Það vantar meiri greddu í þessa þingmenn okkar þarna á Alþingi við Austurvöll.

Þegar ég fyrir margt löngu vann sem sumrungur hjá gatnagerðinni á Akureyri kynntist ég skrítnum fýrum. Þessir karlar voru auðvitað af ýmsum toga og nokkrar kerlingar voru þar líka. Sumir voru auðvitað skrítnari en aðrir og enn aðrir ennþá skrítnari. En flestir þó skemmtilegir. Og þó að þeir gerðu mistök var nú yfirleitt hægt að leiðrétta mistökin og þau skildu ekki eftir varanleg sár - hvorki á mannvirkjum né sálarlífi fólks.

Ólíkt því sem gerst hefur á Alþingi við Austurvöll.

Svo var það að ég var settur í fylgd eldri manns - og áttum við að sjá um sprengingar. Sá gamli var reyndur mjög - enda gamall og reynsla kemur oft einmitt með aldrinum. Ég hinsvegar var ungur - óhræddur og tilbúinn í slaginn. Svo boruðum við - eða aðallega ég. Sá gamli var nú bara svona yfir. Fínasti kall en gerði ekki mikið.

Svona eins og þeir eru ansi margir á Alþingi við Austurvöll.

Þegar holurnar voru tilbúnar hófumst við handa við að troða í þær dýnamít túbum. Ég tróð en sá gamli fylgdist með og dæsti yfir látunum í mér. Enda var hann gamall í hettunni og hafði vit á málunum - með reynslu.

Heldur fannst honum ég ákafur í dýnamíttroðslunni og sagði því við mig - heyrðu mig nú kunningi, ertu nú ekki orðinn heldur graður á þessu!?

Svo sprengdum við burtu farartálma - burtu ljón í veginum og ruddum nýja braut. Við þessi í gatnagerðinni á Akureyri.

Og þetta finnst mér einmitt vanta dálítið þarna á Alþingi við Austurvöll. Meiri greddu í þetta lið - rífa sig úr þessari ládeyðu og ryðja nýja braut fyrir Íslendinga að feta.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Þú kannt að orða hlutina...

Hólmdís Hjartardóttir, 23.2.2009 kl. 22:56

2 identicon

Nokkuð góður!!!   :)   :) 

Edda (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 23:47

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Já þú meinar

Hólmfríður Bjarnadóttir, 24.2.2009 kl. 01:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband