Þriðjudagur, 13. mars 2007
Ísafjarðarfundurinn - varst þú þar? Ég spyr...Hlyn!
Eftir ágætan fund á Ísafirði hefur því miður farið dálítið púður í að kvabbast yfir því hverjir mættu og hverjir ekki. Það er náttúrlega ljóst að fullt af fólki mætti bara alls ekki - enda hefðu Hamrar ekki rúmað alla Vestfirðinga. En mest um vert er að raddir Vesfirðinga heyrðust - en síðan kemur náttúrlega í ljós hvað situr eftir og nýtist til uppbyggingar hér fyrir Vestan. Við sjáum til - í það minnsta mun ég gera mitt - enda segi ég eins og hún Ólína: Ég vil búa hér. Þess vegna flutti ég hingað.
En svo rek ég augun í bloggið hans Hlyns Hallssonar sem hefur eitt um fundinn að segja að hann saknaði stjórnarliða - tja hvað veit hann um það - ekki var Hlynur á staðnum. En ég var þar og sá barasta alls ekkert til Hlyns - hann hefur sjálfsagt ekki átt bindi fyrir tilefnið - nú eða þá að hauskúpujakkinn sem honum finnst svo kúl hefur verið í hreinsun - nú eða að hann veit bara alls ekkert hvar Ísafjörður er - nú eða þá að bara eithvað allt annað. Hvað veit ég.
En málið er að auðvitað var einn úr Stjórnarliðinu á fundinum - í það minnsta held ég að hann hafi ennþá verið það þegar fundurinn var boðaður - æi maður hefur varla undan að fylgjast með þessu flokka-flækingi hjá sumum. Hann var í það minnsta kosinn sem Framsóknarmaður - þó að hann sitji sem Frjálslyndur í einhverja mánuði. Ætli Bo Halldórs hefði ekki bara sagt: "Nýtt lúkk - sama röddin".
En flokksfélagi Hlyns hélt í það minnsta framboðsræðu - sem var alls ekki meiningin með þessum fundi - eins og Hlynur hefði vitað - ef hann hefði mætt.
EN, það sem mér finnst nú skipta megin máli er að eithvað sé gert í málum Vestfirðinga. Og mér sýnist það auðvitað vera hið besta mál ef fundir eru haldnir og nefndir skipaðar - eða eins og Einar Hreinsson sagði og Hlynur veit ekki - því hann var ekki fyrir Vestan: "Menn verða að fara heim og læra - og koma svo með eithvað haldbært".
Þegar þetta er skrifað er klukkan rúmlega kvöldmatur - Hlynur er sjálfsagt heima í kvöldmat en ég sit hér og blogga - nú bara svona rétt til að hita upp áður en ég fer að skrifa eithvað merkilegra en létt grín að blogginu hans Hlyns - enda ætla ég að senda nefndinni hugmyndir sem tengjast því sem ég starfa við - nú bara svona til þess að nefndin fái eithvað að moða úr. En ég held að það þýði ekkert að senda Hlyn neitt - hann var ekki á fundinum og veit því ekkert hvað við viljum hér fyrir Vestan. Hann kemur sjálfsagt bara með hugmyndir um Listagil og álverslausa Vesfirði.
En Hlynur er nú eftir allt ágætis strákur. Af Brekkunni eins og ég. Munurinn er bara sá að ég bý fyrir Vestan núna og þarf einhvernveginn að hafa svo mikið fyrir því - sem er svo óeðlilegt - það á nefninlega að vera eftirsóknarvert að búa fyrir Vestan. Þar eru fjöllin há og firðirnir fallegir. Ég er viss um Hlynur mun líkt og aðrir sem stunda pólítík hjálpa okkur hér fyrir Vestan - hann kemur líklega með fullt af lausnum - í það minnsta er hann lúnkinn að sjá hvað stjórnarliðar gerðu vitlaust.
Það er mín skoðun.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.