Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
Þriðjudagur, 8. maí 2007
Bjórinn bjargar byggðum landsins - stoppistöðvar pólítíkusanna.
Afi minn og alnafni þótti aldrei sérstaklega góður bílstjóri - ók um á ljósbláum skóda með hatt á höfði. Mér datt í hug ferðirnar með afa og ömmu til Dalvíkur á sunnudögum þegar ég sá að Steingrímur J var að nefna bjórverksmiðjuna á Árskógsströnd sem dæmi um nýsköpun - sem hún er auðvitað er - og sem í dag er víst fastur viðkomustaður pólítíkusanna - enda bruggtækin falleg og lyktin góð - og ekki skemmir ískaldur Kaldi á erilsömum kosningaferðalögum.
Málið var að afi var ákaflega vanafastur maður - hann fór til að mynda alltaf til Dalvíkur - út á Hól við Dalvík - á hverjum sunnudegi - í það minnsta á sumrin - en þaðan var hann ættaður og honum bar heilög skylda til að heimsækja frændfólkið sitt sem þar bjó - drekka með þeim kaffi og skoða slægjuna. Og við amma fórum með. Sá gamli var pinnstífur undir stýri - og við amma máttum ekki segja orð - áttum að sitja grafkyrr og steinþegjandi til að trufla ekki gamla við aksturinn - og guð hjálpi okkur ef við gerðumst svo djörf að snerta á stjórntækjunum - svo sem að stilla miðstöðina - þá fékk maður gúmorren.
En það var einmitt eftir eina af þessum sunnudagsferðum sem amma gamla spurði son sinn hann pabba "segggðu mér Ágúst, er allveg sama hvar á veginum ekið er?" - ha, hváir pabbi?? "jú bílarnir skjótast fram úr okkur - ýmist hægra megin eða vinstra megin - og ég má ekki spyrja hann Þolleif minn" sagði þá sú gamla. En afi hafði nú bara þann háttinn á að aka sem næst miðju vegarins - aldrei í hærri gír en öðrum og blásvartur strókurinn stóð aftan úr skodanum þegar hann brunaði eftir þjóðveginum út Eyjafjörðinn - honum kom ekkert við hvernig aðrir óku - hann hugsaði bara um sig - með silfurlitað merki fest í grillið á bílnum og sem á stóð 25 ára öruggur akstur.
Og nú er það víst svo að pólítíkusarnir hundsa fyrirtækin á Akureyri og bruna sem leið liggur í bjórverksmiðjuna á Árskógsströndinni - og svo getur maður bara giskað á aksturslagið á bakaleiðinni.
Mánudagur, 7. maí 2007
Góð byrjun á slæmri martröð - sjö ára standpína.
Mér stóð ekki á sama þegar ég las frétt í einu af sænsku vefblöðunum http://www.expressen.se/halsa/halsoarkivet/1.668502 - en þar kemur fram að Carter nokkur er búinn að þjást af bölvuðum óþægindum síðastliðin sjö ár - honum reis hold og svo virðist sem það sé upprisið - hann nær'onum nefnilega ekki niður. Kaldir bakstrar og ísböð duga skammt - honum stendur á sama - harður á sínu. En auðvitað er þetta ekkert grín - og auðvitað stöndum við með karl greyinu - harkan sex - ekkert þýðir að gefast upp - þó hann langi að slá slöku við.
Jebb - steratröll, þetta er ábending til ykkar - hættið í pillunum ef þið ætlið ekki að "standa" í svona veseni.
Mánudagur, 7. maí 2007
Stærðin skiptir máli - svindl og svínarí segir rödd sannleika og réttlætis á sunnanverðum Vestfjörðum.
Mikið var fundað í síðustu viku á Ísafirði - saman voru komnir karlar og konur sem áttu það sammerkt að hafa áhuga á þorski. Þetta voru gestir frá ýmsum löndum - Skotlandi - Hjaltlandseyjum - Noregi og Svíþjóð. Já og Akureyri.
Og auðvitað skartaði Vestfirsk náttúra sínu fegursta - norðan kaldi - kvöldsól og fuglalíf. Og niðurstöðurnar eru góðar og lofa góðu. En auðvitað eru þeir sem alltaf blanda kvótamálum inn í þetta - líkt og vísindanefndin sem gaf þessu verkefni háa einkun og ákvað að styrkja það um 1 milljón evrur hafi áhuga á kvótaumræðu á Íslandi - nei, vísindin eru langt yfir það þras hafin. Þorskurinn vex óháð því hvort kvótinn er eða ekki - bara ef hann fær kjöraðstæður - og það er einmitt það sem við erum að gera - skapa aðstæður sem fá fiskinn til að vaxa vel - nýta fóðrið vel og enda svo sem hágæða var á diskum neytenda. Ekkert meira um það að segja. En auðvitað finnst mér hundleiðinlegt að Vestfirðingar skuli nota tækifærið og ata þessar rannsóknir auri - segja að um svindl og þaðan að verra sé að ræða (http://nilli.blog.is/blog/nilli/). Mér persónulega er sama - ég birti mínar niðurstöður í ritrýndum tímaritum - sem eru ritrýnd af til þess hæfum einstaklingum - ekki bloggurum á Suðurfjörðum
Já - maður tekur pusið í hnakkann - hér eru engin tæknilega mistök - allt gengur eins og í sögu - enda gamlir og margreyndir menn sem sjá um kvíarnar fyrir okkur - Barði og Beggi - Eiríkur og Halli - þeir fara létt með þetta - ekkert klúður þar. En að öllum öðrum ólöstuðum þá var það svo sannarlega gott fyrir þetta verkefni að fá Barða Ingibjarts í lið með okkur - sá kann til verka! Enda voru gestirnir frá útlöndum mjög impóneraðir af handbragði Barða og uppsetningu ljósabúnaðarins í sjókvíunum. Já gott fólk skiptir máli - og stærðin skiptir máli - þrátt fyrir mótbárur sunnan frá Tálknafirði. Stærðin skiptir máli
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Föstudagur, 4. maí 2007
50 tommu flatlús á búðarkalli í hversdagsfötum - með 10% fluttningskostnaði og 25% verndartollum.
Ég hef rætt í nokkrum pistlum um ótrúlegan verðmun á flatskjám á Íslandi og í Svíþjóð - og hef fengið viðbrögð. Nú má ekki misskilja að ég hafi verið að setja ofan í við "búðarkallinn í hversdagsfötunum" - neinei. Ég er bara að tala almennt um þennan mun. Og í dag - þá var ég einmitt stoppaður af búðarkallinum margfræga í hversdagsfötunum og vildi hann ræða flatskjá við mig. Mér leist ekkert sérstaklega vel á það því mér heyrðist hann segja flatlús - og fannst það enganveginn við hæfi niðrí miðbæ Ísafjarðar - og auðvitað ekki þar sem ég var með konunni. En hann gaf sig ekki og þegar hann nefndi stærðina - 50 tommur þá leið næstum yfir mig. Ég sá fyrir mér skrímslið sem aumingjans maðurinn væri með í brókunum - sá stutti væri líklegast skorpinn eftir blóðsjúgandi 50 tommu kvikindi - úfff.
Hann horfði á mig -starði - og skildi ekkert hvað væri eiginlega að viðmælandanum - náfölum og ræfilslegum. Svo sló hann létt á öxl mér og sagði - "37 tommur er líklegast besta stærðin fyrir þig - þetta er svo lítið hjá þér" - hvurn andskotann er maðurinn að segja hugsaði ég. Konan tók ekki eftir neinu og fannst þetta bara hið eðlilegasta mál - eðlilegt samtal tveggja kalla niðrí bæ. Ég skildi hvorki upp né niður - förum heim sagði ég hastarlega við konuna - ég hef ekkert hér að gera. Á leiðinni heim rann upp fyrir mér ljós - flatlúsin var flatskjárinn margumræddi. Þessi sem kostar svo mikið á Íslandi og lítið í Svíþjóð - og auðvitað þarf ég ekkert stærri en 37 tommur - plássið er svo lítið hjá mér - í 120 ára gömlu húsinu.
Já seisei - svona getur þetta verið. En niðurstaða þessa var að vondikallinn er ríkið - íslenska ríkið. Sem á stundum mætti halda að lifði sjálfstæðu lífi - enginn réði við skepnuna og hún gengi sjálfala um - nartandi af öllum - og þeir einu sem sleppa eru þeir sem koma sínu til útlanda þar sem ríkið nær ekki þá. Já ríkið - hvaða skepna er þetta eiginlega - sem hugsar svo ílla um afkvæmin að stór hluti virðist vart hafa í sig eða á - treður á þeim sem minni og selur sig hæstbjóðanda á götuhorni náttúrunnar - fáðu þér hluta af mér - kostar bara nokkrar krónur.
Nei - þetta þarf að endurskoða - afnema þessa tolla á vörum sem ekki eru framleiddar á Íslandi - leyfa okkur borgurunum að njóta afgangsins frekar en að eyða honum í utanlandsferðir uppgjafaþingmanna og samráðsmönnum þeirra.
Það er löngu hætt að fraleiða Rafha eldavélar á Íslandi - takið eftir því. BURT MEÐ AÐFLUTTNINGSGJÖLD OG VERNDARTOLLA.
Það er mín skoðun.
Föstudagur, 4. maí 2007
Bláa lónið - Vigur - Ósvör - Vel heppnaður ársfundur í Codlight-tech verkefninu.
Það var ekki laust við að ég sofnaði þreyttur í gærkveldi - ánægður en samt ósáttur.
Við í evrópska rannsóknaverkefninu codlight-tech (linkur hér til hliðar) kláruðum fyrsta rannsóknarárið með fundi á Íslandi. Það var þoka og kalsi sem tók á móti erlendu vísindamönnunum á Keflavík - en flestir voru þeir að koma úr ágætis hlýindum Skotlands, Hjaltlandseyja, Noregs og Svíþjóðar. En svona er Ísland í dag og ekkert við því að gera. Við það búið var stokkið upp í stóran og breyttan Econaline og brunað í bláa lónið. Og það hrein ánægja af því að geta farið með útlendinga í eins vel heppnaða afþreyingu og Bláa Lónið er - snyrtilegt og skemmtilega hannað.
Eftir gott stopp í Bláa Lóninu var haldið til Reykjavíkur - þar sem við fengum okkur að borða á Vegamótum - en einn úr hópnum hafði fengið skilaboð frá kollega í USA um að þar væri íslenskt augnkonfekt eins og hann orðaði það. Að sjálfsögðu voru skotarnir með tölfræðina á hreinu end er Ísland auglýst á Bretlandseyjum svo að þar sé hlutfall kvenna 3 gegn einum - ekki slæmum kostur að fara þangað í frí - og greinilegt að íslenski ferðaiðnaðurinn "kann að auglýsa Ísland" ...hmmm
Morguninn eftir héldum við Vestur -og fundir byrjuðu. Ekki ætla ég nú að eyða púðri í að útskýra niðurstöður en þær eru í stuttu máli mjög góðar - og því verður spennandi að byrja næsta rannsóknarár með það að markmiði að stytta eldistíma þorsks til muna - með tilheyrandi hagræðingu og auknum vaxtar möguleikum í greininni. Jákvætt það.
En það sem skiptir svo miklu máli þegar dagarnir fara í fundasetur - frá morgni til kvölds - er að hafa upp á eithvað að bjóða fyrir gesti sem eru komnir langt að. Og hér fyrir Vestan höfum við svo miklu meira en Perlu og pöbba - við höfum Vigur og Ósvör! En á miðvikudaginn fór hópurinn með Barða á Fengsæl -elsta trébát á Íslandi sem ennþá er í notkun - siglandi inn í Vigur - þar sem okkar beið dýrindis veisla - ekki bar í mat og drykk - heldur náttúrperla sem ábúendur hafa svo sannarlega haldið vel til - gestirnir voru dolfallnir yfir fegurð lands og eyju - nokkuð sem enginn má láta framhjá sér fara - ÉG BANNA ÞAÐ!
Og siglingin heim - út djúpið - allveg stórkostleg í sólarlaginu - magnað og teistan og lundinn í vorskapi. Ógleymanleg ferð með öllu.
Svona enduðum við fyrri fundardag - en í lok síðari fundardags skelltum við okkur í heimsókn í frystihús HG í Hnífsdal - þar sem erlendu gestirnir fengu að sjá vinnslu aflans í landi. Að heimsókn lokinni var keyrt sem leið lá út Óslhlíð - og það var ekki laust við að það færi um fólk þegar það sá stórgrýti og björg í vegakanntinum - fólk sem kemur úr landi þar sem skilningur er á mikilvægi þess að gera jarðgöng. Eftir þá áhugaverðu ökuferð var endað í Ósvör.
Ósvör er perla - ekki bara í sögulegum skilningi heldur hefur Finnboga - Arngrími og fleirum tekist að byggja upp skemmtilegt safn - í anda gamalla tíma. Finnbogi vinur minn fór á kostum - enda klæddur í skinnsjógalla þess tíma - og runnu sögur af vörum. Heimsóknin var ógleymanleg. það er skylda þeirra er að Ósvör standa að hafa þar áfram menn sem kunna að taka á móti fólki og segja frá liðnum tímum - menn eins og Finnboga og Arngrím.
Þetta var semsagt vel heppnaður fundur að öllu leyti.
En því miður fyrir rannsóknaumhverfið hér á svæðinu þá tók stjórn AVS rannsóknasjóðs þá ákvörðun að veita Náttúrustofu Vestfjarða ekki rannsóknastyrk til að umhverfisrannsókna - rannsókna sem myndu leiða til betri þekkingar á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis - efla samstarf um rannsóknir - bæði innanlands og utan. Mjög skrítið í ljósi gæða verkefnisins og þess að að því standa helstu vísindamenn á sviðinu. OG LÍKA Í LJÓSI ÞESS AÐ RANNSÓKNIN FÆRI FRAM HÉR FYRIR VESTAN - ÞAR SEM UPPBYGGINGAR ER ÞÖRF - UNDIR STJÓRN DR. ÞORLEIFS EIRÍKSSONAR HJÁ NÁTTÚRUSTOFU VESTFJARÐA. SEMSAGT ENGIR PENINAR FRÁ AVS Í UMHVERFISRANNSÓKNIR - ENGIR PENINGAR TIL BOLUNGARVÍKUR. SLÆMT MÁL FYRIR VÍSINDIN - SLÆMT MÁL FYRIR UMHVERFIÐ - SLÆMT MÁL FYRIR ÞORSKELDISIÐNAÐINN Í HEILD SINNI.
Föstudagur, 4. maí 2007
Á Vestfjörðum eru björgin fuglarnir og firðirnir - Á Vestfjörðum á Náttúrufræðistofnun með sín sýnasöfn heima.
Í Bolungarvík er nóg pláss - þar starfar Náttúrustofa Vestfjarða undir stjórn Dr. Þorleifs Eiríkssonar. Á vestfjörðum eru stærstu fuglabjörg landsis. Á Vestfjörðum eru Hornstrandir með refina og rekann. Á Vestfjörðum er sjóbleikjan einstök. Á Vestfjörðum er nóg húsnæði og skortur á störfum. Á Vestfjörðum er náttúran við útidyrnar. Á Vestfjörðum er engin stóriðja. Á Vestfjörðum standa frystarnir tómir í auðum rækjuvinnslum.
ÞARF AÐ HAFA FLEIRI ORÐ UM MÁLIÐ?
![]() |
Auglýst eftir húsnæði fyrir Náttúrufræðistofnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 1. maí 2007
Gengur samkynhneigð í erfðir - hver var niðurstaða Kára í díkód?
Vinkona mín hún Ólína skrifa mjög áhugaverðan pistil í dag og fjallar þar m.a. um stöðu samkynhneigðra og upphlaup í kjölfar prestastefnu á Húsavík.
Eitt sinn var læknir spurður að því hvort samkynhneigð gengi í erfðir - læknirinn svaraði um hæl: "ekki ef samkynhneigðin er stunduð eingöngu".
Það væri því áhugavert að vita hvað kom út úr rannsóknum þeirra díkód manna - svona eins og þegar átti að leita að alkahólisma geninu - mig minnir endilega að það hafi átt að vera eitt af genunum sem Kári ætlaði að finna. Spurningin vaknar hvort að hann hafi verið í samstarfi við Gunnar í Krossinum og ef barn fæddist með 66 basa "galla" á 6. litning þá væri Gunnar mættur um hæl með reistan kross - 666...
Samkynhneigð er vel þekkt í dýraríkinu - ástæður eru óþekktar og líklega engar skiljanlegar líffræðilegar ástæður - en það er einmitt málið - er einhver ástæða til að leita að ástæðunum - er ekki bara málið að sætta sig við þetta og leyfa þeim er svo er ástatt um að vera - vera það sem þeir vilja - í sátt við samfélagið og samfélagið við þá - þar sem við erum jú öll hluti af sömu heildinni.
En auðvitað er þetta ekki létt ásigkomulag - að vera samkynhneigður og ég verð að viðurkenna að ég er feginn að "hafa ekki lent'íðí" - eða eins og móðir mín sagði: "mikið er ég feginn að hann Tolli minn gerði móður sinni það ekki að verða hommi".
En hvað veit ég - fólk er komandi út úr allskyns skápum á öllum aldri - bæði útskornum eikar og einföldum IKEA.
svo er nú það.