðvitað Mona Sahlin ákaflega vel - reyndar eins og vinkona hennar Gudrun Schyman líka.

En það er Göran Persson sem fer á kostum - sá sem laug því að vera með próf í viðskiptafræði - sem hann var ekki með - hann var að vísu búinn að vera í skóla - átti bara eftir að klára prófin. En nú er semsagt kallinn alveg að spila út og lætur ekki nægja að ráðast á Carl Bildt heldur er hann eins og naut í flagi. Hann hreinlega fer hamförum í yfirlýsingum um hina og þessa - þverpólítískt og ópólítískt. Kannski er Göran í fráhvarfi eftir hrun jafnaðarmanna í síðustu kosningum. Verst að ekki skuli vera sama kerfið í Svíþjóð og hér - þar sem mönnum er bara skúbbað í Seðlabankann til að þeir þegi - eða eigi í það minnsta að þegja.

Já svona getur verið erfitt að sætta sig við tap - að vera tapari - lúser eins og unglingarnir segja. Og nú verður spennandi að sjá hver tapar í vor - og hvað gerist þá - hver fer verður fúll á móti - hver endar í Seðlabankanum.....hér fyrir Vestan.

En í það minnsta - "óskráður" takk fyrir að koma svona fyrir mig vitinu. Nú sé ég ljósið.


Býr Íslendingur hér?

Ég var reyndar búinn að blogga um þessa hugmynd mín sem hér fer á eftir - en ég læt þetta samt flakka - því nú er nefndin að störfum...... 

Í mínum huga felst framtíð landsbyggðarinnar í uppbyggingu þeirra fjölmörgu fyrirtækja og rannsóknastofnana sem starfa á landsbyggðinni. Því miður er staðreyndin sú að þessi fyrirtæki og rannsóknastofnanir eiga oft á tíðum erfitt uppdráttar – einkum og sér í lagi vegna skorts á hæfu starfsfólki, menntuðu starfsfólki sem fær næga atvinnu á höfuðborgarsvæðinu.  En hér komum við einmitt að merg málsins. Hvernig fáum við þetta unga menntafólk út á landsbyggðina í störf sem henta þeirri menntun sem þau stunda og sem skilar sér í vexti landsbyggðarfyrirtækja óháð því hvort búið sé að þvera fjörð eða bora fjall. En áður en lausnin kemur verðum við að spyrja okkur spurninga:
  1. Hverjar eru þarfir fyrirtækja á landsbyggðinni?
  2. Hvernig er hægt að gera landsbyggðina að spennandi kosti fyrir nemendur á háskólastigi?
  3. Hvernig gerum við menntafólki kleift að fara til starfa út á landsbyggðina?
 Lausnin er miklu nær okkur en við höldum og felst einfaldlega í samþættingu ofangreindra þriggja þátta.  Með því að gera þarfagreiningu fyrirtækja á landsbyggðinni, skoða hvar skóinn kreppir og hvað þurfi að gera til að efla þau og markaðssetja er fyrsta skrefið stigið. Annað skrefið væri síðan stigið með því að gera nemendum í ýmsum greinum fjárhagslega mögulegt að flytjast í það minnsta tímabundið út á landsbyggðina og starfa að verkefnum, sem nýtast sem hluti af námi, hjá landbyggðarfyrirtækjum. Og síðasta skrefið væri stigið, og sem reyndar er stigið til hálfs, með því að skapa náms og vinnuaðstöðu á formi háskólasetra í viðkomandi landshluta. Og hér er lausnin:1.      Fyrirtækin gera þarfagreiningu með hjálp t.d. atvinnuþróunarfélags viðkomandi sveitarfélags/landshluta. 2.      Þeir nemendur sem kjósa að gera námsverkefni hjá fyrirtækjum á landsbyggðinni hljóti dvalarstyrk (ekki enn eitt lánið) sem nemur framfærslu skv. reglum LÍN og sem gerir þeim búsetu á landsbyggðinni mögulega og  hefði lítil sem engin áhrif á rekstur viðkomandi fyrirtækis.3.      Náms og vinnuaðstaða ásamt tengslum við leiðbeinanda eða skóla viðkomandi námsmanns yrði Háskólasetrið í landshlutanum. En markmið uppbyggingar háskólasetranna hlýtur að hafa verið til að efla landsbyggðina. Hver borgar svo brúsann? Jú, kostnaður við hvern nema hlýtur að teljast lítill miðað við ávinninginn sem fengist með þessu – ávinning á formi bættra rekstarmöguleika fyrirtækja, sérmenntun nema og ekki síst auknum líkum á því að þeir kjósa að nota þetta tækifæri til að kynnast landsbyggðinni, ílengist eða jafnvel setjist að á viðkomandi stað. Þetta er því landsbyggðarmál sem ætti að vera þverpólitískt og í raun samtarf ríkis og sveitarfélaga sem stofna ættu sérstakan sjóð til úthlutunar í þetta verkefni. Vestfirðir eru ákjósanlegur fyrsta tilraun – eini landshlutinn þar sem stóriðja hefur ekki komið til tals.

Gríðarleg snjóflóð féllu við Ísafjörð í morgun - rúta með hóp nemenda úr Menntaskólanum slapp naumlega - ..eða ekki...

Já svona geta fyrirsagnir dagblaðanna litið út - og gera stundum að hluta - En allt þetta upplifði ég í morgun. Menntaskólanemar við MÍ eru búin að bíða spennt eftir að komast í ferðalag til Frakklands - og bíða enn. En í morgun var ljóst að vart yrði flogið til Reykjavíkur - slíkt var veðrið. Og þá er plan B að sjálfsögðu að keyra - með rútu - vetrarleiðina sem er jú hátt í 100 km lengri en sumarleiðin.

Og þar sem sambýliskona mín - móðir fóstursonar míns - er kennari og annar fararstjóra þá læt ég þetta mál mig varða. Það gerði ég semsagt í morgun og þar sem ég stóð ásamt nokkrum kennurum MÍ við glugga kaffistofunnar og horfði yfir Skutulsfjörðinn - skömmu fyrir brottför rútunnar - þá kemur annað tveggja snjóflóða úr Kirkjubólshlíð gegnt Ísafjarðarkaupstað - og aðeins mínútum seinn það síðara. Eðlilega var fólki mjög brugðið því ekki hefði þurft að spyrja um afdrif rútufarþega hefði rútan verið þar á ferð. Um var að ræða tvö mjög stór snjóflóð - svo stór að vegargerðin þurfti frá að hverfa - líklegast vegna hættu á fleiri snjóflóðum. Og nú bíða krakkarnir í skólanum og Frakklandsferðin er í hættu - því flogið verður frá Keflavík eldsnemma í fyrramálið.

Þetta er fyrsa upplifun mín af snjóflóði - og úr fjarska var hún bæði ógnvekjandi og hrikaleg - ég gerði mér nefninlega ljóst um hvurslags ofurkrafta er að ræða - krafta sem eyða öllu sem í vegi verða - og sem aðeins er hægt að forðast með JARÐGÖNGUM.

AFHVERJU ÞARF AÐ RÉTTLÆTA JARÐGÖNG - OG BÍÐA - OG BÍÐA.

Það get ég ómögulega skilið.


Lennart er með typpi - má ekki heita Pía.

Óréttlátt segir Lennart. Já það er vandlifað í henni veröld - þar sem laun og önnur mannréttindi stjórnast af því sem yfirleitt er falið innanklæða. Og aumingja Lennart sem eyðir miklum tíma í smink og aðrar álíka aðgerðir á hverjum morgni - klæðir sig í sokkabuxur og kjól fær bara alls ekkert að heita Pía. En Lennart telur það sinn fullkomna rétt að fá að heita Pía - í það minnsta sem millinafn - til þess að femíníska hliðin fá tjáð sig opinberlega. Hann hefur nefninlega kvenlegt innsæi - femíníska hlið og er farinn í skaðabótamál við Sænska ríkið. Pía skal hann heita og ekkert múður.

Og nafnanefndin sænska tekur þetta ekki í mál. Kall getur ekki heitið konunafni - ekki frekar en að epli sé kallað appelsína og Lennart verður bara að bíta í það súra...epli. Nú eru jafnréttissinnar risnir upp á afturfæturnar og segja það sjálfsögð réttindi Lennarts að heita það sem hann vill - hvort sem undir honum hangir typpi eður ei.

Spennandi umræða - hvað gerir Lennart? Erum við Íslendingar heppnir að flest karlmannsnöfn enda á -ur?


Jón G. Sólnes vitjar Ólínu í svefni - í Kröflu.

Vinkona mín Ólína Þorvarðardóttir er komin austur í Kröflu. Ekki til að stúdera jarðvarma og gufu. Nei hún ætlar að þjálfa hundinn sinn Blíðu í snjóflóðaleit. Ég hef hins vegar dálítið gaman að því að hún skuli vera á þessum stað - þessum sögufræga stað þar sem Jón heitinn Sólnes lét reisa gufuaflsvirkjun. Þetta var líklegast fyrsta alvöru framvkæmdin sem miðaði að því að virkja orkulind okkar Íslendinga: jarðvarmaorka.

En því miður fór það svo að draumurinn varð að martröð - nema náttúrlega fyrir bílaleigu eina á Akureyri sem byggðist upp með útleigu á bílum til starfsmanna virkjunarinnar. Og Jón gamli Sólnes var úthrópaður fyrir vitleysuna - ekki síst af Vilmundi heitnum Gylfasyni sem virtist hafa hreina unun af því að úthrópa þá Sjálfstæðismenn.

Nú verður spennandi að vita hvort að Ólína kemur ekki heim með "rétta andann" og áform um að beisla kraft Vestfjarða - þó með betri árangri vonandi en til tókst með Kröfluvirkjun.

Og Ólína ef þú lest þetta áður en Jón vitjar þín viltu þá minna hann á kassann af Vallas og Conga sem hann lofaði mér ef hann næði kosningu á þing - en það var á Jónsmessumóti Golfklúbbs Akureyrar og ég var kaddý. Jón komst á þing  - en gleymdi alveg að borga mér. Síðustu holurnar voru oft dálítið seinfarnar hjá þessum gömlu höfðingjum - vindill í munnviki og viskýpelinn innan seilingar - og miðnætursólin var ógleymanleg - og mér er ógleymanlegt þegar Jón Gúmm fékk kúlu í hausinn þegar hann stökk uppá braut til að reka strákana burtu - svo að þeir fengju ekki kúlu í hausinn. Svo fór maður heim með bros á vör.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband