Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
Þriðjudagur, 30. desember 2008
Að kjósa mann ársins - undarlegt mat á eiginleikum.
Verið var í sjónvarpinu á stöð tvö (að mig minnir) að kjósa um hver væri maður ársins. Ársins tvö þúsund og átta þegar allt fór til helvítis - og svo voru helvítin sjálf fengin til að hreinsa upp skítinn.
En hvað um það. Ekki ætla ég nú að setjast í dómarasæti. En halló - rætt var þar við leikarann geðþekka Felix Bergsson - og hann kaus Ingibjörgu Sólrúnu. Og af hverju - jú hún gekk í gegnum erfið veikindi - og kom svo sterk til leiks.....hm jamm...jæja.
Hvernig í ósköpunum getur það verið henni til framdráttar að veikjast? Er það eitthvað nýtt? Margir deyja af völdum sjúkdóma á ári hverju - og lítið sem ekkert fjallað um það góða fólk.
Og hvað í ósköpunum hefur Ingibjörg gert til að laga ástandið? Ég bara spyr....hefur hún eitthvað gert?
Ég bara spyr....hvað hefur hún gert af viti síðustu mánuði...?!!
Frekar en aðrir stjórnarliðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 29. desember 2008
Strærsti þrándur í götu íslenskra námsmanna er LÍN. Svo hefur það alltaf verið og mun greinilega verða áfram.
Og þar situr við stjórn gjörsamlega vanhæft fólk við stjórnvölinn. En þetta hefur alltaf verið svona. Ég er sjálfur langskólagenginn maður - með lán til endurgreiðslu - og ég stóð í stappi og hlustaði á röfl - í þessu sama fólki. Röfl í Gunnari Birgissyni - sem þar virðist sitja ennþá - gjörsamlega tilgangslaus maður.
Burt með þetta lið.
Núna!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 28. desember 2008
Rétt er það - vitringarnir koma saman á jólum.
Sagt er að María hafi lagt son sinn í jötu á jólunum - og að jata þessi hafi verið í fjárhúsum fjarri íslandsbyggð. Svo hafi borið þar að vitringa með gjafir handa jesúnum í jötunni. Ekki ætla ég að mótmæla að svo hafi verið - en ég var ekki viðstaddur og hef því orð annarra fyrir þessu.
En vitringa hef ég hitt - og það hér fyrir Vestan. Og vitrir eru þeir og spakir mjög. Síðastliðinn laugardag átti ég mér dálítinn göngutúr - einn að hugsa um jólin og njóta útiverunnar - í blíðskaparveðri - þó svo að mælistika flugfélagsins hafi sýnt allt annað og öllu flugi verið aflýst - en það er önnur og flóknari saga og alls engin jólasaga.
Þessi saga er mun einfaldari. Enda er mikil viska í eðli sínu einföld - skýr og bein.
Þegar mér verður gengið fram hjá dumbrauðum beitningaskúr fannst mér líkt og lykt af reykelsi fyllti vit mín - og ómur af spekinglegum umræðum barst mér til eyrna. Ekki fór á milli mála að hér var eitthvað mikið um að vera - enda þó ekki væru sjáanlegir neinir úlfaldar þá voru þó nokkrir bílar fyrir utan beitningaskúrinn. Úlfaldar nútímans. Og inni hlutu að vera vitringar að ráða ráðum sínum.
Ég lét eftir mér að gægjast inn um ólæstar dyrnar. Og drottinn minn dýri - þarna sátu þeir vitringarnir og skeggræddu - um stöðu mála og úrlausnir - útgerð og leti ungafólksins.
Þar mátti sjá vitring einn ljósan yfirlitum - sitjandi við lítið borð - drekkhlaðið góðgæti. Reyk lagði út úr vitum hans og var þar komin skýringin á lyktinni. Hann reykti sem mest hann mátti - þó svo vísindin teldu honum hughvarf - en eins og við vitum öll þá heldur bíllinn áfram að reykja þó búið sé að skipta bæði um pústgreinar og rör og það gerði þessi. Hló svo tár féllu á kinnar. Já hann málaði ekki skrattann á vegginn þessi vitringur þó til málverka kynni - sem og útgerð.
Ásamt honum var þar kominn um töluvert langa leið - sér-vitringur einn mikill. Sá hinn sami og rak hálfgert trúboð í smiðju einni - þar sem hann kenndi ungum mönnum að enginn gæti grætt gull nema að vinna að minnsta kosti í þrjú ár kauplaust. Hann vissi það - þó enginn hefði á hann hlustað - og nú væri allt farið um koll. Já segja má að landinn hefði betur hlustað á sér-vitringinn getspaka sem sá allt fyrir.
Ekki minni - nema að vexti - var spekingur af bæ einum er á árbakka stendur. Þar stundar hann grúsk og smíðar - reykir két og fisk. Spekingur sá hefur sig minna í frammi en sér-vitringurinn og sá ljósi þó hann sé þeim fremri til smíða og reyks.
Svo voru þar aðrir spaklegir vitringar. Minna fór fyrir þeim þó auðvitað ættu þeir sín innskot og mótmæltu eða tóku undir umræðu þá sem átti sér stað.
Tíðrætt var þeim þó um útgerð þá sem stunduð væri frá Gjögri. En við þann stað er kenndur vitringur einn. Þó ekki sé hann mikill að vexti - hvorki hár né gildur og með öllu skegglaus - þá þykir hann mjög svo kyngimagnaður og kunnur - jafnvel fjölkunnugur segja sumir. En sá háttinn hefur hann á útgerð sinni að róa aldrei fyrir hádegi - segir fiskinn aldrei taka fyrr en eftir hádegi. Ekki voru hinir vitringarnir á því að svo væri - en vegna fjarveru sinnar gat Gjögurvitringurinn ekki svarað fyrir sig. Og þessu getur í raun enginn svarað því það ku aldrei nokkur maður hafa róið fyrir hádegi frá Gjögri - segja vitringarnir í beitningaskúrnum. Og hlægja óskaplega - hóhóhó.
Já Jólin eru svo sannarlega fyrir Vestan - viskan og vitringarnir.
Nú er að vita hvort maður rekist ekki á sjálfan kónginn - Elvis Presley.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 26. desember 2008
Á jólum kemst maður í tæri við almættið - hættulega nálægt á stundum!
Það er ekki á hverjum degi sem maður les um uppgötvanir í læknisfræði sem skipta máli. En stundum gerist það og þá verður maður þakklátur og bljúgur með eindæmum.
Svo var það um þessi jól.
Ég nefnilega las það í mogganum, sem aldrei lýgur, að læknar hafa komist að þeirri grundvallar niðurstöðu - þekkingu - uppgötvun sem auðvitað ætti að sæma Nóbel - en hvað um það - uppgötvun þessi er sú að nætursnarl hefur engin sérstök áhrif á holdarfar!
Og þetta hef ég alltaf vitað.
Og lifað hef ég eftir þessu mottói. Að vísu gegn betri sannfæringu konu minnar sem hefur í raun verið mér Þrándur í götu í þeim efnum - jafnvel gert að mér grín á stundum.
Svo koma jólin - með endalausum góðbitum og afgöngum sem mett geta marga munna um dimmar nætur - eða er einhver munur á því að metta marga munna einu sinni eða einn munn mörgum sinnum - svo ég taki mér nú orð Nóbelskáldsins til frjálslegrar notkunar. Og satt hafa bitarnir munn minn og maga. Svo svakalega að ég hef átt erfitt með að halda mér vakandi - nema þá rétt til að borða meira - lesa svo pínu og sofna á ný.
Og í dag komst ég semsagt nálægt almættinu. Hættulega nálægt.
Eftir stórkostlega máltíðir - kaffisopa með sörum og nætursnarl - fengum við okkur svo afganga í dag. Ég hafði vaknað seint - skriðið á fætur og farið út í göngutúr - skroppið í vinnuna. Hafði í hugsunarleysi ekki fengið mér skammt - keyrði bara á leyfunum. Þegar leið á daginn fann ég hvernig fráhvarfseinkennin létu á sér bæra. Kuldahrollur og skjálfti - máttleysi og tilfinningadeyfð. Ég þurfti að bæta á mig skammti - neyslan var búin að vera svo svakaleg síðustu daga að líkaminn hreinlega öskraði á meira - meira...meira...meira.
Þegar ég kom heim tók konan á móti mér - ég sá hana í þoku. Settist niður - skalf og fann hvernig ískaldur svitinn spratt fram á enninu. Ég bara varð að fá skammt - einn skammt - til að lifa. Bara einn - skammt - einn. Skammt.
Konan horfði á mig brosandi. Líður þér illa elskan segir hún varfærnislega. Já segi ég skjálfandi röddu. Vertu rólegur segir hún og reynir að róa mig. Ég sit stjarfur. Horfi framfyrir mig og sé hvorki né heyri nokkuð. Finnst ég vera að falla í ómegin. Guð hjálpi mér. Ég get ekki hætt svona skyndilega - ég verð að fá að trappa þetta niður - minnka neysluna í rólegheitum. Má ekki ofgera mér.
Og í því sem mér fer að sortna fyrir augum finn ég ilminn af kalkún - sósu - hangiketi og meira að segja afgangurinn af grænu baununum var sem málverk í augum mér. Mér var borgið. Skammturinn.
Og einsog úlfur réðst ég til atlögu. Ég fann hvernig maginn fékk fylli - taugarnar róuðust - ég fór að gera mér grein fyrir umhverfi mínu - sá kerti loga - ljósin á jólatrénu. Skyndilega varð ég þess var að með mér sátu til borðs kona mín og sonur. Horfðu á mig spyrjandi.
Pabbi minn varstu svangur? spurði sonurinn.
Tja, dálítið - ekkert rosalega. Pínu sagði ég og þakkaði guði fyrir að vera ekki dáinn. Það munaði ekki miklu að maður stæði við hliðið hjá Pétri - glorsoltinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 23. desember 2008
"þar skaut Villi"
Það var fastur liður að ég var kallaður niður á elliheimili til að hjálpa afa að setja upp seríur. Nú hefði mátt halda að slíkt hefði verið auðvelt og fljótlegt - einkum í ljósi þess að gömlu hjónin bjuggu í einu herbergi - því ekki voru komnar íbúðir á þeim tíma. En ekki aldeilis. Seríurnar hans afa voru nefnilega komnar til ára sinna og ómögulegt að vita hvort þær færu í gang. Og ef ekki - þá þurfti að vinna sig í gegnum alla seríuna - peru fyrir peru - til að finna þá sem var dauð. Það var nefnilega svo að þegar ein peran gaf sig - þá slokknaði á allri helv....seríunni.
Þessu tók afi með tilheyrandi fussi og sveii. Alltaf sama sagan. Ár eftir ár. Og amma sat í sófanum og hló að þeim gamla - sem æstist þá til muna og fussaði yfir þeirri gömlu. Amma nefnilega skipti sér ekkert af seríunum - nei hún setti kransa yfir "dána fólkið". En það voru myndir af látnum ættingjum - og sem héngu á veggjum herbergisins.
Afi púlaði - ég handlangaði og amma hló. En kostulegastar voru seríurnar tvær sem voru svo mjög komnar til ára sinna. Þær voru fallegar - plastblóm utan um ljósaperur. En gæddar þeim eiginleika að þegar perurnar hitnuðu þá skutust plastblómin af þeim - með tilheyrandi hvelli og fussi í afa. Og í ömmu gall "þar skaut Villi" - svo skelli hló hún. En þessi Villi var nágranni þeirra í Ránargötunni og faðir þeirra Samherja bræðra. Amma sagði nefnilega að hann hefði verið svo ansi lunkinn með flugeldana.
Þetta var guðdómlegur tími. Og endurtók sig alltaf á sama tíma á hverju ári.
Að loknu öllu stússinu skaut afi á sig koníak. Og þá fussaði amma og sagði "hvunær ætlar þú að læra að fara með vín eiginlega..." - þá fussaði afi og sagði: "þó ég verði hundrað ára þá ætla ég ekki að læra það".
Svo komu jólin.
Og þar skaut Villi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 21. desember 2008
Til móts við Helga magra og Þórunni hyrnu.
Eitt af því sem gaf sig með jöfnu millibili í skódanum hans afa var kúpplingin. Að sjálfsögðu er ekki ætlunin að nota kúpplinguna til annars en að skipta um gír - en afi sem tók bílpróf rúmlega sextugur notaði kúpplingu til að þurfa ekki að skipta um gír. Þetta olli auðvitað því að hún slitnaði hratt. Og þá þurfti skódinn á verkstæði.
Og svo var það eitt sinn að skódinn er kominn á verkstæðisplanið. Aleinan innan um ókunnuga bíla kom ekki til greina að skilja skódann eftir yfir nótt - enda áliðið dags og ljóst að bílvirkinn hefði myndi ekki klára að gera við bílinn samdægurs. Svo pabbi dró skódann heim að elliheimilinu yfir nóttina. Morguninn eftir var svo haldið af stað.Kaðall var bundinn í skódann og lykkja húkkuð á dráttarkúlu aftan í Ford Bronco 74 bíl pabba. Þegar komið var norður undir sundlaugina og tekið að halla vel undan fæti verður pabbi þess var að skódinn var horfinn úr baksýnisspeglinum - gufaður upp. En viti menn - útundan sér pabbi hvar skódinn kemur brunandi og afi pústandi undir stýri. Og frammúr Bronconum brunaði svo sá gamli - og mikil mildi varð til þess að kaðalinn húkkaðist upp af króknum. Pabba varð nú ljóst að ekki var allt með felldu - skódinn greinilega bremsulaus í viðbót við kúplingaleysið. Og norður Þórunnarstrætið hvarf svo skódinn - í fjarska mátti sjá ljósbláan skóda - undir stýri eldri maður með hatt.
Brattinn síðasta hluta Þórunnarstrætis var mikill - einkum þegar komið var norður undir lögreglustöð. Ekki hefði þurft að spyrja að leikslokum ef sá gamli hefði haldið sem leið lá alla leið niður í Glerárgötu - einu breiðgötuna á Akureyri með verslanir og skrifstofuhúsnæði. Og þetta var pabba efst í huga þegar hann keyrði á eftir þeim gamla.
En örlögin urðu önnur - því að þegar pabbi kemur keyrandi niður Þórunnarstrætið sér hann sér til mikillar undrunar hvar skódinn stendur nánast upp á endann við styttuna af þeim hjónum Helga og Þórunni. Sá gamli hafði náð að sveigja inn á túnið fyrir neðan Baldurshaga og haldið sem leið lá í átt að landnámshjónunum þar sem þau stóðu uppi á kletti - skódinn bremsulaus og komst því ansi langt. Undir stýri sat sá gamli og blés líkt og hvalur. Svei mér þá ef ekki fór um þau hjón þegar sá gamli kom skríðandi á skódanum upp klettinn....
Það var flott mynd sem prýddi forsíðu Dags daginn eftir!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 20. desember 2008
Tíu ár frá andláti góðs vinar míns Gunnars B. Loftssonar.
Það er sólríkur morgunn. Töluverð eftirvænting er í mínum manni þegar kemur léttstígur út á hlað á bænum Óslandi í Óslandshlíð og horfir út á Skagafjörðinn. Að vísu á hann fyrir höndum töluvert langa göngu nokkuð sem nútímafólk myndi aldrei leggja upp í en bílar og skutl eru ekki til í huga ungs manns á fimmta áratug síðustu aldar. Og maðurinn sem þarna stendur á hlaðinu í Óslandi í Óslandshlíð í Skagafirði ætlar sér gangandi að Hólum til að taka þátt í dansleik um kvöldið.
Dansleikir voru ekki algengir í þá daga og því var það ekkert tiltökumál að leggja á sig labb suður Óslandshlíð og inn Hjaltadalinn til að dansa. Enda var sögumaðurinn mjög dansinn eins og hann kallaði það mörgum árum seinna þegar við sitjum tveir í gömlu húsi við Lundagötuna á Akureyri og spjöllum saman á kontórnum hjá Gunna.
Þorláksmessa og við rétt búnir að rífa í okkur kæsta skötu. En það var hefði hjá okkur Gunna að borða saman skötu sem mamma sauð handa okkur enda eiginkona Gunna að vinna við verslunarstörf og átti því ekki kost á að sjóða skötu - hún þurfti að sinna kaupglöðum Akureyringum. Á gólfinu liggur hundurinn hans hún Stássa búin að rífa í sig hamborgara, sem Gunni hafði sent mig eftir í sjoppuna á Krókeyri það var líka hefð. Stássa fékk ávalt hamborgara á Þorláksmessu - og Gunni hringdi alltaf á undan mér í sjoppuna til að ég keypti rétta borgara - Stássa skildi fá sinn hamborgara - réttan hamborgara. Stássa var vel í holdum og ævinlega sofandi þegar ég leit inn til Gunna Lofts í Bíla-og húsmunamiðlunina rétt opnaði annað augað til að kanna hver væri á ferð og sofnaði svo með það sama.
Gunni sat inni á litlum kontór í einu horninu í búðinni. Kontórinn var vel staðsettur og í gegnum glugga gat Gunni fylgst með hverjir komu inn - sem var ágætt því hann stóð ekkert endilega upp þegar fólk kom inn - bara þegar honum sýndist fólk ætla að kaupa eitthvað - og hann hafði nef fyrir slíku - var bisnessmaður. Út um hálfopnar dyrnar á kontórnum liðaðist ævinlega reykur - en Gunni sat og púaði camel sígarettur þegar hann var í vinnunni - í þá daga giltu engar reglur um reykingar nema þær sem húsráðandi setti sjálfur.
En aftur að dansinum. Gunni lét sér ekki muna um að labba þessa leið frá Óslandi að Hólum vaða læki. Hafði með sér nesti og naut þess að skoða það sem fyrir augun bar á leiðinni - hvíldi sig á steini og beit í brauð. Útsýnið stórkostlegt hvert sem litið var. Gunnar var náttúrubarn. Og dansinn var hann mjög. Glímutök kunni hann einnig og átti til að skella mönnum á sniðglímu á lofti ef svo bar við. Ekki var Gunni hár í loftinu en vörpulegur og brosmildur mjög - kraftmikill og glaðlyndur. Ég þóttist vita að hann hefði verið vinsæll dansfélagi sveiflað stúlkunum um dansgólfið svo pilsfaldarnir svifu um salinn. Gunnar hló þessi lifandi ósköp þegar hann rifjaði þetta upp - leit á mig og sagði okkur ungu mennina í dag ekki kunna að dansa lengur. Og hvað þá glíma.
Í þá daga fóru menn á ball til að dansa. Ekkert vesen. Dansinn var stiginn langt fram á morgun. Svo stóðu menn úti undir vegg og ræddu málin um heyskap og veður - horfur um haustið kvöddust svo að lokum og héldu heim. Gunni sagði mér að fátt væri fallegra en að ganga í morgundögginni út Óslandshlíð eftir velheppnaðan dansleik - minningin um stúlkurnar fylgdu honum alla leið. Ilmurinn af engjunum fylltu vit og undir sungu nývaknaðir mófuglar og þrestir.
Ég sá glampann í augum þessa gamla manns þegar hann sagði mér frá minningarnar voru honum ákaflega kærar. Já frændi sagði Gunni, þá var gaman að vera til.
Þetta samtal okkar Gunna var fyrir sjálfsagt einum tuttugu árum. Minningin um Gunna heltist yfir mig og þegar ég skoðaði gamla minningargrein sem ég skrifaði um Gunna þá kom í ljós að tíu ár eru frá andláti hans. Kannski hefur Gunni sjálfur ýtt við mér hver veit.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 15. desember 2008
Íllugi Gunnarsson - öruggur og ábyrgur - treystið mér!
Öruggur í fasi kom hann í Silfur Egils. Sat þar beinn í baki og ræddi af skynsemi um hugsanlega inngöngu í ESB - í það minnsta að skoða þann möguleika og bera undir þjóðina. Með þessu móti sýndi Íllugi að hann er maður til að takast á við framtíðina - að takast á við breytingar í þjóðfélaginu.
Svona forustu þurfum við Íslendingar á umbreytingatímum. Davíð Oddsson sýndi okkur hvernig leiða á þjóð til hagsældar og hjá honum starfaði Íllugi. Nú hefur Davíð horfið til annarra starfa en Íllugi er sem betur fer ennþá í stjórnmálum af fullum krafti.
Það er vel.
Nú vill hann starfa í okkar umboði - hann vill spyrja þjóðina - leggja ákvarðanir í okkar hendur - ná þeim úr höndum flokkanna.
Það er vel.
Haltu baráttunni áfram Íllugi - ég styð þig.
Bestu kveðjur og gleðileg jól.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Sunnudagur, 14. desember 2008
Illugi Gunnarsson - ódæll með selsaugu - fyrirgefið mér!
Eins og rassskelltur strákskratti kom hann í Silfur Egils. Sat þar teinréttur og stífur án nokkurs áhuga og glampa í augunum. Sagðist vilja skoða aðkomu að ESB - spyrja þjóðina. Vera með og taka þátt. Vera eins og hinir nútíma stjórnmálamennirnir. Hafði þó greinilega brotið af sér - var þarna að stelast - án leyfis Davíðs og í óþökk.
Lét eins og þjóðin væri vonandi búin að gleyma tengslum við Glitni.
Já ræfils Illugi.
Og allt sem hann langaði að segja en þorði ekki var " fyrirgefið mér - ég starfa ekki af sjálfsdáðum - mig langar að vera með áfram - ég er góður maður - Davíð er bara svo strangur við mig".
Já ræfils Illugi. Ég fyrirgef þér - gef þér annan séns. Finndu þér vinnu við hæfi og til þess hefur þú stuðning minn.
Bestu kveðjur og gleðileg jól,
Tolli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Fimmtudagur, 4. desember 2008
Tæknin heldur innreið sína hjá alþýðu landsins.
Nú eiga allir GSM síma - gemsa. Jafnvel krakkar. En einu sinni voru gemsar ekki til. Ekki einu sinni þráðlausir símar - eða hvað þá símsvarar.
En svo fékk pabbi sér símsvara - einn af þeim allra fyrstu. Stór og mikil græja með spólu sem tók upp samtöl - Alveg gjörsamlega sjálfvirkan!
Og þá hringdi afi - kannski vantaði hann heftiplástur fyrir skódann - hvur veit. Og símsvarinn svarar: "..þetta er sjálfvirkur símsvari hjá Ágústi dýralækni....hann er ekki við blablabla....". Og þá fyrtist sá gamli við og las símsvaranum pistilinn - sem auðvitað tók upp samtalið á spóluna - og sem pabbi spilaði þegar hann kom úr vitjun. Ekki ætla ég nú að hafa það eftir - en æstur var afi sem hundskammaði "pabba" fyrir "dónaskapinn". Afi sagðist vel þekkja röddina og hann skildi bara vita það að hann léti nú ekki bjóða sér svona viðtökur - og skellir á.
Svo hringir sá gamli aftur. Og enn svarar "pabbi" á sama "vélræna" hátt og kippir sér ekkert upp við skammir gamla mannsins - sem lýsir því yfir "að hann sé sko ekkert að hringja í hann og hafi í raun ekkert við hann að segja - hann hafi ætlað að tala við tengdadóttur sína og barnabörnin - og hana nú". Kom svo brunandi á skódanum heim til að ræða betur við soninn sem var með þessa stæla í símann - láta´nn fá gúmorren fyrir! Og viti menn - sama var hvað hann bankaði - enginn kom til dyra!?
Já tæknin kemur manni stundum í opna skjöldu. Verandi fæddur aldamótaárið 1900 - þá er kannski ekkert skrítið að gamli maðurinn skuli hafa æst sig yfir "dónaskap" sonarins!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)