Minnkandi þorskveiði - efling rannsókna í þorskeldi. Gerum Vestfirði að miðstöð rannsókna í þorskeldi.

Í ljósi niðurskurðar í þorskkvóta sem kynntur var í morgun þá hafa verið gefnar út fjölmargar yfirlýsingar - bæði af hálfu stjórnvalda og einstaklinga í sjávarútveginum. Það sem er athyglisvert er að allir virðast sammála því að efla rannsóknir á lífríki sjávar og þorskeldi.

Rannsóknir í þorskeldi hafa verið stundaðar um árabil og miklum fjármunum hefur verið varið af fyrirtækjum í landinu á því sviði - sem dæmi má nefna HG í Hnífsdal líkt og forstjóri fyrirtækisins ræðir í viðtali við bb.is í dag.

Það sem etv. veldur mér þó dálitlum ugg í þessu sambandi er hve sterk ítök sjávarútvegsfyrirtæki hafa í þeim rannsóknasjóði sem helst styrkir þorskeldisrannsóknir - AVS rannsóknasjóðnum. Það er nefnilega forsenda góðra rannsókna að ekki sé um hagsmunapot að ræða - að rannsóknasjóðir geti á hlutlausan hátt veitt fjármagn í rannsóknir sem dæmast styrkhæfar af fagmönnum á viðkomandi sviði. Hinsvegar er ákaflega mikilvægt að samstarf ríki milli vísindamanna og hagsmunaaðila í þorskeldisiðnaðinum.

Á Íslandi ríkir sérstaða í þessu máli - sú sérstaða byggir á því að það eru helst fiskveiðifyrirtækin sem stunda þorskeldi - ekki sérstök eldisfyrirtæki líkt og í nágrannalöndunum. Kosturinn felst auðvitað í því að mikil reynsla og þekking á vinnslu og gæðum er innanborðs - sem er vísindamönnum mikilvæg og því samstarf dýrmætt. Hinsvegar eru það ekki forsendur þess að rannsóknum skuli stýrt af fyrirtækjunum - eða hvaða rannsóknum skuli veittur styrkur.

Sjávarútvegsráðherra verður að efla til muna AVS rannsóknasjóðinn - endurskipuleggja styrkveitingar og þau ferli sem umsóknir hljóta þar - í ljósi þeirrar stöðu sem iðnaðurinn er í og sjá til þess að ekki verði um hagsmunaárekstra að ræða. Að öðrum kosti verða rannsóknir í fiskeldi ekkert annað en athuganir sniðnar að hentugleika þeirra sem mest ítök hafa.

Á Vestfjörðum hafa þorskeldisaðilar og vísindamenn áttu gott samstarf um rannsóknir í þorskeldi í sjókvíum - sem athygli hefur vakið langt út fyrir svæðið og hafa m.a. erlendir þorskeldisaðilar gert sér ferð Vestur á firði til að kynna sér rannsóknir og leita eftir samstarfi. Í mínum huga er því ekki spurning að vagga þorskeldisrannsókna í sjókvíum er á Vestfjörðum - þar er aðstaðan, þekkingin og getan.

Ég skora því á Sjávarútvegsráðherrann að nota tækifærið og veita mun meira fé í rannsóknir í þorskeldi á Vestfjörðum. Að með þeim hætti verði styrkum stoðum skotið undir þá uppbyggingu sem þar hefur farið fram svo rísa megi glæsileg aðstaða til fjölbreyttra og mikilvægra rannsókna í þorskeldi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

þetta er góð tillaga. Það er uppbygging til framtíðar að ná tökum á fiskeldi.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 7.7.2007 kl. 14:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband