Fimmtudagur, 29. mars 2007
Bólugrafinn únglíngur - Akureyri.
Nú er ég búinn að vera á Akureyri í rúman sólarhring - mínum æskuslóðum. Og bærinn er ennþá Akureyri þó hér sé mikið breytt - til batnaðar að ég tel að mestu. Gríðarleg uppbygging hefur átt sér stað - jafnt innra sem ytra. Það var því óvænt en notarleg tilfinning þegar ég vaknaði í morgun og heyrði ekki í nokkrum bíl - bara þessi gamla góða þögn sem einkennir rólyndis bæi. Akureyri er sem sagt bara Akureyri.
En þegar farið er um bæinn þá er manni auðvitað ljóst að hér hefur eitthvað átt sér stað - eitthvað mjög mikið. Þar sem áður var lítið gamalt hús sem kallaðist Baldurshagi eru risin háhýsi - í hróplegu ósamræmi við umhverfið að mér finnst - og Helgi magri verður dálítið eins og unginn á páskaegginu - hálf-aumingjalegur-gulur-pípuhreinsara-úngi með engan tilgang. Ef hann er þarna ennþá. Já Akureyri er svo sannarlega sem óharnaður únglíngur - með andlitið bólgið og bólugrafið - bíður eftir þroskanum og fullvöxnu útlitinu. En hér er nú samt skemmtilegur hraði - eins og allir séu eithvað að flýta sér - ekki eins hratt og í Reykjavík en miklu hraðar en á Ísafirði. Og jakkafata - drakta bisnessmenn og konur eru einhvernveginn svo miklu meiri bisness menn og konur - í jakkafötum og dröktum. Meira að segja Ísfirðingarnir sem ég hitt í hádeginu á Bautanum voru allt öðruvísi en venjulega - svo miklu meiri viðskiptamógúlar en þegar maður mætir þeim fyrir Vestan - voru einhvernveginn svo mikið í bisness. Dálítil sveitarómantík yfir þessu - hefði átt að kanna hvort ekki væri kaupstaðarlykt af þeim.
En fyrir Vestan halda menn uppá að Fiskistofa er að fjölga stöðugildum um eitt - og boða til veislu. Og mér finnst það bara fínt - sérstaklega þegar ég sá að nýja starfið á að vera m.a. umsjón með öllu þorskeldi - skráningum og slíku. Það er vel - þá náum við þessum pakka vestur. Því að það er sama hvaða flokk menn kjósa - það hefur gengið ágætlega í uppbyggingu tengdri þorskeldisrannsóknum fyrir vestan - og þar hafa þeir er stjórna tekið virkan þátt - fyrst Árni Matt og nú Einar K. Og ég á ekki von á öðru og heyri ekki annað en að Einar k. ætli sér að halda áfram stuðningi við það verkefni. Það er vel. Því uppbygging verður að vera ópólítísk - með þátttöku allra er áhuga hafa á að byggja upp - hvað sem er - og sem skilar viðkomandi sveitarfélagi mögulegri framtíð. Framtíð sem ekki verður í flokkslitunum heldur BJÖRT.
Það er mín skoðun.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Tolli.. Long time no see... Held maður verði að fara að skreppa norður og kíkja á óskapnaðinn. Hef ekki komið norður í ein 6-7 ár og það liggur við maður þekki sig ekki þegar sýnt er frá heiðardalnum í sjónvarpinu...
Sú var nú tíðin að maður tók eftir því ef einhver hafði slysast til að mála þakið á bílskúrnum sínum og skipt ekki máli við hvaða götu sá aðili bjó... enda, eins og Atli Rída orðaði það svo skemmtilega, "hafði maður skriðið þær flestar"
Skemmtilegt blogg hjá þér, enda góður penni!
Þorsteinn Gunnarsson, 30.3.2007 kl. 00:29
Mér fannst Akureyri alltaf eins og legoland. Þarna vorur verslanir sem hétu, Bókabúð, Bakarí, Matvörubúð, Fatabúð og svo voru Hótel og Banki. Það var ekkert fjas í nafngiftunum. Ekki fyrr en einhverjir heimsborgarar skírðu Kjötbollur í Brauði Bautann og fóru að selja laufabrauð með skinku osti og sveppum.
Jón Steinar Ragnarsson, 30.3.2007 kl. 01:06
Mér fannst Akureyri alltaf eins og legoland. Þarna vorur verslanir sem hétu, Bókabúð, Bakarí, Matvörubúð, Fatabúð og svo voru Hótel og Banki. Það var ekkert fjas í nafngiftunum. Ekki fyrr en einhverjir heimsborgarar skírðu Kjötbollur í Brauði Bautann og fóru að selja laufabrauð með skinku osti og sveppum.
Jón Steinar Ragnarsson, 30.3.2007 kl. 01:07
Hjartanlega sammála þessu með Baldurshagan, ég var með stórar hugmyndir um að kaupa´nn, af skiljanlegum ástæðum. Núna stendur þarna ljótur risahjallur, jafn velkominn og lortur í sundlaug.
En þetta hættir ekki þarna. Sumir menn vilja planta niður ruslamörkuðum á borð við rúmfatalagerinn og Bónus á Akureyrarvöll. Kósí, eller hur. Og allt er þetta eiginlega ísfirðingum að kenna. Þegar Samherji keypti Gugguna að vestan, fylgdi nefnilega með í kaupunum eitt stykki bæjarstjóri, sem núna er búinn að rugla öllum arkitektúr í bænum. Meira að segja Brynjuísinn er breyttur! Annars hafðu það næs á eyrinni !
Baldur Sveinbjörnsson, 31.3.2007 kl. 18:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.