Til móts við Helga magra og Þórunni hyrnu.

Eitt af því sem gaf sig með jöfnu millibili í skódanum hans afa var kúpplingin. Að sjálfsögðu er ekki ætlunin að nota kúpplinguna til annars en að skipta um gír - en afi sem tók bílpróf rúmlega sextugur notaði kúpplingu til að þurfa ekki að skipta um gír. Þetta olli auðvitað því að hún slitnaði hratt. Og þá þurfti skódinn á verkstæði.

Og svo var það eitt sinn að skódinn er kominn á verkstæðisplanið. Aleinan innan um ókunnuga bíla kom ekki til greina að skilja skódann eftir yfir nótt - enda áliðið dags og ljóst að bílvirkinn hefði myndi ekki klára að gera við bílinn samdægurs. Svo pabbi dró skódann heim að elliheimilinu yfir nóttina. Morguninn eftir var svo haldið af stað.Kaðall var bundinn í skódann og lykkja húkkuð á dráttarkúlu aftan í Ford Bronco 74 bíl pabba. Þegar komið var norður undir sundlaugina og tekið að halla vel undan fæti verður pabbi þess var að skódinn var horfinn úr baksýnisspeglinum - gufaður upp. En viti menn - útundan sér pabbi hvar skódinn kemur brunandi og afi pústandi undir stýri. Og frammúr Bronconum brunaði svo sá gamli - og mikil mildi varð til þess að kaðalinn húkkaðist upp af króknum. Pabba varð nú ljóst að ekki var allt með felldu - skódinn greinilega bremsulaus í viðbót við kúplingaleysið. Og norður Þórunnarstrætið hvarf svo skódinn - í fjarska mátti sjá ljósbláan skóda - undir stýri eldri maður með hatt.

Brattinn síðasta hluta Þórunnarstrætis var mikill - einkum þegar komið var norður undir lögreglustöð.  Ekki hefði þurft að spyrja að leikslokum ef sá gamli hefði haldið sem leið lá alla leið niður í Glerárgötu - einu breiðgötuna á Akureyri með verslanir og skrifstofuhúsnæði. Og þetta var pabba efst í huga þegar hann keyrði á eftir þeim gamla.

En örlögin urðu önnur - því að þegar pabbi kemur keyrandi niður Þórunnarstrætið sér hann sér til mikillar undrunar hvar skódinn stendur nánast upp á endann við styttuna af þeim hjónum Helga og Þórunni. Sá gamli hafði náð að sveigja inn á túnið fyrir neðan  Baldurshaga og haldið sem leið lá í átt að landnámshjónunum þar sem þau stóðu uppi á kletti - skódinn bremsulaus og komst því ansi langt. Undir stýri sat sá gamli og blés líkt og hvalur. Svei mér þá ef ekki fór um þau hjón þegar sá gamli kom skríðandi á skódanum upp klettinn....

Það var flott mynd sem prýddi forsíðu Dags daginn eftir!

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Níelsson

Sæll og blessaður Tolli

Takk fyrir frábærar sögur af þeim gamla.  Vissulega rifjast eitt og annað upp við lestur þeirra en allt er það nú skemmtilegt.   Það væri gaman að fá meira.

Bestu kveðjur og óskir um gleðileg jól.

Gunnar Níelsson, 22.12.2008 kl. 00:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband