Þriðjudagur, 6. maí 2008
Hjá góðu fólki.
Eitt af því sem ég hef notið í starfi mínu er að fá að ferðast til framandi landa. Ekki hafa þessar ferðir endilega verið til fjarlægra landa en á sinn hátt gefið mér kost á að kynnast menningu og lífi fólks í öðrum löndum - framandi löndum.
Yfirleitt eru þau þjóðareinkenni sem maður kynnist í slíkum ferðum tengd daglegum samskiptum - við kaup á þjónustu eða afþreyingu. Við slíkar aðstæður kemur vel í ljós hvernig fólk er samsett eða gert - svo sem þjónustulund og notalegheit í öllu viðmóti.
Ég ætla í sjálfu sér ekki að tíunda einkenni þeirra þjóða sem ég hef heimsótt - en mig langar til að segja ykkur frá hreint óskaplega skemmtilegri heimsókn minni og okkar hjónleysa til Kraká í Póllandi. Hvílíkri gestrisni og þægilegu viðmóti hef ég aldrei kynnst á ferðum mínum - hreint með ólíkindum hve mikil rósemi og þolinmæði einkenndi viðmót íbúa Kraká - borg sem er steinsnar frá minnismerki mannvonsku og illsku - Auswitch.
Ég verð að segja að þetta var ekki síst ánægjuleg upplifun í ljósi þeirrar neikvæðu og óbilgjörnu umræðu sem hefur einkennt umræðu um Pólverja á Íslandi - við verðum nefnilega að muna að í nútíma þjóðfélagi - nútíma fjölmenningarþjóðfélagi - þá býr fólk frá úr ólíkri menningu saman og ekki má taka sér þau "einföldu þægindi" að setja alla undir sama hatt. Alls ekki.
Það er í reynd með ólíkindum að þjóð sem hefur mátt þola svo margt slæmt skuli yfir höfuð vera eins sterk og pólska þjóðin er - það eitt ber merki þess að þar býr gott fólk.
Ég hvet alla þá sem langar að heimsækja fallega borg - þar sem maður er hjartanlega velkominn - þar sem reisn og fegurð eru einkennismerki - að heimsækja Kraká í Póllandi - skoða ekki bara minningar um helför og mannvonsku heldur líka stórvirki jákvæðs hugarfars.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.