Þriðjudagur, 21. júlí 2009
Hryllilegir atburðir sem aldrei mega gleymast.
Ég horfði á mjög áhrifaríkan þátt á Stöð 2 og sem fjallaði um árásir Bandaríkjamanna á Hiroshima og Nagasaki sem mörkuðu endalok stríðsins við Japani - afleiðingar og líf þeirra þúsunda Japana sem lifðu af þessar hörmungar.
Ég hef sjálfur komið til Hiroshima og aðeins kynnst í gegnum fyrrum samstarfsmann afleiðingum þessarar árásar.
Þeir sem hafa komið til Japan og ferðast um landið vita sem er að þar er stundvísi í hávegum höfð og þó maður kunni ekki stakt orð í japönsku þá er nóg að fylgjast með klukkunni - japanskar lestir eru ávalt upp á sekúndu - ekki mínútu heldur sekúndu. Svo stendur maður bara á réttum stað á brautarpallinum og þær stoppa. Ekki of aftarlega eða framarlega - nei á réttum stað á réttum tíma.
Í seinni ferð minni til Japan - þegar ég var að fara að starfa við háskólann í Hiroshima þá nýtti ég mér þessa vitneskju og komst á leiðarenda. En mér til mikillar undrunar þá þurfti ég að bíða í 30 mínútur eftir samstarfsmanni mínum. Það var mér óskiljanlegt og eitthvað mjög alvarlegt hlaut að að hafa gerst. Enda kom á daginn þegar hann loks kom að hann hafði komið beint af dánarbeði föður síns sem hafði látist úr krabbameini. Afleiðingum kjarnorkuárásarinnar á Hiroshima.
Ég taldi auðvitað að nú yrði ekkert úr fyrirhugaðri dvöl minni á háskólanum en því var víðs fjarri - Japaninn bað mig afsökunar á að láta mig bíða - og svo var haldið beinustu leið á rannsóknastofuna að undirbúa vinnunna. Og þetta var á laugardegi.
Háskólinn í Hiroshima er reyndar ekki í borginni sjálfri heldur litlum bæ í hlíðunum fyrir ofan Hiroshima, Higashi-Hiroshima. En það eru einmitt þessar hlíðar sem skiptu svo miklu máli um staðarval sprengingarinnar - auk þess að um borgina rennur á sem klofnar á ákveðnum stað og myndar því gott "skotmark".
Þegar ég var þarna á vordögum var ekki margt sem minnti á sprenginguna - hlíðarnar skörtuðu sínu fegursta í bleikum lit kirsuberjatrjánna og fólk var úti og naut þess að halda upp á Hanami sem er í tilefni þess að kirsuberjatrén blómgast. Afskaplega fallegt og ekkert sem benti til þess að stór hluti borgarbúa hefði misst bæði sína nánustu og hlotið sjálft varanlegan skaða af.
En í borginni sjálfri er minningin um daginn örlagaríka er í hávegum höfð - en minningargarður og safn í miðri borg - "Peace-park" er manni hörð áminning um mannvonsku og lítilsvirðingu fyrir lífinu. Að heimsækja þann garð - minnisvarða - er upplifun sem fylgir manni það sem eftir lifir ævinnar. Af mörgum hryllilegum minnisvörðum held ég að tröppurnar þar sem útlínur ungs manns er að sjá sem brann upp við sprenginguna séu minnisstæðastar - enda ógnar hiti sem fylgdi eða yfir 5000 gráður. Þarna sat hann og beið elskunnar sinnar og nú er ekkert að sjá nema útlínurnar.
Á meðan á dvöl minni stóð kynntist ég menningarheimi sem er gjörólíkur sem við eigum að venjast. Nú var til að mynda samstarfsaðili minn orðinn höfuð fjölskyldunnar og átti í raun allt sem faðir hans skyldi eftir- hús, bíl og það var hans hlutverk að sjá til þess að grafhýsið sem geymdi jarðneskar leifar föðurins væri samkvæmt hefðum. Móðir hans var upp á hann komin og hann þurfti að taka ákvarðanir um hvað gera ætti við t.d. bifreið fjölskyldunnar. Ekki hafði móðir hans bílpróf og ekki var inni í myndinni að selja bílinn og láta hana fá peninginn - það bara tíðkaðist ekki. Eins fannst honum símreikningur móðurinn orðinn óhóflegur - hún hringdi mikið í vini og ættingja - kannski vegna dauða eiginmannsins - en of mikið að hans mati. Já þetta var mér framandi hugsunarháttur.
Hiroshima er merkileg borg - í raun nýrisin upp úr öskustóði kjarnorkusprengjunnar og ekkert hús eldra en frá árinu 1945. Fegurðin blasir við um allt og fjörðurinn er þekktur fyrir mikla ostrurækt - sannkallað hnossgæti og ólíkar því sem ég hef bragðað annarsstaðar.
Þetta var merkileg heimsókn og lærdómsrík dvöl - í landi þar sem maður segir aldrei "já..þetta er eins og heima".
Athugasemdir
JÁ
Arnar Guðmundsson, 21.7.2009 kl. 19:43
RITSKODUN RITSKODUNN Á MOGGABLOGGINU 11.,,
Arnar Guðmundsson, 22.7.2009 kl. 00:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.