Vestfirðir - in memorium

Það fór um mig undarleg tilfinning að aka þessa vegi. Ég hafði ekki verið á ferðinni um þetta svæði í yfir 40 ár og því vissi ég í raun ekki við hverju var að búast.

Þegar ég fór var orðið ljóst að baráttan var töpuð - að mótvægisaðgerðirnar sem svo höfðu verið nefndar gerðu ekkert annað en reka síðasta naglann á kaf í líkkistur samfélaganna fyrir Vestan.

Og það sem gerði þessa ferð ennþá sérstakari var að ég ók um á vegum sem aldrei höfðu verið betri. Voru ennþá eins og þegar samgönguráðherrann klippti á borðann. Sá hinn sami sem tók ákvörðunina örlagaríku að Grímseyjarferjan skildi kláruð og notuð til siglinga út í Grímsey. Hann hefði betur sleppt því - enda misstu margir ástvini þegar ferjan sökk í jómfrúarferðinni - - en ríflega 1000 milljónir fóru í verkið sem fólst í að endursmíða ónýtan bát - en þrjóska og pólítísk tengsl eru heilbrigðri skynsemi yfirsterkari.

Það er sérkennilegt að sjá niður að gamla skólanum í Reykjanesi - búið að girða landið og skilti sem segir á fjölmörgum tungumálum að um einkalóð sé að ræða. Að óviðkomandi aðgangur verði kærður. Já þeir eru harðir þessir þjóðverjar sem keyptu upp dánarbú útgerðanna og selja nú bara löndum sínum aðgang að sjóstangveiðinni. Nokkuð sem var stofnað af íslendingum og átti að vera "gullnáma" - og hefði verið það ef Byggðastofnuninni heitinni hefði verið veittur sá stuðningur sem í raun þurfti. En svona er það þegar vilji pólitíkusanna nær bara eitt kjörtímabil fram í tímann.  

þeir hafa í það minnsta góða vegi til að aka eftir hugsaði ég. Ekkert er eftir í Vatnsfirðinum - kirkjan stendur vart uppi og hús prestsins notað sem skothús fyrir áhugasama veiðimenn sem koma hingað til að veiða fugl. Já - fornleifauppgröfturinn hætti með búsetunni. Enginn hefur áhuga á slíku lengur.

Það fór um mig kvíði að koma aftur á fornar slóðir. Einkum fannst mér undarlegt hvernig allt var yfirgefið - enda var svo sem enginn sem hafði áhuga á að kaupa hús á Ísafirði - til hvers? og fólk bara flutti í burtu og skildi allt eftir.

Eitt af því síðasta sem ég gerði á sínum tíma var að setjast í stjórn nýstofnaðs Refaseturs Íslands. Ég var því spenntur að sjá hvort húsið stæði enn. Það var erfitt að átta sig á því þegar ég kom keyrandi yfir hálsinn og virti fyrir mér sjötúnahlíðina - ómögulegt að átta sig á - en húsið stóð þarna ennþá líkt og flest hinna húsanna. Að vísu voru þökin ekki eins áberandi vel máluð og áður.

Sjókvíarnar voru ennþá á sínum stað - það fór um mig þægileg tilfinning þegar ég hugsaði til baka til  uppgangstíma í þorskeldinu - framtíðardraumana. En einhvernvegin gleymdist þorskeldið þegar mótvægisaðgerðirnar frægu voru samþykktar af ráðamönnunum.  Já okkur fannst skrítið að koma til móts við niðurskurð í aflaheimildum með því að bæta nettengingar - og flýta fyrir 3G á Vestfjörðum.

Í Súðavík stóðu húsin tóm - galtómir gluggarnir horfðu á mig líkt og augntóftir í hauskúpum. Óhugnanlegt. Tölvan í bílnum sagði mér að netsamband væri gott - en jafnframt að engin etanól stöð væri á staðnum - enginn banki og ekkert sjúkrahús. Sjálfvirkt bilunarleitarkerfið fór af stað í bílnum - tölva bílsins taldi greinilega víst að bilun væri í tölvukerfi bílsins - gott samband en engin svör. Já tæknin er merkileg.

Refasetrið var á sínum stað. Tignarlegt húsið sem tæmdi sjóði sveitarfélagsins stóð þarna og var greinilega orðið griðastaður tófunnar. Fyrir utan húsið léku sér yrðlingar og allt var svo kyrrt - þögn ríkti í Súðavík.

Nú var ég orðinn spenntur að sjá Ísafjörð. Ég hafði að vísu heyrt að bærinn hefði verið notaður við endurgerð kvikmyndar Hrafns Gunnlaugssonar "Blóðrautt sólarlag" enda átti myndin að gerast í eyðibyggð á Vestfjörðum og því vissi ég ekki við hverju væri að búast. Að vísu var Hrafn látinn en barn leikstjórans gerði myndina.

Lítið var eftir af flugvellinum. Flugskýlin stóðu galopin og bárujárnið var að mestu ryðgað burtu. Flugbrautin ónothæf enda hálf í kafi. Jú Bærinn var tómur. Greinilegt var að búið var  að nota húsin í firðinum til heræfinga fyrir sérsveit hersins - sem gengur undir nafninu "Birnirnir" - til heiðurs Birni Bjarnasyni heitnum - sem kom upp fyrsta her okkar Íslendinga. Jæja, það var í það minnsta hægt að nota húsin "til að bjarga mannslífum" - æfa viðbrögð við innrás.

Í miðbænum ríkti glundroði - allt var í niðurníðslu og ráðhús bæjarins var allt sundurskotið - eins og gata sigti. Já hér hafði greinilega ýmislegt gengið á við tökur myndarinnar "Blóðrautt sólarlag - Hrafninn snýr heim". Það fór um mig hrollur - óhugnanleg örlög höfuðstaðar Vestfjarða. En við hverju var að búast? Menn vissu hvert stefndi - en enginn vildi gera neitt til að sporna við fótum. Í það minnsta enginn sem völd og tæki hafði til að efla Vestfirði.

Mér varð minnistætt hve vinsældir Árna Johnsen spiluðu þar stóra rullu - hann hafði gefið út yfirlýsingar um hve þreyttur hann væri á þessum Vestfjörðum. þar væri engan brekkusöng að syngja og einu minningarnar sem hann hefði um þessa Vestlægu smástaði væri fangelsisvist. Og fólk trúði honum og gerði að forsætisráðherra. Ótrúlegt.

Ekki þýddi fyrir mig að ætla að heimsækja Bolungarvík - ekki eftir að göngin mistókust svona herfilega. Hvernig datt þeim í hug að ætla sér að bora þar sem þeir boruðu? Gljúpt bergið og vatnsflaumurinn  - allt varð til þess að fjallshlíðin fór af stað - olli gríðarlegri flóðbylgju sem skall á grænuhlíðinni og kom svo til baka af margföldu afli og drekkti öllu sem fyrir varð.

Já þetta var þungbær heimsókn á fornar slóðir. Ég hefði viljað óska þess að ríkisstjórnin hefði tekið meira mark á þörfum svæðisins - að meiri vinna hefði verið lögð í að byggja upp þá innviði sem þurfti. Þá hefði ég verið að koma í heimsókn í blómlega byggð. Eða kannski bara aldrei farið burtu. Hver veit - kannski verður hægt að snúa til baka klukkunni um nokkur ár og gera betur - reynslunni ríkari.

tja ekki veit ég.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Spámannleg orð.  Haustdrungi í sinni.  Þetta þarf ekki að vera svo absúrd sýn ef við spornum ekki við sjálf.  Ríkið á ekki að þurfa að spyrna við og við ekki að bíða eftir að það geri það um leið og við leikum aflvana fórnarlömb.  Gæfan og framtíðin er í hendi fólksins.  Nóg er komið af grátnum.  Nú ættu menn að nota orkuna í annað.

Jón Steinar Ragnarsson, 22.9.2007 kl. 21:26

2 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Sæll Jón - rétt hjá þér og ég er sammála - ég dró upp mynd af mögulegum endi - en þar sem við skrifum handritið sjálf þá er ekki of seint að breyta sögunni.

Þorleifur Ágústsson, 22.9.2007 kl. 21:52

3 Smámynd: Skafti Elíasson

ég þekkti nú mann sem hefði spurt þig hvort þú héldir að þú byggir í arnarhreiðri...

Skafti Elíasson, 22.9.2007 kl. 23:58

4 Smámynd: Sigríður Hrönn Elíasdóttir

Var það þú sem slökktir ljósin á flugvellinum?

Sigríður Hrönn Elíasdóttir, 24.9.2007 kl. 22:55

5 identicon

Vel skrifað Tolli, þú ættir að prófa að skrifa bók.

Hallgrímur Óskarsson (IP-tala skráð) 25.9.2007 kl. 23:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband