Laugardagur, 24. febrúar 2007
Staðið úti á hlaði.
Í Syðridal er ákaflega fallegt. Ég stóð þar úti á hlaði hjá vini mínum sem þar er bóndi. Það blés norðan kaldi og gekk á með éljum - ekki ósvipað ástatt þar og í pólítíkinni.
Þar blæs hann reyndar meira frá vinstri og að vísu ekki alvega eins kallt, í það minnsta hélt Steingrímur opnunarræðuna húfulaus.
En í sveitinni var nú aðallega verið að spá í búskapinn - Dranga-Kóngur var að sækja hey og við þurftum að koma rúllu á kerru.
Rollurnar verða að fá sitt hey hvað sem stóriðjuframkvæmdum líður - já og vegalagning framhjá æfingahúsi Sigur-rósar og þrátt fyrir að hún Bryndís, sú góða kona, sitji grátandi á skurðarbarmi og Jón þrumi yfir lýðnum.
Ekki var rætt eitt orð um umhverfismál þar sem við stóðum á hlaðinu. Að vísu heyrðist jarm úr útihúsum en ég veit ekkert hvað þar var rætt.
Mikið ósköp held ég að Steingrímur hafi verið búinn að bíða lengi eftir að Íslendingar vöknuðu af þessum væra blundi sakleysingjans sem hefur engar áhyggjur af súru regni eða eyðingu lands.
Reyndar var öllum á Íslandi nákvæmlega sama og er mörgum sjálfsagt enn.
Í það minnsta var umhverfisfræði sem slík ekki til í líffræðinámi við HÍ fyrr en í kringum 1990. Ég held að ég hafi setið eitt af fyrstu námskeiðunum sem kennt var í umhverfisfræði við líffræðiskor HÍ.
Og þá var ekkert sérstaklega verið að spá í umhverfismál á Íslandi - ég lærði að mig minnir mest um Tjernobyl slysið í Rússlandi - kannski var bara ekkert umhverfi til að fjalla um á Íslandi.
Eða var kannski vandamálið bara það að Steingrímur var ennþá að spá í hvernig best væri að klekkja á kapítalismanum með ræðum um allt aðra hluti og hreinlega ekki búinn að átta sig á því að umhverfismálin eru miklu vinsælli. Miklu líklegri til árangurs í atkvæðaveiðum.
Að vísu voru vinstri grænir til í Þýskalandi á þessum tíma - að mig minnir. Mig minnir líka að þeir hafi verið að spá í þetta súra regn - en við höfum engin tré - ekkert sem súra regnið skilur eftir sig ummerki á. En það er ekkert að marka, þeir búa svo miklu nær kjarnorkunni og kolanámunum - eða bjuggu í það minnsta nær þeim þegar þetta var.
Í dag er þetta allt orðið svo glóbalt - hnattlægt - að okkur kemur svo sannarlega við hvað aðrir gera við skítinn frá sér. Við eigum meira að segja kvóta á formi koltvíildis - eða ónotaðan kvóta. Og menn eru víst eithvað farnir að braska með hann.
Ég vil bara hafa það á hreinu að ég hef ekkert á móti umhverfismálum og vernd almennt - enda um gríðarlega mikilvægan málaflokk að ræða.
Mér finnst bara skipta máli að sú umræða sé á skynsamlegum nótum - og sé glóbal - hnattlæg.
Ég hef heldur ekkert á móti dýravernd - er mjög fylgjandi henni.
Mér þótti það bara ekki dýravernd þegar dýraverndunarsinnar brutust inn í dýrageymslurnar hjá okkur við Gautaborgarháskóla og slepptu út kanínum og rottum. Bara af því að þau eiga ekkert að vera í búrum.
Síðan týndum við upp hræin næstu daga - sem lágu á víð og dreif um nærliggjandi hverfi.
Það er ekki dýravernd.
Það verður spennandi að fylgjast með aðdraganda kosninga. Hvað ætla flokkarnir að gera í umhverfismálunum? Snýst ekki umhverfisvernd dálítið mikið um forvarnarstarf?
Er ekki réttast að flokkarnir sameini krafta sína í að finna farveg fyrir umhverfisvernd sem hentar Íslandi og þeim er þar búa? Að við göngum út frá 0 púnkti sem er NÚNA! - Að við horfum fram á veginn í stað þess að skammast yfir því sem þegar er gert.
Eða hvað vill fólkið í landinu? - Ekki veit ég það - mér sýnist fólk í það minnsta styðja bæði hægri og vinstri flokka þrátt fyrir að mér heyrist Steingrímur haldi því fram að hægri flokkar fari ránshendi um landið - ræni Íslendinga náttúrunni - náttúru sem stundum er talað um að við eigum ekkert í - hún sé í eigu komandi kynslóða.
Ég veit það nú ekki allveg - kannski skil ég þetta bara ekki. Ég bý hér núna og veit satt að segja ekkert um hvar ég verð eftir að ég drepst!
Væri ekki rétt að þessir ágætu forystumenn flokkana kæmu sér saman um ákveðin atriði sem skipta okkur íslendinga máli í umhverfismálum - horfi til framtíðar. Komi á þjóðarsátt um málið.
Það er mín skoðun.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:19 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.