Þriðjudagur, 11. nóvember 2008
Bjarni Harðar - harðar fór hann af þingi en áður hefur þekkst.
Fyrir Vestan er gjarnan talað um að hlaupa hart. Og ræfils Bjarni Harðar fór harðar af þingi en áður hefur þekkst.
Mér finnst ekkert skrítið við það. Hann er Framsóknarmaður. Og Framsóknarmenn virðast vera að bregða búi. Fámennur hópur mannskepna sem illa rekast saman og telja sig allir vera til forystu - forystusauðir.
Og ekki nóg með það heldur riðu Framsóknarmenn á vaðið og komu fyrstir manna með sjálfvirkar "mjaltavélar" sem tottuðu alla lausa spena þjóðarbúsins - blóðmjólkuðu. Nægir að nefna Finn nokkurn - skrattakoll.
En nú er öldin önnur. Nú er heimóttahátturinn búinn að hlaupa Framsóknarmennina uppi. Ný tækni sem kallast tölvur eru skírasta dæmið. Þekkingarleysið, fiktið og fitlið við takkana endaði með ósköpum og Bjarni Harðar fór út - fór heim í heimahagana.
Og eftir eru nokkrar eftirlegukindur sem líklegast lifa ekki af veturinn. Þeim var nær - þær rekast illa og verða því úti þegar harðnar á dalnum.
Örlögin eru ráðin og flokkurinn skorinn. Ekkert stendur eftir nema minningarnar um flokkinn forna sem eitt sinn var merki framsóknar.
En ég hef trú á að Bjarni muni snúa aftur - harður í horn að taka og fylginn sér. Fyrst verður hann þó að sækja tölvunámskeið svo ekki hendi aftur að hann klúðri baktjaldamakkinu.
Athugasemdir
Allt satt og rétt sem þú segir um framsóknarmafíuna, hún hefur alltof lengi komist upp með að láta sem hún sé stjórnmálaflokkur og fengið að vaða upp með sitt svindl og svínarí. Tek undir með þér að það má ekki gleyma að minna á þátt Valgerðar, Finns og Halldórs kvótagreifa í þessum dæmalausa þjófnaði, sem átt hefur sér stað bæði með einkavinavæðingu bankanna og ekki síður kvótakerfinu.
Bóbó (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 04:43
Aumingja þeir í framsóknarflokknum heitnum Bjarni er örugglega skárstur af þeim (hann kunni pínu á tölvur) En ég efa að hún Valgerður kunni það. Var þetta ekki bara skrattinn að hrekkja ömmu sína.
Guðrún (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 08:13
"Sjálfsmorðsárás" Bjarna var hvorki tengd heimsku né kunnáttuleysi á tölvur. Bjarni er skarpur og sumum hefur hann reynst ólíkindatól. Útspil hans tengdist að mínu mati því að hann varð fyrir vonbrigðum á skammri setu sinni á Alþingi. Honum hugnaðist einfaldlega ekki að vera lengur þátttakandi í ómerkilegum vinnubrögðum á þeim vinnustað sem drýgir þjóðinni örlög. Og hann sá annan leik í stöðunni. Hann gerði áhrifaríka tilraun til að benda flokksmönnum á fortíð þess foringjaefnis sem nú hefur tekið stefnuna á að hrinda síðasta vígi landsbyggðarvina flokksins út úr pólitísku leiðtogahlutverki.
Hvort flokksmenn skilja þetta á eftir að koma í ljós. En Bjarni á aðdáun mína fyrir.
Árni Gunnarsson, 12.11.2008 kl. 17:31
Jú - þetta er allt rétt og satt. Bjarni er nú að mínu mati skarpgáfður maður sem gerði mistök. Hitt stendur auðvitað eftir að hann skrifaði ekki bréfið - og taldi einungis að það ætti að koma fyrir almenningssjónir. Það er ólga í Framsókn - sumir hafa talið flokkinn kominn langt út fyrir sína eigin stefnu - og því er etv. kominn sá vendipúnktur að hreinsana er þörf. Ég hef ekki áhyggjur af Bjarna - hann kemur aftur. Svona maður á vel heima í íslenskri pólitík. En Framsókn þarf að skoða sína innviði - og meta hvort rétt fólk er þar í forsvari. Það tel ég vera þeirra stærsta mál núna.
Þorleifur Ágústsson, 12.11.2008 kl. 20:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.