Sunnudagur, 28. desember 2008
Rétt er það - vitringarnir koma saman á jólum.
Sagt er að María hafi lagt son sinn í jötu á jólunum - og að jata þessi hafi verið í fjárhúsum fjarri íslandsbyggð. Svo hafi borið þar að vitringa með gjafir handa jesúnum í jötunni. Ekki ætla ég að mótmæla að svo hafi verið - en ég var ekki viðstaddur og hef því orð annarra fyrir þessu.
En vitringa hef ég hitt - og það hér fyrir Vestan. Og vitrir eru þeir og spakir mjög. Síðastliðinn laugardag átti ég mér dálítinn göngutúr - einn að hugsa um jólin og njóta útiverunnar - í blíðskaparveðri - þó svo að mælistika flugfélagsins hafi sýnt allt annað og öllu flugi verið aflýst - en það er önnur og flóknari saga og alls engin jólasaga.
Þessi saga er mun einfaldari. Enda er mikil viska í eðli sínu einföld - skýr og bein.
Þegar mér verður gengið fram hjá dumbrauðum beitningaskúr fannst mér líkt og lykt af reykelsi fyllti vit mín - og ómur af spekinglegum umræðum barst mér til eyrna. Ekki fór á milli mála að hér var eitthvað mikið um að vera - enda þó ekki væru sjáanlegir neinir úlfaldar þá voru þó nokkrir bílar fyrir utan beitningaskúrinn. Úlfaldar nútímans. Og inni hlutu að vera vitringar að ráða ráðum sínum.
Ég lét eftir mér að gægjast inn um ólæstar dyrnar. Og drottinn minn dýri - þarna sátu þeir vitringarnir og skeggræddu - um stöðu mála og úrlausnir - útgerð og leti ungafólksins.
Þar mátti sjá vitring einn ljósan yfirlitum - sitjandi við lítið borð - drekkhlaðið góðgæti. Reyk lagði út úr vitum hans og var þar komin skýringin á lyktinni. Hann reykti sem mest hann mátti - þó svo vísindin teldu honum hughvarf - en eins og við vitum öll þá heldur bíllinn áfram að reykja þó búið sé að skipta bæði um pústgreinar og rör og það gerði þessi. Hló svo tár féllu á kinnar. Já hann málaði ekki skrattann á vegginn þessi vitringur þó til málverka kynni - sem og útgerð.
Ásamt honum var þar kominn um töluvert langa leið - sér-vitringur einn mikill. Sá hinn sami og rak hálfgert trúboð í smiðju einni - þar sem hann kenndi ungum mönnum að enginn gæti grætt gull nema að vinna að minnsta kosti í þrjú ár kauplaust. Hann vissi það - þó enginn hefði á hann hlustað - og nú væri allt farið um koll. Já segja má að landinn hefði betur hlustað á sér-vitringinn getspaka sem sá allt fyrir.
Ekki minni - nema að vexti - var spekingur af bæ einum er á árbakka stendur. Þar stundar hann grúsk og smíðar - reykir két og fisk. Spekingur sá hefur sig minna í frammi en sér-vitringurinn og sá ljósi þó hann sé þeim fremri til smíða og reyks.
Svo voru þar aðrir spaklegir vitringar. Minna fór fyrir þeim þó auðvitað ættu þeir sín innskot og mótmæltu eða tóku undir umræðu þá sem átti sér stað.
Tíðrætt var þeim þó um útgerð þá sem stunduð væri frá Gjögri. En við þann stað er kenndur vitringur einn. Þó ekki sé hann mikill að vexti - hvorki hár né gildur og með öllu skegglaus - þá þykir hann mjög svo kyngimagnaður og kunnur - jafnvel fjölkunnugur segja sumir. En sá háttinn hefur hann á útgerð sinni að róa aldrei fyrir hádegi - segir fiskinn aldrei taka fyrr en eftir hádegi. Ekki voru hinir vitringarnir á því að svo væri - en vegna fjarveru sinnar gat Gjögurvitringurinn ekki svarað fyrir sig. Og þessu getur í raun enginn svarað því það ku aldrei nokkur maður hafa róið fyrir hádegi frá Gjögri - segja vitringarnir í beitningaskúrnum. Og hlægja óskaplega - hóhóhó.
Já Jólin eru svo sannarlega fyrir Vestan - viskan og vitringarnir.
Nú er að vita hvort maður rekist ekki á sjálfan kónginn - Elvis Presley.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.