Sunnudagur, 23. ágúst 2009
Það var þá - þetta er núna - eða kannski á morgun.
Það er drungalegur haustdagur og laufin fallin af trjánum. Vindurinn gnauðar um ókláruð húsin og málningarslettur þekja ryðgaða range rover jeppa og hummera. Engin börn hafa sést í hverfinu frá því fyrir mörgum áratugum þegar allt lék í lyndi og mikil uppsveifla var. Í dag er allt tómt. Þau fáu hús sem voru kláruð standa tóm.
Það er skrítið að koma á þennan stað sem eitt sinn var höfuðborg landsins. Í dag búa hér nokkrar hræður sem hafa það að atvinnu að vakta hús í eigu Evrópusambandsins sem nýtt eru sem sumardvalarstaður fyrir fyrirmenn í sambandinu.
Ísland er aftur komið með höfuðborg í fjarlægu landi.
Við þessi sem ekki bjuggum í Reykjavík þegar allt hrundi endalega höfðum það ágætt um langt skeið. Mikil gróska var á landsbyggðinni og eðlilegt jafnvægi komst á.
En eftir að Jóhanna skrifaði undir og Össur fór ekki með bréfið í póst heldur fór sjálfur með það til sambandsins datt botninn úr flest öllum atvinnugreinum sem kallaðar voru grunn atvinnugreinar. Við fórum frá sjálfstæði yfir í að vera styrkþegar. Botninn datt botninn úr landbúnaðinum þegar Evrópusambandið flutti hingað til landsins belgískar ofurkýr, svokallaðar risakýr eða Belgina blue, sem leysa áttu þær íslensku af hólmi. En smitsjúkdómar sem íslenska kúa kynið réð ekki við drap þær íslensku og kuldinn þær belgísku. Eftir stendur að nokkur býli eru með norskar kýr sem framleiða mjólk til sölu fyrir ferðamenn auk geita til að búa til ost. Norðurárdalur heitir í dag Guðbrandsdalur hinn nyrðri og þarf er framleiddur geitaostur.
Íslenska sauðkindin er horfin. Talið er þó að nokkrar haldist við í nálægð við Herðubreið en það eru sögusagnir sem enginn fær staðfest. Í dag rækta menn ísraelskt sauðfjárkyn sem gefur af sér mjólk en óætt kjöt. Það þykir ferðamönnum spennandi kostur á Íslandi og aldrei áður hafa fleiri ferðamenn frá miðausturlöndum heimsótt landið. Þær eru sagðar gæfar en afskaplega heimskar.
Já, það hefur margt breyst í byggðum landsins. Ísland er orðið fjölþjóðlegt þar sem erlendar þjóðir hafa fjárfest mikið og byggt upp atvinnu víða. Á Siglufirði hafa Norðmenn byggt upp nýtískulega síldarsöltunarverksmiðju og á Reyðarfirði er að segja má ekki nokkur Íslendingur lengur - enda ráða Svissnesk fyrirtæki þar lögum og lofum. Þar er töluð franska og þýska.
Akureyri er orðinn Danskur bær að nýju og eru þar fleiri sem tala dönsku en íslensku. Menn fá sér bolsíur og krakkarnir nota viskaleður í skólanum. Svona eins og þegar ég var ungur.
Já margt hefur breyst eftir að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur Joð gengu með okkur í Evrópusambandið. En afkomendur þeirra búa í Noregi og Svíþjóð þó svo að auðvitað eigi þau sumarbústaði við Þingvallavatn og á Bakka norðan Húsavíkur.
Þetta þótti hið eina rétta á sínum tíma. Gaman hefði verið að vita hvort að við hefðum getað lifað áfram sem íslensk þjóð?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.