Færsluflokkur: Bloggar
Laugardagur, 22. september 2007
Vestfirðir - in memorium
Það fór um mig undarleg tilfinning að aka þessa vegi. Ég hafði ekki verið á ferðinni um þetta svæði í yfir 40 ár og því vissi ég í raun ekki við hverju var að búast.
Þegar ég fór var orðið ljóst að baráttan var töpuð - að mótvægisaðgerðirnar sem svo höfðu verið nefndar gerðu ekkert annað en reka síðasta naglann á kaf í líkkistur samfélaganna fyrir Vestan.
Og það sem gerði þessa ferð ennþá sérstakari var að ég ók um á vegum sem aldrei höfðu verið betri. Voru ennþá eins og þegar samgönguráðherrann klippti á borðann. Sá hinn sami sem tók ákvörðunina örlagaríku að Grímseyjarferjan skildi kláruð og notuð til siglinga út í Grímsey. Hann hefði betur sleppt því - enda misstu margir ástvini þegar ferjan sökk í jómfrúarferðinni - - en ríflega 1000 milljónir fóru í verkið sem fólst í að endursmíða ónýtan bát - en þrjóska og pólítísk tengsl eru heilbrigðri skynsemi yfirsterkari.
Það er sérkennilegt að sjá niður að gamla skólanum í Reykjanesi - búið að girða landið og skilti sem segir á fjölmörgum tungumálum að um einkalóð sé að ræða. Að óviðkomandi aðgangur verði kærður. Já þeir eru harðir þessir þjóðverjar sem keyptu upp dánarbú útgerðanna og selja nú bara löndum sínum aðgang að sjóstangveiðinni. Nokkuð sem var stofnað af íslendingum og átti að vera "gullnáma" - og hefði verið það ef Byggðastofnuninni heitinni hefði verið veittur sá stuðningur sem í raun þurfti. En svona er það þegar vilji pólitíkusanna nær bara eitt kjörtímabil fram í tímann.
þeir hafa í það minnsta góða vegi til að aka eftir hugsaði ég. Ekkert er eftir í Vatnsfirðinum - kirkjan stendur vart uppi og hús prestsins notað sem skothús fyrir áhugasama veiðimenn sem koma hingað til að veiða fugl. Já - fornleifauppgröfturinn hætti með búsetunni. Enginn hefur áhuga á slíku lengur.
Það fór um mig kvíði að koma aftur á fornar slóðir. Einkum fannst mér undarlegt hvernig allt var yfirgefið - enda var svo sem enginn sem hafði áhuga á að kaupa hús á Ísafirði - til hvers? og fólk bara flutti í burtu og skildi allt eftir.
Eitt af því síðasta sem ég gerði á sínum tíma var að setjast í stjórn nýstofnaðs Refaseturs Íslands. Ég var því spenntur að sjá hvort húsið stæði enn. Það var erfitt að átta sig á því þegar ég kom keyrandi yfir hálsinn og virti fyrir mér sjötúnahlíðina - ómögulegt að átta sig á - en húsið stóð þarna ennþá líkt og flest hinna húsanna. Að vísu voru þökin ekki eins áberandi vel máluð og áður.
Sjókvíarnar voru ennþá á sínum stað - það fór um mig þægileg tilfinning þegar ég hugsaði til baka til uppgangstíma í þorskeldinu - framtíðardraumana. En einhvernvegin gleymdist þorskeldið þegar mótvægisaðgerðirnar frægu voru samþykktar af ráðamönnunum. Já okkur fannst skrítið að koma til móts við niðurskurð í aflaheimildum með því að bæta nettengingar - og flýta fyrir 3G á Vestfjörðum.
Í Súðavík stóðu húsin tóm - galtómir gluggarnir horfðu á mig líkt og augntóftir í hauskúpum. Óhugnanlegt. Tölvan í bílnum sagði mér að netsamband væri gott - en jafnframt að engin etanól stöð væri á staðnum - enginn banki og ekkert sjúkrahús. Sjálfvirkt bilunarleitarkerfið fór af stað í bílnum - tölva bílsins taldi greinilega víst að bilun væri í tölvukerfi bílsins - gott samband en engin svör. Já tæknin er merkileg.
Refasetrið var á sínum stað. Tignarlegt húsið sem tæmdi sjóði sveitarfélagsins stóð þarna og var greinilega orðið griðastaður tófunnar. Fyrir utan húsið léku sér yrðlingar og allt var svo kyrrt - þögn ríkti í Súðavík.
Nú var ég orðinn spenntur að sjá Ísafjörð. Ég hafði að vísu heyrt að bærinn hefði verið notaður við endurgerð kvikmyndar Hrafns Gunnlaugssonar "Blóðrautt sólarlag" enda átti myndin að gerast í eyðibyggð á Vestfjörðum og því vissi ég ekki við hverju væri að búast. Að vísu var Hrafn látinn en barn leikstjórans gerði myndina.
Lítið var eftir af flugvellinum. Flugskýlin stóðu galopin og bárujárnið var að mestu ryðgað burtu. Flugbrautin ónothæf enda hálf í kafi. Jú Bærinn var tómur. Greinilegt var að búið var að nota húsin í firðinum til heræfinga fyrir sérsveit hersins - sem gengur undir nafninu "Birnirnir" - til heiðurs Birni Bjarnasyni heitnum - sem kom upp fyrsta her okkar Íslendinga. Jæja, það var í það minnsta hægt að nota húsin "til að bjarga mannslífum" - æfa viðbrögð við innrás.
Í miðbænum ríkti glundroði - allt var í niðurníðslu og ráðhús bæjarins var allt sundurskotið - eins og gata sigti. Já hér hafði greinilega ýmislegt gengið á við tökur myndarinnar "Blóðrautt sólarlag - Hrafninn snýr heim". Það fór um mig hrollur - óhugnanleg örlög höfuðstaðar Vestfjarða. En við hverju var að búast? Menn vissu hvert stefndi - en enginn vildi gera neitt til að sporna við fótum. Í það minnsta enginn sem völd og tæki hafði til að efla Vestfirði.
Mér varð minnistætt hve vinsældir Árna Johnsen spiluðu þar stóra rullu - hann hafði gefið út yfirlýsingar um hve þreyttur hann væri á þessum Vestfjörðum. þar væri engan brekkusöng að syngja og einu minningarnar sem hann hefði um þessa Vestlægu smástaði væri fangelsisvist. Og fólk trúði honum og gerði að forsætisráðherra. Ótrúlegt.
Ekki þýddi fyrir mig að ætla að heimsækja Bolungarvík - ekki eftir að göngin mistókust svona herfilega. Hvernig datt þeim í hug að ætla sér að bora þar sem þeir boruðu? Gljúpt bergið og vatnsflaumurinn - allt varð til þess að fjallshlíðin fór af stað - olli gríðarlegri flóðbylgju sem skall á grænuhlíðinni og kom svo til baka af margföldu afli og drekkti öllu sem fyrir varð.
Já þetta var þungbær heimsókn á fornar slóðir. Ég hefði viljað óska þess að ríkisstjórnin hefði tekið meira mark á þörfum svæðisins - að meiri vinna hefði verið lögð í að byggja upp þá innviði sem þurfti. Þá hefði ég verið að koma í heimsókn í blómlega byggð. Eða kannski bara aldrei farið burtu. Hver veit - kannski verður hægt að snúa til baka klukkunni um nokkur ár og gera betur - reynslunni ríkari.
tja ekki veit ég.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 21. september 2007
Þegar kallið kemur -kemur kallinn.
Ég tek hattinn ofan fyrir Tomm Krús. Hann er að vinna í sínum málum og tekur frúin fullan þátt í þeim aðgerðum. Þau langar í barn og hafa ákveðið að gera eitthvað í þeim málum.
Að vísu geri ég ráð fyrir að þetta sé ekkert einsdæmi - enda fullt til af fólki í heiminum og fæstir eru eingetnir nú til dags. En auðvitað fer þetta stundum út í vitleysu líkt og dæmin sanna - á sumum heimilum er allt of mikið af börnum - og foreldrarnir ættu því að vinna í sínum málum og hætta að vinna í slíkum málum. Á enn öðrum heimilum er verið að vinna í málunum - þó að það hljóti að vera báðum aðilum fullkomlega ljóst að ekkert kemur út úr því - enda á ég hér við fólk af sama kyni - gjarnan karlmenn - sem í þokkabót fara öfugt í hlutina - eða eins og stundum er sagt "vinna með hendurnar fyrir aftan bak".
Ég kynntist eitt sinn fólki sem vann í sínum málum. Þau voru eins og Tommi og Kata - langaði í barn. Mikið var reynt og ýmsum aðferðum beitt. En það sem auðvitað var dálítið sniðugt - svona hálfgerð skrítla - var að tímasetningin var svo mikilvæg. Það var semsagt sama hvar þau voru stödd - þegar kallið kom - kom kallinn. Eitt sinn sátum við og horfðum á enska boltann - Arsenal gegn Leeds - þá kom kallið - eða öllu heldur kallaði frúin á kallinn - sem kom. Hann kom svo aftur og Arsenal vann. Úr þessu varð auðvitað barn - sem mér finnst ég eiga svolítið í - enda gerðist þetta innan veggja íbúðarinnar sem ég bjó í á þeim tíma - í úthverfi Gautaborgar.
En svona er lífið og ekkert við því að gera - líklegast má segja að þetta gefi lífinu lit - og spennu.
Vilja aðra dóttur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 20. september 2007
Á að sjúkdómsvæða ríka fólkið - er Kári krúnk?
Ekki er nú öll vitleysan eins. Nú virðist mér sem ÍE sé komið í kröggur og það eigi að reyna fyrir sér í sjúkdómsiðnaði ríka fólksins - í það minnsta geri ég ekki ráð fyrir að hinn almenni borgari hafi efni á slíkum prófunum sem forstjórinn boðar.
Svo ég spyrji nú ekki: TIL HVERS? Á virkilega að bjóða fólki upp á að verða "sjúklingur" - bjóða þeim upp á vitneskju sem í raun er þeim algjörlega tilgangslaus.
Hve marga sjúkdóma hefur ÍE rannsakað og komið fram með lausnir gegn? Tja ég man ekki eftir neinum - í það minnsta hefur ekkert lyf verið framleitt sem byggir á erfðaupplýsingum - að ég held - en lýsi hér eftir upplýsingum um það. ´
Mér hefur sýnst ÍE einbeita sér að greiningarprófum - þ.e. upplýsingum um breytingar í erfðaefni sem hugsanlega og mögulega geta leitt til sjúkdóms - sem síðan er hægt að nota til að þróa lyf - stytta þróunartíma og lækka kostnað við þróun nýrra lyfja. En hér erum við að tala um LYF - ekki að upplýsingar verið veittar almenningi.
Og hvað á hinn almenni borgari að gera ef hann t.d. kemst að því að það séu meiri líkur en minni á að hann sé með arfgenga heilablæðingu .... tja ég veit það ekki.
Auðvitað eru til sjúkdómar sem maður getur minnkað líkur á að fá með heilbrigðu líferni - en ef "galli" er í erfðaefninu - sem stýrir myndun "gallaðs" próteins sem valdið getur sjúkdómnum - getum við þá eitthvað gert í raun .....annað en að fara strax á lyf - eða?
....OG er það málið - vill einhver verða "sjúklingur" áður en hann veikist...?
Já - mörgum spurningum þarf að svara. Ein gæti verið sú hvort ekki komi bara í ljós að maður er með allt annað erfðaefni en maður hélt.....að það sé úr "Sigga frænda..."!!....
Eða er ÍE bara að leyta eftir nýrri tekjulind....?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 20. september 2007
Út með Audi og inn með Randver...
Skilur fólk ekki alvarleikann í þessu máli? Ef Randver kemur inn þá gæt það þýtt að sjónvarpsstjórinn verði að aka um ...tja kannski bara á sínum eigin bíl.....
það eru skipti sem ég á ekki von á að hugnist stjórn RUV.
Styðja Randver | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 19. september 2007
Mamman drap Madeleine - tilgáta sem stenst ekki skoðun.
Ég setti fyrirsögn um daginn í bloggið sem hljóðaði svo: "Mamman drap Madeleine - ekki lengur tilgáta heldur staðreynd" - og sem ég tók beint upp úr sænskum dagblöðum. Nú er staðan í rannsókninni orðin sú að líklegt er talið að DNA sem fannst í skotti bifreiðarinnar sé úr tvíburunum - systkinum Madeleine. Ennfremur er talað um að yfir 30 manns - margir úr fjölskyldu Madeleine hafi notað bílaleigubílinn umrædda áður en löggunni datt í hug að rannsaka bílinn.... já nokkuð klaufalegt....
Já þetta mál er allt hið undarlegasta - og ekki síst starf lögreglunnar í Portúgal. En maður vonar hið besta og að litla stúlkan sé jafnvel á lífi. Hægt er að fylgjast með framgangi málsins á síðum sænskra miðla sem fylgjast grannt með stöðu mála.
Gæti þetta gerst á Íslandi? Og ég spyr - er Íslenska lögreglan betri en sú Portúgalska?
http://www.expressen.se/nyheter/1.846026/dna-beviset-kan-komma-fran-tvillingarna-sean-och-amelie
http://www.aftonbladet.se/nyheter/article809599.ab
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 18. september 2007
Alvarlegur mengunarskortur á Íslandi.
Ég fór á ákaflega forvitnilegan fyrirlestur í gærkveldi - en um var að ræða fyrirlestur á vegum Vestfjarða akademíunnar og Háskólaseturs Vestfjarða. Í fyrirlestrinum fjallaði Dr. Francesca Popazzi um rannsóknir sínar á lífríki sjávarlónsins gríðarstóra sem m.a. umlykur Feneyjar.
Doktorinn frá Ítalíu starfar um þessar mundir hjá Náttúrustofu Vestfjarða í Bolungarvík - sem hljómar eins og nafn á erlendri stórborg þegar hún ber nafnið fram með ítölskum hreim. Hún reyndar tjáði mér að fyrstu fjóra dagana hafi hún ekki séð nokkurn mann á ferð um bæinn....
Og það var einmitt koma hennar til Bolungarvíkur sem mörgum fannst svo skemmtileg - þ.e. að ferðast alla leið frá Trieste sem er norður af Toscana héraðinu fræga og til Bolungarvíkur - að rannsaka mengun. Sem er bara ekkert til staðar - ekki sem vandamál. Það er semsagt skortur á mengun á Íslandi - svona í gríni sagt. Svo má auðvitað spyrja sig hvort verið sé að leysa það "vandamál" með því að reisa álver og þvíumlíkt um allar trissur.
En fyrirlesturinn var einkar áhugaverður og kynnti vel fyrir gestum í salarkynnum Háskólaseturs hve umhverfið er okkur dýrmætt og mikilvægt er að skilja samspil náttúru og manns. Það er meira að segja fleiri en ein olíuhreinsistöð staðsett við sjávarlónið stóra - sem mengar og eykur álagið á náttúruna. Og við erum að skoða slíka möguleika hér - til að bæta mannlífið.
Það er nefnilega þetta sem skiptir máli - að skilja. Að skilja sambandið - hvað sé orsök og hvað afleiðing. En til að skilja það og eiga möguleika á að taka rök- og vitræna ákvörðun þá verður að rannsaka. Vita hver staðan er áður en farið er af stað. Þróun er nefnilega aðeins í eina átt - þróun verður aldrei snúið við - við verðum ekki að öpum aftur....þó reyndar margir efist reyndar um að við höfum farið af því stigi
Náttúrvísindi - hvaða nafni sem þau mega kallast - miða að því að skilja. Og til að skilja afleiðingar verðum við að vita upphafið - núllpunktinn. Annars verðum við bara í því að moka skít - og vandamálið verður ekki skortur á mengun - heldur verður vandamálið MENGUN.
Ég lýsi því eftir auknum fjármunum í náttúrurannsóknir á Íslandi í víðasta skilningi. Það er mótvægisaðgerð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 16. september 2007
Skíthræddur smali skjálfandi á beinunum....
Ég fór í göngur í gær morgun - rifinn upp klukkan fimm um morgun og dreif mig ásamt fleirum út í Óshlíð þar sem bóndinn á Hanhól beið með virðulegan staf. Nú átti að smala Óshlíðina - snarbrattar hlíðar - djúpar gjár og varasamar skriður - fara um ófærur og vera upp á náð almættisins kominn.
Við hófum ferðina við Kálfadal - klifum fyrsta hjallann og gengum tveir, bóndinn og ég sem leið lá upp hlíðina. Við blasti Kálfadalurinn, grunnur en grösugur og því mátti búast við að finna fé á beit. Ekki var þó svo í þetta skiptið heldur beið tófa ein hvít og loðin í hlíðinni og kippti sér lítið upp við að bóndinn nálgaðist, sem er margreynd refaskytta og ætti því með réttu að vera ógn í tilveru skolla. En kannski vissi hún að ekki vorum við hennar vegna á ferð um fjallið - að hún væri óhult, ffallegt dýr í íslenskri náttúru. Mér varð hugsað til stofnunar Refaseturs Íslands sem átti að eiga sér stað í Súðavík síðar um daginn - nokkuð sem verður gaman að heimsækja á ferð um Djúp.
Og í einfeldni minni hélt ég að þetta væri byrjun á notalegri göngu í fallegu veðri í stórbrotnu landslagi. En raunin varð önnur. Bóndinn réði ferðinni og ég fylgdi honum líkt og hlýðinn hundur um hvert fótmál - mótmælti ekki heldur þagði á milli þess sem ég dæsti og blés.
"Hlauptu upp hallann " kallaði bóndinn og benti með stafnum - "það er greiðfærast að vera á fjárgötunni" - "stingdu þér niður undir klettinn". Já, nú var bóndinn á heimavelli - tignarlegur með stafinn og gaf lítið fyrir máttleysislegar athugasemdir smaladrengs um hættur í hlíðinni.... minnti á stundum á Gandálf úr sögunni um hringinn. Ég ætlaði mér að vera til gagns og hætti að malda í móinn - varð sammála öllu sem bóndinn sagði og svo var ég beygður - kjarklaus í klettabeltinu - að hann hefði auðveldlega fengið mig til að ganga í Framsóknarflokkinn ef hann hefði bara haft með sér pappíra til að skrifa á. Langskólanámið mátti síns lítið í faðmi fjallsins.
Langt fyrir neðan sást glitta í bíl á leið til Bolungarvíkur - og lítt greinilegri var girðingin sem reist var til að stöðva grjóthrunið - já, greinilegt var að sérfræðingar vegamála höfðu ekki staðið í mínum sporum - við rætur þverhníptra kletta - í stórgrýttum skriðum og ófærum sem virtust bíða átekta eftir að kasta úr sér bjargbrotum mönnum til viðvörunar "verið heima mannskepnur".
Allt eitthvað svo stórt og hrikalegt að manni leið eins og manni á árbakka sem hvetur ána til að beina rennslinu í hina áttina - vanmáttugur. En ekki bóndinn - hann var kóngur í ríki sínu og gekk hröðum skrefum eftir kindagötunni og virtist allt eins geta verið að rölta um miðbæ Bolungarvíkur - afslappaður á heimaslóð. Eina hljóðið sem heyrðist var hvinið í vindinum sem spilaði á klettana og undir sló hjartað í mér taktinn.
Skriðurnar fannst mér erfiðastar - laust grjótið og brattinn gerði það að verkum að undirlagið fór allt af stað og staka grjót tók á rás niður hlíðina - í gríðarlegum loftköstum kastaðist það á ógnarhraða og undirstrikaði ógnarkraft fjallsins. Stórkostleg sjón og manni varð enn frekar ljóst hættan sem slíku fylgir fyrir vegfarendur um Óshlíðarveg.
Svo voru það gjárnar - þær þurfti bóndinn að skima því aldrei var að vita nema að staka kind lægi þar í leyni - og þá var um að gera að fara varlega enda hafði verið næturfrost og aukin hætta á að manni skriki fótur. Ekki hefði þurft spyrja að leikslokum ef slíkt gerðist. Og ég varð sífellt hræddari - en þagði og elti.
Ég er ekki lofthræddur maður að eðlisfari - en þetta eru aðstæður sem eru hreint ólýsanlegar - engin leið nema áfram - ekkert upp og ekkert niður - í það minnsta ekki gangandi - og því ekkert annað í stöðunni en að bíta á jaxlinn og fylgja bóndanum.
Þetta var ótrúleg upplifun að eltast við fé í ófærum og snarbröttum hlíðum fjalls sem margir hafa óttast á ferð sinni um hlíðina - nú skildi ég hræðsluna og gerði mér grein fyrir hve við mannfólkið erum óveruleg í samanburðinum við náttúruna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 14. september 2007
Er hægt að setja verðmiða á réttinn til lífs?
Kalle Dejemyr er með alvarlegan sjúkdóm sem mun leiða hann til dauða nema með réttri læknismeðferð - sem kostar peninga, meðferðin og lyfin eru dýr og því segir stjórn Karolinska sjúkrahússins í Stockholmi NEI. Kalli fær ekki meðferð og lyf og verður því að deyja um aldur fram.
Já þetta er erfið siðferðileg spurning - hvað má kosta að gefa sjúklingum tíma - lengja líf? Er hægt að verðleggja slíkt? Í tilfelli Kalla er allt búið að vera á hvolfi - sjúkrahúsið segist ekki eiga pening fyrir lyfjunum og krefst þess að ríki og sveitarfélög komi og hjálpi til. Lyfin kosta nefnilega um 100 milljónir á ári - en við erum jú að tala um líf ungs manns - og það eru bara þekkt 6 tilfelli í Svíþjóð. Og ef meðferðin heldur ekki áfram þá deyr Kalle innan nokkurra vikna - því Hunters heilkenni hlífir engum.
Hér er því um alvarlega siðferðislega spurningu að ræða. Geta sjúkrahús sagt Nei - og þar með í raun ákveðið að hjálpa ekki - veita ekki þá lögbundnu þjónustu sem þeim ber. Af því að ekki eru til peningar.
Getur þessi staða komið upp á Íslandi? og ef svo - hvað gerist þá? Landspítali Háskólasjúkrahús er rekið með gríðarlegum halla - og því spyr maður hvort að sparnaður geti leitt til óþarfa dauðsfalla?
Já - Kalli horfir upp á það að verið er að setja verðmiða á líf hans og rétt til að lifa því - hvers virði hann sé!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 14. september 2007
Mamman drap Madeleine - ekki lengur tilgáta heldur staðreynd.
Það ku vera búið að sanna að móðir Madeleine hafi gefið henni of stóran skammt af svefntöflum. Líkamsvessar sem fundust í bílaleigubíl foreldranna og tilheyrðu litlu stúlkunni innihalda stóran skammt af lyfjum. Ekki lengur tilgáta - heldur staðreynd. Portúgalska lögreglan hefur í sínum fórum þessi gögn og því er ekki langt að bíða þar til ákæra verður gefin út.
En áfram reyna foreldrarnir að ljúga sig út úr þessu. Líklyktin sem var í bílaleigubílnum segja þau að fylgi þeim af sjúkrahúsunum þar sem þau starfa....jamm.
Og blóð úr stúlkunni fannst ekki bara í herberginu á hótelinu - nei, líka í íbúð sem þau höfðu til umráða eftir að hún hvarf.
Það sem er áhugavert í þessu út frá fræðilegu sjónarhorni - er að sá sem hefur komið upp um foreldrana er hundur - svokallaður líkhundur. En þessir hundar eru sérhæfðir í að þefa uppi lík. Og í þessu tilfelli hafa sérhæfðir líkhundar verið notaðir til að þefa uppi sönnunargögn. Engin mannsins tækni gat það - en nebbinn á hvutta sagði alla söguna - ótrúleg hæfni.
Já hér er greinilega nýtt dæmi um slæmar ákvarðanir mannskepnunnar - því víst er að ekki hefur móðirin ætlað sér að myrða dóttur sína - eða? Harmleikur og allt væntanlega gert til að geta slakað á með vinum eina kvöldstund á veitingastað. Já, flestir hefðu tekið börnin með.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Fimmtudagur, 13. september 2007
Leikræn tjáning íslenska landsliðsins.
Fátt finnst mér hallærislegra en fótboltamenn að kreista fram leikræna tjáningu. Forsíða Fréttablaðsins í dag er dæmi um það.
Og margar útgáfurnar af leikrænni tjáningu hefur maður auðvitað séð. Einhverju sinni rugguðu leikmenn ímynduðu barni og svo auðvitað danssporin og mjaðmahnykkirnir. En ég spyr, hvert skyldu þeir benda ef t.d. líkja ætti eftir meðspilara sem "kæmi út úr skápnum" - eða hreinlega leikmaður gengi alla leið og færi í kynskiptingu - já þá væri gaman að sjá hverjar handahreyfingarnar væru.....svo ekki sé minnst á hvaða tjáningu íslenska landsliðið hefði notað ef Georg Best hefði verið íslenskur leikmaður og þjálfari, en hann drakk sig jú í hel. Kannski skálað út í loftið? tja....maður spyr sig.
Nóg var auðvitað að leika með sorgarband - það þurfti ekkert að "benda fólki á" hvað verið væri að meina með því.
En þetta með líkingamálið er nefnilega nokkuð sem fótboltamenn ættu bara að leggja á hilluna. Það er mín skoðun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)