"þar skaut Villi"

Það var fastur liður að ég var kallaður niður á elliheimili til að hjálpa afa að setja upp seríur. Nú hefði mátt halda að slíkt hefði verið auðvelt og fljótlegt - einkum í ljósi þess að gömlu hjónin bjuggu í einu herbergi - því ekki voru komnar íbúðir á þeim tíma. En ekki aldeilis. Seríurnar hans afa voru nefnilega komnar til ára sinna og ómögulegt að vita hvort þær færu í gang. Og ef ekki - þá þurfti að vinna sig í gegnum alla seríuna - peru fyrir peru - til að finna þá sem var dauð. Það var nefnilega svo að þegar ein peran gaf sig - þá slokknaði á allri helv....seríunni.

Þessu tók afi með tilheyrandi fussi og sveii. Alltaf sama sagan. Ár eftir ár. Og amma sat í sófanum og hló að þeim gamla - sem æstist þá til muna og fussaði yfir þeirri gömlu. Amma nefnilega skipti sér ekkert af seríunum - nei hún setti kransa yfir "dána fólkið". En það voru myndir af látnum ættingjum - og sem héngu á veggjum herbergisins.

Afi púlaði - ég handlangaði og amma hló. En kostulegastar voru seríurnar tvær sem voru svo mjög komnar til ára sinna. Þær voru fallegar - plastblóm utan um ljósaperur. En gæddar þeim eiginleika að þegar perurnar hitnuðu þá skutust plastblómin af þeim - með tilheyrandi hvelli og fussi í afa. Og í ömmu gall "þar skaut Villi" - svo skelli hló hún. En þessi Villi var nágranni þeirra í Ránargötunni og faðir þeirra Samherja bræðra. Amma sagði nefnilega að hann hefði verið svo ansi lunkinn með flugeldana. 

Þetta var guðdómlegur tími. Og endurtók sig alltaf á sama tíma á hverju ári. 

Að loknu öllu stússinu skaut afi á sig koníak. Og þá fussaði amma og sagði "hvunær ætlar þú að læra að fara með vín eiginlega..." - þá fussaði afi og sagði: "þó ég verði hundrað ára þá ætla ég ekki að læra það".

Svo komu jólin.

Og þar skaut Villi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Skemmtileg minnig

Gleðileg jól gamli samstarfsmaður.

Hólmdís Hjartardóttir, 23.12.2008 kl. 02:02

2 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Yndislegt

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 23.12.2008 kl. 13:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband