Þriðjudagur, 10. apríl 2007
Er uppreisn á skútunni Frjáslyndu? Fær Ómar sjálfstæða skoðun? Fer Jón að brosa og hættir Ingibjörg að hlægja? Verða Geir og Steingrímur dús?
Það var einkar áhugavert að fylgjast með umræðum í sjónvarpinu í gær. Ekki það að umræðurnar hafi verið á sérstaklega háu plani - nei það var bara svo gaman að sjá hvaða stefnu og stíl þeir eru að marka sér.
Ómar var sjálfum sér líkur - ekki með neitt á takteinum nema baráttuna gegn álverum og var því miður eithvað svo sammála síðasta ræðumanni - nema Jóni - sem ræskti sig, kipptist til, glennti sig og hallaði sér að Geir Haarde sem sat þungbúinn og pirraður undir þessari pirrandi umræðu að manni fannst og brosti aldrei - ólíkt Ingibjörgu sem brosti þessu yfirlætislega brosi sem fer í taugarnar á landanum og hló hæðnislega á stundum enda er hún orðin óvinsæl og óviss um stefnu Samfylkingarinnar - líkt og Addikittagau sem er orðinn valdlaus á eigin skútu og eltir hugmynda(leysis)fræði öfgamannanna í flokknum eins og Sverrir Hermanns spáði fyrir um. Og svo voru það VG þar sem hörð vinstri pólítík ræður ríkjum og aðeins er farið að sljákka í foringjanum enda virðist hann hafa toppað of snemma - og hann farinn að sýna gamla góða reiðisvipinn - hlýðið mér annars fer allt til helvítis.
En hvað var rætt? Það bar í raun tvennt á góma - álver og innflytjendur. Álver til að bjarga landinu eða eyðileggja landið og innflytjendur til að reysa álver og eyðileggja þjóðfélagið. Hafa þessir ágætu formenn ekki um mikilvægari hluti að ræða - hvað með ungafólkið og skuldsetningu - miðaldrafólkið og skattana - gamla fólkið og áhyggjulausa ævikvöldið - og allt þar á milli sem skiptir okkur máli þessi fáu ár sem mannskepnan lifir. Það eru nefninlega ótrúlega mörg málefni sem snerta daglegt líf fólks og enginn virðist ætla að ræða af nokkru viti. Ég vona að við lendum ekki í sömu vandamálum og t.d. Japanir þar sem nánast engir skattar eru - en þar er heldur engin þjónusta við eldriborgara og fólk byrjar að safna fyrir eigin útför strax og það er vinnufært. Það er engin framtíð.
Og kvótinn - fiskveiðarnar - hver má veiða - hvar og hvenær? Er rétt að halda úti ríkisstofnun er stundar fiskrannsóknir? Er rétt að þegar rætt er um hvað má veiða þá sé talað við sérfræðing hjá hagsmunasamtökum líkt og LÍÚ? Er ekki rétt að gera eithvað í þessum efnum svo þjóðarsátt geti ríkt um málið? Það er deginum ljósara að þorskgöngur og nýliðun fer ekki eftir veiðipólítík íslendinga - sem getur bara snúist um það hverjir mega veiða fiskinn sem syndir umhverfis landið. Mér sýnist að kominn sé tími til að ræða þetta mál og finna lausn sem gerir það að verkum að fleiri geti stundað þann búskap sem fiskveiðar eru. Og umhverfismálin - á ekkert að ræða þau af skynsemi? Á ekki að taka þátt í að vernda hið ósnortna taka ábyrgar ákvarðanir um heildstæða náttúrvernd á Íslandi?
Þetta eru allt spurningar sem ég bíð spenntur eftir að menn ræði af skynsemi fyrir komandi kosningar - málefni sem eru margfallt stærri í sniðum en málefni innflytjenda - sem er ekkert mál.
Er lausn byggða landsins ef til vill sú að skila kvótanum sem hvarf - þessum 20.000 þorskígildistonnum sem t.d. voru eitt sinn hér fyrir Vestan?
Já það verður spennandi að fylgjast með þróun mála í landspólítíkinni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er alveg hárrétt hjá þér, Þorleifur. Maður er fyrir löngu búinn að fá upp í kok af þessarri hrútleiðinlegu umræðu um ál og mengun. Vandamál okkar Íslendinga eru almennt bundin við mengun frá álverum. Mengun er einkum á SV-horni landsins og tengist einkum of mikilli umferð farartækja hvers konar. Við, sem búum úti á landsbyggðinni, njótum þeirra forréttinda að anda að okkur hreinu ómenguðu lofti alla daga allan daginn, Guði sé lof fyrir það.
Ég tel, að stjórnmálamenn allra flokka ættu að leggja áherslu á að fá fleira fólk til að flytja af SV-horninu, þaðan sem óþverrinn er mestur og út á land í hreint umhverfi. Ég lýsi eftir slíkri stefnu hjá þeim flokkum, sem bjóða fram til kosninganna í vor.
Með kveðju úr hreina loftinu á Siglufirði, KPG.
Kristján P. Gudmundsson, 10.4.2007 kl. 13:39
Villa:.........bið afsökunar á meiningar legri villu: Vandamál okkar Íslendinga ..... Les : Vandamál okkar Íslendinga eru almennt EKKI bundin við mengun frá álverum. ......
Kristján P. Gudmundsson, 10.4.2007 kl. 13:45
Sæll - ég skildi þig allveg - kona mín er íslenskufræðingur og skammast sín fyrir slælega íslenskukunnáttu mína.....svo ég skil seinna kommentið hjá þér líka! kv, þ.
Þorleifur Ágústsson, 10.4.2007 kl. 13:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.