Skammaður í skurði af skaðræðisgæs.

Ég var búinn að gera allt klárt. Byssan var vel pússuð - olíuborin og einhvernvegin svo falleg þar sem ég lagði hana í plasttöskuna - tilbúinn í veiði. Ég fór í gallann. Feluliturinn gerði mig trúverðugan og ég var nokkuð viss um að koma heim hlaðinn gæsum. Það yrði veisla í skammdeginu - grilluð gæs með sykurhúðuðum kartöflum. Íslenskum kartöflu. Ekki þessum innfluttu.

Til að vera viss kom ég við í vinnunni og sótti stígvél. Þau voru græn og hétu "thermo special" - með þykkum grófum botni. Svona alvöru. Ekki svört Nokia með glampandi endurskinsrönd. Nei, alvöru - græn og grófbotna. Ég stóðst ekki mátið - horfði í spegil og endurtók í sífellu "are you talking to me....". Ógleymanleg sena úr gamalli bíómynd. Vel til fundið fannst mér enda ætlaði ég að leggjast út - í skurð og strádrepa allan þann fiðurfénað sem slysaðist í skotfæri. Feluliturinn á gallanum myndi gera það að verkum að ekki einu sinni styggasta gæsin í hópnum tæki eftir mér. Skothelt plan.

Á leiðinni var mér hugsað til vinar míns fyrir margt löngu sem skaut gæs á köldu haustikvöldi. Gæsin lenti hinu megin við djúpan skurð sem fullur var af vatni og í kuldanum hafði myndast nokkurra sentímetra þykkur ís. Úti var kalt. Tunglið sendi geisla sína niður til okkar og þeir endurköstuðust af hvítum  nöktum  manninum sem braut sér leið í gegnum ísinn til þess að sækja bráðin sem lá hinu megin við skurðinn. Ég hækkaði í miðstöðinni við tilhugsunina - en svona var líf veiðimannsins. Maður varð að fórna sér.

Fleiri veiðisögur rifjuðust upp fyrir mér en útsýnið yfir Dýrafjörðinn gerði það af verkum að ég hætti að hugsa um fortíðina og ég fór í staðinn að velta fyrir hvernig ég kæmi aflanum heim. Ég átti ekki von á öðru en að þurfa að fara nokkrar ferðir - enda veiðigallinn flottur og byssan vel smurð. Ekki spurning - ég yrði líklegast skammaður fyrir að vera magnveiðimaður. Eitthvað svo heillandi neikvætt að vera magnveiðimaður. Úff - ég kófsvitnaði og opnaði gluggann.

Nú fór ég að nálgast bæinn þar sem bóndinn hafði leyft mér að veiða gæs. Ég þóttist góður - enda einungis fáir sem fá að veiða á þessum slóðum.

Ég lagði bílnum. Nú var komið að því. Ég féll svo gjörsamlega inn í umhverfið að ég varð hálf hræddur um að ef eitthvað kæmi fyrir mig þá myndi ég aldrei finnast. Myndi hreinlega týnast.

Ég svipaðist um eftir skurðinum góða - gæsaskurðinum þar sem veiðilendurnar voru. Mér fannst allir skurðirnir vera eins og var alls ekki viss um að finna rétta staðinn - þrátt fyrir ítarlegar lýsingar bóndans. Hvaða holt var hann eiginlega að tala um, hugsaði ég - hvað skjólbelti og hvaða skurð? Ég ákvað að rölta aðeins um svæðið og reyna að átta mig á aðstæðum. Ég gekk öruggum skrefum í átt að skjólbelti sem lá samsíða veginum. Víðirinn var ennþá grænn og ég taldi mig vel falinn. Bíll ók eftir veginum og ég hló með sjálfum mér - þeir hafa ekki hugmynd um mig...hugsaði ég. Ótrúleg tilfinning.

En mér var ljóst að ég var ekki á réttum stað. Ég tók upp GSM símann og hringdi í bóndann. "Já sæll" sagði bóndinn - "ha, nú ertu þar...nei það er kolvitlaus staður!.... þú átt að fara mun utar". Já bóndinn var með þetta á hreinu. Ég fylgdi ráðum bóndans og von bráðar áttaði ég mig á réttum skurði. Frábær staðsetning með útsýni yfir tún í þrjár áttir. Magnað. Í því sem ég rölti á réttan stað flaug upp önd - ég mundaði byssuna og skaut - en helvítið slapp. Ég var eiginlega hálf feginn. Nenni ekki að eltast við svona kvikindi.... svona smáfugla.

Ég kom mér fyrir í skurðinum. Ég og náttúran. Og byssan. Runnum saman í eitt og ég hugsaði um hve mikill frummaður ég væri í raun - að vera svona úti í náttúrunni - að veiða - bera björg í bú. Bara ég í gallanum og með byssuna tilbúna. Frábært.

Allt í einu hringir síminn. Ég svara. Bóndinn á línunni og spyr hvort ég sé byrjaður að skjóta? "Tja ég skaut á eftir önd" segi ég - "ætlaði ekkert að drepa'na  - í raun bara að reka'na í burtu". "Nú jæja", segir bóndinn og bætir við að hann vilji ekki að neitt sé skotið nema gæsir. Ég samþykki það. Svo er þögn. Veðrið leikur við mig og mér leið vel. Gjörsamlega falinn í skurðinum.

Allt í einu verð ég var við hreyfingu á túninu. Ég munda byssuna. En þetta var ekki gæs að mér sýndist?? Veran færðist nær. Rauð til höfuðsins að mér sýndist og með stóra vængi. Ég pírði augun. Spennan var magnþrungin. Smám saman sá ég betur og betur að þetta var manneskja. Úff.... eins gott að ég skaut ekki!

Mannveran tekur sér stöðu á skurðbakkanum - setur hendur á mjöðm - starir á mig með miklu yfirlæti eldrauð í framan - íll á svip. Ég sat í skurðinum og horfði upp. Manneskjan bar við himinn eins og mannýgt naut og það fór ónotartilfinning um mig. Ég er þó altént vopnaður hugsaði ég. "Hvurn fjandann varst þú að skjóta", segir manneskjan. Þá átta ég mig á því að hér er um kvenmann að ræða - en erfitt getur verið að átta sig á konum við slíkar aðstæður. "Ég..."stamaði "ég...var bara að skjóta á önd". "En hún slapp" bæti ég við. "Já, jæja" segir konan og hristist af bræði. "Þú átt ekkert vaða hér um öll tún veifandi byssu andskotanum... hér veiðir enginn önd - bara gæs". Konan lét móðan mása - ég fékk gúmorren. Sat í skurðinum hjálparvana og langaði bara að fara heim. Var búinn að fá nóg. Kolröng gæs og kolvitlaus í þokkabót. Ég í skurðinum - í felulitum að bíða eftir gæs. Konan á skurðbakkanum - eldrauð í framan á flíspeysu. Líklega tækju allar gæsir á sig krók við þessa sjón - og ekki út af mannræflinum í felulitunum í skurðinum - nei ekki aldeilis. "En....ég var búinn að fá leyfi" sagði ég....."hjá bóndanum"... konan strunsaði í burtu muldrandi "best væri að þið létuð ekki sjá ykkur hér"....

Ég keyrði sneyptur heim þetta kvöld. Fékk eiginlega nóg af gestrisni Dýrfirðinga.... úff og þessu öllu saman og taldi mig í raun heppinn að sleppa lifandi.

Já - það er ekki sjálfgefið að maður hitti rétta gæs þó að á veiðar sér farið. Og kannski er þetta ástæðan fyrir því að ekki er mælst til þess að menn fari einir á veiðar. Á örskotsstundu breytist veiðimaðurinn í bráðina.......


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Þú getur þó alltaf fengið þér sykurhúðaðar kartöflur, íslenskar.

Ingólfur H Þorleifsson, 2.10.2007 kl. 06:48

2 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

Og átt enn grænu stígvélin góðu.  Það á víst eftir að rigna meira.........

Sigríður Sigurðardóttir, 2.10.2007 kl. 08:16

3 Smámynd: Steingrímur Rúnar Guðmundsson

Fæst þetta ekki frosið í Samkaup?

Steingrímur Rúnar Guðmundsson, 2.10.2007 kl. 09:36

4 Smámynd: Ester Rut Unnsteinsdóttir

 - hver einasta gæs komin suður í borg bleytunnar, eru hér í massavís á hringtorgum og öðrum grænum eyjum, bíta grænkuna pollrólegar - hafa vit á að forða sér frá feluklæddum byssumönnum sem hanga ofan í skurðum á haustin ...   góða veiði Tolli

Ester Rut Unnsteinsdóttir, 2.10.2007 kl. 09:39

5 Smámynd: Fiðrildi

 . . hefðir nú bara átt að grípa gæsina og snúa henni úr hálslið á staðnum . . . með berum höndum eins og sannur veiðimaður.  Það hefði ég gert . . . og þó kannski ekki.

Fiðrildi, 2.10.2007 kl. 10:32

6 Smámynd: Arna Ágústsdóttir

Tolli-þú ert bara snilli. Gott að þú skulir eiga þennann felugalla og stígvél :)

Arna Ágústsdóttir, 2.10.2007 kl. 20:43

7 Smámynd: Hilmar Pálsson

Ekki örvænta Tolli minn, þetta getur komið fyrir bestafólk. Best er náttúrulega að kanna aðstæður seinnipartinn, hvaða tún eða sléttu, og fara svo snemma næsta morgun í myrkrinu ,leggja út gervigæsirnar og bíða að birti. Og sjá þær munu koma þessar gráu elskur og kvaka til þín blíðu kvaki, og ef þú svarar rétt setjast þær hjá þér og þú getur grisjað stofninn. Og ég veit að heiðurshjónin á Höfða hafa fyrirgefið þér.

Hilmar Pálsson, 5.10.2007 kl. 14:03

8 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Það var nú meining mín með verunni. Og ekki þarf ég nú fyrirgefningu enda syndin engin. Líklegast um að kenna skortur á samskiptum heiðurshjóna - en mér fannst bara "sitúasjónin" svo myndræn...ég í felulitum í skurði að fela mig fyrir gæs til að meta stöðuna.....og frúin á skurðbarminum að "lesa pistilinn"....

Þorleifur Ágústsson, 5.10.2007 kl. 14:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband