Sunnudagur, 22. júlí 2007
Hómer á bak við tjöldin.
Mér krossbrá í kvöld. Alveg dauðbrá og kvöldið var næstum ónýtt. Ég átti leið út í vídeóleigu með hann Ísak minn sem ætlaði að leigja sér spólu og kaupa nammi. Ég náttúrlega var þarna sakleysið uppmálað og taldi mig algjörlega í rétti - hefði ekki gert neinum neitt og engin(n) hefði upp á mig að klaga - nema auðvitað þessir nokkrir sem alltaf eru til staðar. Og hvað sé ég þá blasa við mér - hvað annað en forsíðumynd af skælbrosandi konu og þeldökkum manni undir fyrirsögninni "búin að gefast upp á íslenskum karlmönnum". Já þeinkjú verrý möts. Bara búin á'ðí og komin með söguna í opnuviðtal í Vikunni. Er hún búin að prufa þá alla - hugsaði ég en mundi nú samt ekki eftir að hafa hitta'na....en hvað um það - hún hlýtur að vera komin með nægilegt úrtak til að geta alhæft.
Ég dauðskammaðist mín auðvitað - konu greyið búin að fá nóg og ég bara sisvona úti í sjoppu að kaupa poka með nammi. Ég fór auðvitað beint heim og dró fyrir.
Getur verið að íslenskir karlmenn séu svona daprir - lélegir til flestra verka að konurnar séu búnar að fá nóg. Er það ástæðan fyrir því að Sævar Karl seldi búðina í Bankastræti - gafst upp á þessum íslensku lúðum. Er hann farinn til USA að klæða frægu kallana í jakkaföt. Tja ekki veit ég en ótrúlega margt bendir til þess.
Er þetta ekki bara afleiðing útrásarinnar. Allir ríkustu og flottustu búa í útlöndum þar sem allt er alvöru og þjónar á hverju strái. Eru það bara við lúserarnir sem erum eftir - þessir sem eru ekki í bisness og eiga ekki þyrlur og þvíumlíkt - versla í Dressmann og hjóla í vinnuna með teigju á skálminni - bruna svo um landið með fellihýsi í eftirdragi með plastblóm í gluggunum og fá sér tvöfaldan vodka í kók á tjaldstæðinu í Borgarnesi.
Útrásarliðið kemur meira að segja heim til íslands til að selja vatn - á íslandi. Nú auðvitað af því að engum "íslendingi" tekst það - erum svo stúpíd - já og meira að segja gufan í jörðinni er að breytast í monnýpeninga - komin á hlutabréfamarkað......
Já ég er í sjokki og veit hreinlega ekki hvar þetta endar allt saman - er Ísland orðið að einskonar "Springfield" líkt og í Simpsons þáttunum......og er ég þá Hómer.....kannski erum við allir Hómer á bak við tjöldin - í það minnsta er Guðjón á bak við tjöldin löngu fluttur út - kominn í útrás.
já maður spyr sig.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Í stuttu máli, ef íslenskur karlmaður reynir við konu á skemmtistað, þá byrjar hann á því að klípa hana í brjóstin, hallar sér svo yfir hana og segir "Ógisslega ertu sæt". Hann býst svo við því að daman verði svo upp með sér yfir hrósinu að hún verði tilbúin til að stökkva með honum heim, eða bara helst inn á klósett, þar sem hann getur lokið sér af.
Erlendir karlmenn eru öðruvísi. Erlendur karlmaður byrjar á að kynna sig kurteisislega og spyr konuna að nafni. Svo upphefst almennt spjall og fólkið kynnist sæmilega. Hann býður henni upp á drykk og segir henni hvað hún sé glæsileg. Þeir áræðnu bjóðast til að fylgja dömunni heim eftir djammið, aðrir kveðja kurteisislega og bíða tækifæris sem kemur næst þegar hann rekst á dömuna. Þá getur hann heilsað henni vinalega og haldið áfram að spjalla við hana, jafnvel daðra og sýna meiri áhuga. Býður henni svo að hitta sig á kaffihúsi daginn eftir.
Hugrún Jónsdóttir, 22.7.2007 kl. 04:11
... eitt sem ég las út úr þeim viðtölum sem tekin voru við ungar stúlkur í blaðinu var að þær vilja meina það að fordómar ráði því afhverju sumir líta á "blönduð" pör öðrum augum en "óblönduð" en segja svo sjálfar að þær séu komnar með nóg af íslenskum karlmönnum.
... eru þær þá ekki sjálfar með fordóma? Setjandi alla íslenska kalla undir sama hatt ?
... ég kannast ekki við að hafa verið brjóstklipin á skemmtistöðum borgarinnar og stafar það nú ekki af brjóstleysi, kannski er þetta spurning um hverskonar skemmtistað maður er á ? ...
...svo er annað mál hvort maður þurfi alltaf að vera í karlaleit á skemmtistöðum, en það er ekki eini staðurinn til að finna sér maka.
...fólk má vera á þeirri skoðun sem það vill, á meðan það traðkar ekki á annarri manneskju eða skaðar hana. Það er fín lína á milli skoðana og fordóma, ég held að íslenskir karlmenn þurfa ekki að óttast neitt, samkeppni er af hinu góða og þeir vanda sig þá bara betur ef þeir eru svona ómögulegir eins og haldið er fram í blaðinu (og hér) :)
Sigrún Þöll, 22.7.2007 kl. 10:52
HAHAHA þetta var fyndinn og skemmtilegur pistill.
Ég hef ekki heldur verið klipin í brjóstin á skemmtistað og þegar ég pæli í því....ekki rassinn heldur!
Hún hlýtur að hafa verið svona óskaplega óheppin með menn þessi pía í Vikunni. Ég hef nú ekki lesið blaðið en mér finnst íslenskir karlmenn upp til hópa frábærir! Auðvitað eru til algjörir lúserar inn á milli en svoleiðis er það nú bara alls staðar í öllum löndum!
Frú Bjarkan, 22.7.2007 kl. 11:26
Góður pistill hahaha
Svava Björg Mörk (IP-tala skráð) 22.7.2007 kl. 14:09
Snilldar pistill hjá þér. Sá einmitt blaðið í Bónus í gær og langaði að skrifa um þetta, en ég er svo innilega sammála grein þinni. Ég segi eins og fleiri hér að framan, hef ekki verið klipin en hef átt skemmtileg og spennandi samskipti við íslenska karlmenn í gegnum tíðina, vildi ekki skipta þeim út fyrir aðra. Íslenskt, Já Takk.
Ásdís Sigurðardóttir, 22.7.2007 kl. 14:51
Hver er þessi prótótýpíski erlendi gæðakarlmaður, sem konum er svona tíðrætt um? Er hann frá Fílabeinsströndinni, Tatsekistan, Grænlandi, Noregi, Færeyjum, Þýskalandi??
Eru það Spænskir flagarar í níðþröngum hvítum buxum með dagblað upprúllað í skálminni eða sveittir Ítalar með fagurgala og staðlaðar pikköpplínur, sem miða aðeins að því að fá kvenpeninginn láréttann? Eru það andfúlir Frakkar, sem hleypa brúnum og fara með skólaljóðin sín í sama tilgangi?
Maður spyr? Stoltið er sært. Vilja konur blekkingar í stað þess að menn komi beint að efninu. Hvort er verðara trausts, sá sem rómar og smjaðrar og lýgur eða sá sem kemur fram eins og þverskorin ýsa á mánudegi undir veðurfréttunum á gufunni? Ma, ma, maður bara...
Jón Steinar Ragnarsson, 22.7.2007 kl. 23:28
Já það er nú svo að ég held að íslenskum kvenmönnum þyki bara ágætt að karlmenn komi fram eins og þverskorin ýsa á mánudögum en það er líka yndælt að fá steikt lambalæri á sunnudögum eða jafnvel gæsalifur í forrétt og svo eðalsteik í aðalrétt með gæða rauðvíni sem er að sjálfsögðu neytt með íslenskum karlmönnum. Þið getið verið svo yndælir þegar þið viljið það við hafa og þessir erlendu eiga ekki roð í ykkur ef þið viljið eruð bara þið sjálfir.
Heyrðu annars Tolli, þú varst einu sinni grískur guð að eigin sögn þegar þú leist í spegil og segir okkur núna að útlitið á þér núna geti kallað á lögreglumál. Ertu ekki bara að líta í rangan spegil þessa dagana?
Tók eftir því að þú ert í öðru sæti á eftir Ellý á moggablogginu í augnablikinu.
Sigríður Hrönn Elíasdóttir, 23.7.2007 kl. 01:42
sorry, skrifaði óvart indælt með y.
Sigríður Hrönn Elíasdóttir, 23.7.2007 kl. 01:43
Íslensk já takk haha
HAKMO, 23.7.2007 kl. 13:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.