Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
Sunnudagur, 30. desember 2007
Biblían er sem böglað roð í brjósti mínu - lærði ég hana alla í einu þó aldrei kæmi að gagni neinu.
Svo raular Skugga Sveinn í leikritinu gamla sem skrifað var af séra Matthíasi Jochumssyni. Skugga Sveinn kunni biblíuna - hann vissi af og hafði heyrt fagnaðarerindið. Það bara skipti hann engu máli - hann fór sínu fram.
Í fagnaðarerindi áramótanna - þegar við sprengjum burtu gamla árið og bjóðum hið nýja velkomið - er lögð áhersla á að með hverri sprengju sem við sprengjum þá bætum við öryggi okkar sjálfra - og erum líklegast með því móti eina þjóðin í heiminum sem sprengjum til góðs. Það er orðið og orðið er skrifað af okkur sem verslum við björgunarsveitirnar.
Og svo birtist leikarinn Örn í hlutverki Skugga Sveins - hann þekkir þetta. En málið gerist flóknara - inn eru dregin málefni sem í raun tengjast spurningunni um réttmæti frjálshyggjunnar. Að hafa rétt til athafna. Margir hafa skoðanir, sem er gott. En Örn er holdgerfingur athafnamanna er boða sitt eigið fagnaðarerindi - landsþekktur leikari og vinur þjóðarinnar. En hann hlýtur að þola þetta maðurinn - ekki hefur hann farið í gegnum leikferilinn án gagnrýni - réttmætrar eða óréttmætrar. Varla. Og umræðan er öllum holl - björgunarsveitunum líka.
En þegar Ernir Árnasynir kjósa að fara þessa leið - taka slaginn og bjóða byrginn - án þess að láta sig nokkru skipta, hefðir eða mikilvægi þá verða þeir að vera undir það búnir að fólk segi sitt þó auðvitað skuli ekki draga inn persónu viðkomandi og alls ekki fara út í eitthvað skítkast. En tóninn má senda - beinskeyttan og hvassan.
Því kýs ég að taka orð Skugga Sveins og gera að mínum - því að auðvitað er Örn meðvitaður um þetta allt saman - við túlkum bara "biblíuna" ekki eins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 29. desember 2007
Skammastu þín Örn Árnason.
Mér varð óglatt af að sjá auglýsingu frá bomba.is - en þar er mynd af forsvarsmanninum Erni Árnasyni að auglýsa flugelda. Ekki ólöglegt en svo innilega siðlaust í ljósi þess að björgunarsveitirnar byggja jú nánast allt sitt á sölu flugelda.
Af hverju er sumum ekkert heilagt? Hvað vakir fyrir þessum manni eiginlega? Ef um er að ræða söluþörf hví í ósköpunum fær hann ekki að standa í sjálfboðavinnu á einhverjum af mörgum sölustöðum björgunarsveitanna.
Eða er það kannski gróðavonin sem liggur að baki.....
Ég ráðlegg fólki að sniðganga þessa kóna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (50)
Fimmtudagur, 27. desember 2007
Vandi kirkjunnar - biskup Íslands.
Mikil umræða hefur átt sér stað í þjóðfélaginu upp á síðkastið um stöðu kirkjunnar og kristinnar trúar almennt. Nú eru einhverjir farnir að setja sig upp á móti að kristinfræði skuli kennd í grunnskólum landsins. Í einfeldni minni hélt ég að við værum með þjóðkirkju og því bæri skv. kennsluskrá grunnskólanna að kenna þau fræði - hvort sem einhverjum líkar betur eða verr.
En það er í mínum huga ekki vandinn. Ég tel að vandinn sé mun einfaldari og hann sé sá að kirkjunnar menn eru upp til hópa hundleiðinlegir - lélegir boðberar kristinnar trúar þó svo að þeir rembist eins og rjúpan við staurinn að boða fagnaðarerindið. En þeir eru bara margir hverjir svo leiðinlegir - þurrir og slepjulegir með einhverskonar "guðlegt lúkk" sem þeir hafa þó með öllu skapað sjálfir. Og þar fer biskup Íslands fremstur í flokki. Ég segi nú ekki annað en guð hjálpi manninum.
Ég er sannfærður um að ef fleiri prestar störfuðu í anda t.d. presthjónanna Jónu Hrannar og Bjarna Karlssonar eða Pálma Matthíassonar sem messar á snjóskafli við og við - þá fengi unga fólkið að sjá að boðskapurinn er ekkert svo leiðinlegur - alls ekkert hundleiðinlegur líkt og biskupinn kynnir hann.
Auðvitað er ekkert auðvelt að vera biskup á eftir pabba sínum - sem var hálfgert ikon - og sem maður taldi vera "hálf-guð" því hann var löngu kominn fram yfir síðasta "söludag" þegar maður var krakki og virðist ætla að verða eilífur. Merkilegur maður og fræðimaður mikill.
Að vísu kenndi mér ekki síðri maður kristinfræði í grunnskóla en herra Pétur Sigurgeirsson, síðar biskup - en hann einkenndist af góðmennsku og húmor á stundum - að mig minnir. En það var í þá daga þegar maður bara lærði postulana og boðorðin - ekkert og væl um skemmtanagildi. Það var reyndar á þeim tíma sem kennurum var heimilt að "taka í lurginn" á óþekkum krökkkum - í dag má víst ekki hrósa með því að klappa á öxlina.
En nú eru semsagt nýir tímar og ekki lengur "í tísku" að vera með yfirmáta "heilaga" útlit - drepleiðinlegur á háum hesti horfandi til himna svo að rignir upp í nefið.
Nei ég segi - kristin trú þarf ekkert að vera svona leiðinleg eins og þeir sem hana boða. Gerum fræðsluna skemmtilega - vekjum áhuga því líklegast eru engin fræði sem til sem hafa eins góðan tilgang.
Ég yrki fyrrihluta í anda Dags heitins Sigurðarsonar og þið botnið:
Vandi kirkjunnar - biskup Íslands.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þriðjudagur, 25. desember 2007
Látinn er meistari.
Ég var svo heppinn að hafa farið á tónleika með þessum látna meistara - og því á ég móður minni að þakka henni Auði Ólafsdóttur - einlægum jazz áhugamanni - sem dreif fjölskylduna á tónleika þegar við vorum eitt sinn í sumarfríi á eyjunni Jersey. Mér eru þessir tónleikar mjög minnisstæðir enda var maðurinn snillingur.
Oscar Peterson látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 23. desember 2007
Jól án góðs vinar - Kristjáns Sverrissonar sem gladdi marga á jólum með góðum gjörningi.
Mig langar í nokkrum orðum að minnast vinar míns sem lést á árinu eftir erfið veikindi - en sem skilur eftir sig góðar minningar.
Kristján Sverrisson lagði sitt af mörkum til að gera jólin ánægjuleg hjá mörgum sem annars hefðu ekki getað notið jólahátíðarinnar með góðum mat. En Kristján rak veitingahús á Akureyri og hafði þann vana, í samráði við prest á Akureyri, að elda ávalt auka skammta á jólahlaðborði veitingahússins - þessa auka skammta keyrði Kristján svo út á aðfangadag til fjölskyldna sem sökum aðstæðna höfðu ekki ráð á dýrindis jólamat.
Þetta var nokkuð sem Kristjáni fannst sjálfsagt og hafði mikla ánægju af - en fór ekki hátt með - hreykti sér ekki af slíku hann Kristján sem lýsir vel hvaða mann Kristján hafði að geyma.
En ég trúi að víða hafi honum verið þakkaður gjörningurinn.
Með þessum orðum um vin minn vil ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Sérstakar kveðjur færi ég fjölskyldu Kristjáns vinar míns sem í dag nýtur þess að borða vel kæsta skötu og gleðjast með móður Kristjáns sem á afmæli. Ekki amalegur afmælismatur það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 21. desember 2007
Syndir feðranna - Breiðavíkurdrengirnir - óhugguleg lýsing á níðingsverkum.
Ég leigði mér DVD mynd um daginn sem fjallaði um þá skelfilegu atburði sem áttu sér stað á Breiðuvík og sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. Hér var hrikaleg lýsing á þeim viðbjóðslegu atburðum sem þar áttu sér stað og manni leið á köflum eins og byggi maður ekki á Íslandi.
Hvernig gat þetta gerst? Spyr maður sig og skilur ekki í þeirri mannvonsku sem í myndinni er lýst. Ekki ætla ég frekar að fjalla um þetta - en ráðlegg fólki að skoða þessa mynd enda hafa allir gott af því að sjá hvað þar gekk á.
Ég ber virðingu fyrir þeim mönnum sem fram komu og sögðu sögu sína - það hefur ekki verið auðvelt.
Eins viðurkenni ég fúslega að ég rúmlega táraðist yfir örlögum þessara pilta sem ekki höfðu unnið til þess að vera sendir í slík helvíti á jörðu - og hve sterkir þeir voru að koma fram fyrir alþjóð og ræða mál af þessu tagi. Það var meira en "starfsmennirnir" sem talað var við gátu gert - þar fóru menn undan í flæmingi og "vissu ekkert". Þetta fólk sem vann drengjunum mein verður að eiga það við sjálft og guð sinn vænti ég. Mér hinsvegar er óskiljanlegt hvernig þetta hefði átt að fara fram hjá þeim.
Og ekki gat ég betur séð en einn viðmælendanna sé titlaður "guðsmaður" - gangi um í hempu en sem virðist þó stunda einelti enn þann dag í dag ef marka má fréttir um málefni kirkju þess manns. Hann fer líklegast mikinn í sunnudagsmessunum þegar hann þrumar yfir hinum "syndugu"!!
Já hugleysið og skepnuskapurinn verður líklegast ekki launaður nema á einn veg þegar kemur að skuldadögum - þá þurfa menn að gera hreint fyrir sínum dyrum - líkt og sá hempuklæddi veit, eða ætti að vita.
Ágætu drengir frá Breiðuvík - ef þið lesið þetta þá óska ég ykkur og ykkar gleðilegra jóla og farsældar á komandi árum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 20. desember 2007
Undirbúningur jóla er annatími snyrtimenna - nokkur góð ráð.
Ég er snyrtimenni. Ekki snyrtipinni - snyrtimenni. Ekki svo að ég sé signt og heilagt að skvetta á mig Kölnarvötnum eða kreista fílapensla. Nei - ég er haldinn snyrtiáráttu sem hefur það birtingarform að ég ét allt sem mér finnst skaða heildarmyndina - en þar á ég heildarmynd þess sem verið er að matbúa eða baka fyrir jólin.
Og þar er hápunkturinn auðvitað piparkökuhúsið sem skreytt er sælgæti og ýmsu gúmmelaði. Alltaf finnst mér einhverju ofaukið og ét ég þá viðkomandi stykki. En auðvitað felst í þessu ákveðin áhætta - nú maður getur jú eyðilagt jafnvægið með því að éta fyrir slysni ranga skreytingu. Verstu mistökin eru þegar maður á leið hjá húsinu á þeim tíma sólarhrings þegar maður er hálfur í draumheimum - svo sem þegar skroppið er ofan til að kasta af sér vatni um miðja nótt - nú þá sér maður illa og finnst eins og þurfi aðeins að rétta til útlitið á húsinu. Svo endar þetta náttúrlega með því að skaðinn verður tilfinnanlegur. Ráðið við slíkum mistökum er að snúa húsinu þannig að skaðinn verði lítt sjáanlegur. Lágmarka skaðann.
Og ef óþægilegar spurningar vakna þá er bara að setja upp sakleysis svip og kenna börnum eða húsdýrum um - hundar og kettir eru t.d. þekktir fyrir að rífa í sig piparkökuhús og skreytingar.
Eins er það með smákökurnar - en endalaust er hægt að éta þessar sem hafa ekki "rétta lögun" - eða eru "of dökkar". Best er þó að stunda þá iðju þegar frúin er ekki við - enda óvíst að hún hafi sömu sýn og maður sjálfur - reyndar mjög ólíklegt að svo sé - reyndar með öllu vonlaust.
Hér hef ég ráð. Ef kökurnar eru ennþá á bökunarplötunni þá er um að gera að hræra í þeim svo uppröðunin verði óreglulegri og þ.a.l. erfiðara fyrir konuna að átta sig á fækkuninni. En það er með ólíkindum hve naskar þessar konur eru á minnstu frávik frá bökuðum kökufjölda. Ef hinsvegar kökurnar eru komnar í kökubauk þá er ekkert annað en að þykkja undirlagið - t.d. með gömlum dagblöðum.
Og ef óþægilegar spurningar vakna þá er bara að setja upp sakleysis svip og kenna börnum eða húsdýrum um - hundar og kettir eru t.d. þekktir fyrir að rífa í sig smákökur.
Svo eru fleiri möguleikar. Hér er einn sem átti sér stað á heimili fyrir norðan. Húsmóðirin hafði keypt dýrindis ávaxtaköku sem átti að njóta um jólin. Kakan sem var hátt í 50 sentímetra löng að mig minnir var geymd í ísskápnum. Húsbóndinn hafði þann hátt á þegar hann vaknaði á nóttunni að koma við í ísskápnum til "að kanna hvort ekki væri allt með felldu". Nótt eina rekur hann augun í kökuna og án þess að ráða við sig opnar hann umbúðir kökunnar og skar af endanum. Þegar hann setur kökuna inn í ísskapinn á ný - sér hann að engin ummerki eru um heimsóknina - þar sem sást jú bara í annan endann á kökunni þegar búið var að raða undanrennufernum þétt að kökunni. Hann hugsaði sér gott til glóðarinnar og vandi komur sínar í ísskápinn á hverri nóttu fram að jólum. Svo fór það auðvitað svo að þegar húsmóðirin ætlaði að sækja kökuna á jólakaffiborðið var pakkningin tóm - nú fyrir utan endann er vísaði út úr ísskápnum.
Húsbóndinn reyndi auðvitað að bera af sér alla sök - en illa gekk þar sem hjónin voru jú bara tvö í kotinu og ekkert hundspott til að kenna um.
Já maður hefur margt lært af honum pabba gamla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 19. desember 2007
Sóðaleg jólaskemmtun hjá Manchester United leikmönnum - einn tekinn fastur fyrir nauðgun.
Já - það var ekki mikill jólabragur yfir fylleríshátíð þeirra Man.Utd manna á Great St John Street Hotelinu.
Já það er gott að vera Arsenal maður.
Hér er fréttin: http://www.expressen.se/sport/fotboll/1.974473/landslagsman-misstanks-for-overgrepp
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 18. desember 2007
Gleðileg jól - farsæl komandi ár....
Það er svo undarlegt með mig að ég hef aldrei haft þörf fyrir að halda veislur. Sex ára gamall sagði ég mömmu að nú væri ég hættur að halda uppá afmælið mitt - og stóð við það. Það var ekki fyrr en á 40 ára afmælinu sem ég hélt smá partý í Jökulfjörðum.
Og svo eru það jólin. Mér er einhvernvegin svo um megn að nenna þessu. Að vísu á ég ekkert í vandræðum með að borða jólamatinn og nammið - sé það fyrir mig lagt - eða eins og kona mín segir: "sé það ekki nægilega vel falið". Og étið get ég. En þetta kostar allt saman. Kostnaðurinn felst í mínum huga í því að mér er hreinlega skipað að skrifa á jólakort - til fjölskyldumeðlima og vina. Auðvitað hef ég ekkert að segja - man ekkert hvað gerst hefur markvert á árinu - en sem betur fer eru kortin for-prentuð - maður skrifar bara t.d. "kæri vinur..." eða "elsku systir"....og svo kemur halelúja setning for-prentuð - svo kvittar maður bara undir.
Yfirleitt gengur þetta vel með fyrstu tvö, þrjú kortin. Svo byrja ég að draga í efa að nokkur nenni að opna svona kort hvort eð er. Penninn hættir að skrifa og mér finnst ég fá "ritstíflu" - líður illa og kvarta sáran undan höfuðverk - nú eða tímaleysi. En ekkert dugar - kortin skulu skrifuð hvort sem mér líkar betur eða verr.
Aumingja fólkið sem fær þessi kort. Það les þau með bros á vör - ekki vitandi hverslags pína þetta var fyrir mig að skrifa þessar línur. Og til að kóróna allt saman þá man ég aldrei hvar hver á heima og kortin fara hingað og þangað...sum berast líklega aldrei á réttan stað.... - eða hver á hvaða börn. Allt fer þetta í einn hrærigraut svo ég er farinn að kenna Jonna við Hörpu og Palla við Kollu!...og líklegast leiðir þetta til hjónaskilnaða - því auðvitað er hægt að misskilja og halda að ég viti meira en ég veit - vitandi ekki neitt um ekki neitt eða neinn - frétti alltaf allt síðastur.
Já - kvöl og pína. Hverju datt þetta annars í hug. "Elsku vinur..." bla bla bla "þökkum allt liðið"...bla bla....og maður ekki búinn að hitta viðkomandi í mörg ár...hvað þá meir - og þar fyrir utan eru nú oft ástæður fyrir því að maður er hættur að hittast....sumar meira að segja ekki landfræðilegar..... Líklegast er þetta allt saman gert til þess að maður njóti jólanna þegar þau loks koma og þetta er afstaðið - svona eins og verðlaun eftir að hafa verið duglegur hjá tannlækninum.
En ég er í það minnsta að prufa mig áfram með nýja jólakortatækni sem er svo hljóðandi:
"Kæri vin,...eða systir...eða bara hver sem er"..."Gleðileg jól og farsæl komandi ár "...."hafið það sem allra best...kv, Tolli og fjölskylda"
ps. Vinsamlegast geymið kortið og lesið á ný um næstu jól!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 17. desember 2007
Mamma - móðir - systir - sambýliskona - sama kyn en ótrúlegur munur....
Ég svaf eitthvað undarlega nótt eina í byrjun desember - og þá fór ég að hugsa um mömmu mína. Það er nefnilega svo að ég á fjórar systur og mömmu - og sambýliskonu. Allt eru þetta kvenmenn - en þó litningasamsetningin sé eins eru líkt og að hin undarlegasta þróun eigi sér stað hjá kvenpeningnum - að um þrjú algjörlega ólík lífsform sé að ræða sem þó eru nátengd og óaðskiljanleg. Og við karlpeningurinn erum alltaf þátttakendur án ákvörðunarréttar.
Fyrstu kynni af systrum mínum eru auðvitað þau að maður er algjörlega afskiptur. Ekki nokkur áhugi frá þeirra hendi á því hver maður er - eða hvað maður er að gera - nema þegar auðvitað maður er fyrir - rangur maður á röngum stað - svo sem eins og heima hjá sér þegar systir eða systur eru heima með vinkonum sínum. Ekkert er auðvirðulegra en bróðir þegar ekki er tími fyrir hann. Nema þegar maður er mjög ungur - þá er maður óttaleg dúlla - og fær að fara með í sund og svoleiðis. En um leið og systur eru komnar á gelgjualdur þá er maður úti í kuldanum - ískulda. Það allra versta - það er þegar maður veikist. Nú, þá er maður auðvitað ekkert veikur - ímyndunarveiki af verstu gerð. Ræfill og bjálfi.
En mamma - hún hjúkrar manni og hugsar um mann. Þar er ekki verið að draga í efa alvarleika krankleikans. Nei, mamma er best. Og maður verður bara svo lítill....þó aldurinn segi kannski eitthvað annað.
Svo eldist maður. Það fer af stað ferli sem lýsir sér með óttalegu útvexti. Nef og ýmsir útlimir fara að vaxa úr hófi og eru í engu hlutfalli við restina af líkamanum. Eins fer hormónakerfið í kerfi - og maður hreinlega klikkast - sem lýsir sér auðvitað í því að maður fær áhuga á stelpum. Þessum sem maður er búinn að alast upp við að hati mann. Og þessar sem maður bauð ekki afmælið sitt fyrr en á 11.ári - skrítið. Já þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur. Og auðvitað fá þær mann út í allskyns vitleysu - nú til að sína hvað í manni býr - hver getan sé. Og stundum keyrir úr hófi og pabbinn verður vitlaus.
En mamma - hún skammar mann ekki. Hún passar sinn mann og er góð. Auðvitað voru það stelpurnar sem plötuðu mann út í vitleysuna. Ætli hún þekki það ekki, á fjórar. En bara mig einan.
Og svo nær maður sér í eina. Konu sem maður þó vissi að var systir - og þar af leiðandi í vonda liðinu. Og maður verður svo ástfanginn. Börn fæðast. Konan sem sagt orðin móðir. Og maður er vongóður að allt fari nú að lagast - að hún verði mamma. En þá fær maður gú morren. Konan og móðirin er bara ekkert mamma. Það kemur auðvitað best fram í því að manni er útjaskað ennþá meira - látinn skúra, taka til og jafnvel sendur út í búð - í hvernig veðri sem er. Og ekki skánar það ef maður svo mikið sem fær nánast lífshættulega flensu. Þá er ekkert að manni - bara leti og ímyndun - rekinn á fætur og bent á að þetta sé ekki hótel.
En mamma - hún skilur mann. Og þegar ég hringi í hana og segi farir mínar ekki sléttar um veikindi og almennan krankleika þá huggar hún mann og segir að fara nú vel með sig. Já og hvort mann vanti ekki ný nærföt eða sokka. Já hún mamma. Ég veit eiginlega ekki hvaðan hún kom - eða í það minnsta hvers vegna mér hefur ekki tekist að finna svona konu - bara svipaða, bara eitthvað í áttina - það er alveg nóg. En það er bara ein mamma. Bara ein. Mamma.
Hvernig skildi pabbi hafa verið svona ótrúlega heppinn. Að finna MÖMMU??
Já það er gott að eiga góða mömmu. Og svo steinsofnaði ég með bros á vör.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)