Laugardagur, 12. maí 2007
Að setja upp skipstjórahúfu - taka fram pípu og boða Frjálslyndi. Er það nóg til að stýra stórri skútu?
Ég á vin. Ég á skemmtilegan vin sem gaman er að tala við. En nú bregður svo við að kall er kominn í ham - hann er kominn í Frjálslyndan ham og er með ólíkindum fyndinn. Ekki bara í orði - það er hann alltaf - en nú er kall farinn að líkjast Stjána Bláa án spínats - grennri til framhandleggjanna. Hann er nefnilega kominn í sjóarajakka með hvíta derhúfu með akkeri og pípustert í tranti. Jebb - kallinn er í brúnni og bölsótast yfir kvótaleysi - ósanngirni og bölvun Vestfjarða. Enda á hann trillu - sem reyndar er ekki á sjó - neibb hún stendur á bak við hús - bundin við snúrustaur. Það tekur nefnilega tíma að koma trillunni á sjó - og á meðan skal kvótakerfið kosið burtu - svo að trillan geti veitt - dregið afla á afskipta og losnað frá snúrustaurnum.
Já - kosningar draga fram ýmislegt - misskemmtilegt að vísu en allt er það áhugavert. Ég er búinn að gera upp hug minn - byggi mína skoðun á því sem ég þekki - á því sem stendur mér næst og því sem ég treysti. Í þeim efnum er ég ekki bara að hugsa um mig - nei - ég er að hugsa um það sem mig langar að leggja af mörkum - um það sem ég eyddi mörgum árum í að læra - þrátt fyrir að margir teldu á sínum tíma að ekki væri vænlegur kostur að fara í framhaldsnám í mínu fagi - nei ekki gera það - þú færð ekkert að gera - engin framtíð. En í dag hef ég nóg að gera - framtíðin spennandi og það sem skiptir mestu máli - ég fæ stuðning þeirra er stýra skútunni. Þar er nefnilega kapteinn sem hefur stutt uppbyggingu rannsóknaumhverfis og þorskeldis á Vestfjörðum af heilum hug - maður sem ég treysti fullkomlega til áframhaldandi verka - maður sem sýnt hefur í verki að honum er alvara.
Það er kallinn í brúnni - sá sem ég treysti - sá sem ég dæmi eftir þeim verkum sem ég þekki til - og sá sem ég kýs. Og kallinn heitir Einar K. Guðfinnsson. Af þeim sökum set ég X við D á morgun - það er klárt og ég vona að þú gerir það líka.
Það er mín skoðun.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Karlinn í brúnni segirðu... Ég myndi nú fyrst reyna að sjá hann fyrir mér með gúmmívetlinga áður en ég færi að mjaka honum í áttina að hólnum.
Atli Hermannsson., 12.5.2007 kl. 11:27
Er ekki athyglisvert að Frjálslyndi flokkurinn skuli vera stofnaður í ljósi þeirrar staðreyndar að stofnendur flokksins komast upp á kannt við Sjálfstæðismenn - sem þó þeir voru í liði með áður - og tóku fullan þátt í að setja á kvótakerfið? Maður spyr sig - hvort kemur á undan "eggið eða hænan". Ekki ósvipað og með Íslandshreyfinguna - sem auðvitað væri ekki til ef "Frjálslyndir" væru alvöru pólítískur flokkur með markmið sem sem vit væri í! Já - líklegast verður að segjast eins og er að ef Addi hefði mætt á fundinn forðum - áður en hann var kosinn út - þá væri ekki nokkur maður með xF merki í barmi - svo mikið er víst. EKKI SATT!?
Þorleifur Ágústsson, 12.5.2007 kl. 11:42
Annað sem mér finnst ákaflega athyglisvert - og það er þetta með marga þorskstofna - ég hef því miður ekki séð nein gögn um málið - hvað þá útskýringar um í hverju sá munur ætti að felast? Vexti - tímasetningu kynþroska ? Ég veit ekki til að Einar Árnason eða Guðrún Marteinsdóttir - okkar helstu sérfræðingar á sviðinu hafi sýnt fram á það.
Þorleifur Ágústsson, 12.5.2007 kl. 11:50
Þorleifur, það er alltaf spurning hvað er athyglisvert og hvað ekki í aðdraganda að stofnun á nýjum stjórnmálaflokki. Samkvæmt þinni skilgreiningu, þá er Frjálslyndi flokkurinn, hinn eldri, eggið í þessu samhengi og Sjálfstæðisflokkurinn hænan.
Atli Hermannsson., 12.5.2007 kl. 13:31
Ég hef litlu við þetta að bæta nema ef vera skyldi upplýsingum um aðdragandann að stofnun Frjálslynda flokksins. Um hann veit ég reyndar fátt annað en það að ég fylgdist með því ferli öllu nánast frá fyrsta degi og allt til þess að flokkurinn var stofnaður. Þar var ég ekki vðistaddur en frétti af því síðar að sá atburður væri að baki. Samtök um þjóðareign var þverpólitískur félagsskapur sem Bárður Halldórsson, Valdimar H. Jóhannesson og nokkrir fleiri stofnuðu sem landssamtök og óx að félagatölu undrahratt. Þessir umræddu menn héldu úti skrifstofu sem þeir kostuðu sjálfir að ég best veit og spöruðu sig hvergi. Það hafði engin ákvörðun verið tekin um pólitískt framboð þegar Sverrir Hermannsson bauð nokkrum af félagsmönnum í kaffi og stofnaði flokkinn heima í eldhúsi, skírði hann og signdi yfir barnið. Skömmu síðar lýsti hann yfir í fréttaspjalli að Bárður Halldórsson héti réttu nafni Aulabárður og bað hann að láta í friði þetta gullna tækifæri sitt til að hefna sín á fortíðinni.
Eftirleikinn verðið þið að reyna að muna ágætu menn.
Árni Gunnarsson, 14.5.2007 kl. 23:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.