Að kaupa sög á krepputímum í Reykjavík.

Það er kreppa í þjóðfélaginu. Manni er tjáð það daginn út og inn og ekki er laust við að maður hreinlega trúi því. Ekki svona "öðrumaðkenna kreppa" - nei heldur "okkursjálfumaðkenna kreppa". Við sem búum á landsbyggðinni misstum af uppganginum - nema náttúrlega þegar við áttum leið um Reykjavíkurflugvöll og sáum allar einkaþoturnar - eða keyrðum Sæbrautina og sáum herlegheitin.

En ég er í Reykjavík og sé ekkert kreppuna - fullt af jeppum á götunum og mér sýnist byggingarnar rísa jafn hratt og áður. Kannski það verði bara færri sem flytja inn - hver veit. Svo í Laugadalslauginni fannst mér allir vera hálf niðurlútir - hálf tómlegt um að lítast í líkamsræktarstöðinni þar sem maður sér yfirleitt alla bankamennina á hlaupabrettunum. Nú verður kannski aftur í tísku að vera feitur og ríkur - reykja vindil og drekka koníak - hver veit?

En ég ætlaði að kaupa sög. Nú er sláturtíð og þá þarf að svíða hausa - saga þá í sundur og verka. Og til þess þarf sög. Mín var ómögulegt - svo gróftennt að hún vann ekkert á beininu.

Þegar ég kom í byggingarvöruverslunina tók á móti mér ungur maður. Glaðlegur bauð hann mig velkominn og spurði hvernig hann gæti hjálpað mér. Ég sagðist þurfa sög - og að sögin ætti að vera frekar fíntennt - til að hún biti vel á beini. Ha, sagði ungi maðurinn og horfði á mig í forundran. Já sagði ég - ég þarf að geta náð í sundur höfði en sögin mín biti ekki á hauskúpunni - hún væri svo gróftennt að hún hoppaði á hauskúpunni.

Ungi maðurinn stamaði - og fór með mig hálf fölur í deildina þar sem sagirnar héngu í röðum. Hefur þú aldrei komið í sveit?, spurði ég unga manninn. Ha ég? svaraði sá ungi - nei, ekki til að vera. Svo horfði hann undarlega á mig og sagði - viltu að ég fari þangað? - ég vil ekkert fara þangað...!

Neinei sagði ég - það er nefnilega svo að í sveitum er alls ekki óalgengt að saga í sundur hausa - einmitt á þessum árstíma. E..e..ertu að saga marga hausa? spurði sá ungi og var orðinn eithvað hálf þokulegur til augnanna. Nokkra svaraði ég. Nú er kreppa og maður verður að hafa sig allan við að ná sér í mat, sagði ég og kímdi.

Eftir skamma stund hvarf sá ungi eitthvað bakatil. Skömmu síðar kemur eldri maður til mín og staðnæmist. Ert þú að leita að sög? spurði hann. Já sagði ég. Já einmitt - og bætti við, getur þú komið með mér augnablik inná skrifstofu.

Þegar þangað var komið spurði hann mig í þaula hvað ég ætlaði mér með sögina og hvaðan ég væri. Ég sagði honum það og að ég ætlaði að nota hana til að saga nokkra hausa. Aha, sagði sá gamli. Einmitt, já nú skil ég - bætti hann við. Svo skellihló hann - er verið að svíða?!

Æi þetta unga fólk, hélt hann áfram, það horfir svo mikið á DVD myndir og svoleiðis. Ungi maðurinn taldi Vestfirskan fjöldamorðingja vera kominn í bæinn að sækja sér sög í ódæðisverkin.

Já - það er vandlifað á krepputímum. Auðvitað á maður að versla í heimabyggð - varla þorandi að kaupa svona "morðtól" í borginni. Nóg er nú ástandið þar samt!Cool


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rannveig H

Nú var mér skemmt góð saga á þessum síðustu og verstu tímum.

Rannveig H, 15.10.2008 kl. 23:53

2 identicon

Heill og sæll; Þorleifur og aðrir skrifarar og lesendur !

Dæmigert; fyrir Reykvízku glópskuna, sem og alla ''menninguna'' og ''menntunina'', á þeim slóðum. Hygg; að betur myndu yngri kynslóðirnar nema, til sjávar og sveita, þó ekki væri; nema um skeið, í stað þess að þola ítroðslu gagnslauss ''lærdóms'' hins liðónýta grunnskólakerfis, og hins innihaldsrýra húmbúkks, sem það býður upp á, Þorleifur minn.

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 01:15

3 identicon

Svona er unga fólkið í henni Reykjavík. Ég fékk senda Ýsu að vestan og eins og allir vita þarf maður vestfirskan hnoðmör. Svo mín fór í Nóatún, það var búið að segja mér að það þýddi ekkert að fara í Bónus þeir myndu ekki vita hvað mör væri. Afgreiðsludaman sem ég talaði við eftir að vera búin að leita eftir mörnum vissi ekki hvað það væri, svo ég útskírði til hvers mörin væri notaður þá var mér bent á Hamsatólg. Hnoðmör og það hnoðaður er það eitthvað útlenkst spurði daman. Ég sá hugsunina í andlitinu hjá henni (þetta landsbyggðapakk) En ekki fékk ég mörinn kaupi slatta þegar ég kem vestur

Guðrún Vestfirðingur (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 08:26

4 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

nú, þú hefðir getað ætlað að nota þetta á Davíð og Geir...

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 16.10.2008 kl. 10:28

5 Smámynd: María Richter

Yndisleg saga um sögina. 

María Richter, 16.10.2008 kl. 11:06

6 identicon

Bara svona til að halda því til haga...
Það hafa ekki allir Reykvíkingar notið góðærisins - heldur mikil einföldun að halda því fram. Það er fullt af fátæku fólki í henni Reykjavík.
Þetta er bara útvalinn hópur Íslendinga, sem er ekki bundinn við eitthvert ákveðið svæði landsins.

Berglind úr borginni (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 17:39

7 Smámynd: Einar Sveinn Ragnarsson

Snilldarsaga,  það er ekki oft sem maður hlær upphátt fyrir framan tölvuna.

Einar Sveinn Ragnarsson, 16.10.2008 kl. 18:10

8 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Allveg laukrétt - það eru sko ekki allir sem tóku þátt í útrásinni eða þenslunni. Ekki ætlun mín að halda því fram. En það sem ég meina er að "flottheitin" fóru frekar meira framhjá landsbyggðarfólki - þar sem fáar hallir voru reistar og færri "Game over" bílar á götunum. Nú þarf að styðja við okkur þessi sem ekki vorum með í "ævintýrinu".

Þorleifur Ágústsson, 16.10.2008 kl. 19:37

9 Smámynd: Sigríður Hrönn Elíasdóttir

Hér er slóð með myndum af sumarhöllunum á Íslandi.

http://photo.blog.is/blog/photo/entry/673189/

Sigríður Hrönn Elíasdóttir, 16.10.2008 kl. 21:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband