Færsluflokkur: Bloggar
Föstudagur, 21. desember 2007
Syndir feðranna - Breiðavíkurdrengirnir - óhugguleg lýsing á níðingsverkum.
Ég leigði mér DVD mynd um daginn sem fjallaði um þá skelfilegu atburði sem áttu sér stað á Breiðuvík og sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. Hér var hrikaleg lýsing á þeim viðbjóðslegu atburðum sem þar áttu sér stað og manni leið á köflum eins og byggi maður ekki á Íslandi.
Hvernig gat þetta gerst? Spyr maður sig og skilur ekki í þeirri mannvonsku sem í myndinni er lýst. Ekki ætla ég frekar að fjalla um þetta - en ráðlegg fólki að skoða þessa mynd enda hafa allir gott af því að sjá hvað þar gekk á.
Ég ber virðingu fyrir þeim mönnum sem fram komu og sögðu sögu sína - það hefur ekki verið auðvelt.
Eins viðurkenni ég fúslega að ég rúmlega táraðist yfir örlögum þessara pilta sem ekki höfðu unnið til þess að vera sendir í slík helvíti á jörðu - og hve sterkir þeir voru að koma fram fyrir alþjóð og ræða mál af þessu tagi. Það var meira en "starfsmennirnir" sem talað var við gátu gert - þar fóru menn undan í flæmingi og "vissu ekkert". Þetta fólk sem vann drengjunum mein verður að eiga það við sjálft og guð sinn vænti ég. Mér hinsvegar er óskiljanlegt hvernig þetta hefði átt að fara fram hjá þeim.
Og ekki gat ég betur séð en einn viðmælendanna sé titlaður "guðsmaður" - gangi um í hempu en sem virðist þó stunda einelti enn þann dag í dag ef marka má fréttir um málefni kirkju þess manns. Hann fer líklegast mikinn í sunnudagsmessunum þegar hann þrumar yfir hinum "syndugu"!!
Já hugleysið og skepnuskapurinn verður líklegast ekki launaður nema á einn veg þegar kemur að skuldadögum - þá þurfa menn að gera hreint fyrir sínum dyrum - líkt og sá hempuklæddi veit, eða ætti að vita.
Ágætu drengir frá Breiðuvík - ef þið lesið þetta þá óska ég ykkur og ykkar gleðilegra jóla og farsældar á komandi árum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 20. desember 2007
Undirbúningur jóla er annatími snyrtimenna - nokkur góð ráð.
Ég er snyrtimenni. Ekki snyrtipinni - snyrtimenni. Ekki svo að ég sé signt og heilagt að skvetta á mig Kölnarvötnum eða kreista fílapensla. Nei - ég er haldinn snyrtiáráttu sem hefur það birtingarform að ég ét allt sem mér finnst skaða heildarmyndina - en þar á ég heildarmynd þess sem verið er að matbúa eða baka fyrir jólin.
Og þar er hápunkturinn auðvitað piparkökuhúsið sem skreytt er sælgæti og ýmsu gúmmelaði. Alltaf finnst mér einhverju ofaukið og ét ég þá viðkomandi stykki. En auðvitað felst í þessu ákveðin áhætta - nú maður getur jú eyðilagt jafnvægið með því að éta fyrir slysni ranga skreytingu. Verstu mistökin eru þegar maður á leið hjá húsinu á þeim tíma sólarhrings þegar maður er hálfur í draumheimum - svo sem þegar skroppið er ofan til að kasta af sér vatni um miðja nótt - nú þá sér maður illa og finnst eins og þurfi aðeins að rétta til útlitið á húsinu. Svo endar þetta náttúrlega með því að skaðinn verður tilfinnanlegur. Ráðið við slíkum mistökum er að snúa húsinu þannig að skaðinn verði lítt sjáanlegur. Lágmarka skaðann.
Og ef óþægilegar spurningar vakna þá er bara að setja upp sakleysis svip og kenna börnum eða húsdýrum um - hundar og kettir eru t.d. þekktir fyrir að rífa í sig piparkökuhús og skreytingar.
Eins er það með smákökurnar - en endalaust er hægt að éta þessar sem hafa ekki "rétta lögun" - eða eru "of dökkar". Best er þó að stunda þá iðju þegar frúin er ekki við - enda óvíst að hún hafi sömu sýn og maður sjálfur - reyndar mjög ólíklegt að svo sé - reyndar með öllu vonlaust.
Hér hef ég ráð. Ef kökurnar eru ennþá á bökunarplötunni þá er um að gera að hræra í þeim svo uppröðunin verði óreglulegri og þ.a.l. erfiðara fyrir konuna að átta sig á fækkuninni. En það er með ólíkindum hve naskar þessar konur eru á minnstu frávik frá bökuðum kökufjölda. Ef hinsvegar kökurnar eru komnar í kökubauk þá er ekkert annað en að þykkja undirlagið - t.d. með gömlum dagblöðum.
Og ef óþægilegar spurningar vakna þá er bara að setja upp sakleysis svip og kenna börnum eða húsdýrum um - hundar og kettir eru t.d. þekktir fyrir að rífa í sig smákökur.
Svo eru fleiri möguleikar. Hér er einn sem átti sér stað á heimili fyrir norðan. Húsmóðirin hafði keypt dýrindis ávaxtaköku sem átti að njóta um jólin. Kakan sem var hátt í 50 sentímetra löng að mig minnir var geymd í ísskápnum. Húsbóndinn hafði þann hátt á þegar hann vaknaði á nóttunni að koma við í ísskápnum til "að kanna hvort ekki væri allt með felldu". Nótt eina rekur hann augun í kökuna og án þess að ráða við sig opnar hann umbúðir kökunnar og skar af endanum. Þegar hann setur kökuna inn í ísskapinn á ný - sér hann að engin ummerki eru um heimsóknina - þar sem sást jú bara í annan endann á kökunni þegar búið var að raða undanrennufernum þétt að kökunni. Hann hugsaði sér gott til glóðarinnar og vandi komur sínar í ísskápinn á hverri nóttu fram að jólum. Svo fór það auðvitað svo að þegar húsmóðirin ætlaði að sækja kökuna á jólakaffiborðið var pakkningin tóm - nú fyrir utan endann er vísaði út úr ísskápnum.
Húsbóndinn reyndi auðvitað að bera af sér alla sök - en illa gekk þar sem hjónin voru jú bara tvö í kotinu og ekkert hundspott til að kenna um.
Já maður hefur margt lært af honum pabba gamla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 19. desember 2007
Sóðaleg jólaskemmtun hjá Manchester United leikmönnum - einn tekinn fastur fyrir nauðgun.
Já - það var ekki mikill jólabragur yfir fylleríshátíð þeirra Man.Utd manna á Great St John Street Hotelinu.
Já það er gott að vera Arsenal maður.
Hér er fréttin: http://www.expressen.se/sport/fotboll/1.974473/landslagsman-misstanks-for-overgrepp
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 18. desember 2007
Gleðileg jól - farsæl komandi ár....
Það er svo undarlegt með mig að ég hef aldrei haft þörf fyrir að halda veislur. Sex ára gamall sagði ég mömmu að nú væri ég hættur að halda uppá afmælið mitt - og stóð við það. Það var ekki fyrr en á 40 ára afmælinu sem ég hélt smá partý í Jökulfjörðum.
Og svo eru það jólin. Mér er einhvernvegin svo um megn að nenna þessu. Að vísu á ég ekkert í vandræðum með að borða jólamatinn og nammið - sé það fyrir mig lagt - eða eins og kona mín segir: "sé það ekki nægilega vel falið". Og étið get ég. En þetta kostar allt saman. Kostnaðurinn felst í mínum huga í því að mér er hreinlega skipað að skrifa á jólakort - til fjölskyldumeðlima og vina. Auðvitað hef ég ekkert að segja - man ekkert hvað gerst hefur markvert á árinu - en sem betur fer eru kortin for-prentuð - maður skrifar bara t.d. "kæri vinur..." eða "elsku systir"....og svo kemur halelúja setning for-prentuð - svo kvittar maður bara undir.
Yfirleitt gengur þetta vel með fyrstu tvö, þrjú kortin. Svo byrja ég að draga í efa að nokkur nenni að opna svona kort hvort eð er. Penninn hættir að skrifa og mér finnst ég fá "ritstíflu" - líður illa og kvarta sáran undan höfuðverk - nú eða tímaleysi. En ekkert dugar - kortin skulu skrifuð hvort sem mér líkar betur eða verr.
Aumingja fólkið sem fær þessi kort. Það les þau með bros á vör - ekki vitandi hverslags pína þetta var fyrir mig að skrifa þessar línur. Og til að kóróna allt saman þá man ég aldrei hvar hver á heima og kortin fara hingað og þangað...sum berast líklega aldrei á réttan stað.... - eða hver á hvaða börn. Allt fer þetta í einn hrærigraut svo ég er farinn að kenna Jonna við Hörpu og Palla við Kollu!...og líklegast leiðir þetta til hjónaskilnaða - því auðvitað er hægt að misskilja og halda að ég viti meira en ég veit - vitandi ekki neitt um ekki neitt eða neinn - frétti alltaf allt síðastur.
Já - kvöl og pína. Hverju datt þetta annars í hug. "Elsku vinur..." bla bla bla "þökkum allt liðið"...bla bla....og maður ekki búinn að hitta viðkomandi í mörg ár...hvað þá meir - og þar fyrir utan eru nú oft ástæður fyrir því að maður er hættur að hittast....sumar meira að segja ekki landfræðilegar..... Líklegast er þetta allt saman gert til þess að maður njóti jólanna þegar þau loks koma og þetta er afstaðið - svona eins og verðlaun eftir að hafa verið duglegur hjá tannlækninum.
En ég er í það minnsta að prufa mig áfram með nýja jólakortatækni sem er svo hljóðandi:
"Kæri vin,...eða systir...eða bara hver sem er"..."Gleðileg jól og farsæl komandi ár "...."hafið það sem allra best...kv, Tolli og fjölskylda"
ps. Vinsamlegast geymið kortið og lesið á ný um næstu jól!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 17. desember 2007
Mamma - móðir - systir - sambýliskona - sama kyn en ótrúlegur munur....
Ég svaf eitthvað undarlega nótt eina í byrjun desember - og þá fór ég að hugsa um mömmu mína. Það er nefnilega svo að ég á fjórar systur og mömmu - og sambýliskonu. Allt eru þetta kvenmenn - en þó litningasamsetningin sé eins eru líkt og að hin undarlegasta þróun eigi sér stað hjá kvenpeningnum - að um þrjú algjörlega ólík lífsform sé að ræða sem þó eru nátengd og óaðskiljanleg. Og við karlpeningurinn erum alltaf þátttakendur án ákvörðunarréttar.
Fyrstu kynni af systrum mínum eru auðvitað þau að maður er algjörlega afskiptur. Ekki nokkur áhugi frá þeirra hendi á því hver maður er - eða hvað maður er að gera - nema þegar auðvitað maður er fyrir - rangur maður á röngum stað - svo sem eins og heima hjá sér þegar systir eða systur eru heima með vinkonum sínum. Ekkert er auðvirðulegra en bróðir þegar ekki er tími fyrir hann. Nema þegar maður er mjög ungur - þá er maður óttaleg dúlla - og fær að fara með í sund og svoleiðis. En um leið og systur eru komnar á gelgjualdur þá er maður úti í kuldanum - ískulda. Það allra versta - það er þegar maður veikist. Nú, þá er maður auðvitað ekkert veikur - ímyndunarveiki af verstu gerð. Ræfill og bjálfi.
En mamma - hún hjúkrar manni og hugsar um mann. Þar er ekki verið að draga í efa alvarleika krankleikans. Nei, mamma er best. Og maður verður bara svo lítill....þó aldurinn segi kannski eitthvað annað.
Svo eldist maður. Það fer af stað ferli sem lýsir sér með óttalegu útvexti. Nef og ýmsir útlimir fara að vaxa úr hófi og eru í engu hlutfalli við restina af líkamanum. Eins fer hormónakerfið í kerfi - og maður hreinlega klikkast - sem lýsir sér auðvitað í því að maður fær áhuga á stelpum. Þessum sem maður er búinn að alast upp við að hati mann. Og þessar sem maður bauð ekki afmælið sitt fyrr en á 11.ári - skrítið. Já þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur. Og auðvitað fá þær mann út í allskyns vitleysu - nú til að sína hvað í manni býr - hver getan sé. Og stundum keyrir úr hófi og pabbinn verður vitlaus.
En mamma - hún skammar mann ekki. Hún passar sinn mann og er góð. Auðvitað voru það stelpurnar sem plötuðu mann út í vitleysuna. Ætli hún þekki það ekki, á fjórar. En bara mig einan.
Og svo nær maður sér í eina. Konu sem maður þó vissi að var systir - og þar af leiðandi í vonda liðinu. Og maður verður svo ástfanginn. Börn fæðast. Konan sem sagt orðin móðir. Og maður er vongóður að allt fari nú að lagast - að hún verði mamma. En þá fær maður gú morren. Konan og móðirin er bara ekkert mamma. Það kemur auðvitað best fram í því að manni er útjaskað ennþá meira - látinn skúra, taka til og jafnvel sendur út í búð - í hvernig veðri sem er. Og ekki skánar það ef maður svo mikið sem fær nánast lífshættulega flensu. Þá er ekkert að manni - bara leti og ímyndun - rekinn á fætur og bent á að þetta sé ekki hótel.
En mamma - hún skilur mann. Og þegar ég hringi í hana og segi farir mínar ekki sléttar um veikindi og almennan krankleika þá huggar hún mann og segir að fara nú vel með sig. Já og hvort mann vanti ekki ný nærföt eða sokka. Já hún mamma. Ég veit eiginlega ekki hvaðan hún kom - eða í það minnsta hvers vegna mér hefur ekki tekist að finna svona konu - bara svipaða, bara eitthvað í áttina - það er alveg nóg. En það er bara ein mamma. Bara ein. Mamma.
Hvernig skildi pabbi hafa verið svona ótrúlega heppinn. Að finna MÖMMU??
Já það er gott að eiga góða mömmu. Og svo steinsofnaði ég með bros á vör.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Laugardagur, 15. desember 2007
Ógeðslegur kjúlli á kránni - hver er staðan hér?
Ég hef alltaf dáðst að Svíum fyrir opinskáa umræðu um málefni er skipta okkur neytendur máli. Hér heima er hinsvegar þögnin sem ræður ríkjum og nýjasta dæmið er þegar það þurfti töluverða tilburði til að fá upplýsingar um hvaða veitingahús höfðu nýtt sér lækkanir á sköttum til að græða meira.
Það nýjasta er hvernig krár í Svíþjóð láta sig hreinlæti og umgengni um matvæli almennt sig litlu skipta - kúnninn fær nefnilega aldrei að koma "baksviðs" og fær kjúklingasamlokurnar afgreiddar snyrtilegar á diski. En við rannsókn kom í ljós að pottur er víða mölbrotinn eins og þessi mynd sýnir glöggt
Hver er staðan í íslenskum krám? Aldrei heyrir maður nokkuð minnst á þessa hluti hér á landi - eða er kannski ekkert fylgst með þessu?
tja, varla trúi ég því að við Íslendingar séum ólík nágrönnum okkar hvað þetta varðar....?
Kíkið endilega á þetta:http://www.gt.se/nyheter/1.969549/den-har-kycklingen-ska-bli-sallad
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Laugardagur, 15. desember 2007
Skemmtileg hefð fyrir jól í Vestrahúsinu á Ísafirði.
Frá því að við fjölskyldan fluttumst hingað Vestur höfum við fengið að taka þátt í ákaflega skemmtilegri hefð sem skapast hefur í Vestrahúsinu. Ólafur Halldórsson annar eiganda hússins - auk félaga síns og meðeiganda honum Gísla Jóni - hafa skapað þá hefð að hafa smá forskot á jólasæluna. Ekki er þó um hefðbundið jólahlaðborð að ræða eða helgislepju - nei, hér er skemmtileg blanda af gamni og menningu - líklegast ætti maður að segja gamni og alvöru.
Í kvöld var dagskráin á þessa vegu. Starfsmenn hússins og gestir safnast saman í Vestrahúsinu. Ólafur hefur samverustundina með umfjöllun úr fortíð og nútíð Vestrahússins. Að því loknu er hefð fyrir að einhver starfmaður í húsinu segi frá menningu og þjóð annars lands - gjarnan þess lands sem viðkomandi hefur t.d. menntað sig í. Ég t.d. sagði frá frændum okkar Svíum hér um árið. Í dag féll sú dagskrá niður þar sem sögumaður var veðurtepptur í Reykjavík.
Svo kemur "klassíkin" - sem er orðaleikur Ólafs. En sá leikur felst í því að svara nokkrum "laufléttum" spurningum sem tengjast tungumáli þeirra Færeyinga - og satt best að segja er það hin mesta skemmtun - enda um tungumál sem okkur íslendingum finnst skrítið - en Ólafi hugleikið. Vegleg verðlaun eru fyrir sigurvegarann - að vísu veit ég ekki hver þau eru - enda aldrei unnið!!
Að lokinni Færeyskunni - er yfirleitt boðið upp á menningu - og í ár var það heiðasveinninn hýri og ástin hans hún Ásta, dóttir Sigurðar í Dal, úr uppsetningu Litla leikklúbbsins á Ísafirði á Skugga-Sveini í leikstjórn Hrafnhildar Hafberg, sem sungust á langt uppi á ímynduðum heiðum. Ekki var laust við að fiðringur færi um Jón Sterka úti í sal þegar hann heyrði sönglið í útilegumanninum - "réttast hefði jú verið að setja´nn í bönd...." en fallega sungu þau og sýndist mér sveinninn ansi hýr. Ekki var það síst gaman fyrir þær sakir að Ólafur ber nokkra ábyrgð á því að þetta leikverk var sett upp á Ísafirði - en hann var snemma farinn að ræða þann möguleika við Hrafnhildi þegar honum barst til eyrna að hún væri leikhús menntuð.
En þá er komið að því sem aldrei er sleppt - en það er hringdans upp á Færeyskan máta - Vikivaka. Að þessu sinni stjórnaði Ólína Þorvarðardóttir dansinum með glæsibrag og var ennfremur forsöngvari og kyrjaði...."Ólafur reið með björgum fram" og við tókum undir " villir hann, stillir hann"...... Gaman var að fylgjast með fólki í þessum skemmtilega dansi...tvö skref til vinstri og eitt til hægri....flóknara má það ekki vera fyrir minn smekk....auk þess sem dansfélagarnir sitt hvoru megin við mig máttu vart við meira tá-trampi.....
Skemmtileg dagskráin endar svo með veitingum og jólagjöf frá Vestrahúsinu. Já hann Ólafur Halldórsson er einstakur maður og á þakkir skildar fyrir margt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 14. desember 2007
Símanúmerið - 456 1414.....hjá Bush - gátan um númerið leyst.
Í nokkur misseri rákum við lítið og sætt veitingahús á Ísafirði - og þar höfðum við símanúmerið 4561414. Í raun er svo sem ekkert um það að segja - að vísu urðum við "heimsfræg" þegar einn af fastagestum okkar Henryk Broder skrifaði um okkur í hinum fræga miðli Der Spiegel - að vísu vefútgáfu - en rosalega frægum samt....
Nú - líklegast hefur Bush lesið pistilinn og séð að símanúmerið okkar er mjög þjált og gott til minnis - enda veitir kalli líklega ekki af því mér hefur sýnst hann heldur hafa fengið naumt skammtað úr aski gáfunnar. En hvað um það - hann tók númerið upp.
Og svo þegar drengurinn ungi ætlaði að hringja og panta borð á Faktorshúsinu fyrir Vestan - líklegast fyrir sig og foreldra sína - þá er ekkert skrítið að opperatörinn ruglist og telji að hann sé að meina "Faktorinn sjálfan" fyrir Westan.....og gefur samband - í 4561414. En þar var auðvitað engan mat að fá - og þegar drengurinn var spurður hvað hann ætti við þá auðvitað vissi hann að Ólafur Ragnar Grímsson er frá Ísafirði og segir því "well, Íafjörður you know.....Ólafur Ragnar Grímsson the president ....you know".....og uppúr því hefst mikil sápa......og allt út af númerinu sem Bush virðist hafa stolið númerinu okkar.......
Já - ekki óraði manni fyrir að frægðarsól Faktorshússins myndi rísa þetta hátt - en aðeins of seint fyrir okkur í það minnsta - við erum hætt þó ennþá sé auðvitað hægt að fá gistingu í húsinu góða - og ekki úr vegi fyrir að fólk bara panti sér í "the president suite".....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 12. desember 2007
Af stórhættulegum lifnaðarháttum okkar Britney Spírs.
Mér dauðbrá þegar ég opnaði visir.is áðan og áttaði mig á að ég lifi hratt og alls ekki hægar en fræga fólkið - skeyti engu um hættur og háskalegan lifnað.
Og hér er ég að bera mig saman við ekki ófrægari manneskju en hana Britney Spírs - eða Binnu spíra eins og ég kalla hana.
Sem dæmi get ég sagt að núna var ég í þessum orðum skrifuðum að hesthúsa Godiva súkkulaði - fullu af unaði og sykri. Besta súkkulaði í heimi segja sumir. Og ég er ekki svo mikið ósammála.
En samkvæmt öruggum fréttum þá er það þessi súkkulaði lifnaður á henni Binnu sem gerir hana kolvitlausa. Ekki brennsinn eða pillurnar - nei - nammið og sykurinn.
Ég held að ég sé ekki eins slæmur og Binna - ég í það minnsta drekk dæet kók. Nú til að jafna út allt hitt. Svo virðist sem kenning mín um að orsakir "þéttleika" sé að leita í beinunum - að ég sé stórbeinóttur - þá sérstaklega um mig miðjan og að aftanverðu - sé bara ekki að ganga upp. Ég er því að reyna að jafna þetta út með dæetinu.
En svo eru auðvitað fleiri og örugg merki um að ég sé að klikkast eins og Binna - ég er búinn að láta snoða á mér hausinn - orðinn kíví eins og sonurinn sagði.
Og það var enginn annar en rakari fræga fólksins á Ísafirði sem gerði það - hann Villi Valli. Ég var sem betur fer ekki það klikkaður að færi á uppstílaða hársnyrtistofu - nei - ég fór til alvöru manns sem notar tæki sem heyrist almennilega í og er tengd í vegginn með þykkum rafmagnssnúrum - ekkert "hæ tekk" kjaftæði. Enda sópaði hann þessu af mér á svip stundu - hrein unun að vera viðstaddur. En Villi Valli klippir mann á meðan beðið er.
Já - nú tek ég mér tak og hendi mér í ræktina. Fer í "stúdíóið" eins og sagt er fyrir Vestan - til Stebba Dan - og verð orðinn spengilegur eins og kallinn sjálfur um jólin. Þá er aldrei að vita nema ístran verði farin og ég nái til að hengja skraut á tréð.
Já svo er nú það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 8. desember 2007
Viðmið - samanburður - niðurstaða.
Lífið virðist oft á tíðum snúast um viðmið. Sign og heilagt verið að bera saman. Ef það eru ekki grunnskólabörnin þá eru það pólitíkusarnir - typpin og vöðvarnir. Allt skal bera saman til að fá útkomu sem síðan þarf að ræða og bera saman við aðrar útkomur. Og aldrei fæst nokkur niðurstaða - í það minnsta ekki engin vitræn sem einhverju skilar. Eftir standa "viðmiðarnir" og reyna að skilja hvers vegna í ósköpunum viðmiðin voru ekki betri - og svo auðvitað er "rétt" leitað og borið saman við það sem gefur mun betri niðurstöðu. Svo má lengi böl bæta að finna eitthvað annað verra.
Hér fyrir Vestan bera menn gjarnan saman menn og málefni. Og nú er það samgönguráðherrann. Hann er borinn saman við fyrirrennarann - og kemur ýmist vel út eða ílla -allt eftir því hver ber saman og hvort mönnum beri yfirleitt saman um samanburðinn. Og enginn skilur neitt - enda ekki hægt að bera þá saman - annar starfandi ráðherra en hinn ekki. Og sá sem er starfandi getur jú varla hafa gert það sem hinn gerði og öfugt. En samt er rifist.
Ég man þegar Íslensk Erfðagreining flutti í nýtt hús í mýrinni - þá hélt forstjórinn ræðu. Og í ræðunni fjallaði hann um þegar háskólarektor kvartaði yfir því að hús ÍE væri of hátt - raunar svo tveimur tugum sentímetra skipti. Það fannst forstjóranum ómerkilegt og óþarfa veður gert út af slíkum smámunum - enda hér um margra hæða hús að ræða. Hann rifjaði upp sögu þegar hann eitt sinn sem ungur maður hafði verið á bílferð með félögum sínum. Tveir þeirra þrættu um hvor væri betur niðurvaxinn og svo fór að lokum að bíllinn var stöðvaður og þeir fóru út að mæla. Þá hefðu þessir tveir tugir sentímetra skipt máli - en ekki þegar verið var að bera saman húsin.....
Já svona getur samanburðurinn skipt máli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)