Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Á rauðu í Reykjavík - rómantísk upplifun landsbyggðarmannsins.

Það er guðdómlegt að koma á höfuðborgarsvæðið. Ekki bara út af perlunni, kránum og ráðhúsinu - Nei, vegna þess að það er svo margt fólk þarna fyrir sunnan.

Að sitja í bílnum á rauðu ljósi og fylgjast með náunganum í næsta bíl - eitthvað svo innilegt og notalegt. Aldrei beint einn - en samt eitthvað svo í friði. Svona stórbæjar bragur. Iðandi mannlíf og allir á leiðinni eitthvað - eitthvað annað?

Þetta er svo skemmtilega öðru vísi en hérna á landsbyggðinni. Hér eru við að glíma við fámennið og náttúruna - glíma við veðrið og ófærðina - fjöllin og firðina - endalausu. Aldrei stopp á rauðu ljósi - enda engin rauð ljós að stoppa á. Tja, nema kannski gömlu gatnaljósin í Bolungarvík þar sem hægt væri auðvitað að hafa kerti fyrir fólk að kveikja ef áhugi væri fyrir hendi - svona "rómó á rauðu í Víkinni" - í ástarvikunni.

Nei - ég segi - Reykjavík hefur rómantíkina. Að sitja í biðröð á háanna tíma er auðvitað ekkert annað en yndislegt og eykur alla samkennd borgaranna. Ekki þessi ömurlega einvera með vondum vegum og vegleysum líkt og hér fyrir Vestan og víða á landsbyggðinni.

Ég legg því til að við hættum þessum að hugsa um mislæg gatnamót - sundabraut og undirgöng. Höldum sjarmanum í Reykjavík - nándinni og náungakærleikanum lifandi. 

Einbeitum okkur frekar að því að eyða einsemdinni úti á landi  - þverum firðina og borum fjöllin - sýnum samkennd - keyrum saman - bíðum saman - heilsumst og verum vinir. Eins og á höfuðborgarsvæðinu.

Tökum ekki mark á Bjarka Tryggva, söngvaskáldinu góða sem gaf út plötuna "einn á ferð" - verum saman - ekki ein!


Saumað að foreldrum Madeleine - leifar af rotnandi líki hafa fundist í bílaleigubílnum sem foreldrarnir höfðu til umráða.

Já - nú er búið að herða rannsóknina á hvarfi ungu stúlkunnar í Portúgal - og gögn hafa fundist í farangursgeymslu bílaleigubílsins sem benda til að þar hafi rotnandi lík verið geymt.

Á meðan skammast móðirin yfir því að ástæða þess að hún sé ofsótt sé vegna þess hve grönn hún er og brjóstin lítil.....

Já þetta er sorglegt allt saman og óskandi að málið upplýsist fljótt.

 

 

 


Það kostar klof að ríða röftum.

Nú er umræðan um að leyfa sölu bjórs í matvöruverslunum farin á flug - aftur. Að vísu er Guðlaugur gamli MA ingur kominn "á bakvið eldavélina" - í Heilbrigðisráðuneytið - og þarf líklegast að reikna út aukinn kostnað fyrir heilbrigðiskerfið þegar "allt fer á flot".

Nokkrar spurningar vakna: Er þetta ráðlegt? - Skiptir þetta einhverju máli? Hvað nákvæmlega er fengið með þessari breytingu?

Nú er það svo að hægt er tengja alkahólisma við áfengisneyslu....hm.. en jú, maður verður líklega ekki alki nema að drekka - í það minnsta þarf maður að drekka til að vera virkur alki - og aukið aðgengi hlýtur að ýta undir það - í það minnsta hjá heilsdagsölkum sem drekka líka eftir að ÁTVR lokar.

En áfengisverslanir eru jú ansi mikið opnar - ekki minna opnar en t.d. matvöruverslanir - tja, að mestu leyti og víða úti á landsbyggðinni þar sem sólarhringsbúðir þekkjast ekki. Svo ekki er það aðgengið sem ríður baggamuninn. En er það verðlagið sem er að drepa okkur? Telur fólk að verðið lækki við það að gefa söluna frjálsa? Tja, rannsóknir í t.d. Svíþjóð hafa sýnt að með því að gefa sölu áfengis frjálsa þá muni verð í raun hækka - einfaldlega vegna þess að það magn sem sem einstakur innflytjandi flytur inn mun minnka - og því munu samningar við erlenda byrgja í raun verða dýrari. Svo að ég held að þau rök muni ekki duga - verðið stýrist líklegast mest af opinberum gjöldum - og vart lækka þau þegar bölið eykst....eða hvað heldur þú Guðlaugur? 

Af hverju er þá ekki bara hægt að tala hreint út og upplýsa að það sem í raun býr að baki er að búa frjáls í frjálsu landi - að hafa fullt aðgengi að þeim vörum sem má kaupa án frekari vottorða eða opinberra leyfa. Semsagt - mega fara út í búð og kaupa bjór - bara af því að það er hluti af sjálfstæðinu og það bara kemur engum við eftir tvítugt....

En hvað gerist þá í búðunum.....nánast allir starfsmenn sem eru á kössunum í þeim verslunum sem ég versla í eru langt undir 20 ára aldri....! Kannski skaffar Rauðikrossinn sjálfboðaliða með aldurinn í lagi?

Já þetta er ekki auðvelt - Það er nefnilega svo að það kostar klof að ríða röftum.


Er Dagur að bregða fyrir sig skottulækningum?

Ég var úti í sveit í gær. Þar sá ég lasinn lítinn fugl. Mér datt auðvitað ekki í hug að misnota aðstöðu mín og éta'nn eða þaðan af verra. Nei - eins og miskunnsömum samherja sæmir þá lógaði ég greyinu og jarðsetti í fallegri laut. Gerði bara það sem ég taldi rétt og faðir minn dýralæknirinn benti mér margoft á - að fara vel með dýrin og láta þau ekki upplifa óþarfa þjáningar. Ekkert meira um það að segja.

Þegar ég svo kveikti á fréttunum - þá kemur í ljós að kominn er nýr borgarstjóri. Sá ku vera læknir og ekki nóg með það - sá sem kom honum þangað mun víst hafa verið veikur líkt og fuglinn í sveitinni. En ólíkt mér - þá mætti trúa því að læknirinn hafi gefið'onum pillu og pillan sú hefur svo sannarlega virkað því nú er fuglinn sá - Hrafnsunginn - búinn að ryðja öllum öðrum úr hreiðrinu og kominn í óvígða sambúð með annarri fylkingu.

Reyndar ætla ég ekki að segja að læknirinn hafi átt að lóga Hrafnsunganum - en mig grunar að unginn hafi bara ekki verið með öllum mjalla - og allt sé með óráði gert.

Getur verið að skottulækningum sé beitt - að hér séu alvarlegir vankantar á heilbrigðiskerfinu og að þegar heilbrigðisráðherrann skar á spenann sem don Alfredo hékk á þá hafi farið af stað ferli sem vart er viðráðanlegt. Já Framsóknarmennirnir verða seint kveðnir niður - það er ljóst.

Já - ég veit ekki hver staðan hefði verið í dag ef Dagur hefði verið dýralæknir?


Lögreglumaður stöðvar gítarsóló Ray Davies á tónleikum Kinks í Austurbæjarbíói.

Ég stóð ásamt samstarfsmanni á bílaplaninu við hús Oddfellow reglunnar á Akureyri í morgun. Köld norðanáttin með rigningu í farteskinu blés um vanga og dalalæðan sleikti Vaðlaheiðina. Þetta var bara ósköp eðlilegt veður fyrir árstímann á Akureyri - í það minnsta fyrir þann sem þetta skrifar. Öðru máli gegnir ef ég hefði verið staddur annarstaðar og hringt norður til Akureyrar - þá hefði verið sól í heiði og hlýviðri. Það er nefnilega alltaf besta veðrið á Akureyri - þegar maður er ekki sjálfur á staðnum. En það er önnur saga.

Mér varð starsýnt á lögreglustöðina þarna sem hún stóð í brekkunni fyrir ofan Baldurshaga - heitinn og horfinn. Óttalegur kumbaldi og geldur arkitektúr. Stóð þarna í Þórunnarstrætinu bara eins og yfirgefin smurstöð eða misheppnuð teikning frá teiknistofu landbúnaðarins. Svona ofvaxinn húsgrunnur með þaki. Yfir lögreglustöðinni gnæfðu tvær nýjar byggingar þar sem eitt sinn stóð gamalt og virðulegt hús - Baldurshagi.

Ég virti þetta fyrir mér og varð hugsað til þess hvað lögreglan líkt og lögreglustöðin væru stöðnuð fyrirbæri - gamaldags. Bæði áttu það sameiginlegt að hafa verið í minningunni eithvað svo miklu meira og virðulegra. En núna hvorki fugl né fiskur. Húsið hálfgerður kofi og lögreglumennirnir í glansbuxum með piparsprey - búnir að kasta ullarklæðunum gömlu en samt ekki komnir í nútímann. Ekki skrítið að Björn Bjarnason vilji gera eithvað í málinu - vopnbúast og endurheimta virðinguna.

Ég fór að rifja þá gömlu góðu daga þegar tveir lögreglumenn stóðu við suð-vesturhorn vallarstúkunnar á Akureyrarvellinum - kíktu varlega upp í stúkuna þegar menn gerðust orðljótir og fengu í staðinn glott áhorfenda - sem sögðu þá vera að velta fyrir sér hvernig þeir ættu að umkringja völlinn ef til átaka kæmi.

Vinnufélagi minn úr Reykjavík brosti í kambinn og rifjaði upp óborganlega senu frá tónleikum Kinks í Austurbæjarbíói 1965. Sitthvoru megin á sviðinu stóðu tveir eldri lögreglumenn í ullareinkennisklæðnaði og með hvítar húfur - glansandi fín beltin og silgjurnar glömpuðu í sviðsljósinu. Svo steig hljómsveitin á svið og múgurinn æstist. Ray Davies birtist og lýðurinn öskraði - setti sig í stellingar og ætlaði að byrja með rífandi gítarsólói. Annar lögreglumaðurinn kippist til við gítarriffið og tekur kipp - gengur hægum en öruggum skrefum inn á mitt sviðið og leggur hönd á öxl Ray Davies og segir "hægðu á þér gæðingur" - Ray Davies fipast við enda ekki vanur slíkum axlartökum - horfir forviða á lögreglumanninn sem kinkar kolli og gengur til baka á sinn póst - búinn að róa niður lýðinn og tónleikarnir héldu áfram.

Já þetta var í þá gömlu góðu daga þegar fór saman gamaldags lögregla með góðleg ráð.


Ólafur forseti - bundinn átthagafjötrum.

Mér sýnist Ólafur forseti vor vera kominn í tilvistarkreppu. Staða hans sem forseta stendur honum orðið fyrir þrifum í veislulífinu. Ólafi finnst gaman að vera í veislum -  halda ræður - vera aðal - með Dorrit sligaða af demöntum og fíneríi upp á arminn. Veislurnar með ríka og fína fólkinu eru vettvangur sem hugnast Ólafi enda eyðir hann æ meiri tíma í slíka iðju - kannski af því að Dorrit er ættuð úr gljáheimum.

En sá böggull fylgir skammrifi að Ólafur er forseti lítillar þjóðar og því er kannski ekki mjög flott að ferðast með einkaþotum fyrirtækja eða einstaklinga - það er bara ekki passandi manni í hans stöðu - sem auðvitað á að starfa fyrir alla Íslendinga. Ekki bara þá sem eiga pening og geta boðið forsetanum lúxus og stuð.

Og hvernig bregst Ólafur við? Jú hann segir þjóðina verða að gera upp við sig hvað þjóðin vill! Já, fólki skal bent á að það er sko ekkert auðvelt að vera Ólafur - sem fórnar sér fyrir þjóðina - í það minnsta þeirra sem eiga þjóðina....eða peninga þjóðarinnar. Og þegar hann er ekki á þeirra vegum í útlöndum þá er hann með veislu fyrir sama fólk á Bessastöðum. Já... og skreppur svo reyndar út á land af og til að hitta almúgann - oftar en ekki án Dorritar sem þarf auðvitað að hvíla sig eftir öll ferðalögin - skíðaslysin og veislurnar. Jú þetta er erfitt líf fyrir forsetann sem ferðast meira en allir fyrri forsetar til samans. Hann tekur öfugan Ronald Regan.... sem byrjaði í Hollywood og endaði sem forseti.....því að Ólafur byrjar sem forseti og dreymir um að enda sem Hollywood stjarna. Og við...þjóðin....erum honum fjötur um fót. Átthagafjötrar.

Kannski er það bara Dorrit sem er að ganga fram af Ólafi - enda konan óvenju vinarík - á heilan helling af frægum og ríkum vinum og það er ekki létt fyrir púkann að Vestan að skyndilega stökkva út í þá djúpu laug.´

Já það er vandlifað. En mundu Ólafur að þú getur hætt eftir þetta kjörtímabil og leikið þér eins og þig listir. Eða verðurðu þá ekki lengur númer eitt??


Sóma-samleg vinnubrögð að smyrja samlokur með berum höndum og brett upp á olnboga?!

Ég varð hálf hlessa þegar ég sá myndirnar sem fylgdu umfjöllun í Fréttablaðinu í dagu um gríðarlega framleiðslu á samlokum hjá Sóma, en þar kemur ber-sýnilega í ljós að fólk er ber-hent við iðjuna. Uppfyllir það alla staðla er lúta að heilbrigði... eða er ég bara smámunasamur.

Ég hef ekkert út á þeirra vöru að setja og finnst hún reyndar á köflum fín - þó svo að ég borði Sómasamlokur ákaflega sjaldan.

ber hendi að skammtaHér má sjá bera hendi setja álegg á brauð (mynd er fylgdi umfjöllun í Fréttablaðinu 4.okt. 07).

ber hendi að skammta2Og margar hendur vinna létt verk. Sumir bretta upp ermarnar og taka hraustlega á málum enda marga munna að metta (mynd er fylgdi umfjöllun í Fréttablaðinu 4.okt. 07).

 


Flutningsstyrkur ríkisstjórnarinnar farinn að skila sér!

Auðvitað sjá sér allir leik á borði og nýta sér flutningsstyrkinn til að komast af "landsbyggðinni" og til lífsins í ljósi höfuðborgarinnar!

 


mbl.is Leitað árangurslaust að strokuföngum í alla nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guð eða gen?

Ég las áhugavert viðtal hér um daginn við guðsmanninn að norðan - hann Vörð Traustason. Sem eitt sinn var lögga og er nú sálgæslumaður. Og nú fullyrðir guðsmaðurinn að samkynhneigð sé í raun villa - kynvilla. Þetta sagði hann í viðtali við DV og ekki lýgur guðsmaðurinn og því síður DV.

Hann fullyrti jafnframt að hægt sé að meðhöndla þennan kvilla og það sé í raun ekki við aumingjana sjálfa að sakast heldur umhverfið. Já, það þýðir væntanlega að ekkert þýði að fara til Kára á díkód og kanna hverjar líkurnar séu á að maður komi út úr skápnum - þó síðar verði. Nei, málið sé að setjast niður með guðsmanninum - fá andlega hjálp og sjá að sér - hætta þessari vitleysu og taka sig á. Batnandi mönnum sé best að lifa og spila nú með réttu liði það sem eftir lifir leiks.

Mikið óskaplega hlýtur að vera auðvelt að lifa svona einföldu lífi - að allt sem maður gerir og allt sem maður fer sé á guðs vegum. Guðsmaðurinn fór meira að segja til Noregs að beiðni guðs sjálfs. Ég hef þó óljósan grun um að hann hafi eitthvað misskilið - að guð hafi einfaldlega sagt við hann "Vörður, its my way or Norway".

En Kári segir annað - og þeir sem eru skíthræddir við að verða öfugir geta brátt látið leita að geninu villta - fá líklegast einskonar gaycode.

Og skildu lesbíur vera "konur með sveins-próf"?

 


Skammaður í skurði af skaðræðisgæs.

Ég var búinn að gera allt klárt. Byssan var vel pússuð - olíuborin og einhvernvegin svo falleg þar sem ég lagði hana í plasttöskuna - tilbúinn í veiði. Ég fór í gallann. Feluliturinn gerði mig trúverðugan og ég var nokkuð viss um að koma heim hlaðinn gæsum. Það yrði veisla í skammdeginu - grilluð gæs með sykurhúðuðum kartöflum. Íslenskum kartöflu. Ekki þessum innfluttu.

Til að vera viss kom ég við í vinnunni og sótti stígvél. Þau voru græn og hétu "thermo special" - með þykkum grófum botni. Svona alvöru. Ekki svört Nokia með glampandi endurskinsrönd. Nei, alvöru - græn og grófbotna. Ég stóðst ekki mátið - horfði í spegil og endurtók í sífellu "are you talking to me....". Ógleymanleg sena úr gamalli bíómynd. Vel til fundið fannst mér enda ætlaði ég að leggjast út - í skurð og strádrepa allan þann fiðurfénað sem slysaðist í skotfæri. Feluliturinn á gallanum myndi gera það að verkum að ekki einu sinni styggasta gæsin í hópnum tæki eftir mér. Skothelt plan.

Á leiðinni var mér hugsað til vinar míns fyrir margt löngu sem skaut gæs á köldu haustikvöldi. Gæsin lenti hinu megin við djúpan skurð sem fullur var af vatni og í kuldanum hafði myndast nokkurra sentímetra þykkur ís. Úti var kalt. Tunglið sendi geisla sína niður til okkar og þeir endurköstuðust af hvítum  nöktum  manninum sem braut sér leið í gegnum ísinn til þess að sækja bráðin sem lá hinu megin við skurðinn. Ég hækkaði í miðstöðinni við tilhugsunina - en svona var líf veiðimannsins. Maður varð að fórna sér.

Fleiri veiðisögur rifjuðust upp fyrir mér en útsýnið yfir Dýrafjörðinn gerði það af verkum að ég hætti að hugsa um fortíðina og ég fór í staðinn að velta fyrir hvernig ég kæmi aflanum heim. Ég átti ekki von á öðru en að þurfa að fara nokkrar ferðir - enda veiðigallinn flottur og byssan vel smurð. Ekki spurning - ég yrði líklegast skammaður fyrir að vera magnveiðimaður. Eitthvað svo heillandi neikvætt að vera magnveiðimaður. Úff - ég kófsvitnaði og opnaði gluggann.

Nú fór ég að nálgast bæinn þar sem bóndinn hafði leyft mér að veiða gæs. Ég þóttist góður - enda einungis fáir sem fá að veiða á þessum slóðum.

Ég lagði bílnum. Nú var komið að því. Ég féll svo gjörsamlega inn í umhverfið að ég varð hálf hræddur um að ef eitthvað kæmi fyrir mig þá myndi ég aldrei finnast. Myndi hreinlega týnast.

Ég svipaðist um eftir skurðinum góða - gæsaskurðinum þar sem veiðilendurnar voru. Mér fannst allir skurðirnir vera eins og var alls ekki viss um að finna rétta staðinn - þrátt fyrir ítarlegar lýsingar bóndans. Hvaða holt var hann eiginlega að tala um, hugsaði ég - hvað skjólbelti og hvaða skurð? Ég ákvað að rölta aðeins um svæðið og reyna að átta mig á aðstæðum. Ég gekk öruggum skrefum í átt að skjólbelti sem lá samsíða veginum. Víðirinn var ennþá grænn og ég taldi mig vel falinn. Bíll ók eftir veginum og ég hló með sjálfum mér - þeir hafa ekki hugmynd um mig...hugsaði ég. Ótrúleg tilfinning.

En mér var ljóst að ég var ekki á réttum stað. Ég tók upp GSM símann og hringdi í bóndann. "Já sæll" sagði bóndinn - "ha, nú ertu þar...nei það er kolvitlaus staður!.... þú átt að fara mun utar". Já bóndinn var með þetta á hreinu. Ég fylgdi ráðum bóndans og von bráðar áttaði ég mig á réttum skurði. Frábær staðsetning með útsýni yfir tún í þrjár áttir. Magnað. Í því sem ég rölti á réttan stað flaug upp önd - ég mundaði byssuna og skaut - en helvítið slapp. Ég var eiginlega hálf feginn. Nenni ekki að eltast við svona kvikindi.... svona smáfugla.

Ég kom mér fyrir í skurðinum. Ég og náttúran. Og byssan. Runnum saman í eitt og ég hugsaði um hve mikill frummaður ég væri í raun - að vera svona úti í náttúrunni - að veiða - bera björg í bú. Bara ég í gallanum og með byssuna tilbúna. Frábært.

Allt í einu hringir síminn. Ég svara. Bóndinn á línunni og spyr hvort ég sé byrjaður að skjóta? "Tja ég skaut á eftir önd" segi ég - "ætlaði ekkert að drepa'na  - í raun bara að reka'na í burtu". "Nú jæja", segir bóndinn og bætir við að hann vilji ekki að neitt sé skotið nema gæsir. Ég samþykki það. Svo er þögn. Veðrið leikur við mig og mér leið vel. Gjörsamlega falinn í skurðinum.

Allt í einu verð ég var við hreyfingu á túninu. Ég munda byssuna. En þetta var ekki gæs að mér sýndist?? Veran færðist nær. Rauð til höfuðsins að mér sýndist og með stóra vængi. Ég pírði augun. Spennan var magnþrungin. Smám saman sá ég betur og betur að þetta var manneskja. Úff.... eins gott að ég skaut ekki!

Mannveran tekur sér stöðu á skurðbakkanum - setur hendur á mjöðm - starir á mig með miklu yfirlæti eldrauð í framan - íll á svip. Ég sat í skurðinum og horfði upp. Manneskjan bar við himinn eins og mannýgt naut og það fór ónotartilfinning um mig. Ég er þó altént vopnaður hugsaði ég. "Hvurn fjandann varst þú að skjóta", segir manneskjan. Þá átta ég mig á því að hér er um kvenmann að ræða - en erfitt getur verið að átta sig á konum við slíkar aðstæður. "Ég..."stamaði "ég...var bara að skjóta á önd". "En hún slapp" bæti ég við. "Já, jæja" segir konan og hristist af bræði. "Þú átt ekkert vaða hér um öll tún veifandi byssu andskotanum... hér veiðir enginn önd - bara gæs". Konan lét móðan mása - ég fékk gúmorren. Sat í skurðinum hjálparvana og langaði bara að fara heim. Var búinn að fá nóg. Kolröng gæs og kolvitlaus í þokkabót. Ég í skurðinum - í felulitum að bíða eftir gæs. Konan á skurðbakkanum - eldrauð í framan á flíspeysu. Líklega tækju allar gæsir á sig krók við þessa sjón - og ekki út af mannræflinum í felulitunum í skurðinum - nei ekki aldeilis. "En....ég var búinn að fá leyfi" sagði ég....."hjá bóndanum"... konan strunsaði í burtu muldrandi "best væri að þið létuð ekki sjá ykkur hér"....

Ég keyrði sneyptur heim þetta kvöld. Fékk eiginlega nóg af gestrisni Dýrfirðinga.... úff og þessu öllu saman og taldi mig í raun heppinn að sleppa lifandi.

Já - það er ekki sjálfgefið að maður hitti rétta gæs þó að á veiðar sér farið. Og kannski er þetta ástæðan fyrir því að ekki er mælst til þess að menn fari einir á veiðar. Á örskotsstundu breytist veiðimaðurinn í bráðina.......


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband