Fimmtudagur, 30. október 2008
Kreppa getur líka verið uppspretta nýrra hugmynda - samvinnu og lausna sem duga til framtíðar!
Að fólk fari að hugsa einsog landsbyggðin hefur gert lengi.
Mér finnst um margt áhugavert málefnið sem Björk Guðmundsdóttir er í forsvari fyrir. Hefði í raun viljað taka þátt í þeirri umræðu - sem vísindamaður - frumkvöðull og þátttakandi í uppbyggingu nýs atvinnuvegar sem byggir á sjálfbærni. En maður er jú ekki í "elítunni" fyrir sunnan....:(
En það er klárt mál að landsbyggðarfólk hefur glímt við kreppu um mjög langt skeið - fólksfækkun - ungt fólk leitar annað - atvinnutækifærum fækkar - aðstæður breytast og fólk þarf að hugsa sinn gang.
En allt skapar þetta tækifæri. Ég veit það af eigin raun því að fyrir nokkrum árum þegar ég eins og aðrir missti vinnuna hjá Íslenskri Erfðagreiningu þá þurfti ég að leggja höfuðið í bleyti - hugsa út fyrir kassann. Settist niður með góðu fólki.
Í dag er að komast á laggirnar nýsköpun í atvinnulífinu á Vestfjörðum - afraksturinn. Murr ehf. er stofnað og mun hefja starfsemi á næstu vikum (http://www.murr.is - upplýsingar er að fá hjá murr@murr.is) og sem skapar nokkur störf í Súðavík - það er gott. Þetta er afrakstur margra ára hugmyndar - með úrvinnslu góðra aðila og í samstarfi við Íslensk sláturhús og mun verða kynnt á næstu vikum.
Murr ehf. mun framleiða hágæða gæludýrafóður - sem þróað er af sérfræðingum á því sviði - fremsta fóðurfræðingi á þessu sviði sem við Íslendingar eigum - með hjálp dýralækna með áratuga reynslu af dýraheilbrigði. Einungis er unnið úr hágæða hráefni - ætluðu til manneldis - íslensku hráefni úr heilbrigðum dýrum. Kaupandinn mun vita hvað hann gefur gæludýrunum sínum og fá fóðrið á góðu verði.
Já - kreppa - hvaða nafni sem hún kann að nefnast getur gefið af sér hugmyndir - leitt til nýsköpunar. Og mér þykir vænt um að hugmyndin skuli vera brátt orðin að veruleika sem leiðir af sér ný störf á svæði sem átt hefur undir högg að sækja í mörg, mörg ár.
Sjálfur vinn ég áfram að uppbyggingu fiskeldis - þorskeldis í landinu - þar höldum við ótrauð áfram enda sóknarfærin mikil - og klárt mál að nú er réttur tími til að efla undirstöðu atvinnugreinar landsbyggðarinnar. Upplýsingar um þau mál er að finna á heimasíðu Matís - http://www.matis.is
Notum tækifærið til að byggja upp til framtíðar!
Athugasemdir
Hm, talandi um elítu - þá sagði Björk í Kastljósviðtalinu að talað hefði verið við aðila í Reykjavík og víðs vegar út um landsbyggðina - en greinilega ekki við þig.
Væri ekki bara ráð að hafa samband að fyrra bragði við www.nattura.info, fyrst þeim sást yfir þig?
Greta Björg Úlfsdóttir, 30.10.2008 kl. 17:58
Annars - Verkefnið þitt er mjög áhugavert.
Ég er viss um að það fellur í kramið hjá Náttúru-fólki.
Greta Björg Úlfsdóttir, 30.10.2008 kl. 18:02
Fín og áhugaverð grein hjá þér.
Man eftir þegar ég var í sveit hjá Afa mínum á næsta bæ við Súðavík, þegar ég var 10 ára og einn daginn sáum svo stórkostlegt Kríuger útá miðjum firði að Afi taldi strax að nú væri síldin komin aftur og við þrír bræðurnir og uppljómaður Afi okkar í sjöundahimni, óðum niðrí fjöru og í árabátinn, settum korkbelti um okkur miðja og skiptumst á að róa lífróður, en einn var frammí að ausa, því báturinn var lekur og einn afturí til að halda jafnvægi á bátnum. Þegar á staðinn var komið og við höfðum dýpt háfunum í djúpið, kom í ljós að þetta var Sandsílistorfa og hún smaug í gegnum möskvana og ekkert uppúr þessu að hafa. En þetta breytti ekki skapi okkar lengi og þó Hrafninn skreytti korkbeltin okkar, sem lágu í bátnum niðrí fjöru, með blásvörtu berjadriti, nokkrum dögum síðar, einsog óreiðumaður á útigangsklósetti, þá dáðumst við svolítið að dirfsku hans og helbláum húmor.
Mér fannst hressandi að lesa þessa grein hjá þér og ef þú ert ekki í elítunni fyrir sunnan, þá er bara að hafa elítu fyrir vestan og tengja þær svo saman
Máni Ragnar Svansson, 30.10.2008 kl. 18:45
Jújú - mikið rétt. Ekki vantar nú gott fólk hér - sjálfur er ég reyndar formaður Vestfjarðaakademíunnar og stjórnarformaður Náttúrustofu Vestfjarða. Mér finnst bara á stundum að þegar allt fari af stað fyrir sunnan þá sé landsbyggðin búin að berjast í mörg ár! En þetta er frábært framtak hjá Björk - því hún hefur rödd sem heyrist víða og það þurfum við svo sannarlega.
Þorleifur Ágústsson, 30.10.2008 kl. 18:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.