Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Ógeðslegur kjúlli á kránni - hver er staðan hér?

Ég hef alltaf dáðst að Svíum fyrir opinskáa umræðu um málefni er skipta okkur neytendur máli. Hér heima er hinsvegar þögnin sem ræður ríkjum og nýjasta dæmið er þegar það þurfti töluverða tilburði til að fá upplýsingar um hvaða veitingahús höfðu nýtt sér lækkanir á sköttum til að græða meira.

Það nýjasta er hvernig krár í Svíþjóð láta sig hreinlæti og umgengni um matvæli almennt sig litlu skipta - kúnninn fær nefnilega aldrei að koma "baksviðs" og fær kjúklingasamlokurnar afgreiddar snyrtilegar á diski. En við rannsókn kom í ljós að pottur er víða mölbrotinn eins og þessi mynd sýnir glöggt

kjulli

Hver er staðan í íslenskum krám? Aldrei heyrir maður nokkuð minnst á þessa hluti hér á landi - eða er kannski ekkert fylgst með þessu?

tja, varla trúi ég því að við Íslendingar séum ólík nágrönnum okkar hvað þetta varðar....?

Kíkið endilega á þetta:http://www.gt.se/nyheter/1.969549/den-har-kycklingen-ska-bli-sallad

 


Skemmtileg hefð fyrir jól í Vestrahúsinu á Ísafirði.

Frá því að við fjölskyldan fluttumst hingað Vestur höfum við fengið að taka þátt í ákaflega skemmtilegri hefð sem skapast hefur í Vestrahúsinu. Ólafur Halldórsson annar eiganda hússins - auk félaga síns og meðeiganda honum Gísla Jóni - hafa skapað þá hefð að hafa smá forskot á jólasæluna. Ekki er þó um hefðbundið jólahlaðborð að ræða  eða helgislepju - nei, hér er skemmtileg blanda af gamni og menningu - líklegast ætti maður að segja gamni og alvöru.

Í kvöld var dagskráin á þessa vegu. Starfsmenn hússins og gestir safnast saman í Vestrahúsinu. Ólafur hefur samverustundina með umfjöllun úr fortíð og nútíð Vestrahússins. Að því loknu er hefð fyrir að einhver starfmaður í húsinu segi frá menningu og þjóð annars lands - gjarnan þess lands sem viðkomandi hefur t.d. menntað sig í. Ég t.d. sagði frá frændum okkar Svíum hér um árið. Í dag féll sú dagskrá niður þar sem sögumaður var veðurtepptur í Reykjavík.

Svo kemur "klassíkin" - sem er orðaleikur Ólafs. En sá leikur felst í því að svara nokkrum "laufléttum" spurningum sem tengjast tungumáli þeirra Færeyinga - og satt best að segja er það hin mesta skemmtun - enda um tungumál sem okkur íslendingum finnst skrítið  - en Ólafi hugleikið. Vegleg verðlaun eru fyrir sigurvegarann - að vísu veit ég ekki hver þau eru - enda aldrei unnið!!

Að lokinni Færeyskunni - er yfirleitt boðið upp á menningu - og í ár var það heiðasveinninn hýri og ástin hans hún Ásta, dóttir Sigurðar í Dal, úr uppsetningu Litla leikklúbbsins á Ísafirði á Skugga-Sveini í leikstjórn Hrafnhildar Hafberg, sem sungust á langt uppi á ímynduðum heiðum. Ekki var laust við að fiðringur færi um Jón Sterka úti í sal þegar hann heyrði sönglið í útilegumanninum - "réttast hefði jú verið að setja´nn í bönd...." en fallega sungu þau og sýndist mér sveinninn ansi hýr. Ekki var það síst gaman fyrir þær sakir að Ólafur ber nokkra ábyrgð á því að þetta leikverk var sett upp á Ísafirði - en hann var snemma farinn að ræða þann möguleika við Hrafnhildi þegar honum barst til eyrna að hún væri leikhús menntuð.

En þá er komið að því sem aldrei er sleppt - en það er hringdans upp á Færeyskan máta - Vikivaka. Að þessu sinni stjórnaði Ólína Þorvarðardóttir dansinum með glæsibrag og var ennfremur forsöngvari og kyrjaði...."Ólafur reið með björgum fram" og við tókum undir " villir hann, stillir hann"...... Gaman var að fylgjast með fólki í þessum skemmtilega dansi...tvö skref til vinstri og eitt til hægri....flóknara má það ekki vera fyrir minn smekk....auk þess sem dansfélagarnir sitt hvoru megin við mig máttu vart við meira tá-trampi.....

Skemmtileg dagskráin endar svo með veitingum og jólagjöf frá Vestrahúsinu. Já hann Ólafur Halldórsson er einstakur maður og á þakkir skildar fyrir margt. 


Símanúmerið - 456 1414.....hjá Bush - gátan um númerið leyst.

Í nokkur misseri rákum við lítið og sætt veitingahús á Ísafirði - og þar höfðum við símanúmerið 4561414. Í raun er svo sem ekkert um það að segja - að vísu urðum við "heimsfræg" þegar einn af fastagestum okkar Henryk Broder skrifaði um okkur í hinum fræga miðli Der Spiegel - að vísu vefútgáfu - en rosalega frægum samt....

Nú - líklegast hefur Bush lesið pistilinn og séð að símanúmerið okkar er mjög þjált og gott til minnis - enda veitir kalli líklega ekki af því mér hefur sýnst hann heldur hafa fengið naumt skammtað úr aski gáfunnar. En hvað um það - hann tók númerið upp.

Og svo þegar drengurinn ungi ætlaði að hringja og panta borð á Faktorshúsinu fyrir Vestan - líklegast fyrir sig og foreldra sína - þá er ekkert skrítið að opperatörinn ruglist og telji að hann sé að meina "Faktorinn sjálfan" fyrir Westan.....og gefur samband - í 4561414. En þar var auðvitað engan mat að fá - og þegar drengurinn var spurður hvað hann ætti við þá auðvitað vissi hann að Ólafur Ragnar Grímsson er frá Ísafirði og segir því "well, Íafjörður you know.....Ólafur Ragnar Grímsson the president ....you know".....og uppúr því hefst mikil sápa......og allt út af númerinu sem Bush virðist hafa stolið númerinu okkar.......

Já - ekki óraði manni fyrir að frægðarsól Faktorshússins myndi rísa þetta hátt - en aðeins of seint fyrir okkur í það minnsta - við erum hætt þó ennþá sé auðvitað hægt að fá gistingu í húsinu góða - og ekki úr vegi fyrir að fólk bara panti sér í "the president suite".....


Af stórhættulegum lifnaðarháttum okkar Britney Spírs.

Mér dauðbrá þegar ég opnaði visir.is áðan og áttaði mig á að ég lifi hratt og alls ekki hægar en fræga fólkið - skeyti engu um hættur og háskalegan lifnað.

Og hér er ég að bera mig saman við ekki ófrægari manneskju en hana Britney Spírs - eða Binnu spíra eins og ég kalla hana.

Sem dæmi get ég sagt að núna var ég í þessum orðum skrifuðum að hesthúsa Godiva súkkulaði - fullu af unaði og sykri. Besta súkkulaði í heimi segja sumir. Og ég er ekki svo mikið ósammála.

En samkvæmt öruggum fréttum þá er það þessi súkkulaði lifnaður á henni Binnu sem gerir hana kolvitlausa. Ekki brennsinn eða pillurnar - nei - nammið og sykurinn.

Ég held að ég sé ekki eins slæmur og Binna - ég í það minnsta drekk dæet kók. Nú til að jafna út allt hitt. Svo virðist sem kenning mín um að orsakir "þéttleika" sé að leita í beinunum - að ég sé stórbeinóttur - þá sérstaklega um mig miðjan og að aftanverðu - sé bara ekki að ganga upp. Ég er því að reyna að jafna þetta út með dæetinu.

En svo eru auðvitað fleiri og örugg merki um að ég sé að klikkast eins og Binna - ég er búinn að láta snoða á mér hausinn - orðinn kíví eins og sonurinn sagði.

Og það var enginn annar en rakari fræga fólksins á Ísafirði sem gerði það - hann Villi Valli. Ég var sem betur fer ekki það klikkaður að færi á uppstílaða hársnyrtistofu - nei - ég fór til alvöru manns sem notar tæki sem heyrist almennilega í og er tengd í vegginn með þykkum rafmagnssnúrum - ekkert "hæ tekk" kjaftæði. Enda sópaði hann þessu af mér á svip stundu - hrein unun að vera viðstaddur. En Villi Valli klippir mann á meðan beðið er.

Já - nú tek ég mér tak og hendi mér í ræktina. Fer í "stúdíóið" eins og sagt er fyrir Vestan  - til Stebba Dan - og verð orðinn spengilegur eins og kallinn sjálfur um jólin. Þá er aldrei að vita nema ístran verði farin og ég nái til að hengja skraut á tréð.

Já svo er nú það.


Viðmið - samanburður - niðurstaða.

Lífið virðist oft á tíðum snúast um viðmið. Sign og heilagt verið að bera saman. Ef það eru ekki grunnskólabörnin þá eru það pólitíkusarnir - typpin og vöðvarnir. Allt skal bera saman til að fá útkomu sem síðan þarf að ræða og bera saman við aðrar útkomur. Og aldrei fæst nokkur niðurstaða - í það minnsta ekki engin vitræn sem einhverju skilar. Eftir standa "viðmiðarnir" og reyna að skilja hvers vegna í ósköpunum viðmiðin voru ekki betri - og svo auðvitað er "rétt" leitað og borið saman við það sem gefur mun betri niðurstöðu. Svo má lengi böl bæta að finna eitthvað annað verra.

Hér fyrir Vestan bera menn gjarnan saman menn og málefni. Og nú er það samgönguráðherrann. Hann er borinn saman við fyrirrennarann - og kemur ýmist vel út eða ílla  -allt eftir því hver ber saman og hvort mönnum beri yfirleitt saman um samanburðinn. Og enginn skilur neitt - enda ekki hægt að bera þá saman - annar starfandi ráðherra en hinn ekki. Og sá sem er starfandi getur jú varla hafa gert það sem hinn gerði og öfugt. En samt er rifist.

Ég man þegar Íslensk Erfðagreining flutti í nýtt hús í mýrinni - þá hélt forstjórinn ræðu. Og í ræðunni fjallaði hann um þegar háskólarektor kvartaði yfir því að hús ÍE væri of hátt - raunar svo tveimur tugum sentímetra skipti. Það fannst forstjóranum ómerkilegt og óþarfa veður gert út af slíkum smámunum - enda hér um margra hæða hús að ræða. Hann rifjaði upp sögu þegar hann eitt sinn sem ungur maður hafði verið á bílferð með félögum sínum. Tveir þeirra þrættu um hvor væri betur niðurvaxinn og svo fór að lokum að bíllinn var stöðvaður og þeir fóru út að mæla. Þá hefðu þessir tveir tugir sentímetra skipt máli - en ekki þegar verið var að bera saman húsin.....

Já svona getur samanburðurinn skipt máli.

 


Það var þá - þegar menn voru menn, bílar voru bílar og konur voru þakklátar.

Þessi orð hrutu af vörum búðarkalls hér í bæ - sem ku kynþokkafullur í meira lagi og glæsimenni. Og áfram hélt hann líkt og klipptur út úr kennslubók fyrir verðandi húsmæður þar sem senan er "eiginmaður sitjandi í hægindastól að lesa blað, með pípu í munni og eiginkonan með svuntu að færa honum drykk á fati".

Og ég fór að velta fyrir mér hvort þetta ætti við rök að styðjast - hvort að þetta væri svona ennþá? Ég reyndar er engin karlremba og geri margt af sjálfsdáðum þegar konan biður mig um það.

Og áfram hugsaði ég. Það er líklegast fullt af körlum sem bíða eftir að maturinn komi fullbúinn á borðið - rjúkandi heitur og bragðgóður. Karlmenn sem henda sér í sófann þegar heim er komið - grípa í blöðin og hafa kveikt á sjónvarpinu til að missa nú ekki af neinu. Og sussa svo á börnin - sí masandi og truflandi - fyrir þreyttan húsbóndann. Já ég var í þungum þönkum. Sonurinn hafði skellt sér í sund og ég feginn - ómögulegt þegar börnin festast fyrir framan sjónvarpið - ómögulegt.

Það er um margt að hugsa þegar heim er komið. Amstur dagsins hefur bara þessi áhrif. Húsbóndinn þarf jú að bera megnið af áhyggjum heimilisins - það hvílir jú á herðum hans. Hann heldur þessu saman þó svo að ekki megi gera lítið úr hlutverki konunnar - nei ekki aldeilis. Já og talandi um hana - ég var ekki viss um hvort að hún var komin heim. Hafði amk ekki heyrt í henni.

...Ekki fyrr en hún kallaði...."drullastu nú uppúr sófanum - klukkan er að verða níu - slökktu á sjónvarpinu og reyndu að hundskast til að leggja á borð - eða varstu ekki búinn að elda? Guð minn góður - þú yrðir hungurmorða ef færi burtu í nokkra daga....."

 


Hættulegasti morðingi Finnlands að losna út - lífstíðarfangelsi þýðir ekki lífstíðarfangelsi.

Árið er 1988. Sunnudaginn 3 júlí eru Juha Valjakkala og kærastan Marita Routalammi á ránsferð um Svíþjóð. Þegar þau um tvöleitið um morguninn stela reiðhjóli í Åmsele í Vesturbotni sést til þeirra - sá er þeirra verður var hét Fredrick Nilsson og var 15 ára. Hann og faðir hans, Sten, keyrðu á eftir þeim á bíl fjölskyldunnar. Juha og Marita biðu þeirra í kirkjugarðinum í Åmsele.

Það sem gerist næst er með hrottalegustu morðum sem um getur. Þegar feðgarnir komu í kirkjugarðinn beið Juha með afsagaða haglabyssu og neyddi þá til að biðja um náð og miskunn. Svo skaut hann feðgana. Fyrst skaut hann föðurinn og þegar hann beindi byssunni að drengnum þá grátbændi hann Juha "ekki drepa mig, ég er bara 13 ára" en honum fannst sennilegra líklegra að morðinginn myndi gefa honum grið ef hann væri bara 13 ára. Juha skaut hann líka af stuttu færi. Tók feðgana af lífi.

Skömmu síðar kemur móðirin, Ewa Nilsson,  á reiðhjólinu sínu í leit að manni og syni - hún hafði heyrt skothljóð. Þegar hún reyndi að afvopna Juha sem var í óða önn að hlaða haglabyssuna á ný - þá tókst henni næstum því ætlunarverk sitt - en Marita kom í veg fyrir það þegar hún trampaði á fingrum eiginkonunnar þar til þeir brotnuðu hver af öðrum. Þá reyndi Ewa að komast í burtu á hlaupum - en Juha náði henni og skar hana á háls.

Heima á sveitabænum var yngri sonurinn, Anders 11 ára, ásamt félaga sínum - en þeir höfðu tjaldað úti í garði og sváfu - líklega varð það þeim til lífs að þeir sváfu.

 Nú er semsagt búið að náða þennan mann. Hæstiréttur í Finnlandi hefur náðað manninn og enginn fær að vita ástæður - en slíkar upplýsingar eru ekki opnar almenningi til skoðunar fyrr en eftir ákveðin tíma. Í tilfelli Juha eru það 60 ár!

04s06-juha-da-768_j_484207bJuha 1988

Juha varð á svipstundu átrúnaðargoð fjölmargra unglinga í Finnlandi - varð"svört hetja" og stúlkurnar sendu honum bréf í þúsundavís.  

 juhapuff_484429aJuha 2007

Og nú spyr fólk sig - hví er verið að náða þennan mann - sem þó virðist ekki iðrast neins og talar um atburðinn án þess að sýna minnstu merki um slæma samvisku.

Já lífstíðar fangelsi þýðir bara "nokkur" ár í steininum" eða uþb. 6 ár fyrir hvert morðanna þriggja. Ódýrt er mannslífið.

I dag heitir hann Nikita Joakim Fouganthine og við skulum vona að honum verði ekki hleyp inn í landið - ef hann á annað borð óskar eftir því - eða er Ísland öllum opið dæmdum morðingjum og öðrum.....tja það mætti ætla eftir heimsók "líkmannsins" frá Litháen.


Veist þú fyrir hvað nafnið IKEA sendur?

Mér finnst gaman að lesa viðtöl við menn sem, þrátt fyrir að vera heimsins ríkustu, eru ekkert öðruvísi en þeir voru áður - og gleyma ekki uppruna sínum.

Ingvar Kamprad er slíkur maður - en Svíar kalla hann gjarnan "heimsins ríkasta smálending" en það er hann svo sannarlega.

Og til að undirstrika það þá skírði hann fyrirtækið IKEA = Ingvar Kamprad -  Elmtaryd och Agunnaryd en Ingvar stofnaði sitt fyrsta fyrirtæki og forvera IKEA í Elmtaryd í Agunnaryd sókn.

Já svo keyrir hann allsendis sjálfur í vinnuna og það á gömlum skóda....enginn bílstjóri...enginn BMW af dýrustu.....bara Ingvar sjálfur.

Hvernig væri nú að taka upp þennan sið á Íslandi??


Hannes Hólmsteinn fór á kostum sem Sigurður í Dal.

Mér leið einsog á leiksýningu á Skugga-Sveini þegar ég hlustaði á Hannes Hólmstein á Stöð2 fyrr í kvöld - og það þegar hann var að ausa úr viskubrunni sínum um loftlagsbreytingar eða gróðurhúsaáhrifin sem svo eru kölluð á stundum.

Jú hann veit sínu viti hann Hannes - og yfirleitt er hann að undirstrika það sem menn vita - benda á þekkingu manna er honum hugnast og treystir - segja frá fræðum og gæðum. En nú bar svo við að kallinn fór að tala um og nýta sér fávisku - vanþekkingu - ótraustar og illsannanlegar kenningar. Hann semsagt brá sér í gervi efahyggjumannsins. Þetta þýðir auðvitað á mannamáli að "fyrst hann er ekki sérfræðingur í þessum málum - nú þá er það auðvitað enginn - í það minnsta enginn jarðneskur".

En gott og vel. Gróðurhúsaáhrifin eru auðvitað ákaflega flókin og oftast er fólki bent á áhrifin sem hitnun jarðar hefur á t.d. bráðnun jökla.

Ég ætla hinsvegar að tala um annað sem sjaldnar heyrist. Það er tengsl við dýralíf sem lifir og þrífst á gróðri jarðar. Nú öll vitum við að plöntur taka upp C02 og nýta kolefnisatómin (C) sem orku - en losa síðan út 02 sem við síðan öndum að okkur sem súrefni. Við aukningu á C02 í andrúmsloftinu sem er jú sú gastegund sem einna helst veldur gróðurhúsaáhrifunum - þá eykst um leið aðgengi plantna að orkugjafanum sínum - nefnilega C02. Þetta þýðir að hver planta þarf ekki að geyma eins mikið af orku og þ.a.l. er orkuinnihald hverrar plöntu minna. En skiptir það einhverju máli? Jú, þau dýr sem lifa á viðkomandi plöntu þurfa því að éta meira - fleiri plöntur. Og ekki nóg með það - það er ljóst að plöntur muna fara að vaxa á stöðum þar sem þær annars hafa ekki vaxið - þetta mun að sjálfsögðu einnig þýða að dýr munu fara að flytjast búferlum - taka sér bólfestu á nýjum svæðum sem mun að sjálfsögðu valda gríðarlegum breytingum í vistkerfinu. Nagdýr munu að öllum líkindum stækka - borða meira og valda meiri skaða á þeim tegundum sem maðurinn ræktar t.d. kornmeti.

Og að segja líkt og Hannes gerði að við "getum ekki haft áhrif á þróunina" er eins og að segja fólki sem glímir við hjarta og æðasjúkdóma að engu máli skipti hvað það láti ofan í sig!!

Nei Hannes minn, ég held að þú sért fastur í dreymandi hlutverki Sigurðar í Dal í leikriti Matthíasar Jochumssonar þegar hann segir "vér þenkjum og ályktum en annar ræður"!!


Að vaða skít og skammast - Naggmús á sveimi fyrir Vestan.

Fátt finnst mér ömurlegra en þegar verið er skíta út náungann. Og það var ekki laust við að ég hafi fundið fyrir vorkunnsemi í garð greinarhöfundar þegar ég las grein eftir mann á bb.is í vikunni. Sá fer stórum og afar neikvæðum orðum um sitt eigið bæjarfélag og get ég ímyndað mér að þar fari bitur manneskja. Og ekki nóg með það - hann brýtur að virðist allar trúnaðarreglur við sinn eigin vinnuveitanda - og mér er til efins um að honum sé lengur vært í vinnunni....eða?

Og ekki nóg með það. Jú hann tekur sér ferð um nærsveitir, hvar hann ræðst á vin minn bónda þar í sveit. Og maður spyr sig, hvað vakir fyrir manninum - sem þó sjálfur hefur margoft þegið kaffi á bænum og slefað af þakklæti og auðmýkt - fyrir utan það að hafa um langt skeið búið og starfað í "sveitarfélaginu vonda".

Ekki vil ég nafngreina þessa vesalings manneskju - og ætla því bara að kalla hana Naggmús hans son.

En margir hafa auðvitað lent í djúpum skít. Ég man alltaf eftir því þegar góður vinur minn ætlaði að hjálpa föður sínum að sjúga skít úr haughúsi fyrir norðan. Fengu þeir feðgar lánaða haugsugu og hófu verkið. Sá gamli fór í galla og dembdi sér ofan í haughúsið - ætlaði að stýra túðunni - en piltur var á stjórntækjunum. "Ræs" heyrðist úr haughúsinu og piltur ræsir. Svo líður og bíður - og piltur kíkir ofan í haughúsið við og við. Gamli veifar til hans af ákefð og er piltur ánægður hve vel gengur og hvað faðir hans virðist vera ánægður með starfið - klofvega á túðunni. Eftir nokkra stund kemur eigandi haugsugunnar aðvífandi - horfir niður í haughúsið og tekur svo stökk að haugsugunni og slekkur á græjunni - "hvurn fjandann ertu að gera" segir hann....."þú ert með hana á dælingu - á blæstri" segir hann og mátti litlu muna að sá gamli drukknaði í skítnum. Hann náði að læsa sig klofvega á túðuna og sveiflaðist með henni um haughúsið - ýmist á kafi eða ofna skíts - ekki ósvipað Sæmundi Fróða á selnum forðum daga. En það var fegin manneskja sem dregin var upp úr skíthúsinu og hreinsuð.

Já það er betra að fara varlega þegar vaðið er í skít upp fyrir axlir.....


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband