Miðvikudagur, 13. ágúst 2008
Nunnunum sagt til syndanna - Bósasaga hins Lútherska
Því fylgir ábyrgð að vera aðalhundurinn í götunni. Jafnvel þó lítill sé og skrækur. En Bósi er ekkert grín - það veit hann sjálfur best af öllum og það skulu allir fá að heyra. Og þó Bósi sé nú mest að taka fólk í gegn sem á leið um götuna án hans leyfis - þá er hann farinn að blanda sér í trúmál.
Allt byrjaði þetta í byrjun sumars þegar Bósi hvarf í heimsókn í Skálholti. Eftir mikla leit birtist hann í kirkjudyrunum og var hinn bjartasti - búinn að heimsækja helgidóminn að virtist og vonaði maður að hann hefði farið þar um án þess "að tefla við páfann"...
Og nú gerist það síðsumars að í götuna koma nokkrar nunnur - sem eiga þar athvarf og heimsækja á stundum. Svo kemur fyrir einn daginn að nunnurnar eiga leið framhjá húsinu okkar og það mislíkaði Bósa hrapalega. Hann hreinlega missti sig. Urraði og gelti á nunnurnar svo að undirtók í Skutulsfirði. Ræfils Salka skammaðist sín og lét lítið fyrir sér fara - enda hefur hún í raun aldrei litið á Bósa sem hund - meira svona sem fyrirbæri.
Og nunnurnar brostu og báðu guð að passa Bósa - en við það æstist auðvitað Bósi ennþá meira - engin nunna skildi skipta sér af honum - hann væri ramm Lúterskur og hefði heimsótt kirkju því til staðfestingar.
Já, maður spyr sig hvernig þetta endar með Bósa og hvort að maður eigi hættu á að hann endi í sértrúarsöfnuði?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 6. ágúst 2008
Viskunnar menn
Nú er berjatíminn að hefjast. Sumir hafa meira vit á berjum en aðrir og enn aðrir hafa enn meira vit á berjum en sumir. Og svo hittast þessir menn og drekka kaffibolla á loftinu hjá Braga. Þá situr maður hljóður og hlustar á visku mannanna sem tínt hafa ber um allar hlíðar og firði.
Þetta eru Grasa-Guddur nútímans. Fremstur fer í flokki Magnús og liggur karlinn sá ekki á skoðunum sínum og þekkingin hreinlega svífur út í belg og biðu - og ef mældur væri í desíbilum vær'ann langt yfir hættumörkum. Ekki veit ég hvort málverkið á suðurgafli smiðjunnar skírskoti til þessa. En berin þekkir hann betur en flestir - eða eins og hann segir sjálfur "ég veit það....þó ég hafi ekki hugmynd um það" með tilheyrandi handapoti til áherslu.
Húsráðandi sjálfur hefur nú tínt nokkra pottana og lent í hvílíkum berjum að annað eins hefur aldrei sést - nema auðvitað hjá hinum sem allir hafa lent í enn meiri berjum en allir hinir til samans sem hafa þó verið í ótrúlegu berjamagni og svo miklu að annað eins hefur ekki sést......nema náttúrlega af sumum sem sáu meira.
Er nema furða að maður sitji hljóður og fullur aðdáunar yfir þeim ævintýrum sem þessir menn hafa upplifað - og ekki ýkja þeir - draga heldur úr!
Já, svo er nú það. Berin verða tilbúin eftir tíu daga - það segja karlarnir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 3. ágúst 2008
Frændur vorir og forfeður...
Það er mörgum hugleikið að leita upprunans. Í sjálfu sér er það hið besta mál og undir hverjum og einum komið að gera slíkt.
Ekki var ég beint í þeim erindagjörðum nú fyrir skemmstu þegar ég heimsótti okkar gömlu höfuðborg, Kaupmannahöfn, ásamt konu og sonum tveim. Markmið ferðarinnar var í annan stað að sýna piltum fornar slóðir okkar íslendinga og hinn staðinn að leyfa þeim að njóta lystisemda stórborgar - tívolí með meiru.
En þegar slík borg er heimsótt er auðvitað ekki hægt að komast hjá því að rekast á fleira fólk en dani - frændur vorir og forfeður, norðmenn eru auðvitað þar á hverju strái. Mér gafst því tími til að virða fyrir mér fólkið og velta fyrir mér hvernig í ósköpunum við íslendingar urðum eins og við erum.
En hápunktur samanburðarins var kvöld eitt þegar við fjölskyldan urðum vitni að ákaflega skemmtilegu sjónarspili. Á Strikinu fræga var mættur danskur miðaldra maður - gráhærður mjög og með skegg. Var eitthvað svo heimilislegur þar sem hann sat í hægindastól með baðvog fyrir framan sig. Og hvert var málið - jú hann bauð fólki upp á að láta hann giska á líkamsþyngd....alveg ókeypis - nema ef honum tækist að giska á þyngdina innan tveggja kílógramma skekkjumarka - þá þurfti maður að borga honum 20 krónur danskar!! Baðvogin staðfesti svo rétta þyngd - svo ekki var um vilst enda um virðulega mekaníska vog að ræða - ekkert digital kjaftæði.
Mér var skemmt. Ég fylgdist með karlinum giska - fyrst kom að eldri maður sem reyndist vera 83 kíló og kostaðu þær upplýsingar hann 20 krónur og konan hnussaði og sveiaði... - næst giskaði sá danski á þyngd konu og fór með rétt mál. Ég fylltist aðdáun og fannst hann ansi seigur - því ekki fékk hann að klípa í fólkið né lyfta því - bara að horfa á og meta.
Og þá bar að norðmann. Svona hálf álkulegur, með gulleitt hárið og yfirvaraskegg. Hann var í glænýjum kakí stuttbuxum - og undirstrikaði afslappað útlitið með köflóttum og hnéháum sokkum - sem féllu vel að grænleitum sandölunum. Hann var eitthvað svo "heia norge" í útliti. Ég var viss um að þó að hann týndist þá væri hann aldrei í hættu - honum yrði einfaldlega skutlað í næstu "norsku sjómannakirkju".
En hvað um það - ekki má dæma menn fyrir útlitið. Hann virtist til í tuskið - ber að ofan og þrátt fyrir að vera illa sólbrenndur á öxlunum þá brosti hann hann breiðu brosi og leit á félagana um leið og hann sagði "nu vinner vi tyve kroner gutter"..... sem útleggst "nú græðum við tuttugukall strákar"....
Gúddag, sagði sá danski, Viltu láta vega þig? Akkúrat, svaraði sá norski og kímdi. Það var ekki á hverju degi sem hann gæti grætt svona - fengið sig veginn og það gratís...
Sá danski setti sig í stellingar - horfði djúpt í augun á þeim norska. Gekk hægt fram og aftur og dæsti - já þetta var ekki létt. Norðmaðurinn svitnaði, ekki bara út af hitanum, heldur vegna spennings - undir var jú tuttugukall.
Jæja min ven, sagði sá danski - leit á norsarann og sagði hátt og snjallt "treoghalvtres"....sjötíu og þrjú kílógramm - versigú!
Það fór um norsarann - var þetta rétt....var hann að láta danskann slána hafa af sér tyvekroner.....
......lágur kliður fór um áhorfendur og það hefði mátt heyra saumnál detta....slík var spennan - enda eru tuttugukrónur miklir peningar í noregi - í það minnsta gera þeir allt til að spara þær. En hvað um það, norsarinn steig á vogina.....nálin dansaði....nálgaðist töluna 71...sem var innan umsömdu 2ja kílóa skekkjumarkanna. Norðmaðurinn fölnaði.....ljósrauði liturinn hvarf úr andlitinu og meira að segja yfirvaraskeggið virtist lýsast...fór úr ljósrauðu í drapplitað.....hann skalf...nálin skalf ....vogin skalf......
Svo stökk hann af voginni - rak upp stríðsöskur og sagði svo glumdi í öllu danaveldi "nálin stoppaði aldrei....ég vinn"....ég vinn...ég vinn...ég vinn.....hún náði aldrei allveg 71 kílói.....hurra...
Danskurinn klappaði honum föðurlega á öxlina og sagðist samþykkja dóminn enda væri hann vopnlaus og gæti ekkert gert til að ná tuttugukallinum...til þess þyrfti jú her - gráan fyrir járnum. Svo hló hann. Svo hlógum við öll sem á horfðum. þetta var sjónarspil. Bardagi upp á líf og dauða....eins og tekið úr Njálu......eða ekki.
Og af þessu fólki erum við víst komin......ja hérna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 20. júní 2008
"Yfir gresjuna kemur ísbjörn, ríðandi hesti á"
Kom ísbjörn upp um hestana? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 16. júní 2008
Mann fjandinn er kasóléttur!
Þegar ég var að alast upp á Akureyri var lífið miklu einfaldara en það er í dag. Þá voru karlmenn karlmenn með tilheyrandi tólum og konur höfðu einsog bóndinn vinur minn sagði "með allt á sér".
Þó var það þekkt að menn gengju villtir til verks og byrjuðu sumir "á röngum enda" og enduðu jafnvel í því öngstræti - ekki það að ég sé með fordóma - svoleiðis var þetta bara þá.
Ekki veit ég nú hvort sagan af frægasta homma Akureyrar á þessum tíma var sönn - ég vil auðvitað ekki nafngreina kappann og kalla hann bara "hödda". Hann var frekar lágvaxinn og gildur mjög - ekki var bjórnum um að kenna enda bjórleysi algjört á þeim tíma - svo að kannski drakk hann bara vel af "stjána bróður" sem hinar ljúfu veigar Christians Brother voru gjarnan kallaðar (að mig minnir, ég var ekki kominn á aldur).
En hví skildi ég vera að rifja upp hann Hödda svo löngu síðar? Jú, ég rakst á frétt og viðtal við fýr í henni AMERÍKU sem ku vera vera kvenmaður í karlmannsbúningi - svona "forsteiktur" skratti sem ekki er meira "tilbúinn" en svo að hann er kasóléttur!!...og ef það væri ekki nóg - þá á hann konu - svona alvöru konu sem hefur "allt á sér"!
Nei málið var miklu einfaldara með hann Hödda, hann átti nefnilega bróður sem svipað var ástatt um og við krakkarnir vissum að saman hefðu þeir búið til bumbuna á Hödda! og það var satt - stóru strákarnir í Honda-klúbbnum sögðu okkur það!!
Að vísu mætti halda því fram að meðgangan hjá Hödda væri óeðlilega löng og aldrei vissum við til þess að Höddi yrði léttari - en það skipti engu máli því að við vissum að á meðan hann hefði bumbuna góðu þá væru honum allir vegir færir - við nefnilega heyrðum að hann hefði fallið útbyrðis af síðutogaranum Harðbaki og það sem hafi orðið honum til lífs var að hann flaut á bumbunni!
Það fannst okkur flott!
Enda var lífið svo miklu einfaldara hér áðurfyrr.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 26. maí 2008
Augun á glámbekk - stórmerkileg eru þau læknavísindin....
Ekki er laust við að læknavísindin veki undrun á stundum - jafnvel svo að mann setur hljóðan. Það var einmitt þannig þegar ég kom við í Bragakaffi í morgun og heyrði hreint makalausar lýsingar á aðgerð sem Óli frá Gjögri undirgekkst. Nú er það svo að mönnum ber ekki alltaf saman við kaffiborðið í Bragakaffi um hvað er satt og hvað ekki - en það er aukaatriði - hitt stendur eftir að "hafa skal það sem betur hljómar".
Og svo var það með aðgerðina hans Óla. Ekki ætla ég að dæma um hvort sagan var sögð til að æsa upp Magnús - en hún var sögð og líklegast er hún sönn....nú dæmir hver fyrir sig....
Óli ku hafa verið farinn að píra augun meira en góðu hófi gegnir - svo mjög að afgreiðslustúlkur í matvöruverslunum réttu Óla ævinlega skiptimyntina strax þegar hann kom að kassanum - þess fullvissar að nú ætli kall að ræna sjoppuna! Og þetta auðvitað gekk ekki lengur - Óli þorði vart í bankann og meira að segja heimabankinn í tölvunni baulaði þegar Óli reyndi að millifæra. Og suður flaug Óli - pírið yrði að laga - strekkja á og herða svo að augun opnuðust.
Og nú fara menn að spennast við kaffiborðið - sumir slá sér á lær og kíma - aðrir hrista hausinn og fussa - sérstaklega Magnús.
Óla segist nefnilega svo frá að til þess að læknirinn gæti með góðu móti saumað og snyrt þá þurfti að taka úr honum augun - en þau voru lög til hliðar á bekk og áttu að liggja þar á meðan á aðgerð stóð. Óla varð nú ekki um sel en fannst sjónarhornið nokkuð skemmtilegt - horfði á sjálfan sig liggjandi á bekk og gullfallegar hjúkkurnar stumra yfir honum - með tómar augntóftirnar!
Og þá gerist það óvænta - og það sem Magnús neitar trúa - ein hjúkkan rekur sig í annað augað og með það dettur það í gólfið...."og þá sá ég uppundir´ana" sagði Óli.
Nehei...ég trúi þér ekki segir Magnús og hrópar upp yfir sig...þetta er lýgi...ég trúi þessu ekki.
Jújú segir Óli - allveg makalaust. Verst að ég var ekki með gleraugun...þvi ég sá ekki hvort hún væri í nærbuxum......
Já kaffitímarnir í Bragakaffi eru magnaðir og ekki síðri en undur læknavísindanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 8. maí 2008
Fast þeir sóttu sjóinn....grásleppufeðgar draga björg í bú.
Þungbúinn dagur með súld og gráma. Ég átti leið út hlíðina - um Hnífsdal og við mér blasti Óshlíðin. Vegavinnutæki stóðu mannlaus við yfirgefin hesthús - það eru breytingar í aðsigi - gera á göng til að hleypa lífi til Bolungarvíkur - eða frá - lífi sem vonandi smitar norðanverða Vestfirði alla - á suðurfirðina er ófært - þar er líf - bara ótengt líf.
Óshlíðin var óárennileg í grárri birtunni og skítugir taumarnir láku ofan hlíðina og hálfþöktu snjóinn sem máttlaust reyndi að varpa birtu inn í drungann. Líflaust var orðið sem kom upp í hugann.
Í allri deyfðinni - lífleysinu - sá ég mótorbát kljúfa öldurnar - Sjöfn - um borð glitti í feðga - grásleppufeðga. Fast þeir sóttu sjóinn og drógu net - létu grámann ekki draga úr sér kraftinn heldur hleyptu kappi í kinn - bitu fast á jaxlinn og drógu. Af eljusemi létu þeir norðanvindinn og báruna ekki trufla sig og bláar tunnur á þilfarinu voru merki um dýrmætan afrakstur - aflann - grásleppuhrognin.
Og þegar rýnt var í öldurnar mátti sjá belgina - velkjast um í öldurótinu - merkta eigendum sínum og til merkis um net þeirra feðga - til merkis um vinnusemi og elju - svo langt sem augað eygði. Enginn bilbugur á þeim feðgum - jaxlar sem vita hve mikilvægt það er að leggja ekki árar í bát - mikilvægi þess að draga björg í bú - halda í hefðina. Róa.
Já andstæðurnar voru miklar í gráu landslaginu - lífsbaráttan svo nálæg. Og pólitískt argaþrasið í Bolungarvík svo langt í burtu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 6. maí 2008
Hjá góðu fólki.
Eitt af því sem ég hef notið í starfi mínu er að fá að ferðast til framandi landa. Ekki hafa þessar ferðir endilega verið til fjarlægra landa en á sinn hátt gefið mér kost á að kynnast menningu og lífi fólks í öðrum löndum - framandi löndum.
Yfirleitt eru þau þjóðareinkenni sem maður kynnist í slíkum ferðum tengd daglegum samskiptum - við kaup á þjónustu eða afþreyingu. Við slíkar aðstæður kemur vel í ljós hvernig fólk er samsett eða gert - svo sem þjónustulund og notalegheit í öllu viðmóti.
Ég ætla í sjálfu sér ekki að tíunda einkenni þeirra þjóða sem ég hef heimsótt - en mig langar til að segja ykkur frá hreint óskaplega skemmtilegri heimsókn minni og okkar hjónleysa til Kraká í Póllandi. Hvílíkri gestrisni og þægilegu viðmóti hef ég aldrei kynnst á ferðum mínum - hreint með ólíkindum hve mikil rósemi og þolinmæði einkenndi viðmót íbúa Kraká - borg sem er steinsnar frá minnismerki mannvonsku og illsku - Auswitch.
Ég verð að segja að þetta var ekki síst ánægjuleg upplifun í ljósi þeirrar neikvæðu og óbilgjörnu umræðu sem hefur einkennt umræðu um Pólverja á Íslandi - við verðum nefnilega að muna að í nútíma þjóðfélagi - nútíma fjölmenningarþjóðfélagi - þá býr fólk frá úr ólíkri menningu saman og ekki má taka sér þau "einföldu þægindi" að setja alla undir sama hatt. Alls ekki.
Það er í reynd með ólíkindum að þjóð sem hefur mátt þola svo margt slæmt skuli yfir höfuð vera eins sterk og pólska þjóðin er - það eitt ber merki þess að þar býr gott fólk.
Ég hvet alla þá sem langar að heimsækja fallega borg - þar sem maður er hjartanlega velkominn - þar sem reisn og fegurð eru einkennismerki - að heimsækja Kraká í Póllandi - skoða ekki bara minningar um helför og mannvonsku heldur líka stórvirki jákvæðs hugarfars.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 28. apríl 2008
Í Bolungarvík er ekki lengur hægt að spila Bingó!
Nú er vandlifað. Sumstaðar er ástandið verra en annarsstaðar - þar er Bolungarvík í fararbroddi. Hver höndin er uppi á móti annarri og maður veit orðið vart hverjir stjórna bænum - þ.e. með einmenningslistanum A....aaaaaaaaaaaaaaa.
Og ástandið er svo slæmt að mér segja "kunnugir" að ekki sé hægt orðið að hafa bingókvöld - enginn geti orðið dregið svo hlutlaust megi þykja - og ekki sé hægt að setja saman bingóspjald með fleiri bókstöfum en einum - A.
Þeir hinir sömu segja mér að algjör vitleysa sé að leggja í slíkan peninga austur sem félagsheimilið sé, þar sem aldrei náist saman fleiri í hóp en nokkrar hræður og nær væri að opna fleiri "bakherbergi" í ráðhúsinu - ekki þyrfti einu sinni að loftræsa þau því reykfyllt sinna þau skyldum sínum best.
Já það gefur á bátinn víðar en við Grænland!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 3. apríl 2008
Nógu gott fyrir landsbyggðarlýðinn þó það dugi ekki fyrir starfsfólk Orkuveitu Reykjavíkur!
Þetta finnst mér stórkostleg lesning - verst að ekki skuli hafa verið mynd af téðri Sigrúnu - væntanlega í bleikum spandex galla - G-streng með hárið í tagli - hlaupandi á nýtísku hlaupabretti hvött áfram af vöðvastæltum einkaþjálfara. Ég sé fyrir mér löngu liðinn þá úr seríunni "DALLAS".....
Já Sigrún mín, þetta landsbyggðar lið getur sko vel sætt sig við svona lagað.
Eða svo að ég vitni nú í forstjóra Samherja sem benti manni á sem setti út á ryðið á Akureyrinni að "hann hefði nú aldrei vitað til þess að skip hafi veitt fisk á málningunni".
Kannski er þessu eins farin með græjurnar hjá ykkur í OR.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)