Yxna kýr í Árneshreppi fórnar lífinu fyrir ástina!

Ekki er víst að Óli frá Gjögri samþykki staðhæfingu titilsins. En við Bragi teljum að öll rök bendi til þess.

Og sagan er þessi.

Í þá daga var sláturhús í Árneshreppi. Og þaðan var Óli á leið - ekki eftir slátrun heldur dyttaði hann að vélbúnaði - þegar þessi mikla örlagasaga átti sér stað. En Óli þótti lipur við skiptilyklasettið og skvísurnar. Brilljantíngreiddur í leðurjakka - með sígarettu í munnviki ók Óli um á Ford Cortina. Hann var töffari - stælgæi á ströndum - brunaði um á Cortínu - flottasti gaurinn.

 

Á sama tíma og Óli ekur heim á leið fer yxna kýr um sveitina með látum - hvorki helsi né girðingar komu í veg fyrir kall náttúrunnar og kusa skyldi bola finna - sama hverju sætti. Og svo gerist það að í vit hennar berst angan Óla - Kölnarvötn og hormón - karlmennskuilmur einhleyps manns sem heillað hafði margar stúlkurnar á böllunum fyrir Vestan - svo mjög að þær runnu til í sætum og kiknuðu í hnjám.

Í það minnsta kjósum við kaffistofugestir að túlka þetta svona. Og það hlýtur að vera rétt. Garðar kímir - Bragi kinkar kolli.

Og kusan klikkast þegar hún sér Cortínuna koma blússandi - tekur á rás með helsi um hálsinn og bóndann úti í buskanum óafvitandi af fyrirhuguðum ástarfundi. Og Óla rekur í rogastans - og Cortínan nauðhemlar. Ástarfundurinn verður dramatískur í meira lagi - svo dramatískur að beljan datt niður dauð. Steindauð.

Og eftir sat Óli í bílstjórasætinu - orðinn fyrsti nautabaninn í Árneshreppi!

Ónáttúran varð beljunni að bana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

 skemmtileg saga

Hólmdís Hjartardóttir, 19.11.2008 kl. 23:16

2 identicon

Þessi saga er ágæt. Væri ekki betra fyrir flæðið í sögunni ef smá breyting væri gerð?

Þannig að:

"En Óli þótti lipur við skiptilyklasettið og skvísurnar."

yrði að:

"En Óli þótti jafn lipur við skiptilyklasettið og skvísurnar.

Helgi Kr. Sigmundsson (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 11:38

3 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Góð saga

Haraldur Bjarnason, 20.11.2008 kl. 18:06

4 identicon

Óli stendur fyrir sínu það er annað en sumir Ólar í hærri stöðu

Guðrún Vestfirðingur (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 09:52

5 Smámynd:

  Góður penni.

, 21.11.2008 kl. 10:09

6 Smámynd: Björgvin Gunnarsson

Ég segi nú bara eins og Óli myndi segja: Hebbði ekki beljan kastað sér fyrir bílinn hebbði ég aldrei drepið hana!

Skemmtilegur karakter hann Óli, Jakob er fínn en öðruvísi :)

Hefurðu annars heyrt söguna af því þegar Torfi gamli (skólastjóri) ætlaði að skemmta krökkunum í skólanum fyrir jólafrí með því að kveikja á stórum flugeldum sem krakkarnir héldu á inni í skólastofu! Hebbði Óli ekki komið með mjólkurpóstinn, þá hebbði Finnbogastaðaskóli brunnið í annað sinn. :)

Björgvin Gunnarsson, 23.11.2008 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband