Þriðjudagur, 18. september 2007
Alvarlegur mengunarskortur á Íslandi.
Ég fór á ákaflega forvitnilegan fyrirlestur í gærkveldi - en um var að ræða fyrirlestur á vegum Vestfjarða akademíunnar og Háskólaseturs Vestfjarða. Í fyrirlestrinum fjallaði Dr. Francesca Popazzi um rannsóknir sínar á lífríki sjávarlónsins gríðarstóra sem m.a. umlykur Feneyjar.
Doktorinn frá Ítalíu starfar um þessar mundir hjá Náttúrustofu Vestfjarða í Bolungarvík - sem hljómar eins og nafn á erlendri stórborg þegar hún ber nafnið fram með ítölskum hreim. Hún reyndar tjáði mér að fyrstu fjóra dagana hafi hún ekki séð nokkurn mann á ferð um bæinn....
Og það var einmitt koma hennar til Bolungarvíkur sem mörgum fannst svo skemmtileg - þ.e. að ferðast alla leið frá Trieste sem er norður af Toscana héraðinu fræga og til Bolungarvíkur - að rannsaka mengun. Sem er bara ekkert til staðar - ekki sem vandamál. Það er semsagt skortur á mengun á Íslandi - svona í gríni sagt. Svo má auðvitað spyrja sig hvort verið sé að leysa það "vandamál" með því að reisa álver og þvíumlíkt um allar trissur.
En fyrirlesturinn var einkar áhugaverður og kynnti vel fyrir gestum í salarkynnum Háskólaseturs hve umhverfið er okkur dýrmætt og mikilvægt er að skilja samspil náttúru og manns. Það er meira að segja fleiri en ein olíuhreinsistöð staðsett við sjávarlónið stóra - sem mengar og eykur álagið á náttúruna. Og við erum að skoða slíka möguleika hér - til að bæta mannlífið.
Það er nefnilega þetta sem skiptir máli - að skilja. Að skilja sambandið - hvað sé orsök og hvað afleiðing. En til að skilja það og eiga möguleika á að taka rök- og vitræna ákvörðun þá verður að rannsaka. Vita hver staðan er áður en farið er af stað. Þróun er nefnilega aðeins í eina átt - þróun verður aldrei snúið við - við verðum ekki að öpum aftur....þó reyndar margir efist reyndar um að við höfum farið af því stigi
Náttúrvísindi - hvaða nafni sem þau mega kallast - miða að því að skilja. Og til að skilja afleiðingar verðum við að vita upphafið - núllpunktinn. Annars verðum við bara í því að moka skít - og vandamálið verður ekki skortur á mengun - heldur verður vandamálið MENGUN.
Ég lýsi því eftir auknum fjármunum í náttúrurannsóknir á Íslandi í víðasta skilningi. Það er mótvægisaðgerð.
Athugasemdir
Um ÞAÐ erum við þó sammála Tolli minn
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 18.9.2007 kl. 21:13
Já algerlega sammála
Rakel Guðmundsdóttir, 19.9.2007 kl. 17:09
Trieste er gott betur en norðan við Toscana hún er alveg við Slóvensku landamærin á norðausturhorni skagans.
Landafræðinörd.
Gísli Aðalsteinsson , 20.9.2007 kl. 11:42
Rétt er það og að mig minnir þá er helmingur borgarinnar gamall hluti Slóveníu...en ég er bara kall að norðan sem finnst allt vera "rétt hjá...".
Þorleifur Ágústsson, 20.9.2007 kl. 11:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.