Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007
Föstudagur, 29. júní 2007
Glæfralegur akstur bíls frá STRANDAFRAKT í Hólmavík veldur stórtjóni og setur fólk í lífshættu. Gefum svona kónum "time out".
Í gær las ég það í fréttum að Sniglarnir hafi rekið einn af sínum félögum fyrir glæfraakstur. Það er vel. Nú gerist það í dag að eigandi og bílstjóri Strandafraktar í Hólmavík ekur flutningabíl sínum með þeim hætti að hann setur bílstjóra í tveim bílum í bráða lífshættu og veldur milljóna tjóni á bifreiðum. Já og til að bæta gráu ofan á svart þá stakk hann af - líkt og ótýndur glæpamaður sem flýr af vettvangi.
Já þetta var ömurlegur endir á stuttu ferðalagi foreldra minna - fólks sem komið er á eftirlaun og hafði notið veðurblíðunnar á suðurlandi í fellihýsinu sínu - sem þau hafa yndi af að draga landshorna á milli.
Á norðurleiðinni óku þau sem leið lá Borgarfjörðinn - þó nokkur umferð var enda föstudagur. Skyndilega taka þau eftir því að upp að hlið þeirra mjakast flutningabíll með tengivagn sem þrátt fyrir að foreldrar mínir væru á um 80 km hraða taldi sig þurfa að komast fram úr - algjört dómgreindarleysi og hálfvitaskapur - það er ljóst. Auðvitað mátti búast við bifreið á móti - sem og gerðist því skyndilega sveigir flutningabíllinn fyrir foreldra mína og þvingar þau út í vegkantinn. Með snarræði nær móðir mín að koma bílnum upp á veg aftur en með þeim afleiðingum að fellihýsið snýst á veginum og bifreið úr gagnstæðri átt lendir auðvitað á fellihýsinu. Mikil mildi varð að ekki varð slys á fólki en bíll og fellihýsi gjöreyðilögðust.
En bílstjóri flutningabílsins lét sig hverfa.
Af þessum ósköpum voru vitni sem gefið hafa skýrslu til lögreglu. En bifreiðastjórinn hafði leikið þann leik skömmu áður að fara glæfralega fram úr fólksbifreiðum á leið sinni til Hólmavíkur - væntanlega.
ER EKKI NÓG KOMIÐ AF SLÍKUM LÚÐUM Á VEGUM LANDSINS - ER EKKI KOMINN TÍMI Á AÐ FETA Í FÓTSPOR SNIGLANNA OG REKA ÞESSA MENN ÚR FÉLAGSSKAPNUM. SNIÐGÖNGUM FYRIRTÆKI AF ÞESSARI TEGUND SEM ERU LÍFSHÆTTULEGIR Í UMFERÐINNI.
ÞAÐ MUN ÉG GERA - OG SEM MEIRA ER ÉG MUN AÐ SJÁLFSÖGÐU FYLGJAST MEÐ NIÐURSTÖÐU ÞESSA MÁLS OG GERA MITT TIL AÐ ÖKUMAÐURINN FÁ "TIME OUT".
Fimmtudagur, 21. júní 2007
Hvar er Fjalla Eyvindur þegar við þörfnumst hans mest.
Fjölskyldan var búin að ákveða fyrir margt löngu að fara norður til Akureyrar um sl. helgi - konan ætlaði að halda upp á 20 ára stúdents afmæli frá MA - skemmta sér ærlega og rifja upp gamla tíma - vel það.
Til að gera bílferðina skemmtilega var búið að plana stopp á leiðinni - fara út fyrir þjóðveginn og skoða staði sem við annars höfðum aðeins séð nöfnin á - á skiltum við þjóðvegi númer eitt. Vorum sem sagt ekkert að flýta okkur og gáfum okkur tíma. Aðal stoppstaðurinn og þar sem við vorum búin að ákveða að snæða kvöldverði úti í náttúrunni var við stað sem við líkt og flestir íslendingar höfum ekið framhjá án þess að svo mikið sem hægja á okkur - Borgarvirki í Vesturhópi - skammt frá Blönduósi.
Veðrið var fremur leiðinlegt - rigning á köflum og okkur leist svosem ekkert sérstaklega vel á það að sitja úti og borða ljúffengt nestið. En þegar við komum í Hópið þá auðvitað glennti sólin sig og bauð okkur velkomin - bjartviðri - hlýtt og notalegt. Við brunuðum sem leið lá í átt að Borgarvirkinu - staðnum sem engar heimildir eru til um tilurð á en prófessor Haraldur Bessason tjáði föður mínum að hann teldi einna helst að þetta væri frá tímum Tyrkjaránsins - en fólk var hrætt á þeim tíma og vildi verjast - fróðlegt væri ef einhver lumaði á frekari skýringum.
Þegar við komum upp að Borgarvirkinu - hálf manngerðu virki sem stendur á hæsta hólnum í Hópinu var útsýnið gríðarlegt - stórkostlegt. Þýskur ferðabíll - búinn öllum þægindum stóð við staðinn þar sem búið var að koma upp borði fyrir fólk eins og okkur að borða nesti - og við því auðvitað ekkert að segja. En þegar við nálguðumst þá varð okkur ljóst að ekki var um fólk að ræða sem ætlaði að borða sitt nesti og halda svo áfram ferðinni - nei ekki aldeilis - hér var um þýska ferðamenn að ræða sem auðvitað nýttu sér ókeypis aðstöðu og voru búnir að planta sér þarna niður og ætluðu að dvelja um nóttina - voru búin að koma sér þægilega fyrir á stoppstaðnum - og sátu og drukku bjór - við nestisborðið.
Mikið er það leiðinlegt að fólk sem aldrei myndi gera slíkt hið sama í sínu heimalandi - skuli ekki kunna að virða þær reglur sem gilda - svona svæði eru ekki tjaldstæði - nei, þetta eru staðir til að stoppa á - njóta útivistar og halda svo sína leið. Og þetta var ekki eina tilfellið í þessari ferð - nei ekki aldeilis - á mörgum sambærilegum stöðum stóðu ekki bara einn heldur á stundum margir erlendir ferðabílar.
Er ekki kominn tími til að setja upp skilti til að benda fólki á þetta. Í heimalandi þessa fólks myndi enginn gera þetta - einfaldlega af því að það er ekki öruggt - ræningjar og þaðan af verri lýður rænir nefnilega svona fólk.
Já hvar Fjalla Eyvindur þegar maður þarf á honum að halda - gerum fólkinu grein fyrir að íslenskir útilegumenn séu á sveimi og enginn vill verða á þeirra vegi......né stoppstað.
Miðvikudagur, 20. júní 2007
Lokun aldrei auglýst - sjómaður í fullum rétti!
Staðnir að ólöglegum veiðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 14. júní 2007
Á léttari fóðrum.
Jæja nú er sumarið komið. Ég merki það reyndar ekki á neinni sérstakri hitabylgju - nei ég merki það á léttari fóðrum. Konan hefur nefnilega í tvígang þurft að horfa á mig léttklæddan utanhúss - og í kjölfarið er búið að skera niður fóður hjá mér um fjöldann allan af kaloríum. Ég er sem sagt kominn á kúr - heilsu og megrunarkúr.
Auðvitað gegn mínum vilja - maður er jú alltaf eins og grískur guð þegar horft er í spegil - í það minnsta þegar ÉG horfi í spegilinn. Einskonar öfug anorexía - finnst ég alltaf vera svo tálgaður - skorinn - þó öllum finnist ég vera svona meira hnoðaður - ávalar línur. Ég bendi fólki á að hér sé um kjörþyngd að ræða - ég hafi kosið og þetta sé niðurstaðan - kjörstöðum sé búið að loka og hver skuli hugsa um sig. En ekki frúin - hún hefur skoðanir á mínu vaxtarlagi. Fyrsti dagurinn var í gær - eiginlega í fyrradag en ég svindlaði - fór á hótelið í hádeginu og át eins og frönsk gæs í lifrar-át-taki.
En í gær var endanlega tekin ákvörðun um að ég yrði niðurfóðraður eins og það heitir í þorskeldinu. Fiskur - kálmeti og ekkert gos - "nóg er nú til af vatninu góða" segir frúin og fær sér rauðvínsglas. "Drekktu vatn maður - það er svo hollt". Auðvitað er það hollt - búið að hellast um fjöll og firnindi - hollt og hæðir áður - blandað rollu og gæsaskít áður en það lendir í glasinu hjá mér. Auðvitað er það hollt. En ég er svangur. Hræðilega svangur - hvernig í ósköpunum á ég að geta haldið í horfinu á hálfum skammti - gengur bara ekki upp. Ég ætlaði ekki að þora í rúmið í gærkveldi - hryllti við tilhugsuninni að dreyma steikur í alla nótt - vakna svo upp glorsoltinn og fá gulrót. Nei ekki aldeilis spennandi. Og auðvitað vaknaði ég svo í nótt- banhungraður.
En ég vissi að með því að stilla klukkuna - vakna þegar aðrir sofa - þá væri ég öruggur. Hálfsofandi gat ég fengið mér að borða - afsökunin auðvitað sú að ég gengi í svefni - steinliggur - góð afsökun. Ég fór niður í eldhús. Urrandi svangur. Lyktarskynið í hámarki - ég hnusaði út í loftið - eitthvað gott hlyti að vera til - frúin hafði verið að baka í gærkveldi - að vísu fyrir fjáröflun en ég kenni bara hundinum um og henni sjálfri fyrir að skilja kökuna eftir á glámbekk - fyrir framann hundkvikindið sem ekki skilur mikilvægi fjáröflunar. En helvítis kakan var hvergi. Súkkulaði bræðingurinn sem var eftir þegar búið var að setja á kökuna var í vaskinum - og búið að fylla skálina af vatni og sápu. Ég smakkaði samt - kúgaðist af sápunni en maður verður að gefa sig allan í þetta ef árangur á að nást. Og það var sama hvað ég leitaði - fann ekkert ætt. kakan var horfin - falin.
Skyndilega verður mér litið á borðstofuborðið - þar stendur diskur með afgang af silung og salati frá kvöldinu áður - vatnsglas við hliðina og miði - á miðanum stendur "verði þér að góðu elskan og mundu að bursta tennurnar og ekki vekja mig þegar þú kemur uppí rúm aftur - góða nótt".
Já það er vandlifað á léttum fóðrum.
Mánudagur, 11. júní 2007
Fótboltaferð - ósanngjörn brottvísun Sölku af knattleikvangi.
Við áttum stórkostlega ferð um helgina. Eins og góðum ferðum ber byrjaði ferðin á því að reyna á þolrif bílstjóra og farþega - meta ógleðistuðul farþeganna. Í slíkri bílferð á sér samanþjöppun tilfinninga í lokuðu rými sem ekki má opna - í það minnsta á ferð - og alls ekki á ferð fyrir Vestan - þar sem vegir eru ennþá ómalbikaðir og vart annað en troðningar á stundum - allt myndi fyllast af ryki. Við ókum nefnilega sem leið lá suður í Brjánslæk - eftir kræklóttum og ósléttum slóða - yfir heiðar og uppá fjöll.
Ég var bílstjóri - dreng hnokkar og knattspyrnukappar tveir sátu í aftursæti og hundur í búri í farangursrýminu. Frúin í framsætinu - vopnuð þekkingu á réttu aksturslagi og leiðbeinandi mjög. Svo mjög að mér leið á tímabili sem hamri í hendi smiðs - hélt um stýrið og steig bensínið en fékk engu ráðið - frúin gall "beygðu hér" - "hægðu á þér þar" - setningar sem flestar voru snöggar - komu allt í einu og enduðu flestar á "guð minn góður" eða "hægðu á þér maður". En keyra sjálf vildi hún auðvitað ekki - nei ekki aldeilis - hún var að fara í frí og langaði að njóta útsýnisins - skoða landið. Mér fannst hún mest fylgjast með veginum - sá við hann og á honum ýmislegt sem ég veitti enga athygli - hættulegar beygjur sem ég kallaði aflíðandi - snarbratta og krókótta stíga. En svona er þetta bara - ekkert við því að gera fyrst við vorum komin af stað - ég bauð henni að verða eftir - fyrst á Flateyri svo á Hrafnseyri en hún þáði ekki boðið - sagði bara "hvað er þetta maður - ég er bara með leiðbeinandi skilaboð - ég er nú með í bílnum og kemur þetta við".
Bílstjórinn var því hvíldinni feginn þegar í Baldur var komið og svaf hrjótandi alla leið - að vísu í bíósalnum og átti hrotu-söngurinn ekki vel við rómantíska myndina sem sýnd var - drengirnir skömmuðust sín og breiddu jakka yfir höfuð þreytta bílstjórans - en það dempaði lítið sönginn.
Þegar komið var í Hólminn - þá var eins og maður væri að koma til annars lands - vegir malbikaðir - beinir og breiðir. Meira að segja frúin fækkaði athugasemdum niður í bara "leiðbeinandi aksturshraða" - og við ókum sem leið lá í Borgarnes.
Fyrri leikur 5.flokks BÍ var um kvöldið. Stemningin var magnþrungin - allir ætluðu að gera sitt besta. Foreldrarnir stóðu á hliðarlínunni - horfðu hver á sitt barn - sinn son - hvöttu og dáðust - og fengu sting fyrir hjartað þegar tæklingar voru harðar - bölvuðu dómaranum sem auðvitað var heimamaður - það bara skein af honum - hann dæmdi á strákana okkar - hefði allt eins getað verið í þeirra búning.
Of sein á leikinn komum við hjónin gangandi í glærum plast regnslám - svona eins og beint af hjólhýsastæðinu - vantaði bara sígarettu og bjór í höndina - sonurinn leit á okkur greyp fyrir andlit sér og dæsti - líklegast þreyttur eftir ferðina.
Og strákarnir stóðu sig eins og hetjur - voru yfir - voru á sigurbraut. Ég og frúin vorum ánægð - og Salka líka. Hitt liðið í fýlu - þoldi ekki álagið og okkur - en gátu ekkert gert. Í miðjum látunum snýr sér við maður - maður sem tilheyrði andstæðingunum - horfði á okkur - vissi ekki hvað hann gat gert til að skemma stemninguna - en hugsaði stíft - leitaði leiða. Segir svo snögglega "út af með hundinn" - ha, segi ég. "já, út af með hundinn - hann er bannaður". Er hundurinn bannaður spyr ég - af hverju? "Nú bara, hann er bara bannaður". Já nú átti að kenna Sölku um ófarirnar - það átti að negla hana líkt og þeir gerðu við aumingja DANANN um daginn sem hljóp inn á í leika við Svía - nema að Salka var edrú og hafði ekkert hlaupið inn á völlinn.
Ég mótmælti - sagði þetta brot á jafnréttisreglunni - að Salka væri eini hundurinn á svæðinu - að hún væri í minnihluta - væri nýbúin að skíta og því engin hætta. "Skiptir ekki máli" sagði kallinn - "hún gæti skitið á grasið" - Ekki séns sagði ég - hún væri nýbúin að skíta á gervigrasvellinum þeirra og því myndi hún ekkert skíta á grasvöllinn. Þá urðu þeir alveg sjóðandi vitlausir. Ég og Salka röltum í mestu rólegheitum út af leikvanginum. Okkar menn búnir að vinna leikinn. Okkur var skítsama. Salka hægði á sér og meig við hornfánann - leit við og tók létt spól líkt og hún gerir gjarnan eftir að hafa migið - eða skitið. Ekkert gat breytt því að strákarnir okkar unnu. Ekkert. Þetta var gott kvöld í Borgarnesi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 7. júní 2007
Refur í hænsakofa - minning úr sveit.
Ég hefði líklegast verið stimplaður ofvirkur strax í barnæsku - en það hugtak var bara ekki til og því var ég "kraftmikill og uppátækjasamur" strákur. Svona heilbrigður gutti sem fólk hafði gaman af - en mamma var þreytt. Hún sá um börnin fjögur og svo fimm en pabbi fór í sveitirnar og læknaði dýrin stór og smá. Og ég get ekki skilið enn þann dag í dag hvernig móðir mín fór að þessu. Gafst reyndar stundum upp á eina drengnum í hópnum og batt mig við flaggstöngina í garðinum heima. Það voru bar engin önnur ráð - ég var út og upp um allt.
Svo auðvitað þegar pabbi kom heim þá leysti hann sinn mann - veitt'onum frelsi og með það var ég horfinn. Já þetta voru skemmtilegir tímar og sökum þessara eiginleika þá upplifið ég margt - og foreldrar mínir líka - sumt taugastrekkjandi. En þá var auðvitað ekkert rítalín - ekkert prosac og fólk bara tók þessu sem órjúfanlegum hluta lífsins.
Ég fór að rifja þetta upp þegar ég ók um sveitir Eyjafjarðar með pabba - fyrrum héraðsdýralækni í Eyjafirði og Akureyri. Mikið var breytt og fátt eins og áður - útihúsin flest tóm og búpeningur vart sjáanlegur á túnunum. Í ferðinni i hittum við aldraðan bónda og stórt bros færðist yfir andlit gamla mannsins þegar pabbi kynnti mig sem litla hnokkann sem gjarna var með í vitjunum í gamla daga.
Mitt barnaheimili voru ferðir með pabba í sveitirnar - í vitjanir. Þá var gaman. Kellingarnar á bæjunum elskuðu þennan ljóshærða hnokka - ég fékk appelsínu hjá húsfreyjunni á þverá - mysing í skeið hjá Mæju í Árgerði og svo mætti lengi telja. Og kaffið eftir að dýralæknirinn kom úr fjósi - það var sko ekkert slor. Enda mátti sjá úr langri fjarlægð þegar pabbi hafði ekki haft tíma til að drekka kaffi á bænum - þá sat ég í framsætinu eins og öskrandi ljón - hótaði því að fara aldrei aftur í sveitina með helv...dýralækninum. Svo var farið í nýja vitjun - og kaffisopi þeginn.
Það var í einni slíkri ferð sem ég hvarf. Var ekki margra ára og eftir að hafa mokað mesta skítinn úr flórnum - snyrt beljurnar og laumað í þær fóðurbæti - og í því augnabliki sem vökul augu bændanna og dýralæknisins litu af mér - þá hvarf ég.
Þegar í ljós kom að ég var horfinn hófst mikil leit - enda hættur margar á stórum sveitabæjum - mykjuhús og skurðir - vélar og tæki - bæjarlækur og á - allt lífshættulegar gildrur. Í langan tíma var leitað - en hvergi fannst ég - ekki í fjósinu - hlöðunni eða niður á túni.
Ekki var laust við að ótti væri farinn að grípa um sig hjá pabba og bændunum - sem voru farnir að óttast að ég hefði skokkað niður að á - og dottið í ána. En engin ummerki voru um að ferðir mínar við ána - sem betur fer. En hvar í ósköpunum gat hann verið - bændunum féllust hendur - vissu ekki hvar ætti að leita.
Við fjósið stóð hænsnakofi - í svolítilli hæð frá jörðu og upp að litlu gatinu lá spýta fyrir hænurnar að ganga eftir til að komast inn. Gatið var rétt um höfuðstærð og því datt ekki nokkrum manni í hug að þar inni væri nokkuð annað að finna en hænur. Dyrnar að kofanum sem ætlaðar voru mannfólkinu voru að auki lokaðar utanfrá. Mikill hávaði barst þó frá kofanum - hænurnar görguðu sem þær máttu og haninn gól - skyndilega sést undir iljarnar á tveimur Nokia stígvélum - og smám saman kom lítill búkur í ljós - með ljósan koll - glaður í bragði en þreyttur eftir átök við hænurnar. Þær höfðu verið settar í bað - búið var að baða hópinn.
Miklir fagnaðarfundir urðu og allir hlógu að þessu - en varpið lá niðri á bænum í marga daga - svona óþarfa bað var hænunum ekki að skapi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 6. júní 2007
Er náttúran einskis virði nafnlaus?
Getur verið að við lifum til þess eins að geta sagt frá. Sagt frá því sem við höfum gert og séð - og þess vegna sé ekkert verðmæti í því sem við ekki þekkjum. Er staðreyndin sú að náttúran er verðlaus ef hún heitir ekki eitthvað - hafi nafn sem hægt er að segja frá. Fáir töluðu um Kárahnjúka áður en virkjanaframkvæmdir hófust - flestum var sama því þeir höfðu aldrei á Kárahnjúka heyrt minnst - fáir höfðu komið á svæðið og því fáir sem voru til frásagnar - og svo væri ennþá ef ekki væri fyrir virkjanaframkvæmdirnar. En eftir að þær hófust Þá skyndilega varð fallegt uppi á Kárahnjúkum og nátturuverðmæti stórkostleg - og allir höfðu skoðanir á málinu. Allskyns hólar og hæðir og fjöll og dalir - sem allt hafði nöfn lágu undir óbætanlegum skemmdum.
Ég gekk eitt sinn Laugaveginn - frá Landmannalaugum í Þórsmörk. Þúsundir manna hafa gert hið sama. En ég gekk með staðkunnugum - manni sem hafði skrifað bók um leiðina og þekkti til - þekkti hvern hól og hverja hæð - fjallstoppa og dali. Það var stórkostleg upplifun - enda fékk ég að vita hvað allt hét - það varð svo miklu verðmætara - ég gat sagt frá þegar heim var komið - sagt frá þessu fjalli og fögrum dal.
Sömu leið á svipuðum tíma gekk kona mín. Hún gekk í hópi sem teymdur var áfram af leiðinlegum fararstjóra - sem ekkert sagði frá og ekkert fræddi. Henni leiddist þessi langa ganga. Hólarnir og hæðirnar voru þreytandi - fjöllin grá og dalirnir djúpir. Fegnust varð hún að skríða inn í tjald að degi loknum.
Svona getur þekking á staðháttum skipt máli - að vita hvað náttúran heitir. Gefur henni gildi.
Og nú er komið að Vestfjörðum. Nú er innprentað hvað firðirnir heita - hvað náttúran heitir. Fólki er gert ljóst að nú eigi að skemma Dýrafjörðinn - Arnarfjörðinn og alla þessa fegurð. Fólkið í Reykjavík er sjokkerað - er hreinlega hneykslað á þeirri fásinnu að hreyfa eigi við fagurri náttúrunni - sem heitir svo fallegum nöfnum. En hvers virði eru Vestfirðir mannlausir - hver á að njóta nafnanna - náttúrunnar og alls þess sem hún hefur upp á að bjóða?
Er það rangt að vilja nýta þá möguleika sem til staðar eru - gera landið byggilegt þeim er það vilja byggja. Ég held ekki.
Staðreyndin er sú að víða hafa framkvæmdir sambærilegar þeim sem rætt er um á Vestfjörðum reynst jákvæðar - ég nefni bæjarfélag í Noregi sem heitir Hammerfest. Þar er mikill uppgangur sem að stórum hluta tengist gríðarlegri gasvinnslustöð sem þar er staðsett - og gasið er unnið úr svæði sem kallast Mjallhvít. Þar á sér stað ágæt samlegð framkvæmda í gasvinnslu og t.d. fiskeldis - þorskeldis. Umframorka er nýtt beint inn í klakstöðvar - inn í eldið. Þar kvartar enginn í dag og sátt ríkir um málið.
En auðvitað ber okkur að fara varlega - vega og meta - skoða og rannsaka. Við megum ekki gleyma því að náttúran á alltaf að njóta vafans - alltaf. En okkur ber líka skylda til þess að gera landið okkar byggilegt - annars er það einskis virði. Bæði okkur sem lifum hér í dag - og eins börnum okkar um ókomna framtíð.
Berum virðingu fyrir þeim er vilja byggja landið - berum virðingu fyrir landinu. Sýnum skynsemi og tökum ábyrga afstöðu.
Það er mín skoðun.
Þriðjudagur, 5. júní 2007
Salka týnd - lífsreynslusaga af Eyrinni.
Þegar ég ætlaði að segja góða nótt við hana Sölku mína í gærkveldi kom í ljós að Salka var horfin. Hvernig gat þetta gerst - hún sem vék aldrei frá okkur - og við höfðum ekki einu sinni skotist út á veitingahús að fá okkur að borða - við vorum ekki einu sinni í útlöndum - við bara vorum í algjöru kæruleysi að glápa á sjónvarpið - ég og konan.
Guð minn góður - það þyrmdi yfir mig líkt og ég hefði framið glæp - alvarlegan glæp. Ég gerði náttúrlega það sem mér fannst réttast að gera - ég fór að leita að sökudólg - hver hafði stolið Sölku - hver hafði komist óséður inn í húsið og hreinlega stolið Sölku fyrir framan nefið á okkur. Auðvitað gat það ekki staðist - og ég þurfti því að hugsa ráð mitt upp á nýtt - og auðvitað komst ég þá að þeirri niðurstöðu næst bæri að reyna að kenna syninum um - skamma hann duglega fyrir kæruleysið. En hann hafði bara ekkert verið heima - svo ég sagði honum þá að þessar skammir væru fyrirbyggjandi - að hann hlyti að gera einhvern óskunda á næstunni og þá væri eins gott að ég væri búinn að skamm'ann.
Konan var næst á listanum - auðvitað gat ég ekkert látið hana sleppa - sökudólginn sjálfan - ekki til að tala um. Ég strunsaði inn í stofu - tók mér stöðu fyrir framan hana - setti hendur á mjöðm og ætlaði að láta nokkur vel valin orð falla - því miður tók ég ekki inn í reikninginn að verið var að sýna Grays anatómí og skammirnar mínar voru sem lofræða samanborið við gusuna sem ég fékk - enda skyggði ég gjörsamlega á rennblautan koss frá doktor Grey.
Ég fór fram og ákvað að kannski væri réttast að leita bara að Sölku - umkenningartæknin væri bara ekki að gera sig. En maður er jú karlmaður og oftast spyr maður áður en leitin hefst - og yfirleitt endar leitin á að konan gefst upp og finnur fyrir mann það sem leitað er að - og það nánast alltaf á þeim stað sem maður var auðvitað búinn að margleita á.
En hvar var hundspottið. Ég hafði skroppið með hana niður í Neðstakaupstað - á túnið þar sem henni finnst gaman að hnusa og fá sér að skíta - en það var fyrir fjórum klukkustundum - og hún hafði ekkert skitið - rétta lyktin var ekki til staðar og ég bölvaði - hafði engan tíma í svona bið. Fór heim. Ha,...skildi ég hundinn eftir? Guð minn góður - hvílíkur húsbóndi - og með það brunaði ég á bílnum niður í Neðstakaupstað. Og þar sat Salka - og beið eftir húsbóndanum. Glöð kom hún hlaupandi á móti mér - hægði skyndilega á sér og hnusaði út í loftið - tók snögga u-beygju og setti sig í stellingar - stellingu sem mynnti mann á Grískan guð með meltingartruflanir - eithvað svo tignarleg en samt svo álkuleg - lyktin var fundin - ilmurinn sem þarf til að koma meltingarveginum af stað - rétta lyktin. Og Salka skeit. Við fórum heim - Greys anatómí var búinn - konan beið í dyrunum. Ég sagði ekki orð - ætlaði inn - nennti ekki að ræða þetta - enda fannst mér ótækt að hún skyldi ekki minna mig á að ég hefði gleymt hundinum. Frúin kom inn á eftir mér - horfði á mig með einhverjum meðaumkunarsvip - svona líkt og hún vorkenndi mér fyrir að vera ég - og spurði svo - "hvar er bíllinn"? - ha, svaraði ég ... bíllinn? andsk....hundurinn.....var týndur og ég fór að leita.....ansdsk....
úti var komin ausandi rigning.
Þriðjudagur, 5. júní 2007
Svíar gáfu tóninn - nú er það okkar að endurtaka leikinn.
Það gafst vel trixið á Parken - að fá blindfullan dana til að hlaupa inn á völlinn og stöðva leikinn - álíka vel heppnað og aukaspyrnan hjá Thomas Brolin á HM94. Auðvitað var þetta planað - maðurinn býr í Gautaborg og er að auki búinn að kaupa hús þar - fær líklegast vel greitt fyrir uppátækið og getur staðgreitt húsið.
Og nú er auðvitað málið fyrir okkur íslendinga að gera hið sama - eigum fullt af misvitrum löndum í svíaríki sem væru meira en til í að hlaupa inn á völlinn og stöðva leikinn - fella svíana á eigin bragði - og vinna svo þrjúnúll.
Mér sýnist nefnilega ekki vera nokkur önnur leið til sigurs - liðið er gjörsamlega ömurlega lélegt og ekki lengur í þeim standard að hægt sé að niðurlægja þá með því að biðja þá að spila bara við Færeyinga - Færeyingar eru nefnilega miklu betri en við - ekkert flóknara en það. Ég held að við verðum bara að fara að einbeita okkur að Grænlendingum og jafnvel Hjaltlandseyjum og ef það fer á sama veg þá legg ég til að gerður verði samningur við Norðmenn og þeir tefli fram liði frá Jan Mayen.
Það er líka alveg ótrúleg þessi lenska að þurfa alltaf að tefla fram gömlum knattspyrnumönnum sem þjálfurum - af hverju? Þeir þekkja bara sína stöðu - unnu alltaf á sama stað á vellinum - nánast. Væri ekki nær að við tefldum fram alvöru knattspyrnuspekingum - þessum sem alltaf vita hvenær er best að skipta inná - hver ætti að fara í megrun og hver í sturtu - þessum sem sjá alla leiki og þekkja alla leikmenn með nafni - vita í hvaða liðum þeir hafa spilað og hvernig þeim hefur gengið í gegnum tíðina - menn með vit á fótbolta - við eigum nóg af þeim - fáum þá til að stýra landsliðinu - getur í það minnsta ekki versnað - ekki hægt.
En ef við ætlum að vinna svía þá legg ég til strípihneigt-alkohóliserað-íslenskt-sósíalkeis sem reddar okkur þrjú núll sigri.
Föstudagur, 1. júní 2007
Unga fólkið byrjar í sumarvinnu - ekki er ráðlegt að hrækja upp í augað á vinnuveitandanum.
Á þessum árstíma verður mér oft hugsað til atviks sem átti sér stað margt fyrir löngu - þegar sölulúgur voru að hefja innreið sína í Kaupfélaginu og við strákarnir hættum að fara í þrjúbíó og höfðu aldur til að fara í fimmbíó. Þetta var líka tíminn þegar Stjáni var í dyrunum á Nýjabíó og sætin voru merkt almenn sæti eða betri sæti.
Við Pálmi fórum oftast saman í bíó. Ég fékk pening hjá pabba en Pálmi átti alltaf pening - króna var fyrsta orðið sem hraut af vörum hans. Svo röltum við sem leið lá ofan úr Suðurbyggðinni og niður í bæ - auðvitað með viðkomu á öllum merkilegum stöðum - enda var farið tímanlega af stað því margt þurfti að bauka - sunnudagur og lífið lék við okkur.
Pálmi var reyndar dálítið merkilegur fyrir þær sakir að hann vantaði alltaf fyrir helmingnum af miðanum og ég þurfti að lána - notaði í það nammipeningana mína. Svo í hálfleik (ekki hlé - heldur hálfleikur) þá átti hann alltaf pening fyrir nammi - en ég þurfti að betla smakk. Það er nú önnur saga.
En það var einmitt í slíkri sunnudagsbíóferð sem óhappið verður. Við stoppuðum í sölulúgunni í Stórubúðinni við tjaldstæðið - en það var KEA búðin alltaf kölluð til aðgreiningar frá Litlu búðinni sem var sunnar í Byggðaveginum - í bílskúr og seldi fimmtíuaura lakkrís. Pálmi var eitthvað að betla frænku sína sem vann í búðinni og ég stóð fyrir aftan hann - þungt hugsi og kvefaður. Ekki var nokkur annar á ferli. Ég saug hraustlega upp í nefið - ræskti mig og safnaði safaríkri og þykkri slummu í munninn - snéri mér eldsnöggt við og lét vaða - en auðvitað án þess að gá hvort einhver væri fyrir aftan mig.
Ég hefði auðvitað betur gert það því þar var nú skyndilega staddur mann ræfill sem tók á móti slummunni líkt og Brasilískur knattspyrnumaður að skalla bolta eftir fyrirgjöf - hann að vísu tók'ann ekki á ennið - neibb - slumman fyllti aðra augntóftina - lak þar niður í rólegheitum - græn og gullfalleg. Við horfðumst í augu - eða auga - sögðum ekki orð í einhverjar sekúndur - en svo sé ég að svipur mannsins breytist í grettu - hann roðnar og fer allur að skjálfa. Við Pálmi tókum kipp og hurfum niður tjaldstæðið öskrandi af hlátri - enda nokkuð fyndið atvik - fannst okkur.
Ekki vissi ég deili á manninum fyrr en ég mætti fyrsta daginn minn í sumarvinnuna - þar sem ég átti að vera handlangari hjá múrara - og múrarinn tók á móti mér - við horfðumst þegjandi í augu í nokkrar sekúndur - svo sagði hann "sæll vinur og velkominn". Við ræddum þetta aldrei. Þetta varð skemmtilegt sumar og múrarinn fínn.
svo var nú það.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)