Miðvikudagur, 11. apríl 2007
Eitt sinn höfðu bændur með sér torfu til sjós - að öðrum kosti gátu þeir ekki mígið.
Hér í eina tíð þegar íslenskir bændur fóru í ver þá höfðu þeir gjarnan með sér græna torfu út á sjó - stundum úr túnfætinum heima ef þess var kostur - en án torfunnar gátu þeir ómögulega mígið. Nú hefði mátt halda að slíkur siður væri löngu útdauður - en aldeilis ekki.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur nefnilega haft sína grænu torfu til að standa á í að verða ansi langan tíma - hartnær tólf ár. En nú virðist torfan vera að veðrast burtu - þolir ílla seltu úthafsins og stanslausan átroðning. Er orðin veðruð og ræfilsleg. Nokkur strá berjast reyndar ennþá fyrir lífi sínu en torfan atarna má muna sinn fífil fegurri - er varla nokkrum til gagns lengur.
En auðvitað má skipta út torfu - taka aðra til handagagns - kannski þá er predíkar sjálfbærni og fallegt umhverfi - hver veit. Ég held í það minnsta að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að hugsa sig vel um - því ansi marga langar að taka þátt í útgerðinni - vera til halds og trausts þegar á þarf að halda - vera fasta landið í ólgusjónum - torfan góða. Hvort það verða Vinstri grænir eða Samfylking veit ég ekki - en ef réttum kúrsi á að halda þá er í mínum huga ekki spurning um að skútunni sé best siglt af Sjálfstæðismönnum hvort sem torfan verður skorin úr samfylkingar eða vinstrigræna túninu.
Það er mín skoðun.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Skemmtileg, góð og viturleg færsla. takk fyrir mig.
Sigfús Sigurþórsson., 11.4.2007 kl. 04:56
Sæll Tolli.
Skemmtileg myndlíking
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 11.4.2007 kl. 10:43
Jæja Tolli minn... er nú ekki komin tími til að skipa um allavega eina skoðun í þér.
Gullgæsirnar flestar farnar, verðbólgan á fullu, eingöngu okurvextir í boði, stálu af okkur persónuafslættinum, Héðinsfjarðargöng, Hátæknisjúkrahús, landsmet í ríkisútþennslu þrátt fyrir að þeir hafi selt frá ser hvert stórfyrirtækið sem áður var ríkisfyrirtæki og svo mætti endalaust telja. Þetta er árangurinn af stjórn sjallanna síðustu árin og það eftir mestu gósentíð ever... Ég er viss um að "Tóbaks Steini" hefði ekki klúðrað peningamálunum meira á þessum tíma... svo er ekki í lagi að setja sjallana aðeins í kælingu.
Þorsteinn Gunnarsson, 11.4.2007 kl. 18:22
Ja Steini minn, nú fer að fjúka í flest skjól hjá manni - ekki má ég skrifa um lax og ekki má ég skrifa um dé. Assgoti ertu orðinn "Frjálslyndur...."
Þorleifur Ágústsson, 11.4.2007 kl. 18:46
Skil ekkert í þér að segja ekki frekar "D-skoti ertu orðinn liberal" (fyrst ég heimta hvort eð er að ritskoða þig...)
En svona rétt til að leiðrétta þennan skort þinn á miskilningsleysi þá máttu alveg skrifa um D... bara ekki vera alveg svona Dskoti jákvæður
Þorsteinn Gunnarsson, 11.4.2007 kl. 20:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.