Færsluflokkur: Bloggar

"Guð sagði: éttu kærustuna þína"......

3368563067....sagði Christopher Lee McCuin, 25 ára Texasbúi þegar lögreglan kom heim til kappans. En hann hafði skömmu áður hringt í lögguna til að láta vita af morðinu.

Á eldhúsborðinu var biti úr stúlkunni á gaffli - en úr kærustunni hafði hann eldað "dýrindis" pottrétt og mátti sjá annað eyrað fljóta ofan á pottréttinum í pottinum.

Veslings lögreglumennirnir litu hver á annan og sögðu "...fyrirgefðu, hvað sagðirðu" ...við þessar fréttir.

En þetta með eyrað finnst mér magnað.....varla er það góður biti....

Úff....mannskepnan.

meira hér


Úr sér gengin friðunarstefna íslenskra stjórnvalda.

Ég var staddur á Laugaveginum í dag. Svo sem ekkert merkilegt með það nema hvað að nú er allt vitlaust við veginn atarna - ekki út af veginum sjálfum heldur út af þremur gömlum húsum sem á að rífa - .....eða átti að rífa. Borgin gaf leyfi - þétta byggð og byggja nýtt - upp í loftið og það gamla á að víkja er motto meirihlutans nýja.

Þá urðu friðunarsinnar reiðir og sáu til að húsfriðunarnefndin kom saman....skrafaði.... og lagði til við ráðherra að friða húsin þrjú. Að öðrum kosti myndi "heildarmynd" Laugarvegarins glatast og yrði aldrei annað en svipur hjá sjón - og fólk myndi aldrei gera sér grein fyrir því hverslags hús hefðu einu sinni staðið við Laugaveginn. Og nú er að sjá hvað ráðherrann gerir. E.t.v. leitar hún álita samráðherra sinna um hvernig sé best að "fara eftir" ráðum nefndarinnar.

Ég persónulega er ekkert á móti friðunum og varðveislu - alls ekki - og er reyndar ekki einu sinni dómbær á hvort að beri að varðveita þessi hús á Laugaveginum.

En ef í það verður lagt þá vona ég að vel verði að verki staðið - og til að það gangi eftir er hægt að hafa til hliðsjónar Grímseyjarferjuna, sem var jú óttalegt skarn en fékk "andlitslyftingu".....svo um munaði.

En það er þetta með friðunina.

Ýmislegt á auðvitað að friða. Ég er t.d. mjög hlynntur því að gömul hús séu friðuð - að dýr í útrýmingarhættu séu friðuð - að viðkvæm náttúra sé friðuð og þar fram eftir götunum.

En einhversstaðar verður nú samt að draga mörkin.

Hinsvegar finnst mér ótæk þessi "vegafriðunar" stefna stjórnvalda, sem í gegnum árin hafa friðað vel flesta vegi um Vestfirði - og reyndar víðar. Því erfiðari og hættulegri sem vegirnir eru - þeim mun meira er "lagt í" að friða þá - eða ætti ég kannski að segja því minna er gert í að nútímavæða þá. Líklega er "friðunin" svo að komandi kynslóðir fái að upplifa það hvernig var í "gamladaga".

Já vegafriðunarstefnan er úr sér gengin - og kominn tími á "extreme make over...."


Hver ræður - hver er ráðinn?

Mikið ósköp er það leiðinlegt þegar svo virðist sem "óhæfara" fólk er ráðið í auglýstar stöður hjá hinu opinbera. Meira að segja nefndir sem meta eiga hæfni eru "óhæfar" - eða í það minnsta má túlka það sem svo þegar ekki er farið að ráðum þeirra.

En hér er um ákaflega flókið og viðkvæmt mál að ræða. Margt býr að baki og eitt af því sem vega þarf og meta er hvort vegur meira: reynsla eða menntun?

Það er auðvitað svo að fólk sem fer í langskólanám missir af ákveðinni reynslu á meðan setið er á skólabekk - en fær í staðinn menntun sem þeir sem öfluðu sér reynsluna hafa ekki. Svo þarf að vega og meta hvort skilar meiru. Og satt er það að reynsla er ómetanleg - já, eins og nám getur verið líka..... en það er bara svo miklu erfiðara að setja mælistiku á reynslu en menntun. Eða er kannski menntun reynsla....eða reynsla menntun? Máltækið segir "svo lengi lærir sem lifir"...

Ég man eftir því fyrir nokkrum árum að þessi umræða kom upp í Svíþjóð en þar höfðu átt sér stað áherslubreytingar hjá mörgum fyrirtækjum sem voru að "nútímavæða". Ungt fólk með fínar gráður í viðskiptum og allskyns hagfræði kom út á vinnumarkaðinn og ungu "bisness" mennirnir og konurnar leystu þá eldri af hólmi - þessa með reynsluna - en sem höfðu ekki menntunina. Útkoman varð ekkert sérstök og ekki endilega sú sem átti að verða - nú af því að menntun kom ekki í staðinn fyrir reynslu....

Spekúlantarnir sem fylgdust með úr fjarlægð komust að því að heil "starfsstétt" hefði verið þurrkuð út úr Sænskum fyrirtækjum "reynsluboltarnir" - þessir sem ekki endilega voru alltaf í sviðsljósinu en unnu sína vinnu af mikilli þekkingu - þekkingu sem hlaust af mikilli reynslu.

Ekki er ég þó endilega að segja að hið sama eigi við um umdeildar ráðningar síðustu mánaða - en þar hefur jú verið lagt "huglægt" mat á reynslu - sum reynsla sögð vera betri en önnur.  

Ég spyr því - er ekki ráð að settar séu skynsamlegar viðmiðunarreglur um slíkar ráðningar - er ekki hjákátlegt að "sérfræðinefndir" skuli vera stofnaðar til að fjalla um hæfni og sem svo ekkert er farið eftir og nefndirnar þá í raun dæmdar "óhæfar"....?

Verst er auðvitað að persóna þeirra aðila sem sækja um störf og stöður í góðri trú dregst oft á tíðum inn í málið - sem er mjög slæmt og ótækt.

Mér sýnist þetta vandamál vera þverpólítískt og spyr því: Hver er lausnin?....


Hún birtist mér í draumi - óboðinn gestur í draumi saklauss manns.

Ég ætlaði að leggja bloggið á hilluna. Var alveg sáttur við það enda skrifað nokkra pistla á liðnu ári. Ekki alla málefnalega eða skemmtilega líkt og gengur - en skrifaði þá samt og birti undir nafni.

Og svo gerist það. Í draumi birtist hjá mér eldri kona. Allsendis viss um að ég væri að gera rangt með þessu - að hætta að blogga. Mér auðvitað dauðbrá enda ekkert þægilegt þegar fólk er að troða sér inn í annarra manna drauma. Gagnrýnisvert. Ég sofandi í mínu rúmi á mínu heimili og gömul kerling að þvælast um í huga mínum og húsi.

Ég auðvitað vaknaði sem var jú eina leiðin til að losna við kellu sem sat við sinn keip - "byrjaðu að blogga" - sagð'ún í sífellu.

Kannski eru þetta eftirmálar lesturs á nýju bók Einars Más "rimlar hugans" - en þar treður hann sér eftirminnilega inn í sögu annars fólks.

Hvað veit ég? - en ég þori bara ekki öðru en að fara að "skipun" konunnar og guð hjálpi mér ef hún reynist vera "minn innri maður".

Gleðilegt ár.

 


Gleðilegt ár og takk fyrir allar heimsóknir á bloggið á liðnu ári. Nú er mál að linni.

Ég hef haft gaman af því að skrifa hugsanir mínar og á stundum að viðra skoðanir hér á blogginu. En nú er mál að linni. Ég mun á næstu dögum loka blogginu.

Bestu kveðjur,

þorleifur.


Biblían er sem böglað roð í brjósti mínu - lærði ég hana alla í einu þó aldrei kæmi að gagni neinu.

Svo raular Skugga Sveinn í leikritinu gamla sem skrifað var af séra Matthíasi Jochumssyni. Skugga Sveinn kunni biblíuna - hann vissi af og hafði heyrt fagnaðarerindið. Það bara skipti hann engu máli - hann fór sínu fram.

Í fagnaðarerindi áramótanna - þegar við sprengjum burtu gamla árið og bjóðum hið nýja velkomið - er lögð áhersla á að með hverri sprengju sem við sprengjum þá bætum við öryggi okkar sjálfra - og erum líklegast með því móti eina þjóðin í heiminum sem sprengjum til góðs. Það er orðið og orðið er skrifað af okkur sem verslum við björgunarsveitirnar. 

Og svo birtist leikarinn Örn í hlutverki Skugga Sveins - hann þekkir þetta. En málið gerist flóknara - inn eru dregin málefni sem í raun tengjast spurningunni um réttmæti frjálshyggjunnar. Að hafa rétt til athafna. Margir hafa skoðanir, sem er gott. En Örn er holdgerfingur athafnamanna er boða sitt eigið fagnaðarerindi -  landsþekktur leikari og vinur þjóðarinnar. En hann hlýtur að þola þetta maðurinn - ekki hefur hann farið í gegnum leikferilinn án gagnrýni - réttmætrar eða óréttmætrar. Varla. Og umræðan er öllum holl - björgunarsveitunum líka.

En þegar Ernir Árnasynir kjósa að fara þessa leið - taka slaginn og bjóða byrginn - án þess að láta sig nokkru skipta, hefðir eða mikilvægi þá verða þeir að vera undir það búnir að fólk segi sitt þó auðvitað skuli ekki draga inn persónu viðkomandi og alls ekki fara út í eitthvað skítkast. En tóninn má senda - beinskeyttan og hvassan.

Því kýs ég að taka orð Skugga Sveins og gera að mínum - því að auðvitað er Örn meðvitaður um þetta allt saman - við túlkum bara "biblíuna" ekki eins.


Skammastu þín Örn Árnason.

Mér varð óglatt af að sjá auglýsingu frá bomba.is - en þar er mynd af forsvarsmanninum Erni Árnasyni að auglýsa flugelda. Ekki ólöglegt en svo innilega siðlaust í ljósi þess að björgunarsveitirnar byggja jú nánast allt sitt á sölu flugelda.

Af hverju er sumum ekkert heilagt? Hvað vakir fyrir þessum manni eiginlega? Ef um er að ræða söluþörf hví í ósköpunum fær hann ekki að standa í sjálfboðavinnu á einhverjum af mörgum sölustöðum björgunarsveitanna.

Eða er það kannski gróðavonin sem liggur að baki.....

Ég ráðlegg fólki að sniðganga þessa kóna.

 


Vandi kirkjunnar - biskup Íslands.

Mikil umræða hefur átt sér stað í þjóðfélaginu upp á síðkastið um stöðu kirkjunnar og kristinnar trúar almennt. Nú eru einhverjir farnir að setja sig upp á móti að kristinfræði skuli kennd í grunnskólum landsins. Í einfeldni minni hélt ég að við værum með þjóðkirkju og því bæri skv. kennsluskrá grunnskólanna að kenna þau fræði - hvort sem einhverjum líkar betur eða verr.

En það er í mínum huga ekki vandinn. Ég tel að vandinn sé mun einfaldari og hann sé sá að kirkjunnar menn eru upp til hópa hundleiðinlegir - lélegir boðberar kristinnar trúar þó svo að þeir rembist eins og rjúpan við staurinn að boða fagnaðarerindið. En þeir eru bara margir hverjir svo leiðinlegir - þurrir og slepjulegir með einhverskonar "guðlegt lúkk" sem þeir hafa þó með öllu skapað sjálfir. Og þar fer biskup Íslands fremstur í flokki. Ég segi nú ekki annað en guð hjálpi manninum.

Ég er sannfærður um að ef fleiri prestar störfuðu í anda t.d. presthjónanna Jónu Hrannar og Bjarna Karlssonar eða Pálma Matthíassonar sem messar á snjóskafli við og við -  þá fengi unga fólkið að sjá að boðskapurinn er ekkert svo leiðinlegur - alls ekkert hundleiðinlegur líkt og biskupinn kynnir hann.

Auðvitað er ekkert auðvelt að vera biskup á eftir pabba sínum  - sem var hálfgert ikon - og sem maður taldi vera "hálf-guð" því hann var löngu kominn fram yfir síðasta "söludag" þegar maður var krakki og virðist ætla að verða eilífur. Merkilegur maður og fræðimaður mikill.

Að vísu kenndi mér ekki síðri maður kristinfræði í grunnskóla en herra Pétur Sigurgeirsson, síðar biskup - en hann einkenndist af góðmennsku og húmor á stundum - að mig minnir. En það var í þá daga þegar maður bara lærði postulana og boðorðin - ekkert og væl um skemmtanagildi. Það var reyndar á þeim tíma sem kennurum var heimilt að "taka í lurginn" á óþekkum krökkkum - í dag má víst ekki hrósa með því að klappa á öxlina.

En nú eru semsagt nýir tímar og ekki lengur "í tísku" að vera með yfirmáta "heilaga" útlit - drepleiðinlegur á háum hesti horfandi til himna svo að rignir upp í nefið. 

Nei ég segi - kristin trú þarf ekkert að vera svona leiðinleg eins og þeir sem hana boða. Gerum fræðsluna skemmtilega - vekjum áhuga því líklegast eru engin fræði sem til sem hafa eins góðan tilgang.

Ég yrki fyrrihluta í anda Dags heitins Sigurðarsonar og þið botnið:

Vandi kirkjunnar - biskup Íslands.


Látinn er meistari.

Ég var svo heppinn að hafa farið á tónleika með þessum látna meistara - og því á ég móður minni að þakka henni Auði Ólafsdóttur - einlægum jazz áhugamanni - sem dreif fjölskylduna á tónleika þegar við vorum eitt sinn í sumarfríi á eyjunni Jersey. Mér eru þessir tónleikar mjög minnisstæðir enda var maðurinn snillingur.

 


mbl.is Oscar Peterson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jól án góðs vinar - Kristjáns Sverrissonar sem gladdi marga á jólum með góðum gjörningi.

Mig langar í nokkrum orðum að minnast vinar míns sem lést á árinu eftir erfið veikindi - en sem skilur eftir sig góðar minningar.

Kristján Sverrisson lagði sitt af mörkum til að gera jólin ánægjuleg hjá mörgum sem annars hefðu ekki getað notið jólahátíðarinnar með góðum mat. En Kristján rak veitingahús á Akureyri og hafði þann vana, í samráði við prest á Akureyri, að elda ávalt auka skammta á jólahlaðborði veitingahússins - þessa auka skammta keyrði Kristján svo út á aðfangadag til fjölskyldna sem sökum aðstæðna höfðu ekki ráð á dýrindis jólamat.

Þetta var nokkuð sem Kristjáni fannst sjálfsagt og hafði mikla ánægju af - en fór ekki hátt með - hreykti sér ekki af slíku hann Kristján sem lýsir vel hvaða mann Kristján hafði að geyma. 

En ég trúi að víða hafi honum verið þakkaður gjörningurinn.

Með þessum orðum um vin minn vil ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Sérstakar kveðjur færi ég fjölskyldu Kristjáns vinar míns sem í dag nýtur þess að borða vel kæsta skötu og gleðjast með móður Kristjáns sem á afmæli. Ekki amalegur afmælismatur það.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband