Þriðjudagur, 7. júlí 2009
Feðgar kaupa sér belju - sorgarsaga úr íslenskri sveit.
Það brá svo við að feðgar nokkrir íslenskir höfðu flutt búferlum í austurveg. Þeir höfðu sest að á samyrkjubúi í Rússlandi og lært þar allt um búskap og ölgerð.
En heim vildu þeir þegar fréttist að til stæði að selja ríkisbeljuna. Auðhumlu sem mjólkað hafði vel um áratuga skeið. Já beljan atarna bara jók mjólkina ef eitthvað var og því hugsuðu þeir feðgar sér gott til glóðarinnar - slíka belju urðu þeir að eignast.
Er heim var komið var auðvitað nærtækast að tala beint við fjósameistarann sem var vinur þeirra frá fyrri tíð. Honum var boðið gull og grænir skógar ef hann léti þeim í té beljuna góðu. Og við þeirri bón varð hann að sjálfsögðu - og ef það var ekki nóg þá lánaði hann þeim peninga til að borga fyrir beljuna - bara svona uppá gamla tíma.
Svo byrjuðu feðgar að mjólka. Þeir mjólkuðu og mjólkuðu. Beljan sem var full af mjólk til að byrja með gaf vel af sér og hver brúsinn fylltist á fætur öðrum. Annað eins hafði aldrei sést. Mjólkin flóði yfir tún og engi. Feðgarnir keyptu sér fleiri beljur og sáu að ekki nokkur maður gæti annað því að mjólka af slíkum krafti án hjálpar. Þeir tóku því til sinna ráða og fengu sér mjaltaþjón. Sá mjólkaði dag og nótt - spurði einskis um ástand belju eða líðan. Hann hugsaði bara vélrænt um framleiðslu og framlegð.
Beljan tók að tæmast. Nýi fjósameistarinn - gildur og sver sá að nú yrði að auka fóðurgjöfina til að standa undir allri mjólkurframleiðslunni. Hann fór því að auglýsa um heimsbyggðina alla að á Íslandi væri belja ein sem mjólkaði betur en allar aðrar beljur í henni veröld. Og sá sem vildi bragða á mjólkinni yrði að leggja inn fóður í hlöðuna og svo fengi sá hinn sami arðinn greiddan í mjólk. Dýrindis mjólk.
En ræfils beljan. Hún stóð auðvitað ekki undir þessum gríðarlegu væntingum. Sama hvað hún át af fóðrinu - mjólkin tæmdist. Feðgarnir gerðust hræddir. Þeir óskuðu afurðalána út á beljuna. Hagræddu tölum og sögðu hana mjólka mun meira en raun bar vitni. Þeir voru meira að segja svo óforskammaðir að þeir lugu til um fjölda spena - sögðu þá orðna vel á annan tuginn á beljunni en það fór svo ansi vel á pappírunum sem afhentir voru afurðadeildinni og lífeyrissjóðunum sem lánuðu - og lánuðu.
En svo kom að því - mjólkin kláraðist.
En feðgarnir gáfust ekki upp. Þeir höfðu fleytt rjómann allan tímann - sátu á smérfjalli sem fljótt bráðnaði undan rassinum á þeim en almenningur sem taldi sig vera með dýrindis mjólk í flöskunum komst að því að ekkert var þar nema undanrenna og mysa. Já mjólkin var súr. Hún var gallsúr.
Ræfils beljan lagðist í flórinn og fjósameistarinn flúði. Faldi sig fjarri mannabyggðum og lét ekki sjá sig. Sendi að vísu tilkynningar og mótmæli úr laumi - sagði þetta ekki sér að kenna. Hann hefði lært þetta af feðgunum og þeir af rússneskum landbúnaðarspekúlöntum - svokölluðum olígorkum.
Ræfils beljan - ekkert kom úr spenunum nema blóðið - og það rann í stríðum straumum. Að lokum kom eftirlitsmaður ríkisins og tók beljuna í sína vörslu. Nú skildi blásið líf í skepnuna og henni komið á fætur sama hvað slíkar aðgerðir myndu kosta. Nóg var til af fátækum og gamlingjum á Íslandi til að borga brúsann. Ef þeir duga ekki til - þá verður leitað leiða til að ná fé af fötluðum og þaðan af ver stöddum.
En nú líkur þessari sorgarsögu úr íslenskri sveit - og er sagan öll.
Athugasemdir
Góð saga í skemmtilegum búningi. Tolli þú átt að kýla á smásagnasafn, hef sagt það áður. Kv.
Hallgrímur Óskarsson (IP-tala skráð) 7.7.2009 kl. 18:49
Tek undir með Hallgrími, skrifaðu bók!
Sjálf hygg ég á held ég bara að feta í slóðir forfeðra þeirra sem dulluðu sér af landi brott í tíma... æi.. nenni því ekki. Er líklega of sein.
Ylfa Mist Helgadóttir, 7.7.2009 kl. 19:44
Frábær saga og vil ég sjá hana í fleiri fjölmiðlun
Guðrún Jónsdóttir, 7.7.2009 kl. 21:54
Hólmdís Hjartardóttir, 8.7.2009 kl. 10:47
Þessi var góð.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 8.7.2009 kl. 16:22
ég er fegin því að engin alvörubelja skaðaðist í þessari sögu :)
halkatla, 10.7.2009 kl. 13:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.