Ég á'etta - Ég má'etta.... eða.... Ég átt'etta...ég mátt'etta.

Var víst viðkvæðið hjá ónefndum stjórnarformanni ónefnds fyrirtækis sem fór á hliðina með glæsibrag - og sá hinn sami "átti" á tímabili ónefnt flugfélag, þegar flugfreyjur ónefnds flugfélags báðu hann að hætta drykkjulátum. 

Og þá rifjaðist upp - að ég sjálfur átti kollgátuna - viðkvæðið - sem hann hefur greinilega stolið af mér - bansettur. Og ekki nóg með það - báðir veltumst við uppúr skítnum og fórum heim með nánast allt niður um okkur.

Á mismunandi tímum þó - og við mismunandi aðstæður.

Hann eins og að ofan greinir en ég sem nú verður frá greint.

Ég hafði ásamt vini mínum Vidda verið í Sjallanum á akureyri. Rétt um tvítugt - glerfínir og hreint óskaplega skemmtilegir. Hreifir og glaðir - og ballið búið. Úti var vor í lofti - blómin farin að springa út og lífið lék. Nú ætluðum við heim að sofa - ekki nenntum við að ganga og ákváðum að vera flottir á því og tókum leigubíl. Þegar við hyggjumst setjast inn í leigubílinn drífur að bóndason nokkurn sem ég þekkti ágætlega. Sá hinn sami var á leið heim - fram í fjörð og buðum við honum far. Kannski ekki beint í leiðinni - en ómögulegt var annað en að koma við á bænum.

Á leiðinni var skrafað. Ég sló um mig og sagðist eiga töluvert undir mér á bænum - ætti þar hest af góðu kyni. Bóndasonurinn hváði og kannaðist við málið. Þegar rennt var heim hlaðið á bænum sé ég hvar nokkur trippi standa og virða fyrir sér gestina. Og þá varð auðvitað ekki aftur snúið. Ég vippaði mér út úr leigubílnum og hrópaði til félaganna að nú skildu þeir teknir til kostanna folarnir í túninu. Ekki man ég sérstaklega eftir reiðtúrnum - nema hvað að hann var stuttur og ég endaði á sparifötunum á kafi í foraði - rennblautur og ataður skít.

Lúpulegur kom ég til baka. Bílstjórinn tók á móti mér - skipaði mér úr gallanum. Ég stóð þarna ræfillinn með allt niður um mig - út ataður í hestaskít og tautaði fyrir munni mér - Ég má'etta ...Ég á'etta. Bílstjórinn hristi hausinn - tók skítug jakkafötin - setti í poka og stakk í skottið á bílnum. Sjálfur settist ég í aftursætið á nærbuxunum einum fata.

Partýið búið - með allt niður um mig......

En ég átti'etta....og mátt'etta.

Já...ég og Hannes.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Fín saga.

Ævar Rafn Kjartansson, 23.1.2009 kl. 12:11

2 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Góð saga sem flest okkar getum heimfært á okkur einhverntíman á lífsleiðinni, frá sandkassanum og uppúr. En hjákátlegust er nú þessi úr flugvélinni.

Góður! 

Ragnar Þór Ingólfsson, 23.1.2009 kl. 13:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband