Þriðjudagur, 27. janúar 2009
Á að bjarga þjóðarskútunni með hvalveiðum?
Bíðum nú aðeins hæg. Þetta með íslensku fiskveiðistjórnina er á tímum farsi. Ráðherra stendur frammi fyrir hagsmunaaðilum í fiskveiðum sem krefjast aukins kvóta - sem auðvitað þýðir meiri veiðar. Og á hinn bóginn er hann með báknið Hafró - eða Hafrannsóknastofnunina (ath. fasta greininn). En þar sitja sérfræðingar í veiðistjórn - útreikningum og tölfræði.
Og svo tekur hann ákvörðun. Sker niður kvótann til að bjarga fiskstofnum - allt eftir ráðgjöf Hafró - en þó ekki alveg því Hafró vill þó skera niður meira - í ljósi stöðu stofnanna - stofnstærðin er of lítil og nýliðun með.
Og þetta ber hann á borð fyrir veiðimennina - útgerðina - sem er á vonarvöl sökum aðstæðna.
Og svo kemur kreppa. Þá stekkur ráðherrann til og eykur kvótann - leyfir meiri veiði. Ekki af því að hann hlustaði á rök veiðimanna - útgerðarinnar. Nei hér er um pólitíska ákvörðun að ræða. Ekkert annað.
Og svo heldur þetta áfram. Nú á að leyfa veiðar á hvölum - stórhvelum og minni. Og það byggir ráðherrann á útreikningum sömu stofnunar sem hann tekur lítið sem ekkert mark á í fyrri ákvörðunum. Í það minnsta þegar hann jók kvótann.
Ég spyr mig orðið - til hvers verið að halda úti svo dýrri stofnun sem Hafró er? Til hvers er verið að láta ágæta vísindamenn sitja og reikna stofnstærðir þegar ekkert er farið eftir þeim ráðum - í það minnsta að takmörkuðu leyti.
Er ekki gáfulegra að hreinlega leggja niður Hafró. Efla deildir Háskóla Íslands - með það að markmiði að stunda rannsóknir á lífríki umhverfis Ísland?
Auðvelt væri að grípa tækifærið núna - efla setur og stofnanir úti á landsbyggðinni til muna. Setja skipin þar sem þau eiga heima - þ.e. fjarri tónlistargrunninum við Reykjavíkurhöfn !
Ég bara spyr - því ég sé ekki betur en ákvarðanir séu handahófskenndar - stundum byggðar á vísindum - stundum á pólitík - og stundum á geðþótta!
Og það er ekki gott.
Athugasemdir
Ég ætla aðeins að halda áfram að gjamma hjá þér:)
Ég er alveg sammála þér að það er eitthvað verulega mikið að hjá Hafró. það þarf að skera upp þá stofnun og flytja þessar rannsóknir út á land.´
En ég er ekki sammála því að ákvörðunin um 30.000. tonna aukningu í þorskveiðiheimildum núna sé eingöngu pólitísk. Það fóru fram mælingar hjá hafró í haust sem sýndu 70 % stærri veiðistofn en árið áður. Upplýsingar frá sjómönnum segja sömu sögu.
Það er margt sem bendir til þess að skerðingin um 60.000. tonn í fyrra hafi verið frekar hagstjórnartæki (til að slá á þenslu) frekar en ákvörðun byggð á vísindalegum grunni. Ég held því að þó þessum 60.000 tonnum yrði öllum bætt við aftur þá væri það bara skynsamleg ráðstöfun en ekki pólitísk.
Svo má ekki gleyma því að ákvörðun um hvalveiðar styður við heimildir til aukinna fiskveiða. Við erum í beinni samkeppni við hvalinn.
Aðalsteinn Bjarnason, 27.1.2009 kl. 20:48
Sæll aftur!
Á vef Hafró er nú hægt að sjá að þeir lögðust gegn þessari aukningu núna. Því var þetta um pólítíska ákvörðun að ræða. Þeir töldu í kjölfar haustmælinga að hugsanlega mætti auka um hámark 5 þúsund tonn.
Varðandi 60 þús tonnin - þá fylgdi hann tilmælum Hafro - í þorski....en EKKI öðrum tegundum.
Þetta bendir jú til að um pólitískar ákvarðanir sé að ræða - í það minnsta skiptir pólitíkin meira máli en vísindin.
En spurningin er jú sú hverju á að fórna?.... En ég er mest hræddur um að svona ákvarðanir sjálfstæðismanna jafngildi því að "að pissa í skóinn sinn" eins og þingmaður þeirra Sigurður Kári Kristjánsson notaði í kastljósinu í kvöld (þegar verið var að fjalla um væntanlegar aðgerðir nýrrar ríkisstjórnar).
Þorleifur Ágústsson, 27.1.2009 kl. 21:59
Sæll,
jájá, ég veit alveg hvað Hafró er að rausa. Þeirra vísindi orka hins vegar oft á tíðum tvímælis, svo ekki sé meira sagt. Þegar þeim er til dæmis bent á fullan fjörð af fiski einhversstaðar, þá segja þeir að sá fiskur sé ekki til.
Ég held að við þessar aðstæður sem við búum við núna, þá sé ákvörðun um að auka þorskveiðar úr 130 þ. tonnum í 160 þ. tonn, eða lítilsháttar hvalveiðar, ekki eitthvað sem hægt er að líkja við að pissa í skóinn. Ég vek athygli á því að meðal þorskveiðar á íslandmiðum s.l. 50 ár er um 300. þ. tonn á ári. Lengst af á því tímabili var Hafró ekki til.
Við verðum bara að sætta okkur við það að við erum ekki fjármálasnillingar, Ísland verður aldrei alþjóðleg fjármálamiðstöð, við erum fiskveiðiþjóð fyrst og fremst, og við verðum að veiða hvalina svo þeir éti ekki allan fiskinn frá okkur.
Aðalsteinn Bjarnason, 27.1.2009 kl. 22:31
Sko Tolli, nú tala ég bara eins og ljóska (er reyndar með ljósar strípur í dökku hári) . Á vef Hafró var ekki gert ráð fyrir hvalveiðum. Sem leikmaður þá geri ég bara fastlega ráð fyrir því að sjávarútvegsráðherra í starfandi ríkisstjórn sé með á hreinu hversu mikið þessir hvalir borða af sjávarfangi og þessi ákvörðun hans um hvalveiðar séu því mótvægisaðgerðir vegna aukningar á þorskveiðiheimildum. Við Vestfirðingar viljum stunda sjálfbærar veiðar á hvölum og fá okkar hrefnukjöt sem og aðrar hvalaafurðir til matar eins og annað matarkyns úr náttúrunni og við höfum alist upp við í sátt og jafnvægi við þessa dýrastofna eins og aðra í gegnum tíðina.
Sigríður Hrönn Elíasdóttir, 27.1.2009 kl. 22:36
Sko!! Meira að segja ljóskur eru gáfaðri en vísindamenn Havró:)
Aðalsteinn Bjarnason, 27.1.2009 kl. 22:40
Sæl og blessuð Sigga Hrönn,
ég get nú fullvissað þig um að EKG hefur ekki á hreinu hvað þessir hvalir borða mikið. Enginn veit það með vissu - ekki einu sinni þeir sjálfir
En, auðvitað er hér verið að tala um að nýta stofna sem teljast nýtanlegir eins og vera ber. Málið er hinsvegar að við erum í svaðinu hvað álit annarra þjóða varðar - og það sem ég er að meina er: Höfum við efni á frekari neikvæðri umræðu eins og málin standa í dag?
Og hitt atriðið er: Er ekki of dýrt að halda úti stofnun sem lítið er farið eftir? Er peningunum ekki betur varið í uppbyggingu rannsókna á landsbyggðinni?
Svo veit ég náttúrlega að þú tekur í sama streng og hann Aðalsteinn - þú vilt auðvitað Davíð áfram - hann er Aðal...hehe
Svo segi ég bara bestu kveðjur til kópavogs og Úkraínu.
Þorleifur Ágústsson, 27.1.2009 kl. 22:51
hehe, þetta kemur Davíð ekkert við. Þetta snýst um það að við þurfum að átta okkur á því að við lifum á fiskveiðum (ekki fjármálastarfsemi). Við þurfum að nýta okkar auðlindir. það veit enginn hvað hvalirnir éta mikið, það er alveg satt. Allir vita hins vegar að þeir éta drjúgt. Það veit heldur enginn hvað er til mikill þorskur í sjónum. Ekki einu sinni Hafró.
Aðalsteinn Bjarnason, 27.1.2009 kl. 23:01
Sæll aftur Tolli. Það er nú illa komið fyrir okkar þjóð ef við ætlum að fara að haga okkur eins og Samfylkingarfólk og láta skoðanakannanir stjórna okkur frá degi til dags. Ég er alveg viss um að ef EKG vissi hversu mikið hvalirnir borða af fiski, þá hefði hann aukið þorskveiðikvótann miklu mun meira. Í mínum huga fer algjörlega saman uppbygging rannsókna á landsbyggðinni og sjálfbærar veiðar á hvalastofnum. Ég hirði kveðjurnar upp í Kópavoginum í fyrramálið þegar ég keyri þar í gegn frá heimili mínu í Grafarvoginum til vinnu í Hafnarfirði
Davíð hvað???
Sigríður Hrönn Elíasdóttir, 27.1.2009 kl. 23:02
Ég gleymdi!
Sjáumst hress á landsfundinum í lok mars er það ekki?
Sigríður Hrönn Elíasdóttir, 27.1.2009 kl. 23:07
Það er ólíkt auðveldara að henda reiður á fjölda hvala (sem eru spendýr) en fiska sem koma ekki lifandi upp á yfirborðið. Ég hef tekið þátt í hvalatalningu og veit að það er hálfgert slump en engu að síður er mjög ólíku saman að jafna.
Sigurður Þórðarson, 28.1.2009 kl. 03:42
Ég vil veiða Hval það er á hreinu það er búið að sanna það Þorleifur að þeir jeta mikið af fiski og við eigum að nýta það sem við höfum. Við lifum ekki af fjármálastarfssemi það er nokkuð ljóst. Og sniðug hugmynd að færa Hafró á landsbyggðina ekki veitir af. Tek það fram að ég er ekki stuðningsmaður EKG en styð hann með hvalveiðar en ekki með aukningu á kvótanum sem hann afhendir örfáum
Guðrun Vestfirðingur (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 09:03
Auðvitað éta hvalir mikið af fiski - það segir sig sjálft.
Auðvitað eigum við að nýta þær auðlindir sem eru okkar og við getum nýtt án þess að ganga á höfuðstólinn = sjálfbærni
Auðvitað eru hvalveiðar hluti af okkar menningu.
Auðvitað er allt þetta satt og rétt - ekki spurning.
EN, við verðum stundum að vega og meta - velja og hafna - ekki um alla framtíð - stundum bara á ákveðnum tímum.
Og nú er ögurstund í Íslenskri sögu - menningu - og þá er ég bara að spyrja: höfum við reiknað dæmið til enda? Er rétt að hefja hvalveiðar á þessari stundu?
Þorleifur Ágústsson, 28.1.2009 kl. 14:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.