Að enn á ný sökkva umræðu um hvalveiðar í pólitískt hyldýpi - vanhugsaður gjörningur ágæti Einar.

Á Íslandi er fjöldinn allur af atvinnulausum hvalskurðarmönnum. Svo ekki sé nú talað um allar kjötvinnslurnar sem standa auðar sökum skorts á hval.

Eða er þetta ekki rétt?

Einar K. Guðfinnsson sá ágæti maður og vinur minn gaf út veiðiheimild til hvalveiða. Og það gerir hann korteri fyrir brottför - án þess að bera undir nokkurn hagsmunaaðila nema etv. Kristján Loftsson - sem reyndar er eini maðurinn á Íslandi sem gerir út á stórhveli.

Ok - er þetta nokkuð nema eðlilegt?

Við Íslendingar höfum um aldir (væntanlega) veitt hvali - eða nýtt þá sjórekna - landi og lýð til hagsbóta. Ég borða hval og finnst hann sælgæti. Enda er hér um einkar hollt og gott kjöt að ræða - svo ekki sé talað um súrt hvalrengi og spik. Ég tel okkur hafa fullan rétt á slíkum veiðum - nýtingu og sölu - sé það gert í sátt við umhverfið.

Og hér liggur hundur grafinn.

Hér áður þegar talað var um umhverfið - þá var átt um náttúruna. Sjálfbærar veiðar. En nútildags er umhverfið mun flóknara - því nú nær það inn í viðskiptalífið - pólitíkina og langt út fyrir landsteinana. Við erum semsagt ekki lengur að "draga björg í bú" - ef það væri málið þá væri auðvitað Kristján Loftsson löngu farinn á hausinn - enda vart fengið að veiða hval síðustu tuttugu árin. Nei - hvalveiðar snúast mest um pólitík. Svona yfirlýsing um sjálfstæði og um leið gefum við öllum andstæðingum hvalveiða langt nef.

En erum við í aðstöðu til þess?

Ég tel ekki vera svo. Einfaldlega vegna þess að staða Íslands er léleg - nánast vonlaus. Við erum með allt okkar niðrá hælum og þurfum erlenda aðstoð til að hysja upp um okkur brækurnar. Og ætlum við þá að bæta gráu ofan á svart og hefja stórhvalaveiðar?

Já maður spyr sig.

Er Einar K. Guðfinnsson virkilega að gera þetta til að bæta ástandið hjá Íslensku þjóðinni? Nei - það er af og frá. Það er enginn - ég fullyrði ENGINN sem lítur á þessa ákvörðun hans öðrum augum en þeim að hér sé hann að kast sprengju inn í Íslenska pólitík. Hefndarsprengju. Og með því móti er hann að mála hvalveiðar sem pólitískar veiðar - ekki nýtingu á stofni.

En hvað gerir hann?

Jú hann ber fyrir sig ráðgjöf hafrannsóknarstofnunar. Sami maður sem ekki hefur farið eftir þeirra ráðleggingum um fiskveiðiheimildir  - sami maður og var að auka þorskkvóta um þrjátíuþúsund tonn þvert ofan í ráðleggingar Hafró - ber nú fyrir sig að hann fari eftir ráðleggingum sömu aðila.

Þetta er ótrúverðugt. Ekki bara innanlands - heldur það sem verra er - þetta kyndir undir þá ótrú sem alþjóðasamfélagið hefur á okkar ágæta landi. Og allt vegna þess að hann er með þessu að reyna að koma pólitísku höggi á þá er taka við.

Í einlægri trú minni taldi ég hvalveiðar geta hafist fyrr en síðar - í sátt við UMHVERFIÐ allt - á réttum forsendum. En nú eru þær vonir brostnar þegar fráfarandi sjávarútvegsráðherra misbeitir valdi sínu á eins fáránlegan hátt.

Og ég held að hvalveiðimenn og útflytjendur hvalkjöts muni standa í verri sporum en áður. Svo ég tali nú ekki um hinn almenna Íslending sem trúir á að við getum unnið okkur út úr þessum ógöngum.

Já - pólitíkin er undarleg. Og ég spyr að lokum: af hverju gerir ráðherrann ekki það sem réttast hefði verið - að stokka upp í kerfinu hjá sér - flytja fiskveiðistjórnunina og rannsóknir tengda henni út í byggðir landsins - þar sem útgerðin er og mikilvægið er mest - í stað þess að hafa hana undir sjálfum sér í miðbæ Reykjavíkur?

Já ég spyr.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Már Marinósson

Er ekki kominn tími til að þjóðir heims hætti að láta einhver öfgasamtök og mér liggur við að segja hryðjuverkasamtök kúga sig? Hvað heldur þú að mundi gerast ef stærstu sjávardýrin yrðu friðuð, ætli það yrði mikið um aðrar tegundir í hafinu eftir 50 til 100 ár.

Gísli Már Marinósson, 29.1.2009 kl. 00:07

2 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

auðvitað væri það best - segja þeim stríð á hendur. Ekki spurning. EN - við erum bara ekki í aðstöðu til þess og verðum að bíta í það súra epli....

Þorleifur Ágústsson, 29.1.2009 kl. 00:13

3 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Fráfarandi ríkisstjórn vor ætlaði líka að móast við og láta ekki einhver "öfgasamtök" almennings svæla sig úr stjórnarráðinu.

En hve varð niðurstaðan?

Kristján H Theódórsson, 29.1.2009 kl. 00:19

4 identicon

Ég er hjartanlega sammála þér (loksins). Ég studdi hvalveiðar og geri undir "eðlilegum" kringumstæðum. Þær kringumstæður eru ekki hér á landi núna.

Bíðum "okkar tími" þ.e hvalveiðisinna mun koma!

Sigurður Arnfjörð (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 00:34

5 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég er með nokkuð blendnar skoðanir á hvalveiðum og finnst að þær geti verið varhugaverðar. Þar er ég ekki að halda því fram að hvalastofnar séu í útrýmingarhættu, heldur geta veiðarnar haf mikinn fælingarmátt gagnvart ferðamönnum og einnig gagnvart dýrunum sjálfum á slóðum ferðamanna. Þá er ég að meina að dýrin styggist og ekki verði eins auðvelt að nálgast þau eins virðist vera.

Ég og maðurinn minn erum að byggja upp ferðaþjónustufyrirtæki með 20 tonna eikarbát sem fyrirhugað er að gera út til selaskoðunar af sjó. Skoðunarferðir af sjó eru að mínu áliti að miklu leiti óplægður akur hér við land. Þá er ég að taka um útsýnisferðir með ferðamenn til að skoða landið frá sjó. Slíkar ferðir er hægt að fara í allt árið, þegar veður leyfir og það hefur verið reiknað úr að eitt starf í ferðaþjónustu skilar fleiri afleiddum störfum, en til dæmis störf í stóriðju.

Fróðlegt að fá þitt álit á því Þorleifur með fælingu veiðanna á dýrin á einstökum svæðum.

En að allt öðru, var ekki verið að ræða við þig í sjónvarpinu í kvöld, um framleiðslu á gæludýrafóðri úr sláturúrgangi fyrir vestan. Áhugavert mál. 

Hólmfríður Bjarnadóttir, 29.1.2009 kl. 02:33

6 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Fín grein. Þetta er eins andstætt hagsmunum íslensku þjóðarinnar og hægt er. Skrýtið að hafa sjávarútvegsráðherra sem hegðar sér svona.  Reynir að vinna skemmdarverk rétt áður en hann fer frá völdum. En það er nú bara til marks um hve vanhæf þessi ríkisstjórn var sem núna hrökklast frá völdum.

Fínt viðtal við þig í sjónvarpi sem ég sá einhvers staðar.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 29.1.2009 kl. 05:20

7 Smámynd: Guðrún Jónsdóttir

Kannski ekki alveg rétt að gefa leyfi 5 ár fram í tímann, en ég er orðin hundleið á því að við þurfum endalaust að taka tillit til einhverja grænfriðunga sem eru kolvitlausir: Þetta fólk sem er í þessum hópunm eyðir engu hér svo ekki græðum við á því. Þetta eru atvinnumótmælendur. Erum við ekki Ísland sjálfstæð þjóð reyndar ekki sjálfbær þessa stundina. Held þó við færum að mótmæla Kóreumönnum fyrir að jeta hundakjöt þá væri flestum sama. Það er alveg hægt að sameina hvalveiðar og hvalaskoðun fólk gæti fengið að sjá það í leiðinni. Munið við erum menn og þróuðumst þannig en dýr eru og verða dýr hefðum við ekki haft þau þá værum við sennilega útdauð

Guðrún Jónsdóttir, 29.1.2009 kl. 08:45

8 Smámynd: Finnur Bárðarson

Þetta er ekkert spurning um einhverja öfgamenn úti í heimi. Stemningin er bara svona gagnvart hvalveiðum milljóna manna út um allan heim vel studd af stjórnvöldum. Spurningin er hvort við ætlum að fara í stríð við allan heiminn. Er það eitthvað sem er skynsamlegt og gagnlegt fyrir þjóðarbúið eins og nú stendur á.

Finnur Bárðarson, 29.1.2009 kl. 16:54

9 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Það er bara að segja Amen á eftir þessu efni!

Ásgeir Rúnar Helgason, 29.1.2009 kl. 17:30

10 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Þvílíkt bull og kjaftæði, ég sé bara ekkert athugavert við þessa ákvörðun Einars, og ég styð hana heilshugar.

Áfram Ísland.

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4431308/2009/01/28/0/

Ægir Óskar Hallgrímsson, 29.1.2009 kl. 22:40

11 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Takk fyrir góða umræðu. Sýnir líka að svona þarf að vera vel ígrundað. Svo finnst mér punkturinn yfir i-ið vera stórgóð röksemdarfærsla þín Ægir - lyftir umræðunni á hærra plan! Verst að klúbburinn þinn er ekki á sama plani þessa dagana

Þorleifur Ágústsson, 29.1.2009 kl. 23:29

12 identicon

Hvað á íslensk þjóð lengi að þykjast önnur en hún er?  Við lifum af því að veiða fisk og aðrar sjávarafurðir. Og hvað er að því?  Eigum við ekki að vera stolt af því hvað við erum og sleppa því að þykjast vera eitthvað annað? Ég hef ekki trú á því að við séum svo merkileg að allur heimurinn sé að velta sér upp úr því hvað við höfum fyrir stafni. Ég held að þessi hræðsla við það að hvalveiðar skaði okkur sé að mestu heimatilbúin.  Hrefnukjöt á grillið í sumar og gott rauðvín með, það er það besta.

Finnbjörn Elíasson (IP-tala skráð) 31.1.2009 kl. 01:37

13 Smámynd: Aðalsteinn Bjarnason

Þorleifur, ég hélt að ég hefði verið búinn að koma vitinu fyrir þig.

Það er einfaldlega rangt hjá þér að þetta sé einhver ný ákvörðun um að hefja hvalveiðar. það hafa verið gefnir út hvalveiðikvótar undanfarin ár og þetta er einungis ákvörðun um að auka veiðarnar í ljósi þess að markaðsmálin eru leyst.

Það varð allt vitlaust 2006 þegar við hófum veiðar í atvinnuskyni. Menn kepptust við að halda því fram að veiðarnar myndu valda því að hvalaskoðun legðist af og ferðamönnum myndi fækka. En, hvað gerðist? Það varð metaukning í ferðamannastraumi og sérstaklega í hvalaskoðun. Hvalveiðar Íslendinga munu ekki hafa nein neikvæð áhrif, frekar en hvalveiðar Norðmanna og Japana. Það verður eitthvað vælt  svona fyrst í stað og svo þaggnar þetta lið.

Aðalsteinn Bjarnason, 31.1.2009 kl. 18:44

14 Smámynd: Ingunn Guðnadóttir

Að sjálfsögðu á að veiða hvali, eins og annað í sjónum.

En.....tímasetningin hjá fyrrverandi sjávarútvegsráðherra er alveg með ólíkindum.

Af hverju var hann ekki búinn að þessu fyrir löngu?? Gera þetta svona á síðustu stundu....það býr bara til áleitnar spurningar og magnar upp tortryggni.

Ingunn Guðnadóttir, 1.2.2009 kl. 14:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband