Innreið tækninnar í íslenskar sveitir.

Ég hef sagt það áður að mér finnst stundum ansi líkt með Vestfirðingum og gömlum Eyfirðingum. Sameiginlegt eiga þeir að hafa glímt við nýjustu tækni og vísindi - og auðvitað haft sína sýn á hlutina.

Það er ekki svo ýkja langt síðan að rafmagn komst á í sveitum Eyjafjarðar. Faðir minn kynntist því að ekki var rafmagn á bæjum þegar hann var að byrja sem dýralæknir. Svo kom að því að rafmagn var lagt og bændurnir gátu nýtt sér nýjustu tækni er því fylgdi. Eitt sinni er dýralæknirinn þáði kaffi hjá húsfreyju á bæ einum í Eyjafirði eftir að heimsókn í fjósi lauk spurði hann hvernig henni líkaði nýja rafmagnseldavélin. Húsfreyja hváði og sagðist nú lítið geta notað gripinn. "Nú", spyr þá dýralæknirinn - "er hún biluð?".  "Nei" segir húsfreyja, "hún er auðvitað mjög fljót að sjóða vatnið - en mér gengur illa að láta pottana haldast á rauðglóandi hellunum - þeir vilja hoppa og skopp um allt og enda ævinlega í gólfinu".

Bóndi einn við Djúp kom eitt sinn heim með glænýja þvottavél. Sú var dýrindis tæki og algjörlega sjálfvirk samkvæmt leiðbeiningum sem með fylgdu. Þetta átti að verða hin mesta búbót og hlakkaði í bónda þegar hann tengdi vélina í þvottahúsinu. Einu gleymdi þó bóndi - en það var að losa um tromluna sem fest hafði verið til að koma í veg fyrir skemmdir í flutningi. Svo þegar bóndinn og húsfreyja hafa sett í vélina - stillt hana á þvott og skrúfað frá vatninu - þá upphefjast hin mestu læti. Þvottavélin dansar um þvottahúsgólfið og húsfreyjan verður skelkuð mjög - gerir sig líklega til að taka vélina úr sambandi. Bóndinn stekkur til og kallar til húsfreyju "farðu frá ég ætla að opna útidyrnar" - "nú af hverju?" spyr þá húsfreyja - "nú þú sérð það nú manneskja - helvítið þarf að komast út til að hengja upp þvottinn".

Já tæknin getur á stundum strítt manni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Axel Hannesson

Bráðskemmtilegar sögur! Finnst ég kannast ögn við þá síðari, um þvottavélina. Veist þú nokkuð um upprunann?

Sigurður Axel Hannesson, 7.8.2007 kl. 22:47

2 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

nei ekki veit ég upprunann - heyrði þessa sögu hér fyrir vestan og fannst skemmtileg samsvörun í þeirri úr eyjafirðinum.

Þorleifur Ágústsson, 8.8.2007 kl. 00:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband