Miðvikudagur, 28. janúar 2009
Nú er kosningabaráttan hafin - farandframbjóðendurnir eru byrjaðir að setja í pokann sinn!
Mér finnst ákaflega gaman að fylgjast með þegar verðandi frambjóðendur byrja að tilkynna hvar þeir hyggist bjóða sig fram.
Oft er það í samhengi við búsetu þeirra og áherslur í lífinu - en ekki endilega. Nýjasta dæmið er Guðmundur Steingrímsson sem ætlar að bjóða sig fram fyrir Framsóknarmenn - ekki í Reykjavíkursvæðinu þar sem hann býr - nei hann ætlar sér norður í land - þar sem vænlegra er til árangurs - að hans mati.
En ég spyr - hvað hefur hann fram að færa - hefur hann yfir höfuð tekið þátt í atvinnu uppbyggingu þar eða einhverri annarri uppbyggingu yfir höfuð?
Þekkir hann til?
Tja, vera má að svo sé - ekki veit ég það.
En hitt stendur eftir í mínum huga og það er að flokkar sem ætla að bjóða fram verða að leita til einstaklinga af svæðinu - sem svæðið þekkja og treysta sér til að starfa í þágu þess og landsins alls - ekki búa í Reykjavík og skreppa svo út á land til að "vera með".
Að örðum kosti eigum við að leggja niður kjördæmin - gera landið að einu kjördæmi - og kjósa menn en ekki flokka.
Það er mín skoðun.
Athugasemdir
Tek undir þetta sjónarmið heilshugar!
Helgi Kr. Sigmundsson (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 17:52
Þetta er hárrétt hjá þér. Fólk sem fer fram fyrir landsbyggðina þarf að þekkja vel til þar, ekki spurning
Guðrún Jónsdóttir, 28.1.2009 kl. 17:55
Sá haft eftir honum og reyndar vissi áður, að bæði afi hans og pabbi hafi verið þingmenn fyrir þetta kjördæmi. Það er nokkuð ljóst að af stuðningsmönnum afa hans er enginn eftir nema hugsanlega Siggi Sveins. Og hitt er líka ljóst að Guðmundur kemst aldrei með tærnar þar sem pabbi hans hafði hælana.
Síðan í lokin er gaman að benda kjósendum á Vestfjörðum á að þessi maður er einn af aðal stuðningsmönnum þess að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýri. Svoleiðis menn höfum við á landsbyggðinni ekkert að gera með.
Ingólfur H Þorleifsson, 28.1.2009 kl. 19:46
Þetta er það sama og Árni Matthíasson gerir. Svo borgar sveitafélagið sem hann er skráður í tónlistarná fyrir börnin hans í Reykjavík.
Halla Rut , 28.1.2009 kl. 21:16
Niðurlagið í færslunni þinni Tolli er það sem þarf að gerast. Án þess að ég þekki neitt til Guðmundar, þá datt mér það sama og þú í hug við lestur þessarar fréttar. Talar viturlega en er innistæða fyrir talinu?
Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 21:22
Þar kom að því að erfðaprinsinn í Framsókn færi að kalla eftir hlut sínum. Guðmundur Steingrímsson er örugglega vænsti maður, enda var hann í Samfylkingunni þar til fyrir nokkrum vikum. Hann tók svo hatt sinn og staf einn daginn og hélt úr í "heim" eða öllu heldur hann snéri aftur "heim"
Nú er hann kominn í faðm Framsóknarmanna og vill fá sætið sem pabbi og afi "áttu" hér áður. Þarna rísa flokkshefðir í hæðir eða falla í lægðir. Mér finnst þessi endurkoma GS í gamla flokkinn hans pabba og hans afa, vera að enduróma afar gamla hugsum. Hugsun sem inniheldur eign einhvers á valdi og erfðaréttinn í sinni þrengstu mynd.
Ég ætti sennilega að dusta rykið af þeirri staðreynd að afi minn, Tryggvi Bjarnason í Kothvammi í V Hún, sat 2 sumur á Alþingi fyrir Bændaflokkinn 1913 og 1914. Ég hlýt þá að enga rétt á eins og einum vetri á þingi. Það er bara verst að ég veit ekki í hvaða flokki þessi erfðaréttur liggur. Verð sennilega að fá mér lögfræðing í málið.
Enn og aftur, ég er ekki að gagnrýna GS persónulega nema síður sé, heldur þessa gömlu hugsun.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 30.1.2009 kl. 03:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.