Í ljósblárri stuttermaskyrtu, drapplitum kakíbuxum og dönskum lakkskóm að skoða olíuhreinsistöðvar. Hópferð Vestfirskra sveitarstjórnarmanna.

Ég hef alltaf haft gaman af því þegar íslenskir sveitarstjórnarmenn fara í hópum út um heim að skoða. Óborganlegar ferðir sem auðvitað skila engu öðru en sólbrúnku, timburmönnum og dagpeningum í vasann.

Nú er hópurinn haldinn af stað - út í heim. Nú á að skoða olíuhreinsistöðvar - berja dýrðina með eigin augum - sannfærast af hreinleikanum og grænu svæðunum allt um kring. Allir í nýjum fötum - glansandi dönsku lakkskórnir virðast mattir samanborið við glæsilega strompa og glitrandi rör og pípur. Engin mengunarlykt nema kaupstaðarlyktin af sveitamönnunum sem hafa aldrei áður séð annað eins. Slá sér á lær og hvá. Sumt er auðvitað eins og heima - eða líkt og maðurinn sagði í sinni fyrstu ferð til útlanda "þetta er alveg eins og heima - bara öðruvísi".

Og ég spyr: Hverju á þessi ferð að skila? Mér vitanlega er enginn sérfræðingur með í ferðinni - enginn til að leggja faglegt mat á það sem fyrir augum ber - ENGINN.

Ég hef verið því fylgjandi að rannsaka þá möguleika að hefja slíka vinnslu hér - RANNSAKA. Það þýðir auðvitað ekki að ég ætli sjálfur að leigja mér spóluna með Steven Seagall þar sem hann berst við glæpona í olíuhreinsistöð í Alaska - nei það þýðir að fá til þess bæra einstaklinga - sem kunna að vega og meta - matreiða niðurstöður fyrir sveitarstjórnarmennina sem eru í þessum orðum skrifuðum í stuttermaskyrtum og kakíbuxum að skoða olíuhreinsistöðvar í útlöndum. Fá fram faglegt mat sem hægt er að vinna eftir. Ég veit að það er markmið þeirra sem kynntu þetta fyrir Vestfirðingum - þeir vilja vinna þetta fyrir opnum tjöldum.

Til að leggja okkar af mörkum þá höfðum við Ólína Þorvarðardóttir, sem sitjum í stjórn Vestfjarða akademíunnar, samband við fagaðila í olíuiðnaðinum í því markmiði að fá þá hingað til að ræða um málið - á ólhlutdrægan hátt. Niðurstaðan var sú að við vorum búin að fá jákvætt svar frá þessum aðilum - og svarið fylgir hér með.

Ég tel að í stað tilgangslausra ferða til útlanda - nokkuð sem er úrelt fyrirbæri og marklaust að mínum dómi þá væri nær að vera með opinn fund fyrir íbúa svæðisins - enda hefur bæjarstjórinn gefið út þá Hafnfirsku yfirlýsingu að um íbúakosningu verði að ræða. Nokkurskonar "Hafnafjarðaheilkenni" - guð forði mér frá því að taka óupplýstur ákvörðun af þessu mikilvægi.

Hér kemur afrit af tölvupósti frá Hafsteini Ágústssyni olíuverkfræðingi hjá Statoil:

"Fyrrum starfsfélagi minn er nú orðinn forstjóri í Mongstad, stærstu olíuhreinsunarstöð Noregs. Hann væri til í að koma, en þarf meiri upplýsingar.
Þið þurfið sérstaklega að setja saman dagsskrána, hvað á að fjalla um, osv.fr.. alla vega titlar á erindaflokkum. Án þessa er varla hægt að fá nein stór nöfn til að koma. Hvorki Statoil né Hammerfest þjóna neinum eiginhagsmunum með því að koma, svo þeir koma til að tala um það sem þið viljið, og það verður að vera augljóst að toppfólk með áhrif og ákvörðunargetu sé til staðar.
Erindaraðir gætu t.d. verið
- Fjárfestingar og fjármagn, eignarhlutar
- Verklegar framkvæmdir, tímaáætlun
- Stærð og afköst, hráefni og afurðir (framleiðsluvörur)
- Samfélagsáhrif. Uppbygging atvinnu, jaðarstörf. Aðlögun þjónustu á staðnum (samgöngur, skólar, sjúkrahús, almenn og opinber þjónusta...)
- Umhverfismat; áhrif á náttúru, öryggisviðbúnaður
o.s.frv.
Þið ættuð að vera komin með nokkur nöfn, alla vega forstjóra sveitarfélagsins þar sem stöðin á að vera, einhvern frá Iðnaðarráðuneytinu svo ekki séu nefndir sjálfur iðnaðarmálaráðherra og einn eða fleiri þingmenn úr kjördæminu. Er ekki einhver opinber stofnun sem sér um að (hluta)fjármagna slíkar framkvæmdir? Þaðan verður einhver að koma. Ég geri líka ráð fyrir að þeir sem ætla að koma þessu verkefni upp séu með og haldi erindi, þannig að það hlýtur að vera komið á fast.
Hammerfest getur ábyggileg talað um áhrif Mjallhvítar á efnahag og fólksfjölda á svæðinu, bæði til langs og skamms tíma og að sjálfsögðu tekjur sveitarfélagsins af starfsseminni.
Mongstad getur lýst framkvæmdunum við byggingu, stækkun og rekstur, hafnarframkvæmdum (sem eru umtalsverðar) sjálfri stöðinni, orkuþörf, framleiðslumagni, tegundum og útskipun endanlegra afurða, losun gróðurhúsategunda o.s.frv.
Garfið þið í þessu og sendu mér tillögu um dagskrá. Þetta fólk þarf dagsetningu, stað, prógramm (alla vega yfirlit) og skýr orð um hvað það er beðið að tala um. Allt verður að vera á ensku"
En í stað þess að þiggja þetta þá skelltu menn sér í hópferð - en hver veit, kannski verðu af þessu. Í mínum huga er forsenda slíkra framkvæmda sú að allt sé uppi á borðinu - ekkert falið og engir hagsmunaárekstrar. Íbúar Vestfjarða eiga ekki að taka ákvörðun óupplýstir.
Það er mín skoðun.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Var ekki hægt að sameina þetta tvennt og halda bara ráðstefnuna í Noregi? Þá hefðu sveitarstjórnarmennirnir fengið dagpeninga, ferðakostnaður sérfræðinganna orðið minni og gagnlegar upplýsingar komið út úr öllu saman.

Þorsteinn Siglaugsson, 5.7.2007 kl. 15:40

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Tolli minn.

Úr því þú nefnir þessa hugmynd okkar sem við komum á framfæri fyrr í sumar, þá langar mig að árétta hvað í því fólst af minni hálfu. 

Ég sá fyrir mér  (og hélt að þú hefðir gert það líka) málþing eða ráðstefnu þangað sem saman kæmu vísindamenn og hagsmunaaðilar úr ýmsum áttum: Faðaðilar í olíuiðnaði, en einnig á á sviði umhverfisverndar og vistfræði - talsmenn margra sjónarmiða, með og á móti. Vísindaráðstefnu þar sem lagt yrði mat á og kynntar rannsóknir og niðurstöður um vistfræðileg, samfélagsleg og efnahagsleg áhrif slíkrar starfsemi í samfélagi sem okkar. 

Þannig kynnti ÉG hugmyndina fyrir forstöðumanni Háskólaseturs Vestfjarða og framkvæmdastjóra atvinnuþróunarfélagsins - en hvorugur hefur sýnt henni mikinn áhuga, enn sem komið er.

Það að fá "fagiðla í olíuiðnaði" til þess að ræða málin er aðeins önnur hlið þessa penings, og að mínu mati ekki nægjanlega upplýsandi fyrir hinn almenna borgara - svo það sé alveg skýrt af minni hálfu.

Njóttu sumarblíðunnar.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 5.7.2007 kl. 15:41

3 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Nákvæmlega Ólína og ekkert hefur breyst - nú taka þeir vonandi við sér og koma í lið með okkur að fá fram allt sem þetta mál var.

Njóttu sumarsins sömuleiðis.

Þorleifur Ágústsson, 5.7.2007 kl. 15:46

4 Smámynd: Birna Ágústsdóttir

sæll bróðir,,,,skemmtileg lýsing á sveitastjórnarmönnunum!! minnir dálítið á teinótta terlíngæjann í Sjallanum í gamla daga!!

Birna Ágústsdóttir, 5.7.2007 kl. 20:02

5 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Er nú lögfræðingurinn systir mín komin á bloggið - gaman að því - nú mega bloggarar fara að vara sig!

Þorleifur Ágústsson, 5.7.2007 kl. 23:05

6 Smámynd: Ingi Þór Ágústsson

Heill og sæll Tolli!

Alltaf gaman að lesa þessar pælingar þínar - stundum finnst mér nú að þú mættir kynna þér málið örlítið betur t.d. með því að ræða við hana Ólínu og fá að sjá hverjir aðrir eru í för með sveitarstjórnarmönnunum og hvernig dagskrá þeirra hefur verið undanfarna daga þarna úti.

Annars er þetta mjög fróðleg hugmynd sem hér er sett fram - hún hefur ekki komið til umræðu innan stjórnar Fjórðungssambandsins.  Það hefur verið rætt að fara aðra leið til að fá þessar upplýsingar um þetta frá mörgum hliðum.  Þetta er eitthvað sem mætti skoða einnig í kjölfarið á vinnu Fjórðungssambandsins - kalla til opins fundar er skemmtileg hugmynd sé kallað til hennar á réttum forsendum.

Ég er ekki þeirrar skoðunar í dag a.m.k. að þetta eigi að fara í almenna íbúakosningu - er ekki sammála Halldóri varðandi það. 

Ingi Þór Ágústsson, 6.7.2007 kl. 01:01

7 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Sæll Ingi - hva ert þú ekki með í för? Já er fjórðungssambandið ekki farið að ræða þetta - þrátt fyrir að þessum samskiptum okkar Ólínu við það Statoil menn hafi samviskusamlega verið komið í hendur framkvæmdastjóranum. En á því verður líklega ráðin bót. Ég er sammála þér að íbúakosningar eru fásinna - almennt séð. En ferðir sveitarstjórnarmanna eru alltaf skemmtilegar - allt frá því að menn fóru hér á öldum áður að heimsækja norðurlöndin til að kynna sér nýjungar í landbúnaði. Mannskepnan hefur nefnilega ekki breyst í langan tíma - mjög langan. Svo er nú það.

En málið þarf að rannsaka.

Þorleifur Ágústsson, 6.7.2007 kl. 01:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband