Fimmtudagur, 14. febrúar 2008
Hún mamma mín og helvítis tölvan....
Tölvur eru böl - það er mér svo sannarlega að verða ljóst. En því miður getur nútímamaðurinn vart án þeirra verið og reyndar snýst stór hluti vinnudagsins um notkun slíkra tækja.
En hvað um það.
Ég hef í mörg ár átt hana mömmu mína - í raun alveg frá fæðingu. Að vísu hef ég staðið í samkeppni um hana við systur mínar fjórar - en sem einkasonur þá var auðvitað sigurinn í höfn um leið og mamma sá mig með "skottið á milli lappanna" á fæðingardeildinni. En það er ekki þetta sem er málið - málið er grafalvarlegt - mjög alvarlegt og ef það hefði verið "sonar-athvarf" á Ísafirði þá hefði ég leitað þangað um daginn. Svo hrikalega var mér misboði - höfnunin mikil.
Ég nefnilega varð fyrir alvarlegu "slysi" - nú, konan mín eldar bara svo góðan mat að ég ræð ekki við mig - ríf í mig af áfergju og stjórnleysi og allt endar þetta utan á mér með einmitt þessum alvarlegu afleiðingum að tvennar gallabuxur gáfu sig gjörsamlega....rifnuðu nánast utan af mér þegar ég rétt si sona beygði mig eftir súkkulaði mola sem ég hafði misst.
Og þá kemur mamma til sögunnar - með tölvuna. En ónefndur tölvusölumaður hér í bæ "lét" mig kaupa fartölvu fyrir mömmu....eða svo kýs ég að muna það - og nú er mamma semsagt komin með tölvu og á helv....tölvunni er msn. Ég í sakleysi mín sendi mömmu minni - já MÖMMU MINNI til margra ára svohljóðandi skeyti á msn:
"mamma - ég þarf að senda til þín tvennar gallabuxur og biðja þig að gera við"..... og svarið lét ekki standa á sér...
"Tolli minn, ég er hætt svona þjónustubrögðum"...."þú ert nú orðinn svo gamall að þú hlýtur að bjarga þér"....
Hvílík ósvífni, hugsaði ég.... er hún búin að yfirgefa mig....MIG og ég bara rétt liðlega fertugur....!!??
Nú, það er best að svara þessu og ég skrifa "Heyrðu nú mig mamma...elsku mamma...hvað á ég að gera..hjálp"... og svarið kom frá helv..tölvunni: "Auður seems to be OFF LINE......and can not reply to you......
Já mamma mín er semsagt hætt að þjónusta mig - og er bara OFF LINE......
Munið http://bjarnipall.bloggar.is/blogg
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 13. febrúar 2008
Nám er dýrt.
Stúlkan sótti um ríkisborgararétt til að komast í nám - að mig minnir til Englands.
Og nám er dýrt - það þarf að fjármagna....sumir taka námslán...aðrir sjá aðrar leiðir....
tja maður spyr sig??
Meiðyrðamál gegn Kastljósi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 13. febrúar 2008
Bloggið hans Bjarna Páls.
Mig langar að benda ykkur á síðuna hans Bjarna frænda míns - sem er ungur maður að glíma við alvarleg veikindi.
Heimsækið endilega síðuna og sendið honum kveðju -
http://bjarnipall.bloggar.is/blogg/
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 6. febrúar 2008
Fyndni er tvíeggjað sverð.
Um daginn skrifaði ég færslu sem snérist um ágætan vin minn og sambæing. Sá hinn sami var í kaffitímanum að gera grín að mér og fleirum um bloggskrif.
Ekki ætla ég frekar að fara út í þá sálma - en í þeim orðaflaumi sem átti sér stað og ég bloggaði um virðist sem ákveðnir aðilar hafi fundist að sér vegið og talið að við sig væri átt - þó hvergi hafi verið minnst á nokkur nafngreindan einstakling eða einstaklinga - enda ekki ætlunin. Hinsvegar er það auðvitað svo að litlum samfélögum og jafnvel stærri er hægt að leggja saman tvo og tvo....
Og nú skal ég gera hreint fyrir mínum dyrum: Að sjálfsögðu var það ekki ætlunin með skrifunum að stunda rógburð eða þaðan af verra og þykir mér ákaflega leitt að þessir aðilar sem svo lögðu út af textanum skyldu upplifa textann á þann hátt. Ég túlkaði ekki orð mannsins á kaffistofunni á þann hátt - heldur líkt og aðrir leit ég á þetta allt sem grín - venjulegt blaður - og því voru skrif mín grín beind gegn viðkomandi.
En eftir stendur að textinn olli greinilegum særindum hjá þeim sem ekki áttu hlut að máli og sem texti minn snérist bara alls ekki um sem slíkur - En þetta er textinn minn - og sem mér ber að afsaka - og geri það hér með með glöðu geði.
Þeir væntanlega taka það til sín sem eiga enda ekki ástæða til að nafngreina viðkomandi.
ps. skrifin tóku 5,7 mínútur og dragast frá kaffitímanum mínum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 3. febrúar 2008
Að taka þátt með fjarveru sinni.
Eiður kom ekkert við sögu í sigri Barselona var fyrirsögn á mbl.is í dag. Einkar áhugavert og vekur upp spurninguna um hvað málið snýst? Kom hann bara alls ekkert við sögu.....sat hann uppi í stúku eða var hann bara heima?
Eins er það með tunglmyrkva - þar er maður að skoða eitthvað sem er að hverfa - hverfandi tungl. Þar er semsagt tunglið í aðalhlutverki og það sem er svo merkilegt er að það er mest í aðalhlutverki þegar það bara sést alls ekki.
Kannski ekki ósvipað og Ólafur Stefánsson í handboltalandsliðinu - sem virðist skipta okkur mestu máli þegar hann getur ekkert - eins og á EM hér um daginn. Við töpuðum að mér skilst vegna þess að Ólafur var svo lélegur. Hann semsagt sást varla í leikjunum og því skipti hann svo miklu máli.
Eins er það með kvótann - sá hluti sem skorinn er niður hefur fengið mesta umfjöllun - sá hluti sem ekki má veiða og er því ekki til. Hinn hlutann er lítið talað um.
Kannski eigum við að einbeita okkur meira að því sem er til staðar - hámarka nýtingu og njóta á meðan er?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 28. janúar 2008
Við græðum - þú borgar. Ótrúlegur gróði Landsbankans - skilar sér ekki í buddu borgarans.
Ótrúleg afkoma Landsbankans vekur athygli - fjörutíuþúsundmilljónir. Já takk. En það sem vakti athygli mína var viðtalið við bankastjórann - þar var hann að vonum kokhraustur og sagðist geta horft framan í hvern sem er. Líklegast á hann þá við kollega sína úr banka og bissnessheimum.
En heldur sljákkaði þó í kalli þegar hann var spurður að því hvernig hinn almenni viðskiptamaður myndi finna fyrir þessu.... Á engan hátt - engar lækkanir - áfram gjöld og gjöld ofan.... en þjónustan batnar....
En líklega þýðir þetta betri þjónustu við hina efnameiri - þeir fá flottari jólagjafir og fleiri miða á leiki með West Ham - annað væri nú varla hægt.
Við hin stöndum á hliðarlínunni og fylgjumst með - stolt yfir því að taka þátt í þessum stórkostlega bisness - borgum okkar gjöld og hvetjum West Ham.
Já - væri nú ekki ráð að lækka eithvað af þessum gjöldum - og t.d. að afnema fit kostnaðinn......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Mánudagur, 28. janúar 2008
Við erum ekki að hlægja að þér...heldur með þér... Ólafur minn kæri borgarstjóri.
Já þeir hjá spaugstofunni kunna ekki að skammast sín..
...og ekki biðja þeir borgarstjórann afsökunar - nei.....
http://www.visir.is/article/20080128/LIFID01/80128078
Ja svei mér þá...... og ég sem bloggaði um sölu Arnar Árnasonar á flugeldum og þá töluðu sumir um "aftöku"...mannorðsmorð...hahahahahah
Kannski er kominn tími á að RUV eyði peningum í betri dagskrágerð - er ekki að verða komið nóg?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 27. janúar 2008
Klipptu framan af fingri manns með greinaklippum - hvað er til ráða?
Ég las bók sem heitir "Svartur á leik" og fjallar sú bók um einskonar "undirheima" Reykjavíkur. Ekki ætla ég nú að fara út gagnrýni á bókinni - en í henni eru lýsingar á hreint lygilegum atburðum og ef þeir atburðir eiga sér einhverja stoð í raunveruleikanum þá er hér um gríðarlegan áfellisdóm á störf lögreglunnar að ræða - glæpamennirnir virtust geta vaðið uppi án frekari afskipta af lögreglu. Og mér er sagt að sagan byggi á raunveruleikanum.....
Misþyrmingarnar og lýsingarnar eru svæsnar - talsmáti og athæfi söguhetjanna með ólíkindum. Stundum svo að maður lagði frá sér bókina með þeim orðum að "ég nenni ekki að eyða tíma í lestur svona þvælu" - en áfram las ég. Og trúði ekki neinu - þetta bara gæti ekki verið svona.
Svo opna ég dagblöðin og fer að lesa um drengi norður á Akureyri sem klipptu framan af fingri manns - sem eitthvað hafði út á þá að setja vegna framkomu við son hans.
Ég verandi frá Akureyri hringdi náttúrlega norður og spurði frekar út í þetta mál. Jú, þessir glæponar höfðu búið í kjallaraíbúð í fjölbýli - stundað þar ýmislegt misjafnt og haldið sleitulaus partý - og ekki nokkur þorði að hrófla við þeim - enda öllum sem það gerðu hótað lífláti. Geðslegir nágrannar það!
Já - lýsingarnar í bókinni voru nánast mildar samanborið við raunveruleikann. Raunveruleikann í blokk á Akureyri!!
Er firringin orðin slík að menn af þessu tagi geta vaðið uppi - lagt líf fólks í rúst óáreittir? Mér sýnist á köflum svo vera.
En hver er lausnin? Á lögreglan að vopnast - verða grá fyrir járnum? Eða er lausnin að gera nú skurk í fangelsismálum svo að hægt sé að kippa svona kónum úr umferð við fyrsta brot - að herða viðurlög?
Er það mál fólks sem verður fyrir barðinu á þeim - er það mál foreldra að leysa þetta... NEI - það getur bara ekki verið.
Eitthvað segir mér að í þessu sambandi séu forvarnir máttlausar og nú þurfi að skera upp herör gegn þessu ofbeldi - og það strax.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 27. janúar 2008
Til hamingju Ísfirðingar - mikið hitamál er leyst.
Já það er yfir mörgu að gleðjast þessa dagana. Hér fyrir Vestan á að fara að grafa göng yfir í Bolungarvík þó að menn séu ekki á eitt sáttir hvað göngin eiga að heita - en grafin verða þau og ku verða hægt að keyra þau í báðar áttir - sem er jú gott.
En það mál sem stendur uppúr að mínu mati hér á Ísafirði og er í engu minna mál en valdatafl þeirra borgarbúa - en það vatnsfötumálið.
Vatnsfötumálið...hvað er nú það kunna margir að spyrja. Já það er nefnilega fátt eins notalegt og að sitja kófsveittur og allsber í gufubaði. Og til þess að kynda undir - ekki ósvipað og sjálfstæðismennirnir í Reykjavík gerðu - þá þarf maður að skvetta vatni á ofninn - til að magna hita og almenna vellíðan.
Og hér er einmitt undirrót eins mesta vanda síðari ára hér - og það er vatnsfatan og ausan! Hún var nefnilega orðin slöpp sú gamla - og ausan varla svipur hjá sjón. Og svo sjóðhitnaði allt saman og varð vart á haldið.
En viti menn - þegar ég kom í gufuna í gær þá var búið að kaupa þessa dýrindis fötu úr tré og ausu í stíl! - já, menn eru bara að "spandera" á Ísafirði.
Ég vil óska meirihlutanum til hamingju með ákvörðunina sem líklegast hefur verið lengi í nefndum - í það minnsta tók þetta tíma. Og talandi um tíma - væri nú ekki ráð að kalla til annan fund og sammælast um að kaupa fallegt tímaglas á vegginn.
Já, ég segi til hamingju Ísfirðingar með bætta aðstöðu til afslöppunar.
Hver segir svo að hér séu ekki "hitamál".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 27. janúar 2008
Ósmekklegur húmor Spaugstofunnar. Hvað má og hvað ekki?
Ég verð að viðurkenna að mér fannst nokkuð skondinn þátturinn með spaugstofunni í kvöld. En heldur fannst mér gamanið kárna þegar ég sá hve ósmekklega þeir fóru með nýja borgarstjórann.
Það er eitt að gera grín að fólki fyrir athafnir og aulaskap - en þegar það eina spaugilega sem þeir sjá í tilveru fólks eru veikindi - nú þá held ég satt að segja að betur megi kyrrt liggja.
Það hefði einfaldlega verið hægt að leysa þetta á fyndnari hátt - og manneskjulegri - og ég geri ráð fyrir að af nógu sé að taka á liðnum dögum og mánuðum svo ekki sé verið að nota alvarleg veikindi sem menn hafa ekki nokkra stjórn á - það er ljótt.
Þeim tekst nefnilega nokkuð oft vel upp félögunum þegar þeir setja saman svona fréttaskýringu á bíómyndaformi.
En í kvöld skemmdu ósmekklegheitin fyrir gamninu.
Ég vil þó hrósa þeim fyrir "guðföðurinn" - meinfyndið og hitti í mark.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)