Miðvikudagur, 13. maí 2009
Afi á skódanum - við fyrir utan kirkjuna - spennan var magnþrungin - nær hann beygjunni....
Nú styttist óðfluga í að fóstursonurinn fermist. Og það er kostulegt að fylgjast með þeim undirbúningi - ekki bara þetta með að skyndilega verða trúaðri en Móses heitinn heldur hitt veraldlega - fötin og það allt.
Ekki minnist ég þess að ég hafi neitt sérstaklega verið upptekinn af því í hvernig fötum ég væri. Ég lét það eftir mömmu að velja - mátaði bara og var ánægður. Ekki ætla ég neitt sérstaklega að ljóstra uppi um í hverju ég var - en buxurnar voru terlínbuxur og ég var í köflóttu vesti. Stolnu köflóttu vesti. Já - ég skrifaði það. Það var nefnilega svo að við fórum á markað ég og mamma og þar var þetta fína vesti - nánast ókeypis og við að flýta okkur. Mamma greip það og við biðum og biðum. En það var svo mikið að gera og vestið svo ódýrt að mamma sagðist bara koma við seinna og borga. Sem ég held að hún hafi aldrei gert. Amen.
Svo að nú átti að ferma mig berandi syndina utan á mér. Köflótta synd úr Kaupfélaginu. Ég held nú samt að vestis málið mikla hafi riðið baggamuninn um gjaldþrot KEA. Ég vona ekki - guð hjálpi mér.
En svo rann dagurinn upp og sól skein í heiði. Í það minnsta í minningunni. Búið var auðvitað að æfa okkur og allir vissir um hvenær átti að segja hvað. Við vorum mætt fjölskyldan tímanlega fyrir utan afa og ömmu. Afi fór nefnilega ekki til kirkju nema á sínum skóda. Það var líka gott fyrir skódann að vera í nánd við almættið á meðan á athöfn stóð. Losa um stíflur og svoleiðis.
Í þá daga var keyrt að kirkjunni þar sem safnaðarheimilið stendur núna - semsagt hægt að koma niður Eyrarlandsveginn og beint inn á stæðið. Og í því sem stöndum ásamt öllum hinum fermingarbörnunum og fjölskyldum þeirra baka til við kirkjuna þá sjáum við hvar skódinn birtist í Eyrarlandsveginum. Og niður götuna kom hann brunandi - jók ferðina eftir því sem nær dró og mér er minnisstæður svipurinn á ömmu gömlu í framsætinu. Enginn hátíðarsvipur - meira svona skelfingarsvipur. Og það fór kurr um hópinn þegar fólk gerði sér grein fyrir að sá gamli var á leiðinni. En á síðustu stundu hætti afi við að sveigja inn á bílastæðið og hélt áfram á fullri ferð sem leið lá framhjá kirkjunni og upp kaupfélagsgilið og hvarf upp með sundlauginni. Horfinn.
Við litum hvert á annað í þögninni. Úff, stundi pabbi og hristi hausinn. Þá kallar einhver "hei, hann kemur".... mér varð litið upp Eyrarlandsveginn - og viti menn þar kom sá gamli á skódanum. Og ný atrenna var gerð. Við stóðum sem frosin. Hann kom nær og eins og fyrr jók hann ferðina til muna. Og í því sem við grípum um höfuð okkar og byrjum að ókyrrast tekur hann sveiginn sem fyrr og hverfur sömu leið.
Ja tíminn leið og athöfnin átti að fara að byrja. Og afi ennþá ósýnilegur. En viti menn - afi birtist í þriðju tilraun - brunandi niður Eyrarlandsveginn og í þetta sinn náði hann að hægja á sér - sveigði inn á stæði og parkeraði við kirkjuna - steig út og dæsti. Gekk sem leið lá með ömmu inn og settist. Ekki orð var rætt um þetta.
Já fermingin er eftirminnileg.
Athugasemdir
Skemmtileg saga.
Mér varð hugsað til afa míns - hann átti 21 skóda um ævina, en keyrði þó aldrei hraðar en á 40, yfirleitt svona 20.
Kv. Hjördís
Hjördís Þráinsdóttir, 14.5.2009 kl. 08:46
Þetta með gömlu mennina og Skoda.
Einu sinni kom ég inn á Kaupfélagsverkstæði í Vík sem oftar og þar stóð blár Skodi sem gamall maður í þorpinu átti. Það var verið að skipta um kúplingu í ökutækinu og af því að ég vissi hvernig hann ók langaði mig að vita hvað kúplingin hefði enst "lengi" og kíkti inn í bílinn til að sjá kílómetrastöðuna. Á mælinum stóð rétt um 3000km. Ég hafði orð á því við bifvélavirkjann sem var að vinna í bílnum að ekki væri nú endingin á kúplingunni góð hjá karlinum, bara 3000km. Hann horfði þá á mig og sagði: "Það væri nú kannski allt í lagi ef þetta væri ekki þriðja kúplingin sem við skiptum um hjá honum í þessum bíl.
Einar Steinsson, 14.5.2009 kl. 17:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.