Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Úlfúð - barist um bitana

Ég var að tala við danskan mann um daginn. Ýmislegt bar á góma en það sem mér þótti merkilegt var að hann sagði mér frá því að hann sæi um að útvega dýragörðum mat ofan í ljónin!

Og þar duga sko engir smá bitar samkvæmt evrópuþingsstöðlum - nó þeinkjú - ljónin líta ekki við neinu nema vænum bitum og helst á beini. Og þegar verið er að fóðra þau þá urra þau og líta hvert annað hornauga - passa upp á bitana og ekki er gott að vera með fingurna nálægt.

Þau stærstu og frekustu fá sér fyrst - urra á hina og láta engan komast upp með að næla sér í bita. Á stundum gerast leikar svo svakalegir að stór sér á þeim minni.

Þetta þótti mér merkilegt spjall og sá fyrir mér lætin í ljónagryfjunni. Betra fyrir dýrahirðinn að fara varlega - úff.

Á leiðinni heim ákvað ég að líta við í smiðju einni hér í bæ - kanna hvort ennþá væri heitt á könnunni. Þegar ég var sestur og búinn að heilsa köllunum bar að góðan gest. Það var Úlfar í Hamraborg og bar hann poka einn í annarri hendinni. 

Kliður fór um borðið - kurraði í mönnum og þeir færðu sig framar á stólana. Nú var nefnilega Úlfar kominn með samlokur sem ennþá voru í góðu lagi þó þeir taki þær úr sölu í Hamraborg - þar er ekkert boðið uppá nema nýsmurt.

Kallarnir iðuðu - spennan magnaðist - Úlfur hálf henti pokanum á borðið og kippti að sér hendinni. Sá stærsti í hópnum - eða ætti maður að segja sá æðsti - Garðar - lét hendur skipta - nældi sér í loku og munaði minnstu að hann fingurbryti Óla frá Gjögri sem auðvitað var minni og átti að bíða - vera ekki með þessa frekju - þegar aðal átti að velja fyrst! Hinir biðu átekta - mynduðu hálfhring um fenginn og sleiktu útum....svo fengu þeir sér. Eina hljóðið sem heyrðist næstu mínúturnar var kjamsið í körlunum - mér fannst ég meira að segja heyra mal.

Ég sat um stund og hugsaði: Þetta minnir mig á eitthvað....ég bara kom því ekki fyrir mig - mér fannst ég hafa upplifað þetta áður?!

Á leiðinni heim mundi ég það..... - já mannskepnan er skammt á veg komin þegar góðar samlokur eru annarsvegar!!


Stefnumót við óvissuna

Ég sagði frá því í færslu í fyrra þegar ég gekk Óshlíðina alræmdu með bóndanum á Hanhól. Þá sór ég þess eið að gera það ekki aftur.

Nú hef ég brotið þann eið - ég gekk á ný. Átti stefnumót við óvissuna.

Það var myrkur þegar er ég leit út um gluggann - laugardaginn 13.september. Ég var þreyttur - enda sofið illa - dreymdi fyrri göngur með bóndanum og sá mig falla fram af björgum og brúnum - niður skriður og enda óþekkjanlegur í fjöruborðinu.

Í morgun kulinu keyrðum við Harpa Grímsdóttir á vit örlaganna - hittum fyrir bóndann í Óshlíðinni skammt norðan Kálfadals - þar sem hægt var að leggja bílunum. Harpa fór ásamt Ásgeiri upp ófærur sunnar í Óshlíðinni og áttu að reka fé sem leið lá norður hlíðina og koma til móts við okkur í Kálfadal. Líkur hér þætti Hörpu og Ásgeirs í frásögn þessari.

Við bóndinn héldum sem leið lá upp frá veginum neðan Kálfadals - með hjálp kaðalspotta gátum við auðveldað leið okkar upp bratta hlíðina þó grjóthrun skapaði hættu fyrir þann er á eftir kom. Bóndinn var á eftir - ennþá hafði ég þolið í lagi.

Í Kálfadalnum er umgjörðin hrikaleg - dalverpi umlukið bröttum hlíðum sem enda í þverhníptum hömrum - dalurinn fullur af grjóti sem einhvertíma féllu úr hamraveggjunum. Mjög mikilvægt er á þessum slóðum að vara sig á grjótskriðum og lausum steinum sem liggja á berginu og með það í huga hlýddi ég bóndanum þegar hann rak mig upp brattann - ég átti að standa fyrir ofarlega til að missa ekki féð upp á víðsjárverðar syllur. Ég dæsti - skrefin voru þung - brattinn mikill. Ekki gat ég séð á bóndanum að hann blési úr nös - gekk með mikinn staf - og notaði hann til styðja sig í brattanum - með honum gekk smalahundurinn og vissi vel hvað stóð til.

joi_me_staf.jpg

Útsýnið var stórfenglegt inn djúpið  og sólin glennti sig yfir Sæfjallaströndinni. En ekki dugði að kvarta - kindum verður að smala.

 

 13092008_001.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Segja má að slíkar ferðir séu ekki fyrir lofthrædda og á stundum þegar litið var niður þá var ekki laust við að um mann færi hrollur -

 13092008_010.jpg

 

betra að fara sér hægt og horfa beint fram veginn. En þegar horft var fram veginn þá auðvitað skánaði það lítið - framundan voru hrikalegir klettar - skriður og það hlaut að vera hverjum manni ljósara að slíka leið færi enginn ótilneyddur! Ertu hræddur bjálfinn? spurði bóndinn. Ha ég, svaraði ég og þóttist vera ískaldur og rólegur!

13092008_009.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Já - nú skipti sköpum að halda ró sinni -eða eins og bóndinn sagði við mig í síðustu göngum - og sem áttu að verða mínar síðustu...."úr þessu er ekki hægt að snúa við....vertu rólegur"!!

Við settumst niður - bóndinn fylgdist með gangnamönnum í fjarska og gaf skipanir í talstöð -

13092008_011_679792.jpgBetra að fylgjast vel með öllu til að féð rjúki nú ekki í ógöngur.

13092008_012.jpg

 

 Já - þarna sat hann á toppnum - gaf skipanir niður hlíðina og hjá sátu smalahundarnir Salka og Píla - tilbúnar að hlaupa fyrir féð ef það reyndi eitthvað fyrir sér - væri með útúrsnúninga.

 

 

 

 

En áfram skildi haldið - ekki var okkur til setunnar boðið - á Ósi var beðið eftir okkur og við urðum að vera komnir með féð fyrir Óshyrnu ekki síðar en 8. 

Skriðurnar biðu - syllurnar virtust hrikalegar og mér fannst ég lítill og tilgangslaus - svo hrikaleg var náttúran þennan morgun.

13092008_013_679795.jpgHvern fjandann voru þessar rollur að vilja á þennan stað? Þessar heimsku Vestfirsku rollur.

Eða voru þær svo vitlausar...kannski var það mannskepnan sem í heimsku sinn elti þær um kletta og skriður?

 

Þá var gott að hafa tryggan vin - sem fylgdi manni um hvert fótmál og hljóp uppi fé sem ekki fylgdi settum reglum - kannski ekki alltaf - en stundum!

Já henni Sölku fannst það nú ekkert mál að hlaupa upp og niður skriðurnar - feta sig eftir syllum.

13092008_006.jpg13092008_007.jpgRollunum varð ná heim - um annað var ekkert að ræða.

 

 

 

 

 

Já smölun í Óshlíð er ekkert gamanmál - þó auðvitað maður finni til sín - daginn eftir!

Í einni alverstu skriðunni - rétt undir henni Þuríði sjálfri komust nokkrar ær upp bratt gil. Bóndinn sigaði mér yfir háls fyrir ofan gilið - brattinn var slíkur að ég þurfti að reka niður göngustafinn til að renna ekki af stað og enda fyrir björg. Ég var þreyttur - blóðbragð í munni og helvítis rollunum hugsaði ég gott til glóðarinnar. Þegar ég loks hafði mig upp á hálsinn gerði ég mér grein fyrir því að fyrir neðan mig var klettabelti - og skriðan var hrikaleg handan við hálsinn. Ég sá nánast svart - þreytan var slík að ég hugsaði með mér að bráðum gæfist ég upp - myndi sjálfsagt enda í grjótgirðingunni niður við veg!

En yfir hálsinn klöngraðist ég - og sá rollu fjandana - ær með tvö lömb - að mér sýndist - en svitinn blindaði mig þó þrjóskan ræki mig áfram. Rollunum skildi ég ná. Í talstöðinni brakaði "hvar ertu...drífðu þig nú"...helv...bóndinn hugsaði ég - helv...rollurnar!!

Þær störðu á mig - glottu að mér sýndist - tóku svo á rás og upp skriðuna....hver andskotinn er að þessum skepnum hugsaði ég - vita þær ekki að leiðin er niður!! Ég hafði mig af stað - við hvert skref leið mér eins og nú væri ég allur - enda gjörsamlega búinn. Í talstöðina brakaði "komdu bara niður - við náum ekki þessum" - ha...var bóndinn hættur við - búinn að siga mér upp í efstu gljúfur - og þegar ég loks kemst þangað ódauður þá á ég að koma niður.....djöfuls....hugsaði ég.

En að fara niður reyndist ekki skárra - skriðan var laus í sér og fór auðveldlega af stað - með mig. Hruflaður - skítugur og sveittur komst ég loks niður - rollulaus! Blótandi og hinn versti  - aldrei skyldi ég fara aftur í slíka ferð - aldrei.

Ég sofnaði þreyttur þetta kvöld.

Snemma morguninn eftir hringir síminn. "Góðan daginn" segir glaðleg og kunnugleg rödd í símanum - þetta var bóndinn - ég svaraði ekki - þagði - en að lokum bauð ég góðan dag.

"Segðu mér" hélt hann áfram, "þessar rollur sem þú skaust eftir þarna upp brekkuna í gær - sástu ekki örugglega markið á þeim?!"

Ég þagði - svo lagði ég símann á og hélt áfram að sofa.

Síminn hringdi aftur. Ég svaraði. Aftur var það bóndinn - "ég ætla að líta eftir þeim - ná þeim niður og var að velta fyrir mér hvort þú myndir ekki skjótast með mér". 

Ég lagði á - tók símann úr sambandi og sofnaði.


"Sértu velkominn heim...yfir hafið og heim"

Það ómuðu tónar úr smiðjunni í gær. Fagrir tónar flæddu úr kaffistofunni þó ekki væri þar mann að sjá. Þegar litið var innum gættina mátti sjá hvaðan tónaflóðið kom - í ein horninu var eldri kona við þrif - lá á hnjánum og skrúbbaði gólf - með höfuðklút og svuntu!

Ekki passaði þó hvellur tenórinn við útlit skúringarkonunnar - enda kom í ljós þegar skúringarkonan varð gestsins vör að hér var engin kona á ferð - heldur var það Maggút sjálfur mættur - í múnderingu með skúringargræjurnar - kominn til að þrífa og lá vel á honum. Hann ætlaði að taka á móti Braga með pompi og prakt - þegar Bragi kæmi heim úr siglingunni - á mánudaginn næstkomandi. Og upphóf hann nú raust sína "sértu velkominn heim...yfir hafið og heim"....

Þó var eitt vandamál sem Maggút glímdi við - hversu mörg kerti hann ætti að hafa á kaffiborðinu....eitt..tvö...nú eða fleiri....

Gesturinn kímdi - sagði svo Maggút að Bragi kæmi ekki heim fyrr en á þriðjudag. Maggút þusti á fætur, reif af sér svuntuna og gúmmíhanskana  - tætti af sér hárklútinn og blótaði hressilega. Gat nú verið að Bragi léti bíða eftir sér... kannski væri bara  eins gott að hann kæmi ekki neitt....andskotinn hafiða.

Þegar gesturinn kvaddi og hélt heim á leið mátti heyra hvellri röddu í kaffistofunni "ertu kominn aftur, landsins forni fjandi".....og blótgusa fylgdi í kjölfarið....

Já, það er eftirvænting í loftinu á loftinu hjá Braga.

Og ég tek mér orð Maggúts í munn þegar ég segi "sagan er sönn, Óli frá Gjögri sagði mér hana...ekki lýgur hann....".


Maður hefur mök við glænýjan Toyota jeppa!

Margt er brasað í henni veröld - og ekki allt gáfulegt. Nú nýlega keypti maður sér nýjan jeppa af fínustu gerð - skrapp í bæinn og lagði bílnum eins og lög gera ráð fyrir.

En viti menn - þegar hann kom til baka varð hann vitni að því að ölvaður maður var með buxurnar á hælunum og hugðist hafa mök við bílinn.....og það að framanverðu!!

Já alveg ótrúlegt!

Ég hafði samband við sérfræðing hjá Toyota og spurði út í hvort að þetta væri ekki undarlegt? Jú, svaraði maðurinn - en hafði skýringu á því hversvegna maðurinn nýtti sér ekki púströrið - það væri jú eini lógíski staðurinn að sting'onum inn..... - nýjustu bílarni væru nefnilega með "bakk-skynjara" sem gerði þeim kleift að nema svona aftaníhossa.

Já ekki er nú öll vitleysan eins.

http://www.expressen.se/Nyheter/1.1305654/berusad-man-hade-sex-med-bil

 


Samkeppnin harðnar á markaðnum - yfirtökuskilda handan við hornið!

Það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni að markaðurinn er í molum - heimsþekkt fyrirtæki leggjast á hliðina - þá hægri segja sumir en þá vinstri aðrir. Svo dæmir hver fyrir sig. Þetta ku vera kreppa.

Við hér fyrir Vestan höfum ekki farið varhluta af þessu ástandi - kreppunni á markaði.

Á kaffistofumarkaðnum!

Það er nefnilega svo að ein helsta kaffistofa bæjarins hefur verið við það að leggjast á hliðina - stjórinn sigldur og í fá hús að vernda fyrir "hásetana".

Og svo þegar ég leit við á kaffistofunni í gær þá sátu þar tvær hræður - þögular og þungbrýndar. Kaffi var á könnunni - ílla uppáhelt og enginn til taka við skömmunum - því ekkert betra var í boði - stemningin var svo dauf að það hefði mátt heyra saumnál detta - í félagsskapnum þar sem venjulega hefði ekki mátt heyra saumavél detta! já slík var þögnin.....

Ekki var ég búinn að dvelja lengi þegar gest bar að garði - já og þá gerist það - í ljós kemur að óvæntur samkeppnisaðili nýtir sér fákeppnina og býður til veislu - ekkert kex drasl - nei gúmmorren - alvöru kökur!

Já svona harðnar samkeppnin á markaðnum - og nú varð okkur ljóst sem mættir vorum á Bragakaffi að með þessu væri Óli málari að reyna að ýta Braga út - kom'onum út í kuldan - ná í kallana - ná yfirhöndinni á markaðnum! 

Að vísu brugðust þeir tveir sem sátu á Bragakaffi harkalega við - þeir Maggút og Óli á Gjögri - en hvað má maður við margnum - tja ég spyr?!

Og miðað við lýsingar Sævars á kræsingunum hjá Óla málara og viðtökunum þá má ætla að hann sé kominn með yfirtökuskyldu!!

Já ég held að Bragi sigli ekki aftur - í það minnsta ekki án þess að taka kallana með!!

 


Fallegt gamalt hús með sál til sölu í fallegri götu í fallegum vestfirskum bæ.

dsc00607.jpgdsc00608.jpgÞegar við fluttum hingað til Ísafjarðar þá var mér sett það skilyrði að finna hús - gamalt hús og fallegt. Ekki yrði um annað að ræða en að upplifa þægilega tilfinningu að búa í húsi með sögu. Og það gerðum við - keyptum ákaflega fallegt hús í Tangagötunni - hús með sögu og sál.

IMG_6535IMG_6547IMG_6550IMG_6546Að upplifa það að  fólk banki uppá til að fá að skoða æskustöðvar eða híbýli ættmenna - jafnvel fæðingarstaðinn er til að kóróna notalegheitin!

Já og nú er ætlum við að selja - ekki að flytja í burtu - nei aðeins að stækka við okkur. En Tangagötu 23 verður sárt saknað - enda yndislegt hús í fallegri götu.

Hefur þú áhuga? tja, láttu mig vita....ég skal senda myndir...

Upplýsingar er að fá í síma 8585140 eða 8616789


Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur?

Já máltækið góða á svo sannarlega við hér - svo ekki sé meira sagt!

Lögreglan kölluð út vegna hvals í Þernuvík?!... þeir hafa væntanlega farið þangað í "forgangsakstri"....

Og hverfa svo á braut með skottið á milli lappanna.....ÁN ÞESS AÐ GERA HÚSRANNSÓKN HJÁ KONNA EGGERTS!!


mbl.is Hnúfubakurinn í Þernuvík lifandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Soddan konur kosta nokkuð" var sagt um Grasa-Guddu...en Breiðavíkurdrengirnir kosta varla krónu....

Titillinn er tilvitnun í ummæli Sigurðar á Dal þegar hann dáist að henni Grasa-Guddu, sem gat sko tínt grösin.

Og tilefnið - jú, þannig var að ég sat ákaflega áhugaverðan fund í hádeginu í dag og sem fjallaði um jafnréttismál. Margt var skrafað og ýmislegt áhugavert. Að vísu fannst einni samstarfskonu minni frekar skrítið að sjá mig þarna - líkti því við að hitta talibana í kirkju....hvað veit ég - en hinu skal til haga haldið að ég er alinn upp með systrum mínum fjórum!! Já og hún mamma passaði sko uppá að ég lifði það af - varð mig með "kjafti og klóm".....hún passaði sinn prins!

En nóg um það - þó svo að maður hafi nú kannski ekki alltaf rokið til og þvegið upp eða strokið yfir gólf....ég meina stelpurnar voru "hvort eð er að því....".

En þetta með jafnréttið. Mér fannst ákaflega merkilegt að búið er að sýna fram á að í þeim fyrirtækjum sem konur eru við stjórn - eða í stjórn - þar er framlegð meiri og andinn betri. Af hverju eru þessar niðurstöður ekki notaðar og eftir þeim farið? Tja maður spyr sig.....kannski af því að þá þarf að stokka upp og breyta til - losa sig við "félagana" og setja konur í stöðurnar?

Og fyrst maður er á annað borð farinn að verðleggja fólk - þá get ég ekki sleppt því að hneykslast á verðlagningu þeirra Breiðavíkurdrengja sem svo eru nefndir. Ódýrari menn hef ég ekki séð - kosta nánast ekkert - miklu minna en t.d. ein Kínaferð ráðamanns......eða svona um það bil dagpeningarnir sem greiddir voru í Kínaferðinni.......sé farið eftir verðlagningu ríkisstjórnarinnar! En við hverju er að búast - ég bara spyr?! Ekki bjóst fólk við að þeim yrðu greiddar mannsæmandi bætur!

Nei - víða er pottur brotinn. En verst er þó þegar "pottasmiðurinn sjálfur brýtur þá" - það er hneisa. Ég held að ráðamenn þjóðarinnar ættu að verðleggja mannslífin meira - mannslífin sem forverar þeirra tóku og eru yfirvöldum til ævarandi skammar.

það er mín skoðun.


Fullkomið tillitsleysi - Bragi bregður sér frá!

Það ríkir ófremdarástand hér á Ísafirði. Ástæðan er einföld - Bragi bregður sér frá - fer bara sisona í skemmtisiglingu og skilur "kaffigestina" eftir úti í kuldanum!

Og Magnús er brjálaður - lemur sér á brjóst - baðar út öllum öngum og hrópar í bræði "ég veit´ða....Steinþór kann ekki að hella uppá - það verður ekkert kaffi.....lengi".

já, nú er ástandið slæmt. Mjög slæmt. Haustið sækir að og varla orðið sitjandi á bekknum við guðshúsið nema stundum - ekkert að gera - ekkert kaffi og ekkert spjall.

Já - síðustu kaffitímarnir í Bragakaffi hafa verið þrungnir spennu - svona eins og beðið væri eftir endalokunum - eftir að Bragi brygði sér frá. Langar þagnir og fussað og sveiað.

Og svo er það hann Óli í Gjögri - ekkert fréttist af honum. Sögur eru rifjaður upp og Magnús er ennþá að bera til baka söguna um augun....trúir því ekki ennþá - ekki satt.

Og þá rifjast upp sagan af því þegar Óli fann njósnabaujuna rússnesku - í róðri og tók hana í tog heim. Þegar heim var komið var baujan opnuð - innvolsið skoðað og það hirt sem nýtilegt þótti. Svo lá bara baujan þarna og Óli vissi ekkert hvað ætti að gera við hana. Kannski ekki gott að láta'na liggja svona á glámbekk. Að vísu kom hún í góðar þarfir þegar Óli var í tiltekt í skúrnum og gat losað sig við uppsópið af gólfinu - stakk því í baujuna og skrúfaði lokið á. En nú eru góð ráð dýr - hvurn fjandann skal gera við bauju helvítið. Ráðið væri auðvitað að draga hana út á sjó aftur - skil'enni. Og það gerir Óli og prísar sig sælan að losna við baujuna.

Svo gerist það að bátur siglir fram á baujuna og gerir landhelgisgæslunni viðvart. Sérfræðingur er sendur norður - sérfræðingur í baujum og sprengjum - enda veit enginn hvað svona baujur hafa að geyma - nema náttúrlega Óli. Sérfræðingurinn ræðir við annan sérfræðing og saman taka þeir sérfræðilega ákvörðun - ráðið sé að hafa samband við herinn í Keflavík. Rússarnir eru kannski að hlera  - héldu þeir og því rétt að kaninn kanni málið. Stór herþyrla er send norður á Gjögur að sækja baujuna - best að flytjana suður til rannsóknar eða eyðslu. Óli fylgist með á hlaðinu - þegar baujan er hífð uppundir þyrluna - sem flýgur svo tignarlega í burtu með baujuna hangandi neðanundir - og hverfur yfir fjallgarðinn. Baujunni verður að farga - gæti innihaldið hættulegan farm - njósnatæki eða þaðan af verra.

Já þetta var tignarleg sjón þegar herinn sótti ruslið á Gjögur. Óli kímir.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband