Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Fullkomið æðruleysi - fræknar frænkur mínar tvær.

Síminn hringdi hjá mér í gær og var það móðir mín að segja mér frá því að viðtal yrði við frænkur mínar tvær sem fengið hafa það hlutskipti í lífinu að berjast við óþekktan sjúkdóm sem veldur alvarlegum skaða á vöðvakerfi líkamans. Lömun. Auðvitað hefur fjölskyldan fylgst með þessari baráttu í gegnum árin - ég meira í fjarlægð þó svo að ég og pabbi þeirra systra, Snædísar og Áslaugar séum mikið skyldir - systra synir.

previewOg í gærkveldi sat ég með tárin í augunum og horfði á kastljósið - og tárin áttu ýmist upptök sín í sorg, stolti eða aðdáun - slík var upplifunin. Æðruleysi systranna var með eindæmum.

Ég vil benda þeim sem ekki sáu kastljósið í gær að skoða það hér á netinu - það er öllum hollt að sjá hvernig ungar systur takast á við hreint óskiljanlega erfiðleika - en gera það af slíkum dug að ég hef aldrei vitað annað eins.

Loks fannst mér umræðan snúast um eitthvað sem skiptir máli - ekki pólitískt argaþras eða um spillingu í viðskiptum - nei, í gær fjallaði Kastljósið um það sem okkur öllum finnst svo sjálfsagt en sumir þurfa að hafa svo mikið fyrir - lífið sjálft.

 

 


Að fyllast þjóðarstolti.

Íslenska landsliðið er víst að fara að keppa á EM í handbolta. Yfir því á maður líklegast gleðjast - fyllast þjóðarstolti. Enda með eindæmum hvað íslenska landsliðið getur sýnt á slíkum mótum - ýmist skíttapað eða unnið ótrúlega sigra. Eiginlega magnað alveg.

Ég á þó ekki von á verðlaunasæti. Ekki núna og reyndar bara aldrei. En af þjóðarstolti mun ég fyllast - yfir því að við hreinlega spilum handbolta við þá bestu. Ég verð haugfullur af þjóðarstolti.

Ég fylltist líka af þjóðarstolti í Bónus í dag. Á meðan konan raðaði í körfu stóð ég og las Séð og Heyrt. Þar á forsíðunni mátti sjá fyrirsögn um nafngreinda stúlku sem fór í sleik við Tarantino - leikstjórann fræga. Stórkostleg frétt. Þær voru víst fleiri sem reyndu og kannski fengu. Og þarna stóð ég stoltur og las.

Já það eru uppgangstímar í almannatengslum okkar íslendinga.

Áfram Ísland!!


Af "eignasöfnum".....

Mikið er gaman að heyra fjárfestana tala um "eignasöfnin" sín. Ég auðvitað ákvað í byrjun nýs árs að gera hið sama - sagði við konuna að ég þyrfti að skreppa niður í kjallara að fara yfir "eignasafnið".

Fór svo niður í kjallara.

Og eignasafnið - já, það var nú kannski af öðrum toga en margrædd "eignasöfn" auðkýfinganna - reiðhjól, skór, verkfæri og ýmislegt sem safnast á mann og yfirleitt endar í kjallaranum......enda fór ég þangað þegar ég ætlaði að fara yfir "eignasafnið".

En því miður endaði stór hluti í ruslapokum og líklegast löngu brunnið í logum Funa fyrir Vestan. Eignasafnið hefur rýrnað - brunnið upp líkt og hlutabréfin. En ég á samt hjólið og verkfærin og eitthvað af skóm......Errm

Já, svo er nú það.


Hverra manna ertu þú vinur?

Ég er Akureyringur í húð og hár þó ættir eigi ég að rekja í Svarfaðardal og austur á land. Og þegar ég var að alast upp á Akureyri og mætti manni sem tók mig tali þá hófust viðræðurnar ávalt á þessum orðum:"hverra manna ert þú vinur".

Þetta þótti ekkert tiltökumál enda eðlilegt að vita hverra manna menn eru. Enginn áfellisdómur - nema kannski ef maður var ekki "af réttum ættum" að mati viðmælanda. En ekki spurði maður til baka...."en þú"... nei það bara var ekkert svoleiðis.

Og ég man líka vel eftir því þegar ég var að stíga mín fyrstu skref í atvinnulífinu - þ.e. sem sumarstarfsmaður með skóla - varla stærri eða merkilegri en brunahani í götukanti - nú, þá hafði pabbi samband við kennidíana og ég var settur sem aðstoðarmaður Geirsa í Tryggvabrautinni - dældi bensíni á bíla og ýmislegt sem til féll. Það þótti bara allt í lagi að pabbi reddaði mér þeirri vinnu - enda bjó jú einn kennidíinn í götunni heima og var ágætis kunningi pabba. Það var bara svoleiðis.

Nú hin síðari ár - sérstaklega eftir að ég menntaði mig - þá hef ég lítt getað beitt pabba fyrir mig - enda karlinn kominn á eftirlaun og hefur engin ítök - og kennidíarnir búnir að selja. Ég hef því þurft að telja upp á pappír allt sem ég hef lært og gert og sem ég tel skipta máli í það og það skipti. Og stundum hefur það bara ekki dugað til - ég ekki passað fyrir viðkomandi starf - þótt hæfur - en bara annar sem var hæfari - út af betri menntun og meiri reynslu. Ég hef auðvitað tekið því enda engin ástæða til annars.

En það er þetta með hæfnina. Mér virðist nefnilega hæfni vera svo merkileg. Það sem einum finnst gott - þykir öðrum slæmt. En auðvitað er mikilvægt að hæfnin sé tengd því sem verið er að leita í fari umsækjenda. Ekki er til dæmis gott að ráða dýralækni sem mannalækni þó auðvitað megi fullyrða að sumir sjúklinganna séu "bölvaðar skepnur" og sumir lítt skyni bornir. En það bara passar ekki. Frekar en að ráð glæpamann sem lögfræðing - jafnvel þó að sá hinn sami hafi áralanga reynslu og margoft komist í kast við lögin.

Maður getur nefnilega verið hæfur þó annar sé kannski bara miklu hæfari. Sama hverra manna maður er.

En á Akureyri gilda greinilega ennþá sömu gömlu gildin og spurningin "hverra manna ertu" hljómar líklegast enn.

Nóg um það.


Á láréttu skriði um Ísafjarðarbæ.

Ég átti erindi í verslun í miðbæ Ísafjarðar. Ekkert er merkilegt við það en hinsvegar þurfti ég að beita nánast óhefðbundnum aðferðum við að komast í búðina. Í það minnsta óhefðbundnum miðað við tíma dags og það að vera blá edrú.

Ég fór um að mestu láréttur -

En á Ísafirði er bæjarstjórnin að virðist svo "snyrtileg" að ekki er borinn "skítugur sandur" á gangstéttar bæjarins. Í það minnsta ekki á Eyrinni. Kannski eru aðrar aðstæður eru innar í firðinum þar sem "stjórinn" býr...hvur veit - ekki ég enda legg ég ekki láréttur leið mína lengra en þurfa þykir.

En auðvitað sér maður bæinn í nýju ljósi þegar maður fer svona láréttur á milli staða - sérstaklega á eyrinni. Þá kemur í ljós hve herfilegt ástand er á götum bæjarins - þær eru hræðilega ósléttar og malbikið götótt. Ekki nóg með að það sé vont yfir höfuð að detta og liggja láréttur í hálkunni - það bætir ekki úr skák að vera hálfur ofan í holu og komast vart upp - bara hreint verulega óþægilegt og sjálfsagt stórhættulegt til lengdar.

Já ég held að nú verði eitthvað að gera - þetta er ekki fólki bjóðandi sem vill á venjulegum degi komast á milli staða standandi í lappirnar.

Og hana nú!!


"Guð sagði: éttu kærustuna þína"......

3368563067....sagði Christopher Lee McCuin, 25 ára Texasbúi þegar lögreglan kom heim til kappans. En hann hafði skömmu áður hringt í lögguna til að láta vita af morðinu.

Á eldhúsborðinu var biti úr stúlkunni á gaffli - en úr kærustunni hafði hann eldað "dýrindis" pottrétt og mátti sjá annað eyrað fljóta ofan á pottréttinum í pottinum.

Veslings lögreglumennirnir litu hver á annan og sögðu "...fyrirgefðu, hvað sagðirðu" ...við þessar fréttir.

En þetta með eyrað finnst mér magnað.....varla er það góður biti....

Úff....mannskepnan.

meira hér


Úr sér gengin friðunarstefna íslenskra stjórnvalda.

Ég var staddur á Laugaveginum í dag. Svo sem ekkert merkilegt með það nema hvað að nú er allt vitlaust við veginn atarna - ekki út af veginum sjálfum heldur út af þremur gömlum húsum sem á að rífa - .....eða átti að rífa. Borgin gaf leyfi - þétta byggð og byggja nýtt - upp í loftið og það gamla á að víkja er motto meirihlutans nýja.

Þá urðu friðunarsinnar reiðir og sáu til að húsfriðunarnefndin kom saman....skrafaði.... og lagði til við ráðherra að friða húsin þrjú. Að öðrum kosti myndi "heildarmynd" Laugarvegarins glatast og yrði aldrei annað en svipur hjá sjón - og fólk myndi aldrei gera sér grein fyrir því hverslags hús hefðu einu sinni staðið við Laugaveginn. Og nú er að sjá hvað ráðherrann gerir. E.t.v. leitar hún álita samráðherra sinna um hvernig sé best að "fara eftir" ráðum nefndarinnar.

Ég persónulega er ekkert á móti friðunum og varðveislu - alls ekki - og er reyndar ekki einu sinni dómbær á hvort að beri að varðveita þessi hús á Laugaveginum.

En ef í það verður lagt þá vona ég að vel verði að verki staðið - og til að það gangi eftir er hægt að hafa til hliðsjónar Grímseyjarferjuna, sem var jú óttalegt skarn en fékk "andlitslyftingu".....svo um munaði.

En það er þetta með friðunina.

Ýmislegt á auðvitað að friða. Ég er t.d. mjög hlynntur því að gömul hús séu friðuð - að dýr í útrýmingarhættu séu friðuð - að viðkvæm náttúra sé friðuð og þar fram eftir götunum.

En einhversstaðar verður nú samt að draga mörkin.

Hinsvegar finnst mér ótæk þessi "vegafriðunar" stefna stjórnvalda, sem í gegnum árin hafa friðað vel flesta vegi um Vestfirði - og reyndar víðar. Því erfiðari og hættulegri sem vegirnir eru - þeim mun meira er "lagt í" að friða þá - eða ætti ég kannski að segja því minna er gert í að nútímavæða þá. Líklega er "friðunin" svo að komandi kynslóðir fái að upplifa það hvernig var í "gamladaga".

Já vegafriðunarstefnan er úr sér gengin - og kominn tími á "extreme make over...."


Hver ræður - hver er ráðinn?

Mikið ósköp er það leiðinlegt þegar svo virðist sem "óhæfara" fólk er ráðið í auglýstar stöður hjá hinu opinbera. Meira að segja nefndir sem meta eiga hæfni eru "óhæfar" - eða í það minnsta má túlka það sem svo þegar ekki er farið að ráðum þeirra.

En hér er um ákaflega flókið og viðkvæmt mál að ræða. Margt býr að baki og eitt af því sem vega þarf og meta er hvort vegur meira: reynsla eða menntun?

Það er auðvitað svo að fólk sem fer í langskólanám missir af ákveðinni reynslu á meðan setið er á skólabekk - en fær í staðinn menntun sem þeir sem öfluðu sér reynsluna hafa ekki. Svo þarf að vega og meta hvort skilar meiru. Og satt er það að reynsla er ómetanleg - já, eins og nám getur verið líka..... en það er bara svo miklu erfiðara að setja mælistiku á reynslu en menntun. Eða er kannski menntun reynsla....eða reynsla menntun? Máltækið segir "svo lengi lærir sem lifir"...

Ég man eftir því fyrir nokkrum árum að þessi umræða kom upp í Svíþjóð en þar höfðu átt sér stað áherslubreytingar hjá mörgum fyrirtækjum sem voru að "nútímavæða". Ungt fólk með fínar gráður í viðskiptum og allskyns hagfræði kom út á vinnumarkaðinn og ungu "bisness" mennirnir og konurnar leystu þá eldri af hólmi - þessa með reynsluna - en sem höfðu ekki menntunina. Útkoman varð ekkert sérstök og ekki endilega sú sem átti að verða - nú af því að menntun kom ekki í staðinn fyrir reynslu....

Spekúlantarnir sem fylgdust með úr fjarlægð komust að því að heil "starfsstétt" hefði verið þurrkuð út úr Sænskum fyrirtækjum "reynsluboltarnir" - þessir sem ekki endilega voru alltaf í sviðsljósinu en unnu sína vinnu af mikilli þekkingu - þekkingu sem hlaust af mikilli reynslu.

Ekki er ég þó endilega að segja að hið sama eigi við um umdeildar ráðningar síðustu mánaða - en þar hefur jú verið lagt "huglægt" mat á reynslu - sum reynsla sögð vera betri en önnur.  

Ég spyr því - er ekki ráð að settar séu skynsamlegar viðmiðunarreglur um slíkar ráðningar - er ekki hjákátlegt að "sérfræðinefndir" skuli vera stofnaðar til að fjalla um hæfni og sem svo ekkert er farið eftir og nefndirnar þá í raun dæmdar "óhæfar"....?

Verst er auðvitað að persóna þeirra aðila sem sækja um störf og stöður í góðri trú dregst oft á tíðum inn í málið - sem er mjög slæmt og ótækt.

Mér sýnist þetta vandamál vera þverpólítískt og spyr því: Hver er lausnin?....


Hún birtist mér í draumi - óboðinn gestur í draumi saklauss manns.

Ég ætlaði að leggja bloggið á hilluna. Var alveg sáttur við það enda skrifað nokkra pistla á liðnu ári. Ekki alla málefnalega eða skemmtilega líkt og gengur - en skrifaði þá samt og birti undir nafni.

Og svo gerist það. Í draumi birtist hjá mér eldri kona. Allsendis viss um að ég væri að gera rangt með þessu - að hætta að blogga. Mér auðvitað dauðbrá enda ekkert þægilegt þegar fólk er að troða sér inn í annarra manna drauma. Gagnrýnisvert. Ég sofandi í mínu rúmi á mínu heimili og gömul kerling að þvælast um í huga mínum og húsi.

Ég auðvitað vaknaði sem var jú eina leiðin til að losna við kellu sem sat við sinn keip - "byrjaðu að blogga" - sagð'ún í sífellu.

Kannski eru þetta eftirmálar lesturs á nýju bók Einars Más "rimlar hugans" - en þar treður hann sér eftirminnilega inn í sögu annars fólks.

Hvað veit ég? - en ég þori bara ekki öðru en að fara að "skipun" konunnar og guð hjálpi mér ef hún reynist vera "minn innri maður".

Gleðilegt ár.

 


Gleðilegt ár og takk fyrir allar heimsóknir á bloggið á liðnu ári. Nú er mál að linni.

Ég hef haft gaman af því að skrifa hugsanir mínar og á stundum að viðra skoðanir hér á blogginu. En nú er mál að linni. Ég mun á næstu dögum loka blogginu.

Bestu kveðjur,

þorleifur.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband