Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
Sunnudagur, 30. nóvember 2008
Sunnudagsbíltúr til Dalvíkur.
Sunnudagar að sumri voru dagar heimsókna með afa og ömmu - á Hól við Dalvík - þaðan sem afi átti ættir sínar að rekja. Og á sunnudögum fór ég með afa og ömmu í heimsókn.
Afi tók daginn snemma - var mættur út á bílaplan við elliheimilið á Akureyri vel fyrir brottfarartíma - að setja í gang og gera klárt. Ljósblár skódinn var í huga gamla mannsins skip sem gera átti út og það var hrein fásinna að yfirfara ekki vél og búnað áður lagt væri úr höfn. Vélin var ræst - þanin að hámarki svo að blásvartur strókurinn stóð aftan úr skódanum og lagðist yfir hverfið - enginn svaf frameftir þegar afi var að hita bílinn. Vélarhúddið var svo opnað og rær og boltar yfirfarnir með skiptilykli - ýmist hertir eða losaðir. Jafnvel smurt ef þurfa þótti.
Þegar vélin var talin heit var hóað í okkur ömmu. Ég settist í aftursætið og amma við hlið afa. En reglur voru skýrar - ekki mátti heyrast í okkur bofs á leiðinni. Afi var nefnilega við stjórnvölinn - aleinn og þurfti ekki á truflun að halda - og lét okkur heyra þær ordrur ef við voguðum okkur að vera með eitthvað blaður á leiðinni - hvað þá þegar amma vogaði sér að hreyfa við stjórntækjunum - svo sem miðstöðinn eða þaðan af mikilvægari tækjum. En auðvitað laumaði amma að mér nammi og smákökum - svona til að drepa tímann því leiðin var löng til Dalvíkur. Og leiðin var svo miklu lengri en kílómetrarnir segja til um. Afi var nefnilega ekkert fyrir það að vera að vaða eitthvað áfram í hærri gírunum - hann lét sér nægja þá tvo fyrstu og þandi skódann út í eitt.
Kýrnar hættu að bíta gras og horfðu á drynjandi skódann í forundran. Teinréttur sat afi við stýrið með hatt á hausnum og skipti sér ekki af því hvað öðrum fannst - hvert aðrir væru á leið eða hvort yfir höfuð einhver annar væri á ferðinni. Hann brunaði sína leið - að heimsækja sitt fólk á þess að líta til hægri eða vinstri.
Þegar á Hól var komið var auðvitað drukkið kaffi - gengið um hlaðið og upp í hlíðina fyrir ofan þar sem eitt sinn hafði staðið bær - minningar. Margt hafði breyst - en skyldan var einföld - ættfólk skyldi maður heimsækja - svo var það bara.
Já þetta voru ferðir. Miklar ferðir. Og þegar við komum til baka til Akureyrar og afi brunaði suður Austurveginn að elliheimilinu var betra að vera við öllu búinn - því á blússandi ferð laumaði hann sér á milli brunahana og hjólhýsis sem stóð á bílastæðinu - rétt bílbreiddin á milli og beint í sitt bílastæði. Ekkert hik og þrátt fyrir að ég henti mér kylliflötum á gólfið þá heyrði ég hvininn þegar hann smaug á milli. Alvöru parkering hjá kalli. Þetta var hans stæði - hans aðferð og hann var ekkert að reikna með að brunahani færði sig um set - hvað þá hjólhýsi.
En af einhverjum ástæðum grunaði ömmu að ekki væri nú allt með feldu í aksturslagi afa - hún spurði pabba nefnilega eitt sinn þegar við komum utan að Dalvík "hvernig er það eiginlega.....mega bílar taka fram úr manni báðum megin..." - það var nefnilega svo að auðvitað var afi ekkert að skipta sér af þeim sem fyrir aftan voru - hann keyrði bara á miðjum veginum og svo sættu menn bara færis á að skjótast frammúr - ýmist hægra megin eða vinstra.
Og ekki hef ég hugmynd um hversvegna þetta rifjaðist upp.....en svona er þetta bara - kannski afþví að ég spjallaði við Dalvíking hér um daginn...hvur veit.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 24. nóvember 2008
D - hrellimeistarinn.... - uppskriftin að góðri spennumynd? uhu...NEI!
Þegar ég var gutti þá var aðal málið að vondi kallinn væri nógu andskoti vondur. Helst svo vondur að allir væru skíthræddir við hann og ekki síst við félagarnir sem fórum að sjá hann í bíó - svona nánast í lifanda lífi - ekkert DVD eða vídeó.
Að vísu var sagan alltaf svipuð og auðvitað vissum við að á endanum yrði sá vondi drepinn. En það sem gerði þetta spennandi var að yfirleitt gekk illa að drepa kauða - hann stóð jafnan upp aftur og gerði nýja atlögu að góðu gæjunum - sætu stelpunni - sem reyndar okkur fannst ofaukið í slíkum karlamyndum.
Svo fóru myndirnar að breytast og verða menningarlegri. Fjölluðu á stundum bara alls ekkert um neitt spennandi - meira svona hversdags bull og kjaftæði. Enginn drepinn fyrir hlé - eða hálfleik einsog við kölluðum þetta á Akureyri - allir blaðrandi eftir hlé og svo var myndin búin.
Gömlu góðu myndirnar fengu stimpilinn B. Þóttu semsagt ekki nógu "góðar" - engar Ingimar Bergman myndir.
En sem betur fer eru ennþá til alvöru menn sem ekki gefast upp - halda áfram að hræða og skelfa - sumir drepa á meðan aðrir láta sér nægja að hrella.
Stallone er dæmi um slíkan gæja - A maður með alvöru vöðva sem hikar ekki við að stúta fullt af liði fyrir hálfleik - og maður úðar í sig poppkorni á meðan! Magnaður andskoti sem gefst ekki upp standandi á sextugu.
Við Íslendingarnir erum hinsvegar með einn - hann er meira svona B...eða í raun og veru D! Sá er ekki með vöðva og sólbrúnan kropp - nei bara með skvap og úfinn lubba - hrellandi mann og annan - sem endar með því að á okkur eru sett terroristalög! Og það er sama hvað á hann er baunað - hve oft maður heldur að hann gefist upp - alltaf rís hann upp á ný - með nýja hrelli! Sannkallaður D-hrellimeistari!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 24. nóvember 2008
Sem betur fer er til alvöru fólk á Íslandi - Raggagarður í Súðavík.
Hugsjónin varðandi garðinn og minningin.
Nafnið á garðinum er tilkomið vegna þess að frumkvöðull félagsins fór af stað með þetta verkefni og vinnuframlag sitt til minningar um son sinn Ragnar Frey Vestfjörð sem lést í bílslysi í Súðavík 17 ára gamall, 19. ágúst 2001.
Það er hennar vilji að minningin um drenginn hennar verði til þess að fjölskyldugarður rísi á Vestfjörðum og skapi þannig fleiri tækifæri fyrir foreldra og börn til að eiga ánægjulegar stundir saman. Minningin um ungan dreng sem ekki fékk tækifæri til að lifa og verða fullorðinn maður.
Garðurinn á að vera vettvangur til að eiga ánægjulega stund með börnum okkar og barnabörnum, þar sem fjölskyldan getur glaðst saman. Garðurinn er ætlaður sem góður og gleðilegur vettvangur til að hugleiða út á hvað lífið gengur eða hvað sé okkur dýrmætast í lífinu, hjá hverjum þeim sem heimsækir garðinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 23. nóvember 2008
Undarleg tímasetning hjá Jóni Ársæli - fyrst Björgvin...nú Geir...!
Ekki ætla ég að horfa á þáttinn hans Jóns Ársæls í kvöld. Þó er ég með stöð2 - þó dýr sé - og kreppa.
Nei - ég ætla ekki að láta bjóða mér þetta sjónvarpsefni - ekki frekar en þegar Björgvin var í hinum sama þætti í miðju bankahruninu - að mæra sjálfan sig og aðra fyrir frábær störf.
Tímasetningin er fáránleg.
Þó ánægjulegt sé að heyra í auglýsingum fyrir þáttinn að Geir sofi vel og allt það. Ég hef hef hinsvegar meiri áhyggjur af því hvað hann gerir þegar hann er vakandi - og því miður sýnist mér hann gera fátt af viti - svona hálfu-viti í það mesta.
Jón minn Ásgeir - haltu þig við alþýðumanninn sem hefur eithvað að segja - þetta er asnalegt á þessum tímum - ótímabært í það minnsta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 22. nóvember 2008
Við berum öll ábyrgð - og við almenningur þessa lands viljum axla þá ábyrgð með kosningum strax á næsta ári!
Að Samfylkingin og stjórnarandstaðan segja: Þetta er ekki okkur að kenna - ástandið er þeim að kenna sem voru í ríkisstjórn!
Málið er að þetta er okkur öllum að kenna. Okkur sem kusum þetta fólk til stjórnar - kusum þetta fólk á Alþingi - og okkur hinum sem gerðum ekki frekari kröfur um að málum væri stjórnað á betri hátt. Þetta er okkur öllum að kenna. Öllum
Og enginn vill taka ábyrgð nema við almenningur - og það gerum við með því að mótmæla og krefjast þess að úr þessu sé bætt. Og Davíð básúnar syndugur selurinn og Geir hegðar sér trúður þegar hann passar og ver helvítis bullið í Davíð Oddsyni - og það gerir hann með kjafti og klóm á meðan Ingibjörg segist ekki bera ábyrgð á neinu á fjölmennum hallelúja fundi Samfylkingar.
En enginn hlustar á almenning þessa lands sem krefst þess að bera ábyrgð og gera það eina sem hægt er - hreinsa út og kjósa á ný. Annað er bara ekki í stöðunni - fólk hlýtur að sjá það. Ekki endilega strax en á næsta ári. Og þá munum við Íslendingar svo sannarlega taka okkar ábyrgð og velja rétt.
Það er mín skoðun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 19. nóvember 2008
Yxna kýr í Árneshreppi fórnar lífinu fyrir ástina!
Ekki er víst að Óli frá Gjögri samþykki staðhæfingu titilsins. En við Bragi teljum að öll rök bendi til þess.
Og sagan er þessi.
Í þá daga var sláturhús í Árneshreppi. Og þaðan var Óli á leið - ekki eftir slátrun heldur dyttaði hann að vélbúnaði - þegar þessi mikla örlagasaga átti sér stað. En Óli þótti lipur við skiptilyklasettið og skvísurnar. Brilljantíngreiddur í leðurjakka - með sígarettu í munnviki ók Óli um á Ford Cortina. Hann var töffari - stælgæi á ströndum - brunaði um á Cortínu - flottasti gaurinn.
Á sama tíma og Óli ekur heim á leið fer yxna kýr um sveitina með látum - hvorki helsi né girðingar komu í veg fyrir kall náttúrunnar og kusa skyldi bola finna - sama hverju sætti. Og svo gerist það að í vit hennar berst angan Óla - Kölnarvötn og hormón - karlmennskuilmur einhleyps manns sem heillað hafði margar stúlkurnar á böllunum fyrir Vestan - svo mjög að þær runnu til í sætum og kiknuðu í hnjám.
Í það minnsta kjósum við kaffistofugestir að túlka þetta svona. Og það hlýtur að vera rétt. Garðar kímir - Bragi kinkar kolli.
Og kusan klikkast þegar hún sér Cortínuna koma blússandi - tekur á rás með helsi um hálsinn og bóndann úti í buskanum óafvitandi af fyrirhuguðum ástarfundi. Og Óla rekur í rogastans - og Cortínan nauðhemlar. Ástarfundurinn verður dramatískur í meira lagi - svo dramatískur að beljan datt niður dauð. Steindauð.
Og eftir sat Óli í bílstjórasætinu - orðinn fyrsti nautabaninn í Árneshreppi!
Ónáttúran varð beljunni að bana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Mánudagur, 17. nóvember 2008
"Það er allt af fara til helvítis - þetta getur ekki gengið svona"!
Bragi gusar þessu yfir mig þegar ég rek inn nefið í Vélsmiðju Ísafjarðar.
Hann sat í bláum samfesting - inni á kaffistofu. Kaffistofan í bárujárnsklæddu járngrindarhúsi. Það er líka ágætt því þetta er smiðja - full af tækjum til járnsmíða. Fyrir hinn venjulega mann sem þar kemur inn er ekki laust við að maður fyllist lotningu - slík er skipulögð óreiðan að maður í raun dáist að öllu saman. Hér er allt til alls og endalaus umferð af mönnum með brýn erindi - allskyns vandamál. Vandamál sem fá skjóta lausn hjá þeim feðgum sem þar ráða. Og sumum úrlausnunum fylgja líka góð ráð frá Braga líkt og þegar hann sagði mér í óspurðum fréttum að allt væri að fara til helvítis - bara á næstunni - og svo fóru bankarnir.
Yfirbyggingin í fyrirtækinu er lítil og kontórinn eftir því. Kontórinn er nefnilega bara lítil skonsa undir stiga - lítill stóll við lítið borð. Og í skonsunni situr stjórinn og fer yfir mál dagsins - skrifar reikning eða hringir í umboð - allt eftir þörfum. Og þetta er hann búinn að gera um langa hríð. Greinilegt er að stærðin skiptir ekki máli - nei - vinnusemi - eljusemi og hreinskipti eru hér einkennisorðin.
Og ofan á þessum litla kontór er kaffistofan fræga - þangað sem karlarni koma til að ræða málin.
Ekki er íburður á kaffistofunni - sem kölluð er Bragakaffi í höfuðið á stjóranum. Hefðbundin kaffistofa með borði og nokkrum stólum. Þó stólarnir séu hver öðrum líkir þá það ekki svo einfalt. Nei ekki aldeilis. Fara verður mjög varlega þegar valinn er staður til að setjast. Vissir gestir eiga sína stóla - Bragi á sinn og ekki má með nokkru móti setjast í þá.
Þessu má ekki breyta.
Hinir stólarnir eru öðrum til taks og notkunar. Allt eftir því hve margir mæta. Stólunum er aldrei fjölgað. Þeir bara standa sem ekki fá sæti. Svo er það bara.
Þennan tiltekna dag sem ég rek inn nefið og fæ orðsendinguna frá Braga og sem ég nota í titlinum eru þarna þeir Óli frá Gjögri, Maggút og Garðar auk Braga og minna mikilvægra kaffigesta.
Bragi er stjórinn - fer hægt yfir enda slæmur í hnjám - treystir ekki læknum og því ekki að ræða það að láta draga úr lið og setja gervi í staðinn - skrítið þegar maðurinn sjálfur er jú oft að skipta um "liði" í hinum og þessum vélum. En hann veit betur - engum að treysta nema sjálfum sér og allra síst eins og staðan er í dag - allt gjörsamlega að fara til helvítis. Bragi er brúnaþungur maður og allsendis óhræddur að segja sína meiningu - sem rétt - þetta er jú hans meining og hann hefur haldið henni fram svo árum skiptir. Og hvað er að gerast - allt stendur heima - en hver hlustaði? Enginn..... og við þessir ungu menn vitum ekkert - kunnum vart að vinna og gerum ekkert af viti.
Honum á vinstri hönd er Garðar. Garðar er gamall bankamaður - elegans og kurteis - kíminn á svip ljós yfirlitum og með gleraugu. Líklegast myndu margir segja að hann væri þéttvaxinn - feitlaginn jafnvel - en hann er bara með sínu lagi og ekkert öðruvísi en það. Hann hefur alltaf með sér sitt kaffibrauð - svona til öryggis ef ekkert er í boði. Kúnstugur karakter sem lætur ekki allt uppi - á sér leyndarmál sem hinum körlunum finnst gaman að geta sér til um - þá brosir Garðar og verður ennþá dularfyllri á svipinn. Fussar svo og sveiar og segir þetta bara getgátur sem ekkert sé að marka.
Honum á vinstri hönd situr svo annar - hávær og ávalt með skoðun á öllu "þó hann viti það ekki" eins og hann segir sjálfur. Það heyrist hátt í honum - og orðin koma í gusum yfir þann sem hann talar við - með handabendingum og sveiflum - allt eftir mikilvægi orðsendingar. Ruglast oft í rýminu og rífst og skammast yfir allsendis óskyldum málum - enda skiptir það svo sem ekkert máli - hann er þarna til að rífast og ræða málin - taka þátt og lát karlana heyra það!...þetta er Maggút. Maggút á það til að taka sér pásur frá Bragakaffi. Lætur þá ekki sjá sig svo dögum og vikum skiptir. En á þó undarlega oft leið framhjá kaffistofuglugganum á bílnum - á kaffitímum.....og einhver verður hans var þá fær hinn sá sami hnefann steyttan á móti sér - svo brunar Maggút áfram. Nú já, segir þá Bragi. Svo kemur að því að Maggút hægir vel á bílnum og flautar fyrir utan - og steytir hnefa - þá vita kaffistofugestir að nú styttist í að Maggút gefist upp á mótmælum og komi inn - yfirleitt bara dagaspursmál. "Nú jæja, þá fer hann að birtast" segir Bragi og hlær.
Og svo er það Óli frá Gjögri. Léttstígur og lipur - einhleypur strandamaður sem eyddi allt of mörgum árum fyrir sunnan. Svo leiddist honum "ljóta" fólkið og "leiðinlega" fyrir sunnan að þegar hann kom heim í Árneshreppinn stóða hann lengi fyrir framan góðan spegil og spjallaði við sjálfan sig - "til að sjá eitthvað fallegt og heyra eitthvað skemmtilegt" - og ekki lýgur Óli - sem þó elskar að trekkja upp Maggút. Fær sér smók frammi í smiðju - þurfti að hætta með pípuna út af hósta og tók þá upp sígarettureykingar. Ákaflega léttur og skemmtilegur náungi sem gaman er að spjalla við - og svo auðvitað gerir hann í að æsa Maggút. "Og ekki lýgur Óli frá Gjögri" segir alltaf Maggút - sem núna er í sjálfskipaðri útlegð. Faðmaði þó Óla að sér og sagði hann vera fínan - ólíkt hinum helvítis fíflunum sem ekkert væri að marka. Svo rauk hann út.
Já - lífið er makalaust á Bragakaffi.
Karlarnir hver öðrum skemmtilegri og kúnstugri. Kynslóð sem gengið hefur í gegnum margt - sem skilaði af sér góðu búi sem mín kynslóð tekur við og kaffifærir.
Kúnstugir karlar á ekta kaffistofu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 17. nóvember 2008
Skilaboðaskjóðan í uppfærslu ísfirskra ungmenna
Í Edinborgarhúsinu er verið að sýna Skilaboðaskjóðuna eftir Þorvald Þorsteinsson. Það eru ísfirsk ungmenni sem eru í öllum hlutverkum og sjá um tónlistarundirleik. Sýningin er sett upp af því tilefni að Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar er 15 ára.
Krakkarnir voru undir styrkri stjórn fagmanna á öllum sviðum og er árangurinn eftir því - úr varð metnaðarfull og vönduð sýning sem enginn má láta fram hjá sér fara.
Uppselt hefur verið á allar sýningar en aukasýning hefur verið sett inn í dag (mánudag) kl. 17:00. Næstu sýningar eru svo í kvöld kl. 20:00 (uppselt) og þriðjudagskvöld kl. 20:00 en þá eru lausir miðar.
Ég hvet alla sem vettlingi geta valdið að fara og sjá krakkana okkar í þessari skemmtilegu sýningu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 15. nóvember 2008
Að axla ábyrgð með afsögn er bara gamaldags - enginn gerir svoleiðis nútildags.
Við Íslendingar erum moderne. Við erum ekki ein hallærisleg eins og annað fólk í öðrum löndum. Við viljum Íslenskt eins og ein búðin auglýsir - sem selur Hugo Boss. Við kunnum í raun flest svo miklu betur.
Og eitt af því er að vita að "afsögn er gamaldags". Stjórnarliðarnir sitja sem fastast. Það er bara gamaldags lúði - aðkomumaður í Reykjavík - sem segir af sér. Hinir sitja sem fastast og má segja að í raun sé leitt að ekki skuli vera keppt í nautaati hér - Geir og Davíð myndu sitja hvaða naut sem er!
Þess vegna veit ég að ekki verða neinar breytingar í Íslenskri pólitík. Þrátt fyrir að sex þúsund manns mæti á Austurvöll - fimmhundruð á Akureyri og enginn á Ísafirði. Það er nefnilega svo gamaldags að taka ábyrgð.
Við vorum nefnilega í útrás - klædd Hugo Boss og Chanel - þroskinn þó á torfbæjarstigi - héldum að við vissum allt svo miklu betur - hrokafull í "Sumarhúsum" sem brátt urðu að Vetrarhúsum.
Eftir situr þjóð sem betlar ölmusu af nágrönnum sínum - frosin föst á rassgatinu í "túninu heima".
("Sumarhús" og "túnið heima" er fengið að láni hjá Halldóri Laxness).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Miðvikudagur, 12. nóvember 2008
Norskir brjálaðir út í Óla forseta - Maggút brjálaður út í Óla frá Gjögri...hvar endar þetta eiginlega?
Er ekki best að þessir Vestfirsku Ólar þegi?
Annar Ólinn tekur frændur vora svoleiðis í gegn að norski sendiherrann fór skælandi heim. Klagaði í Konna kóng sem hringdi í norska moggann og allt varð vitlaust. Óli búinn að lána keflavíkurvöllinn. Rússarnir koma og Pútín hertekur bláa lónið. Gamanið búið og Ísland orðið Gúlag.
Hinn Ólinn slær því fram á kaffistofunni að þeir gömlu kallarnir sem eiga nóga peninga skuli bara borga skuldirnar - hafi ekkert annað með peninginn að gera. Maggút brjálaður - harðneitar að borga og segir Óla vera djöfuls asna. Rýkur út. Nú beitir hann táknmáli á Óla þegar hann mætir honum - hægri hnefi á loft en vinstri höndin sleikir hálsinn líkt og hnífur. Óli skilur sendinguna og Maggút kemur ekki í kaffi. Drekkur ekki kaffi með "helvítinu honum Óla frá Gjögri". Ástandið hroðalegt. Einsog í Gúlaginu.
Er ekki best að þessir Ólar þegi?
Það höldum við Maggút.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)