Tíu ár frá andláti góðs vinar míns Gunnars B. Loftssonar.

Það er sólríkur morgunn. Töluverð eftirvænting er í mínum manni þegar kemur léttstígur út á hlað á bænum Óslandi í Óslandshlíð og horfir út á Skagafjörðinn. Að vísu á hann fyrir höndum töluvert langa göngu – nokkuð sem nútímafólk myndi aldrei leggja upp í – en bílar og skutl eru ekki til í huga ungs manns á fimmta áratug síðustu aldar. Og maðurinn sem þarna stendur á hlaðinu í Óslandi í Óslandshlíð í Skagafirði ætlar sér gangandi að Hólum – til að taka þátt í dansleik um kvöldið.

Dansleikir voru ekki algengir í þá daga og því var það ekkert tiltökumál að leggja á sig labb suður Óslandshlíð og inn Hjaltadalinn til að dansa. Enda var sögumaðurinn mjög “dansinn” eins og hann kallaði það mörgum árum seinna þegar við sitjum tveir í gömlu húsi við Lundagötuna á Akureyri og spjöllum saman – á kontórnum hjá Gunna.

Þorláksmessa og við rétt búnir að rífa í okkur kæsta skötu. En það var hefði hjá okkur Gunna að borða saman skötu – sem mamma sauð handa okkur enda eiginkona Gunna að vinna við verslunarstörf og átti því ekki kost á að sjóða skötu - hún þurfti að sinna kaupglöðum Akureyringum. Á gólfinu liggur hundurinn hans hún Stássa – búin að rífa í sig hamborgara, sem Gunni hafði sent mig eftir í sjoppuna á Krókeyri – það var líka hefð. Stássa fékk ávalt hamborgara á Þorláksmessu - og Gunni hringdi alltaf á undan mér í sjoppuna til að ég keypti rétta borgara - Stássa skildi fá sinn hamborgara - réttan hamborgara. Stássa var vel í holdum og ævinlega sofandi þegar ég leit inn til Gunna Lofts í Bíla-og húsmunamiðlunina – rétt opnaði annað augað til að kanna hver væri á ferð og sofnaði svo með það sama.

Gunni sat inni á litlum kontór í einu horninu í búðinni. Kontórinn var vel staðsettur og í gegnum glugga gat Gunni fylgst með hverjir komu inn - sem var ágætt því hann stóð ekkert endilega upp þegar fólk kom inn - bara þegar honum sýndist fólk ætla að kaupa eitthvað - og hann hafði nef fyrir slíku - var bisnessmaður. Út um hálfopnar dyrnar á kontórnum liðaðist ævinlega reykur - en Gunni sat og púaði camel sígarettur þegar hann var í vinnunni - í þá daga giltu engar reglur um reykingar nema þær sem húsráðandi setti sjálfur.

En aftur að dansinum. Gunni lét sér ekki muna um að labba þessa leið frá Óslandi að Hólum  – vaða læki. Hafði með sér nesti og naut þess að skoða það sem fyrir augun bar á leiðinni - hvíldi sig á steini og beit í brauð. Útsýnið stórkostlegt hvert sem litið var. Gunnar var náttúrubarn. Og dansinn var hann mjög. Glímutök kunni hann einnig og átti til að skella mönnum á sniðglímu á lofti – ef svo bar við. Ekki var Gunni hár í loftinu en vörpulegur og brosmildur mjög - kraftmikill og glaðlyndur. Ég þóttist vita að hann hefði verið vinsæll dansfélagi – sveiflað stúlkunum um dansgólfið svo pilsfaldarnir svifu um salinn. Gunnar hló þessi lifandi ósköp þegar hann rifjaði þetta upp - leit á mig og sagði okkur ungu mennina í dag ekki kunna að dansa lengur. Og hvað þá glíma.

Í þá daga fóru menn á ball til að dansa. Ekkert vesen. Dansinn var stiginn langt fram á morgun. Svo stóðu menn úti undir vegg og ræddu málin – um heyskap og veður - horfur um haustið – kvöddust svo að lokum og héldu heim. Gunni sagði mér að fátt væri fallegra en að ganga í morgundögginni út Óslandshlíð eftir velheppnaðan dansleik - minningin um stúlkurnar fylgdu honum alla leið. Ilmurinn af engjunum fylltu vit og undir sungu nývaknaðir mófuglar og þrestir.

Ég sá glampann í augum þessa gamla manns þegar hann sagði mér frá – minningarnar voru honum ákaflega kærar. Já frændi sagði Gunni, þá var gaman að vera til.

 

Þetta samtal okkar Gunna var fyrir sjálfsagt einum tuttugu árum. Minningin um Gunna heltist yfir mig og þegar ég skoðaði gamla minningargrein sem ég skrifaði um Gunna þá kom í ljós að tíu ár eru frá andláti hans. Kannski hefur Gunni sjálfur ýtt við mér – hver veit.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband