Sunnudagur, 12. apríl 2009
Búnir að finna blóraböggla....Nú leita Sjálfstæðismenn að páskaeggjum.
Mikil leit fer fram um þessar mundir í höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins. Hér er leitað ákaft að blóraböggli - þó á þessum tíma árs séu nú flestir að njóta páska og sumir taki þátt í leiknum "finnum páskaeggið".
Mér er persónulega alveg sama hver gerði hvað - í mínum huga er flokkurinn allur undir. Það er hlýtur að vera ljóst að þegar menn eru kosnir til starfa af sínum flokksfélögum þá eigi að vera hægt að treysta þeim. Því megi í raun segja að allt sem gerist í flokknum endurspegli heildar siðgæði flokksins.
En samt reynist þeim Sjálfstæðismönnum erfitt að stíga fram og biðjast afsökunar á gjörðum sínum - þeim reynist erfitt að viðurkenna mistök og taka afleiðingunum. Nei - það á að neita og fara undan í flæmingi fram í rauðan dauðann.
Þá stíga fram tveir gallharðir sjálfstæðismenn - fórna sér og segjast bera ábyrgð á því að afla styrkjanna stóru. En málið er bara ekki það - málið snýst í raun um að bera ábyrgð á starfsemi heils flokks - að bera ábyrgð á stjórn landsins. Ef menn geta ekki starfað af heilindum og borið ábyrgð á gjörðum sínum eða aðgerðarleysi þá er þeim ekki treystandi fyrir stjórn mikilvægari mála. Svo einfalt er það.
Og mér finnst með ólíkindum að þessir ágætu menn - forysta Sjálfstæðisflokksins skuli ekki geta viðurkennt mistök sín - borið ábyrgð á gjörðum sínum. Að þeir skuli í staðinn fara undan í flæmingi - bendandi hver á annan og jafnvel notað tækifærið til að koma höggi á andstæðinga innan flokksins - það er mér gjörsamlega hulin ráðgáta.
Slíkt fólk á ekki heima í landsmálapólitík - og yfir höfuð ekki í pólitík.
Ég lýsi yfir undrun og hneykslan á þessum siðgæðisskorti og að dónaskap gagnvart fólkinu í landinu.
Geir - Kjartan - Davíð og þið hinir: Við erum ekki fífl og hættið strax að koma fram við okkur sem slík.
Athugasemdir
Ég skil ekki vandamálið. Nokkrir kappsfullir sjálfstæðismenn voru of duglegir að safna styrkjum. Upphæð þeirra fór út fyrir það sem við afgangurinn af Sjálfstæðisflokknum teljum ásættanleg mörk siðferðilega séð. Búið er að setja lög um styrkveitingar til flokkanna síðan þetta var. Formaður okkar tók vel á þessu.
Fyrir áramótin 2007 voru engar reglur um hversu mikið mætti gefa í flokksjóði almennt. Það varð að vera bundið í hjartalagi þess sem sóttist eftir tók við framlögum hvort þau væru við hæfi eða ekki. Hér hefur verið farið full langt inn í gráa svæðið.
Almennir flokksmenn vissu ekki um þessar greiðslur. Þessir aðilar töldu þær greinilega í lagi enda ekki bannað þegar þetta var að þiggja svona upphæðir. Almennum flokksmönnum hinsvegar þykir þær hættulega háar, vill ekki svona upphæðir þó ekki væri nema vegna tortryggni og illra hugsana aðila eins og dæmin undanfarna daga hafa sannað. Þær gefa færi á flokknum sem annars væri ekki.
Þetta var 2006 en nú er 2009. Allt aðrir tímar, annað fólk, annað viðmið. Hvernig væri að hætta skítkasti og fara að vinna í að bjarga málum hér á landi? Eða eruð þið pólítískir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins svo uppurnir af málstað að þið teljið ykkur betur borgið með því að þrampa á Sjálfstæðisflokknum svo hann nái ekki að kynna sín málefni og stefnur til bjargar heimilum og atvinnulífi. Björgum Helguvík t.d..
Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 12.4.2009 kl. 07:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.